Hróflað við listaverkum

vlcsnap-5544622

Fyrir mörgum árum áskotnaðist mér kvikmyndin The Exorcist á DVD. Um er að ræða útgáfuna sem var endursýnd í kvikmyndahúsum árið 2000. Einhverra hluta vegna hafði ég alveg gleymt upprunalegu útgáfunni þar til ég horfði á hana núna um daginn. Að bera útgáfurnar saman er mjög athyglisvert. Það er í raun skömm að því að ég eigi endurútgáfuna yfir höfuð, allavega frá sjónahóli snobbhænsnisins, og eftir að hafa rifjað upp þá upprunalegu sé ég mjög glöggt að sú útgáfa er miklu betri.

Sú upprunalega er 10 mínútum styttri en endurútgáfan og þar liggur sjálfur gæfumunurinn. Hún er taktfastari og hryllilegri að öllu leyti, og í kjölfarið fór ég (enn eina ferðina) að hugsa um hvað mér fyndist um svona endurútgáfur almennt.

Það er eitthvað verulega bogið við hugmyndafræðina á bak við það að taka listaverk og breyta því, hvort sem tilgangurinn er að þóknast nýrri kynslóð áhorfenda, eða að leiðrétta mistök sem þú telur að þú hafir gert fyrir skrilljón árum.

Svo við tökum dæmi þá inniheldur endurútgáfa The Exorcist hið margrómaða „spider-walk“ atriði, sem leikstjórinn kaus að nota ekki fyrir 36 árum, þegar myndin kom út. Atriðið lýsir sér þannig að hin andsetna Regan hleypur á fjórum fótum (á hvolfi) niður stiga, eins og kónguló, og frussar blóði úr munni sínum. Atriðið var tekið upp ásamt öllum hinum atriðunum sem enduðu í myndinni á sínum tíma, en auk þess að bæta atriðinu við nú hafa aðstandendur myndarinnar (og þá væntanlega leikstjórinn) bætt við tölvublóði sem aldrei var til staðar í upprunalega atriðinu.

Tilgangurinn? Jú, hann er augljóslega til þess að höfða betur til óharðnaðra unglinga sem meta gæði hryllingsmynda eftir því hversu oft þeim bregður. Þó vissulega sé atriðið ónotalegt þá tók leikstjórinn rétta ákvörðun á sínum tíma þegar hann ákvað að sleppa því að nota það. Atriðið þjónar engum tilgangi nema þeim að bæta við þann hafsjó ógeðs-atriða sem áhorfandinn þarf að þola um miðbik myndarinnar, til þess að hann skilji hvað raunverulega amar að stúlkunni.

vlcsnap-5537778

Öðru sem bætt hefur verið inn í myndina eru stakir rammar af andliti púkans Pazuzu, þeim sem heltekið hefur stúlkuna, sem skeytt hefur verið inn í hin og þessi atriði. Andlitinu sést bregða fyrir á svefnherbergishurð stúlkunnar, uppi á háaloftinu (sést reyndar ógreinilega og er mögulega andlit styttunnar sem Max Von Sydow finnur í fornleifauppgreftrinum) og á eldhúsinnréttingunni. Eins og kóngulóarlabbið eru þessar digital andlitslyftingar algerlega óþarfar. Ef þér finnst The Exorcist ekki spúkí án þessara breytinga þá ættirðu að halda þig við nýrri hrollvekjur.

William Friedkin (leikstjóri myndarinnar) hefur tjáð sig um þessar breytingar og er meira að segja sjálfur á báðum áttum með þær. Í viðtali sem tekið var við hann um það leyti sem endurútgáfan kom segist hann ennþá vera á því að kóngulóarsenan sé kjánaleg. Af hverju í ósköpunum var hann þá að bæta því inn í myndina?

