Hægfara hrotti

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 7.12.2012 by snobbhaensn

Killing Them Softly

Killing Them Softly *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Andrew Dominik
Leikarar: Brad Pitt, James Gandolfini, Ray Liotta, Richard Jenkins, Scoot McNairy, Ben Mendelsohn, Sam Shepard

Þrír smákrimmar í suðurríkjum Bandaríkjanna ákveða að ræna ólöglegt spilavíti og klína sökinni á saklausan mann. Gjörningurinn skapar mikla ólgu innan bófasamfélagsins og leigumorðinginn Jackie Cogan (Brad Pitt) er kallaður til.

Atburðir myndarinnar eiga sér stað í miðri kosningabaráttu Barack Obama og John McCain, og úr hverju horni heyrist fjas fram-bjóðendanna um efnahagsástandið, annað hvort í útvarpi eða sjónvarpi. Þarna vill leikstjórinn eflaust benda áhorfandanum á líkindi hins raunverulega bandaríska hagkerfis og hagkerfis glæpamanna, en allir vilja fá sitt og svífast einskis til að fá það. Til að byrja með er þetta sniðugt en fer á endanum að trufla gang sögunnar.

Killing Them Softly er þó óhrædd við að gleyma sér í augnablikinu og reglulega fær sögufléttan hvíld á meðan dvalið er við undarlegt samtal eða smáatriði. Lengst gengur leikstjórinn í atriði þar sem persóna James Gandolfini, andstyggileg fyllibytta og hórkarl, fer á langdregið en áhugavert trúnó með Jackie.

Líklega eru það þessi smáatriði, ásamt glæsilegu stórskotaliði leikara, sem hífa myndina upp fyrir meðalmennskuna, en sem glæpamynd er Killing Me Softly ekki ýkja merkileg. Ofbeldisatriðin eru yfirgengileg og alls ekki fyrir viðkvæma, en nokkuð vel útfærð og líklega það eftir-minnilegasta við myndina.

Niðurstaða: Skrýtinn, hægfara og hrottalegur krimmi, en skilur lítið eftir sig.

Birt í Fréttablaðinu 6.12.2012

Killing Them Softly

Auglýsingar

Orkumikil og öðruvísi

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 5.12.2012 by snobbhaensn

Silver Linings Playbook

Silver Linings Playbook **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: David O. Russell
Leikarar: Bradley Cooper, Jennifer Lawrence, Robert De Niro, Jacki Weaver, Chris Tucker, Anupam Kher, Julia Stiles

Pat Solitano (Bradley Cooper) þjáist af geðhvarfasýki og er vistaður á stofnun eftir að hafa verið dæmdur fyrir fólskulega líkamsárás. Að afplánun lokinni fær hann að vera í umsjá foreldra sinna, að því gefnu að hann virði nálgunarbann sem á hann var sett. Hann á erfitt með að aðlagast samfélaginu, þverneitar að taka lyfin sín og því er heimilisfriðurinn meira og minna úti. Þegar hann kynnist Tiffany, ungri ekkju sem deilir reynslu hans af geðrænum kvillum, tekur líf hans óvænta stefnu.

Handrit myndarinnar er byggt á samnefndri skáldsögu Matthew Quick frá árinu 2008, og er skrifað af leikstjóranum sjálfum, David O. Russell, en hann er alræmdur fyrir frekju, yfirgang og bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi í garð leikara sem vinna með honum. Engu að síður þykir það eftirsóknarvert að leika í myndunum hans, enda er leikstjórnarstíll hans spennandi og öðruvísi. Höfundareinkenni hans er þessi sérstaka orka, sem sést hvergi annars staðar en í myndunum hans. Það er erfitt að lýsa henni nákvæmlega en persónur í David O. Russell-myndum hegða sér ekki eins og neinar aðrar persónur.

Líkt og í fyrri myndum leikstjórans þá er ferskleikinn á kostnað trúverðugleikans á stöku stað. Þetta eru í sjálfu sér smáatriði, og sumum kann að þykja þau sjarmerandi, en ég tel þó að myndin væri betri án þeirra. Þá er ég að tala um tilgangslausar senur á borð við eltingarleik við hrekkjóttan nágranna og þegar lögregluþjónn á vakt reynir að fiska stefnumót við Tiffany.

Russell nær samt því allra besta úr leikhópnum og alveg óvænt sannar Bradley Cooper sig sem fantagóður dramatískur leikari. Jennifer Lawrence er frábær að vanda, þrútinn Chris Tucker lætur sjá sig í litlu hlutverki og er stórskemmtilegur, og með sinni bestu frammistöðu í langan tíma gefur gamla brýnið Robert De Niro þeim langt nef sem töldu hann útbrunninn.

