Sarpur fyrir september, 2009

Hróflað við listaverkum

Posted in Blogg on 29.9.2009 by snobbhaensn

vlcsnap-5544622

Fyrir mörgum árum áskotnaðist mér kvikmyndin The Exorcist á DVD. Um er að ræða útgáfuna sem var endursýnd í kvikmyndahúsum árið 2000. Einhverra hluta vegna hafði ég alveg gleymt upprunalegu útgáfunni þar til ég horfði á hana núna um daginn. Að bera útgáfurnar saman er mjög athyglisvert. Það er í raun skömm að því að ég eigi endurútgáfuna yfir höfuð, allavega frá sjónahóli snobbhænsnisins, og eftir að hafa rifjað upp þá upprunalegu sé ég mjög glöggt að sú útgáfa er miklu betri.

Sú upprunalega er 10 mínútum styttri en endurútgáfan og þar liggur sjálfur gæfumunurinn. Hún er taktfastari og hryllilegri að öllu leyti, og í kjölfarið fór ég (enn eina ferðina) að hugsa um hvað mér fyndist um svona endurútgáfur almennt.

Það er eitthvað verulega bogið við hugmyndafræðina á bak við það að taka listaverk og breyta því, hvort sem tilgangurinn er að þóknast nýrri kynslóð áhorfenda, eða að leiðrétta mistök sem þú telur að þú hafir gert fyrir skrilljón árum.

Svo við tökum dæmi þá inniheldur endurútgáfa The Exorcist hið margrómaða „spider-walk“ atriði, sem leikstjórinn kaus að nota ekki fyrir 36 árum, þegar myndin kom út. Atriðið lýsir sér þannig að hin andsetna Regan hleypur á fjórum fótum (á hvolfi) niður stiga, eins og kónguló, og frussar blóði úr munni sínum. Atriðið var tekið upp ásamt öllum hinum atriðunum sem enduðu í myndinni á sínum tíma, en auk þess að bæta atriðinu við nú hafa aðstandendur myndarinnar (og þá væntanlega leikstjórinn) bætt við tölvublóði sem aldrei var til staðar í upprunalega atriðinu.

Tilgangurinn? Jú, hann er augljóslega til þess að höfða betur til óharðnaðra unglinga sem meta gæði hryllingsmynda eftir því hversu oft þeim bregður. Þó vissulega sé atriðið ónotalegt þá tók leikstjórinn rétta ákvörðun á sínum tíma þegar hann ákvað að sleppa því að nota það. Atriðið þjónar engum tilgangi nema þeim að bæta við þann hafsjó ógeðs-atriða sem áhorfandinn þarf að þola um miðbik myndarinnar, til þess að hann skilji hvað raunverulega amar að stúlkunni.

vlcsnap-5537778

Öðru sem bætt hefur verið inn í myndina eru stakir rammar af andliti púkans Pazuzu, þeim sem heltekið hefur stúlkuna, sem skeytt hefur verið inn í hin og þessi atriði. Andlitinu sést bregða fyrir á svefnherbergishurð stúlkunnar, uppi á háaloftinu (sést reyndar ógreinilega og er mögulega andlit styttunnar sem Max Von Sydow finnur í fornleifauppgreftrinum) og á eldhúsinnréttingunni. Eins og kóngulóarlabbið eru þessar digital andlitslyftingar algerlega óþarfar. Ef þér finnst The Exorcist ekki spúkí án þessara breytinga þá ættirðu að halda þig við nýrri hrollvekjur.

William Friedkin (leikstjóri myndarinnar) hefur tjáð sig um þessar breytingar og er meira að segja sjálfur á báðum áttum með þær. Í viðtali sem tekið var við hann um það leyti sem endurútgáfan kom segist hann ennþá vera á því að kóngulóarsenan sé kjánaleg. Af hverju í ósköpunum var hann þá að bæta því inn í myndina?

Þetta átti nú ekki að vera pistill um The Exorcist einvörðungu. Fleiri myndir hafa fengið sambærilega meðferð og verið gefnar út í sérstökum útgáfum með aragrúa af atriðum sem enginn nennti hvort eð er að sjá. Upprunalegu útgáfur fyrstu þriggja Star Wars-myndanna eru t.d. ófáanlegar á DVD. Það eina sem í boði er eru handónýtu endurútgáfurnar þar sem hver einasti rammi er úttroðinn af krúttlegum og tístandi CGI-tuskudýrum. Apocalypse Now var endurútgefin sem Apocalypse Now: Redux. Man hreinlega ekki eftir neinu af þeim atriðum sem bætt hafði verið við, sem hlýtur að leiða að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi verið óþarfi.

vlcsnap-5537589

Ég ætla að leyfa mér að gerast svo djarfur að kalla þetta skemmdarverk. Leikstjórar sem taka löngu útgefin verk sín og telja sig þurfa að breyta þeim til að falla betur að nútímanum hljóta að vera þjakaðir af minnimáttarkennd gagnvart listsköpun sinni.