Þetta átti nú ekki að vera pistill um The Exorcist einvörðungu. Fleiri myndir hafa fengið sambærilega meðferð og verið gefnar út í sérstökum útgáfum með aragrúa af atriðum sem enginn nennti hvort eð er að sjá. Upprunalegu útgáfur fyrstu þriggja Star Wars-myndanna eru t.d. ófáanlegar á DVD. Það eina sem í boði er eru handónýtu endurútgáfurnar þar sem hver einasti rammi er úttroðinn af krúttlegum og tístandi CGI-tuskudýrum. Apocalypse Now var endurútgefin sem Apocalypse Now: Redux. Man hreinlega ekki eftir neinu af þeim atriðum sem bætt hafði verið við, sem hlýtur að leiða að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi verið óþarfi.

vlcsnap-5537589

Ég ætla að leyfa mér að gerast svo djarfur að kalla þetta skemmdarverk. Leikstjórar sem taka löngu útgefin verk sín og telja sig þurfa að breyta þeim til að falla betur að nútímanum hljóta að vera þjakaðir af minnimáttarkennd gagnvart listsköpun sinni.

Ég tek það þó fram að ég hef ekki neitt á móti því að menn taki gamlar myndir og þrykki aðeins upp litina í þeim og hreinsi þær. Oft á tíðum eru upprunalegu filmurnar orðnar upplitaðar og hárugar og því tilvalið að lappa aðeins upp á þær. Það er líkt og að dusta ryk af málverki, á meðan hitt er eins og að mála inn á það.

Auglýsingar

15 svör to “Hróflað við listaverkum”

 1. Birkir Says:

  Oft samt sem lengri endurútgáfur eru betri. Mér fannst t.d Redux útgáfan af Apocalypse Now fanga geðveikinni mun betur.

  En ef það er verið að breyta vali leikstjórans þá eru breytingar yfirleitt kjánalegar. Í flestum tilvikum eru samt production fyrirtækin að stytta myndirnar. Samanber Sergio Leone og stríð hans við framleiðslufyrirtækin, það finnst mér eðaldæmi, enda voru þeir í gríðarlegu stríði allan tímann sem hann var í Hollywood.

 2. Ég hef ekki séð Redux síðan í bíó. Fór síðan á Apocalypse Now á sýningu hjá Kvikmyndasafninu en nennti ekki þegar ég sá að það var Redux. Þeir endurgreiddu mér. Sjaldan eru lengri útgáfurnar hörmulegar, ég er alls ekki að meina það. En mig langaði bara að sjá Apocalypse Now eins og ég hef alltaf séð hana. Voru þetta ekki einhverjar 40 mínútur eða e-ð sem munaði?

  Eina dæmið sem ég man eftir því að mér hafi þótt director’s cut betra er The Shining. Dæmin eru eflaust fleiri en það pirrar mig hvað þetta er að færast í aukana.

 3. Addi Says:

  Mér finnst frekar hæpið að bera Apocalypse Now við t.d. Star Wars í þessu samhengi. Redux útgáfan inniheldur extra 40 mínútur eða eitthvað sem er í raun kafli úr sögunni sem var klipptur út. Það er ekki eins og myndin hafi verið peppuð upp með digital effectum og blóði eða öðru skrauti bætt við einstakar senur.

  Þetta er svona eins og munurinn á því að setja aukalög á endurútgefna plötu og að taka upp sóló upp á nýtt, a la Megadeth.

  Minn túkall.

 4. Endurútgáfur á plötum með aukalögum eru algjört sköll.

  Í raun finnst mér samanburðurinn réttmætur. Í báðum tilfellum er verið að breyta klassískri mynd, í örðu tilfellinu með tölvubrellum og í hinu tilfellinu með einhverju aukaefni. Af hverju ætli kaflinn hafi verið klipptur út á sínum tíma? Það þarf enginn að segja mér að árið 1979 hafi Coppola ekki verið með final cut…..eða hvað?

 5. Mc Gusto Says:

  (Afsakdi vontun a islenskum stofum thar sem thessi ummaeli eru skrifud a al-bandariska tolvu): Finnst ther tho ekki ad vid aettum ad gera greinarmun a myndum thar sem syn leikstjorans fekk ekki ad njota sin, t.d. i tilfellum thar sem kvikmyndaverid klippti myndina til ad haefa betur vaentingum ahorfenda? Fraegasta daemid er audvitad Blade Runner hans Ridley Scott. Thad er himinn og haf a milli gaeda upprunalegu utgafunnar og „Directors Cut“ utgafu Scott. Su sidarnefnda er, ad minu mati, hreint listaverk, medan su fyrri er i besta falli spennandi visindatryllir. Kaldhaednin vid thetta daemi er, ad sjalfsogdu, ad Scott hefur sidan endurutgefid myndina nokkrum sinnum med algjorlega otharfa breytingum og tilfaerslum.