Silver Linings Playbook er hvatvís, ófyrirsjáanleg og öðruvísi, svolítið eins og aðalpersónan og jafnvel leikstjórinn sjálfur, sem ég tel hafa gert sína bestu mynd til þessa.

Niðurstaða: Gríðarsterk mynd með mikinn karakter.

Birt í Fréttablaðinu 5.12.2012

Silver Linings Playbook

Stjarnfræðilegt stuð

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 30.11.2012 by snobbhaensn

Ljósmynd: Vilhelm

Star Wars ***** (5 stjörnur)
Tónleikar í Eldborgarsal Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hljómsveitarstjóri: Lucas Richman

Á árunum 1977 til 1983 komu út þrjár kvikmyndir sem skildu eftir sig dýpri spor í kvikmyndasögunni en nokkurn óraði fyrir. Saman mynda þær Stjörnustríðsþríleikinn, myndaflokk sem þykir með því merkilegra sem sést hefur í bandarísku afþreyingarbíói frá upphafi. Í kringum aldamótin bætti hugmyndasmiðurinn George Lucas svo þremur myndum við seríuna. Viðbæturnar eru töluvert síðri að gæðum en gamli þríleikurinn, en eitt þykir þó vel heppnað í öllum myndunum sex og það er undursamleg kvikmyndatónlist John Williams.

Það ríkti mikil eftirvænting í Eldborginni þegar hljómsveitarstjóri kvöldsins (og sögumaður), Lucas Richman, gekk inn á sviðið. Hann kynnti tónleikana, en á efnisskránni voru vel valin stef úr þessum sígilda myndaflokki. Hljómsveitin hoppaði yfir kynningarlag Twentieth Century Fox og byrjaði beint á stefinu sem allir þekkja, sjálfu aðalstefinu. Það var öllum ljóst frá fyrstu nótu að Sinfóníuhljómsveit Íslands myndi fara vel með þessa frábæru tónlist. Flutningurinn var upp á tíu og hljómurinn góður.

Fyrir hlé var mestmegnis leikin tónlist úr seinni þríleiknum (sem er í raun fyrri hluti sögunnar) og í upphafi setti ég spurningamerki við þá ákvörðun. Nýrri stefin eru ekki jafn grípandi og þau gömlu, en þegar þau eru leikin í tónleikasal fjarri Jar Jar Binks og Svarthöfðabarninu heyrir áhorfandinn glögglega að tónskáldið Williams sofnaði aldrei á verðinum þó George Lucas hafi gert það. Eftir vel heppnaða upphitun var stef Svarthöfða leikið, og í miðjum klíðum birtist hann sjálfur á sviðinu ásamt tveimur aðstoðarmönnum og fjarlægði hljómsveitar-stjórann.

Eftir stutt hlé (þar sem ég heyrði meðal annars tvo fullorðna menn óskapast yfir því að Greedo hafi skotið fyrst í endurútgáfu A New Hope) var komið að alvörunni. Þarna fengu gestir allt það sem þeir vildu. Ljúfsár einkennislög vitringsins Yoda og Lilju prinsessu, kómíkina í eyðimerkurævintýrum vélmennanna R2D2 og C-3PO, æsilegan lokabardagann á plánetunni Endor, og meira að segja furðudjass pöbbabandsins í Mos Eisley. Allt það sem eyrun girntust og rúmlega það.

Hljómsveitin lék í tæpar tvær klukkustundir, að frádregnu hléi, og hvergi var feilnóta slegin. Tímaröðin virkaði vel og hljómsveitarstjórinn er ágætis sögumaður. Stjarnfræðilegar væntingar aðdáenda kvikmyndanna voru uppfylltar, og hinum hefur varla leiðst heldur. Til þess er tónlistin hreinlega of góð.

Niðurstaða: Stórskemmtileg kvöldstund og Sinfó í banastuði. John Williams væri stoltur.

Birt í Fréttablaðinu 30.11.2012

Kjarninn og hismið

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 30.11.2012 by snobbhaensn

Safety Not Guaranteed

Safety Not Guaranteed *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Colin Trevorrow
Leikarar: Aubrey Plaza, Mark Duplass, Jake Johnson, Karan Soni, Kristen Bell

Kvikmyndin Safety Not Guaranteed er byggð á smáauglýsingu (já þú last rétt) sem birtist í bandarísku tímariti árið 1997. Þar óskaði maður eftir ferðafélaga í fyrirhugað tímaferðalag sitt og hefur ljósmynd af auglýsingunni lifað góðu lífi á internetinu allar götur síðan. Hér er búið að spinna skemmtilega sögu í kringum hina undarlegu auglýsingu og segir myndin frá þremur blaðamönnum sem reyna að hafa uppi á auglýsandanum í þeim tilgangi að skrifa um hann grein.