Ég tek það þó fram að ég hef ekki neitt á móti því að menn taki gamlar myndir og þrykki aðeins upp litina í þeim og hreinsi þær. Oft á tíðum eru upprunalegu filmurnar orðnar upplitaðar og hárugar og því tilvalið að lappa aðeins upp á þær. Það er líkt og að dusta ryk af málverki, á meðan hitt er eins og að mála inn á það.

Auglýsingar

4:3 vs 16:9

Posted in Blogg on 29.9.2009 by snobbhaensn

9

99

Nú er kominn tími til að færa nördismann upp á næsta level.

Ég fjárfesti í stórvirki Stanley Kubrick, Eyes Wide Shut, á DVD þrátt fyrir að eiga hana fyrir. Ég rak augun í það að komin er útgáfa af myndinni sem er í hlutföllunum 1.78:1 (16:9). Gamla útgáfan mín er í 1.37:1 (4:3) og á þeirri útgáfu er tekið sérstaklega fram að það séu þau hlutföll sem Kubrick ætlaði myndinni upphaflega að vera í.

Kubrick var þekktur fyrir að halda tryggð við 4:3-formattið (með nokkrum undantekningum) en samt voru flestar mynda hans sýndar í 1.78:1 þegar þær komu í kvikmyndahús. Eftir smá internetflakk virðist mér sem Kubrick hafi lagt blessun sína yfir báðar útgáfurnar af myndum sínum, þá víðari til sýninga í kvikmyndahúsum, en einnig hafi hann gert 4:3 útgáfur sjálfur fyrir sjónvarp (til þess að losna við svörtu rendurnar uppi og niðri).

Sjálfur er ég með gamalt 28″ túbusjónvarp. Ég gef ekki mikið fyrir flatskjái, enda eru þeir svarinn óvinur bíósnobbarans. Fólk sem á flatskjái kann oft á tíðum ekki að stilla þá rétt. Myndin virðist oft vera hrikalega digital, hreyfingar undarlegar og upplausnin allt of mikil. Oft líta fallegar kvikmyndir út eins og vídeókameruupptökur úr fermingarveislu frænda þíns þegar amatör-flatskjáreigandinn er kominn með þær í sjónvarpið sitt.

Kubrick vildi hafa myndir sínar í 4:3 í sjónvarpi. Um það verður ekki rifist. Þú ræður því að sjálfsögðu sjálfur hvort þú fylgir þeim fyrirmælum. Ég er samt spenntur að vita hvort til standi að klippa ofan og neðan af kvikmyndum Alfred Hitchcock og Charles Chaplin, bara svo að heiladauðir plebbar geti horft á þær í 16:9 heima í stofu.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að mér finnist 4:3 útgáfan af Eyes Wide Shut flottari. Berið saman skjáskotin tvö hér að ofan. 4:3 skjáskotið er einfaldlega fallegra. Gefðu skít í flatskjáinn þinn. Hann er drasl.

Og segðu mér síðan hvort þér finnist rassinn á Nicole Kidman flottari í 4:3 eða 16:9.

3

4

Reykjavík Whale Watching Massacre [2009]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 28.9.2009 by snobbhaensn

RWWM_teaser

Þegar ég sá veggspjaldið hér fyrir ofan varð ég svo spenntur að mér tókst að gleyma kvikmyndahryðjuverkum Júlíusar Kemp á tíunda áratugnum. Blossi 810551 er fyrir löngu orðin fræg af endemum enda svo yfirgengilega léleg að Kemp tók sér meira en áratug í hvíld frá leikstjórn eftir öll ósköpin. Eini ljósi punkturinn við þá mynd voru mjólkurhvít júgrin á Þóru Dungal, sem hossuðust í slow-motion á meðan frontmaður Bubbleflies giljaði hana í sundlaug. Hvað er Þóra annars að gera í dag?

En teaser-veggspjald Reykjavík Whale Watching Massacre er svo fáránlega smekklegt og spennandi í allri sinni Saul Bass-ísku dýrð að ég ákvað samstundis að sjá myndina á frumsýningardegi.

Það liðu þó tvær vikur frá frumsýningardeginum þar til að ég dratthalaðist í bíó til að sjá hana. Ég var búinn að heyra hrikalega hluti um myndina frá bókstaflega öllum, og spenningurinn minnkaði dag frá degi.