  Annar vinkill, sem gaman er ad paela i, er ad thegar ad listamadur hefur gefid verk sitt ut virdist thad verda, ad einhverju leyti, sameign ahorfenda og listunnenda. Thad sem er svo pirrandi vid Star Wars breytingarnar er ad manni finnst eins og Lucas hafi „engan rett“ a thvi ad breyta „okkar“ Star Wars, th.e. myndinni sem vid saum sem born sem hafdi svo omaeld ahrif a okkur.

 6. Ég er ekki svo forpokaður að ég geti ekki verið sammála þessu að einhverju eða öllu leyti. Enda voru þetta meira pælingar útí lofti, skreyttar trademark hroka mínum. Hroka fylgir einmitt líka tvískinnungur og það að vera í mótsögn.

  Ég set hins vegar sérstaklega stórt spurningamerki við það að gefa út breyttar útgáfur af myndunum en halda upprunalegum titlum þeirra. Hvort sem menn notast við viðskeytið Redux, Director’s Cut eða hvað annað. Brian Helgeland gaf t.d. út sína útgáfu af Payback fyrir nokkrum árum. Hún var allt öðruvísi. Ofbeldið var minna, nýtt score var samið fyrir myndina, heilar persónur voru klipptar út og endirinn var öðruvísi. Þetta var gefið út undir nafninu „Straight Up“. Það finnst mér miklu gáfulegra en e-ð „Exorcist – The Version you have never seen“ húmbúkk. Sbr. þegar ég og Atli Morðingi töldum okkur vera að fara á upprunalega útgáfu Apocalypse Now í Bæjarbíó í sýningu kvikmyndasafnsins. Myndin byrjaði og reyndist vera Redux. Okkur langaði ekkert að sjá Redux og fórum heim.

  Hefði útgáfa Scott á Blade Runner ekki bara átt að heita „Deckard“?

  Varðandi George Lucas þá ekki bara hefur hann engan rétt til að breyta Star Wars…..réttur hans til að anda að sér sama lofti og við hin fer minnkandi.

 7. Já, Redux og Director’s Cut af Blade Runner fannst mér báðar betri en upprunalegu útgáfurnar. Sama á reyndar við um Almost Famous sem ég horfði á Director’s Cut af um daginn.

  Það er til saga af Kjarval sem á hér ágætlega við. Eitt sinn fór hann í heimsókn til Laxness upp í Gljúfrastein þar sem þeir sátu að sumbli eða gerðu eitthvað annað sem svona listaspírur gera þegar þær hittast. Einhverntíma um kvöldið ákveður Kjarval að hann þurfi að laga málverk eftir sjálfan sig sem hann hafði gefið Laxness. Hann stendur því upp og byrjar að teikna inn á málverkið með penna. Hann nær þarna nokkrum strikum áður en hann er stoppaður. Þessi mynd hengur við útgangin á safninu í Gljúfrasteini núna og pennastrikin sjást mjög greinilega.

  Nú má spyrja sig, skemmdi Kjarval myndina eða bætti hann hana? Mér finnst myndin miklu merkilegri eftir að ég heyrði þessa sögu. Og mátti hann þetta? Átti hann myndina eða Laxness?

 8. Hahaha, frábær saga. Það er til svipuð saga af einhverjum endurreisnarmálaranna sem átti að hafa fitlað við eigið verk eftir að hún hafði verið sett á safn. Hljómar reyndar eins og lygi, var einhver að pæla í því að setja myndir eftir þessa gaura á söfn á meðan þeir lifðu? Allavega…..safnvörðurinn hljóp sótillur að honum og spurði hvurn andskotann hann væri að gera. Hann sagðist einfaldlega vera að betrumbæta eigið verk en var umsvifalaust vísað á dyr og bannaður frá safninu í kjölfarið.

  Varðandi spurningu þína þá verður henni líklegast ekki svarað til fullnustu. En á einhverjum tímapunkti áður en til atviksins í Gljúfrasteinu kom hefur Kjarval litið svo á að myndin væri fullkláruð. Kjarval framtíðarinnar (sem var mögulega annar og öðruvísi listamaður) taldi sig vera að betrumbæta myndina. Kannski var hann að því, maður veit ekki?