Þessi saga hefði auðveldlega getað kaffært sjálfri sér í kjánagríni en er þess í stað borin fram á Wes Anderson-mátann. Eitthvað er hægt að flissa en Safety Not Guaranteed er ekki grínmynd. Reyndar er hún nokkuð lunkin dramatísk mynd, allavega á köflum, en tímaferða-langurinn (leikinn af Mark Duplass) er bæði dularfullur og dapurlegur. Samtöl hans við persónu Aubrey Plaza eru sterkustu atriði myndarinnar og eiga báðir leikarar lof skilið fyrir frammistöðuna.

Myndin dregur samt á eftir sér nokkuð af óþarfa og á til dæmis óáhugaverð ástarsaga eins blaðamannsins (Jake Johnson) heima í allt annarri mynd. Þessir ranghalar gera aðalatriðin óskýrari og hefði betur verið sleppt. Eftir stendur þó ágætis mynd sem er bæði fallega tekin og vel leikin.

Niðurstaða: Skemmtileg þrátt fyrir vægan einbeitingarskort.

Birt í Fréttablaðinu 27.11.2012

Safety Not Guaranteed

Ráðgátan Rodriguez

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.11.2012 by snobbhaensn

Searching for Sugar Man ***** (5 stjörnur)
Leikstjórn: Malik Bendjelloul

Í upphafi 8. áratugarins sendi bandaríska söngvaskáldið Rodriguez frá sér tvær breiðskífur. Gagnrýnendur héldu vart vatni en almenningur var áhugalaus og plöturnar seldust ekkert. Útgáfufyrirtækið losaði sig við söngvarann og hann féll í gleymskunnar dá.

En fyrir tilviljun sló fyrri platan í gegn í Suður-Afríku, og þar í landi vissu aðdáendur Rodriguez ekki neitt um goðið. Misvísandi frásagnir af andláti hans gengu manna á milli, sem og sjóræningjaútgáfur af plötunni, og í lok aldarinnar ákváðu tveir af hans dyggustu fylgis-mönnum að reyna að leysa ráðgátuna um þennan dularfulla listamann og andlát hans.

Með stórmerkilega sögu að vopni brýst leikstjórinn og nýgræðingurinn Malik Bendjelloul fram á sjónarsviðið með þessa frábæru heimildarmynd. Ekki er mikið til af myndefni með Rodriguez sjálfum og eykur það töluvert á dulúðina.

En þrátt fyrir skort á hráefni fer leikstjórinn létt með það að segja söguna, og brúar hann bilið með viðtölum. Viðmælendurnir koma úr öllum áttum og eru allir jafn gáttaðir á því að ferill tónlistarmannsins hafi ekki náð flugi. Þetta skreytir Bendjelloul með örstuttum teiknuðum atriðum, landslagsmyndum og að sjálfsögðu tónlist söngvarans.

Frásögnin er óaðfinnanleg með öllu og upplýsingaflæðið er stöðugt og stígandi. Ýmsum mikilvægum upplýsingum er sleppt þar til þær eru tímabærar, en þó finnst áhorfandanum aldrei sem verið sé að slá ryki í augu hans.

Þá held ég að það hafi gert upplifun mína jafnvel betri, að þekkja ekki söguna og viðfangsefnið fyrirfram. Gerir þú það ekki heldur hvet ég þig til að sleppa því alfarið. Taktu sjensinn, því Searching for Sugar Man er ógleymanleg.

Niðurstaða: Dularfull, á köflum eilítið óhugguleg, en fyrst og fremst alveg frábær.

Birt í Fréttablaðinu 16.11.2012

Gemmér nammi!

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.11.2012 by snobbhaensn

Wreck-It Ralph *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Rich Moore
Leikarar: John C. Reilly, Sarah Silverman, Jack McBrayer, Jane Lynch, Alan Tudyk

Í spilasal herra Litwaks láta tölvuleikjapersónurnar að stjórn spilaranna á opnunartíma, en eftir lokun sinna þær einkalífinu. Sumar fara á fund í stuðningsgrúppunni sinni og aðrar fara á barinn. Wreck-It Ralph starfar sem illmenni í leiknum Fix-It Felix, Jr. en í lok vinnudagsins er hann ennþá litinn hornauga af öðrum persónum leiksins. Þrátt fyrir starfið er hann góðhjartaður en býr aleinn á ruslahaug og á enga vini. Að lokum fær hann nóg og ákveður að stinga af úr tölvuleiknum, og koma ekki aftur fyrr en hann hefur sannað ágæti sitt.

Það fer að verða óþarfi að taka það fram hversu tæknilega vel gerðar tölvuteiknimyndir Disney eru. Wreck-It Ralph er engin undantekning og það er hrein unun að gleyma sér í litadýrðinni og öllum glæsilegu smáatriðunum sem tæknideildin hefur nostrað við. Nær helmingur myndarinnar gerist í tölvuleik að nafni Sugar Rush, einskonar stafrænu sælgætislandi þar sem hina barnungu Vanellope von Schweetz dreymir um að keppa í kappakstri, og hætt er við að nammigrísir á borð við undirritaðan eigi eftir að sitja með sleftauminn hangandi úr skoltinum allan tímann.

Og ekki vantar hressleikann. Við fáum góðan skerf af húmor, æsilegan kappakstur og fullt af sígildum tölvuleikjapersónum í feluhlutverkum. En það vantar einhvern neista. Ekki er við leikarana að sakast. John C. Reilley og Sarah Silverman skila sínu og gott betur. Mig grunar að vandamálið sé að finna í handritinu. Hugmyndin er frábær en framkvæmdin aðeins of dæmigerð. Þá er takturinn misjafn og myndin langdregin á köflum. En skemmtanagildið er til staðar og ég mæli sterklega með því að sælgæti sé haft í seilingarfjarlægð. Annars munt þú líklega brjálast.

Niðurstaða: Skemmtileg en helst til dæmigerð.

Birt í Fréttablaðinu 14.11.2012

Fífldirfska og fortíðarþrá

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.11.2012 by snobbhaensn

Argo **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Ben Affleck
Leikarar: Ben Affleck, Bryan Cranston, Alan Arkin, John Goodman, Clea DuVall, Victor Garber, Tate Donovan

Hin sannsögulega Argo segir frá fífldjörfum leiðangri árið 1980 þar sem leyniþjónustumaðurinn Tony Mendez dulbjó sig sem kvikmynda-gerðarmann í þeim tilgangi að smygla sex starfsmönnum bandaríska sendiráðsins í Tehran út úr borginni. Byltingarsinnar höfðu tekið yfir sendiráðið og haldið rúmlega 50 manns þar í gíslingu í meira en tvo mánuði. Kæmist upp um hina sex sem náðu að flýja biði þeirra bráður bani. Búin var til platbíómynd, hallærisleg vísindaskáldsaga sem framleiðendur vildu gera í Íran, og sexmenningarnir áttu að vera hluti af þeirri kvikmyndagerð.

Þessi lygilega saga á meira skylt við skáldskap á borð við Arnarborgina og Inglourious Basterds en raunveruleikann. Atburðarásin er hroll-vekjandi og hlægileg til skiptis, og þrátt fyrir að Affleck taki sér ýmis skáldaleyfi hér og þar eru ótrúlegustu hlutar myndarinnar dagsannir. Það er helst endaspretturinn sem dregur aðeins úr áhrifamættinum, en þar leyfir myndin sér einmitt að fara frjálslegar með staðreyndir en áður, og verður fyrir vikið eilítið klisjukennd.

Tíðarandi ársins 1980 er endurskapaður af mikilli nákvæmni og fyrir fólk með fortíðarblæti er Argo sannkallaður hvalreki. Tónninn er sleginn strax í byrjun þar sem eldgamalt Warner-lógó er sótt upp í hillu og splæst framan við myndina. Yfirskeggin flæða af tjaldinu við ljúfa tóna Dire Straits og seinnitíma Led Zeppelin. Í lokin sjáum við síðan alvöru ljósmyndir teknar af sexmenningunum og sjálfri gíslatökunni. Þjónar svo sem litlum tilgangi öðrum en þeim að monta sig af nákvæmnis-vinnunni. Það er líka bara allt í lagi.

Affleck er þó alltaf jafn flatur sem leikari og mikil synd er að hann skuli ekki fá einhvern flinkari í aðalhlutverkið. Nú þegar hann hefur sannað sig sem frábær leikstjóri ætti hann að halda sig þeim megin vélar. Argo er hins vegar það þrælspennandi og vel gerð að við fyrirgefum leikaranum Ben Affleck stirðleikann. Svei mér þá ef manni er ekki bara farið að þykja eilítið vænt um hann.

Niðurstaða: Enn önnur rós í hnappagat leikstjórans Affleck. Vönduð og hörkuspennandi.

Birt í Fréttablaðinu 10.11.2012