Í stuttu máli fjallar Reykjavík Whale Watching Massacre um hóp ferðamanna sem skellir sér í hvalaskoðun á Faxaflóanum í gömlum fúadalli sem Gunnar Hansen stýrir. Hann er best þekktur sem keðjusagarmorðinginn Leatherface úr kvikmyndinni The Texas Chain Saw Massacre frá árinu 1974. Gunnar er Íslendingur í húð og hár þrátt fyrir að hafa flust til Bandaríkjanna ungur að árum og segist sjálfur vera búinn að glata íslenskunni að mestu. Fyrir klaufaskap ofurölvaðs Fransmanns um borð í bátnum lætur Gunnar lífið og ferðamennirnir reka stjórnlaust um straumþungan flóann í von um hjálp. Hjálpin berst á endanum, en hún er í formi morðóðrar fjölskyldu sem siglir um firðina umhverfis landið, höggvandi og stingandi.

rwwm1

Reykjavík Whale Watching Massacre er B-mynd. Á því leikur enginn vafi. Ég var eilítið smeykur um að miklar væntingar mínar til myndarinnar myndu sljóvga dómgreind mína og að ég myndi hreinlega pína sjálfan mig til þess að þykja hún frábær. Það var þó aldrei þörf á slíkum píningum.

Myndin skýst beint í fyrsta sæti yfir blóðugustu kvikmyndir íslenskrar kvikmyndasögu. Tæknibrellurnar eru skemmtilegar og oft á tíðum sannfærandi. Afhausanir og aflimanir myndarinnar eru gerðar af mikilli ástríðu, svo mikilli að maður fyrirgefur Júlíusi gervilegan tölvuhvalinn í lok myndarinnar.

Leikararnir eru í miklu stuði þrátt fyrir að vera helst til margir, en það er einnig fyrirgefið því að Júlíus virðist hafa gert sér grein fyrir því að fleiri persónur bjóða upp á enn fleiri blóðug dráp.

Ánægðastur var ég þó með þá staðreynd að myndin virkar. Ég hló með myndinni en ekki að henni. Það eru góð meðmæli frá manni sem alla jafna hefur óbeit á gamanmyndum, enda eru þær upp til hópa innihaldslítil dægrastytting fyrir ómerkinga og vitlaust fólk. Ég átti von á póstmódernískri* hryllings-gamanmynd og myndin stóð sig í stykkinu sem slík. Ekki bara sem flott veggspjald og kómískur titill.

rwwm2

* Póstmódernismi er hugtak sem nauðsynlegt er að kunna góð skil á ætli maður sér stóra hluti í hörðum heimi kvikmyndasnobbsins. Ég mun reyna að nota hugtakið sem mest í skrifum mínum á þessari síðu.

Aðeins nánar um snobb

Posted in Blogg on 28.9.2009 by snobbhaensn

Keeping Up Appearences

Mig langar að útskýra aðeins betur hverskonar snobbhænsnaskapur það er sem ég hef tamið mér.

Margir tengja bíósnobb við dálæti á gömlum myndum, evrópskum myndum, þöglum myndum, svarthvítum myndum, búningamyndum o.s.frv.

Ég læt mér fátt um finnast varðandi aldur og uppruna mynda. Citizen Kane kæmist t.d. aldrei inn á topp 500 listann minn, ef ég ákvæði það að gera þannig lista. Engin mynd eftir Jean-Luc Godard heldur. The Terminator væri hins vegar örugg inni í topp 50.

Það hljómar kannski ekki neitt rosalega snobbað. Til að flokkast sem alvöru kvikmyndauppskafningur þyrfti ég t.d. að vera töluvert betur að mér í evrópskum myndum, vera búinn að sjá fleiri en þrjár myndir eftir Ingmar Bergman, og finnast upprunalega útgáfan af Scarface eftir Howard Hawks betri en endurgerðin.

Svo er ekki.

Tilgangur þessa bloggs er að upphefja sjálfan mig og þær myndir sem mér eru kærar. Ég gæti reynt að ljúga að sjálfum mér og afneitað hégómagirnd minni. Sagst vilja skapa líflegar umræður um kvikmyndir þar sem allar skoðanir eru jafn réttháar og poppkornsmyndum Hollywood sagt stríð á hendur. Vissulega er ég æstur í þessar líflegu umræður, en fyrst og fremst blogga ég til þess að viðhalda mínu innra snobbhænsni, hvetja sjálfan mig til þess að horfa á allar gömlu perlurnar sem ég á eftir að sjá (til að líta betur út í augum hinna snobbhænsnanna), og hífa kvikmyndaumræðu upp á það háa og yfirlætislega plan sem hæfir henni best.

Antichrist [2009]

Posted in Gagnrýni on 27.9.2009 by snobbhaensn

Antichrist

Ég get ekki neitað því að ég var orðinn nokkuð forvitinn um nýjustu kvikmynd Lars Von Trier, Antichrist, og ekki minnkaði forvitni mín við að lesa fréttir af Jóni Baldvini og spúsu hans, Bryndísi Schram, þar sem þeim blöskraði myndin svo mikið að fyrrverandi utanríkisráðherrann gekk út af myndinni. Frúin sat myndina á enda en þurfti staup af brennivíni til að róa taugarnar eftir að sýningu lauk.

Nú er ég ýmsu vanur þegar kemur að kvikmyndaáhorfi og ákvað að láta slag standa og horfði á Antichrist. Leikstjórinn danski hefur mér ekki þótt merkilegur pappír hingað til, en ég horfði á myndina með opnu og fordómalausu hugarfari (að mestu), og entist yfir henni allri.

Myndin segir frá pari sem missir barnungan son sinn og sorgina og geðveikina sem hellist yfir þau í kjölfarið. Þau ákveða að flytja um stundarsakir í sumarhús úti í skógi í von um innri frið, en fyrr en varir nær sturlunin að yfirbuga þau. Seinasti hálftími myndarinnar er nokkuð grafískt ofbeldistriði þar sem fátt er skilið eftir fyrir ímyndunaraflið.

Antichrist

Ég ætla að byrja á að tína til það jákvæða við myndina að mínu mati. Lars Von Trier hefur gott auga og útlit myndarinnar er fyrsta flokks. Öll innrömmun er fyrsta flokks og lýsingin er öfgakennd og óhefðbundin. Aðalleikararnir standa sig einnig með prýði. En þar lýkur upptalningu minni á því jákvæða við Antichrist.

Þrátt fyrir að leikararnir standi sig vel í hlutverkum sínum eru persónur þeirra óþolandi með öllu. Willem Dafoe er skömminni skárri en mótleikkona hans, Charlotte Gainsbourg. Hennar karakter er leiðinlegur og ekki eitt augnablik finnur maður til samkenndar með henni. Handritið er losaralegt þrátt fyrir að grunnhugmyndin sé ekki alslæm. Ofbeldið og kynlífssenurnar stuðuðu mig lítið, en ég myndi þó ekki kæra mig um að horfa á myndina með ömmu gömlu. Klippingin er leiðigjörn og síendurtekin ásetningsbrot leikstjórans á 180 gráðu-reglunni víðfrægu eru tilgerðarleg og þreytandi.

Ég held að tilgerð sé lykilorðið hér, og helsta ástæða þess að Antichrist gengur ekki upp. Lars Von Trier segist ekki hafa gert myndina fyrir áhorfendur heldur fyrir sjálfan sig. Verði honum að góðu. Innst inni í honum má sennilega finna mikinn listamann, en til þess að sannfæra mig þarf hann að fjarlægja grímuna. Það sjá allir í gegnum þennan hallærislega hlutverkaleik hans, og þó. Hann á fjölda aðdáenda, en mig grunar að þeir séu jafn tilgerðarlegir og hann sjálfur.

Svo tileinkaði hann myndina Andrei Tarkovsky, og ég fann aulahrollinn hríslast niður bakið.

Snobbhænsnið hefur upp raust sína

Posted in Blogg on 27.9.2009 by snobbhaensn

Black Belly of the Tarantula

Lengi hefur það staðið til hjá mér að byrja að blogga um kvikmyndir. Loksins hef ég ákveðið að láta verða af því. Ýmislegt ber að hafa í huga þegar blogg er stofnað. Hvar á bloggið að vera? Hvað á það að heita, og á það að vera á íslensku eða ensku? Íslenskan takmarkar lesendahópinn við Íslendinga, sem er að sjálfsögðu ekkert verra. Ég veit um fáa sem hafa „meikað það“ sem bloggarar. Hvað þá þegar þeir blogga um jafn nördalega hluti eins og það sem ég kem til með að blogga um. Því hef ég ákveðið að blogga á íslensku. Svo er það líka þannig að fæst blogg endast fyrsta árið. Vonandi að ég þrauki. Fyrir tilvonandi lesendur mína vil ég þó segja eitt.

Ég mun að mestu blogga um kvikmyndir. Mögulega eitthvað um tónlist, ég er ekki búinn að ákveða það. En ég er óforbetranlegur snobbari. Ef elítismi og snobb fer í skapið á þér þá ráðlegg ég þér að skoða bloggið mitt sem sjaldnast, og jafnvel bara aldrei.