 9. Eða kannski var hann bara fullur…

  Ég er samt ekkert viss um að ég sé sammála þér með að það eigi ekki að breyta þessu efir að þetta kemur út. Ef það skilar sér í betri verki, þá finnst mér það ekki þurfa að vera slæmt.

  Sjáðu bara Bob Dylan. Hann gefur út lag en spilar það aldrei eins á tónleikum. Áhorfendur mæta til að heyra uppáhaldslagið sitt og þekkja það svo kannski ekki. Er hann þá að hræra í listaverkinu?

  Sama með leikhús. Uppsetningar á leikverkum geta breyst stórkostlega á milli leikstjóra og uppsetninga. Er það óeðlilegt?

  Og á kvikmynd – eða hlómplata – að fylgja öðrum lögmálum?

 10. Það er í raun óeðlilegt að ætla sér að setja listgreinum einhverjar reglur, enda er það bara bjúrókratískt og ferkantað, ég skal viðurkenna það.

  Ef menn vilja hræra í þessu þá að sjálfsögðu eiga þeir að mega það eins og þeir vilja. Mér finnst það samt bara svo undarlegt að vilja taka eitthvað eins frábært og sígilt og Star Wars og gera það að einhverju sem ég myndi varla nenna að horfa á í flugvél.

  Live tónlistarflutningur og leikhúsleikur hlýtur samt að lúta öðrum lögmálum enda er þar um að ræða eitthvað sem getur aldrei mögulega verið eins milli uppsetninga/tónleika.

  En já, þetta eru engin vísindi og ég skal alveg kvitta undir það að í einhverjum tilfellum séu breytingar réttlætanlegar, en mér finnst þær sjaldan til bóta.

 11. Auðvitað er live flutningur öðruvísi, en það er samt munur á að viljandi reyna að fara eins langt frá upprunalegu útgáfunni og komist er í live flutningi á tónlist eða leikverki, eins og sumir virðast reyna; eða að reyna að fylgja forskriftinni.

  En ég er sammála því að þetta ætti ekki lúta neinum reglum.

  En sér ekki bara markaðurinn um að sortera út óæskilegar útgáfur?

 12. Mig langar að segja „jú“, en af hverju get ég ekki keypt upprunalegu Star Wars á DVD? Helvítis drullutussan hann George Lucas má fokka sér!!!

 13. Atli Jarl Martin Says:

  Ég er sammála Snobbaranum með þetta allt saman, ég var nú bara að sjá Dærektors Kött útgáfuna af Exorcist í fyrsta sinn um daginn sjálfur og fannst afar lítið til þeirrar útgáfu koma.

  En gleymum ekki t.d. Criterion útgáfunni af Robocop, þar sem öllum übergory atriðunum sem Verhoeven ætlaði myndinni að innihalda er bætt við, þar fyrst fær Robocop að njóta sín í þeirri over-the top brutal mynd sem hún átti alltaf að vera.

  Ég ætla hins vegar að leiðrétta Snobbarann um Star Wars og upprunalegu útgáfurnar af fyrstu myndunum á DVD. Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar þær voru gefnar út í sínum fína DVD trilogy pakka, þá var limited edition widescreen útgáfa af þeim gefin út í stálkassa með bæði ’97 Special Edition og Orginal útgáfunum.

  http://www.amazon.com/Star-Wars-Trilogy-Collectible-Widescreen/dp/B000IJ6QTC

  En, Star Wars á DVD finnst mér bara drasl, þetta er langsamlegast best á orginal Stereo Laserdiskunum sem ég á og meira að segja munurinn á Phantom Menace á DVD og Laser er stórkostlegur. THX 5.1 mixið sem gert var af orginal myndunum og gefið út á AC3 LD árið 95 ef mig misminnir ekki er skemmtilegt upp á eingöngu sándið, en ég kýs þetta í stereo umfram allt annað.

 14. Ekki egna snobbhænsnið. Hann gæti skrifað langan pistil um hversu ógeðslegt Dolby og THX er……..og já, bara steríó yfir höfuð, enda klárlega svik við hið sanna og rétta.

 15. En já, sammála með RoboCop. Gore-ið er eiginlega ómissandi. Svona er maður tvöfaldur í roðinu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: