Sarpur fyrir október, 2009

Whatever Works [2009]

Posted in Gagnrýni on 25.10.2009 by snobbhaensn

vlcsnap-1264068

Það er farinn að líða alltof langur tími milli þess sem nýjar Woody Allen-myndir eru frumsýndar í USA og þar til að þær koma hingað til þess að ég nenni að bíða eftir þeim. Síðustu myndir leikstjórans hef ég nálgast með „óhefðbundnum leiðum“ og þannig sá ég nýjustu mynd hans, Whatever Works, í gærkvöldi.

Ég er á þeirri skoðun að Woody Allen hafi síður en svo slappast með aldrinum. Vicky Christina Barcelona var ljómandi. Cassandra’s Dream var óeftirminnileg, Scoop var léleg en Match Point er og verður kvikmynd áratugarins að mínu mati. Semsagt, stundum gerir hann góðar myndir, stundum frábærar og einstöku sinnum eru þær ekkert spes. Alveg eins og í gamla daga.

Whatever Works skilst mér að sé gamalt handrit sem var dregið upp úr skúffu þegar verkfall handritshöfunda í Hollywood stóð sem hæst. Woody kann ekki að sitja auðum höndum og skiptir engu þó einhverjir bananar fari í verkfall.

Það er Larry David sem fer með aðalhlutverk myndarinnar sem hinn afskaplega geðstirði (og geðsturlaði?) Boris. Hann þykir mikill gáfumaður, átti eitt sinn kost á Nóbelsverðlaunum en er hrikalega bölsýnn og bitur í ellinni, og hatar fáfróðan almúgann eins og pestina. Dag einn þröngvar sér upp á hann ung flækingsstúlka að nafni Melodie sem óskar eftir húsaskjóli á meðan hún vinnur í því að koma undir sig fótunum í New York. Boris samþykkir það eftir mikið þras og þannig hefst undarleg vinátta, sem minnir óneitanlega á atburði í lífi leikstjórans sjálfs.

vlcsnap-1264494

Larry David er mörgum kunnur fyrir sjónvarpsþætti sína Curb Your Enthusiasm og einnig fyrir það að standa á bakvið Seinfeld-þættina hér í gamla daga. Honum hefur brugðið fyrir í myndum Allen áður en er hér í fyrsta skipti í aðalhlutverki. David og mótleikkona hans, Evan Rachel Wood standa sig frábærlega. Ég myndi leyfa mér það að verða skotinn í henni ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hún hefur legið undir Marilyn Manson, en stúlkan er gullfalleg og mjög efnileg sem leikkona. Patricia Clarkson kemst samt nálægt því að stela senunni með túlkun sinni á hinni heittrúuðu móður Melodie sem kemur alla leið frá Mississippi til að hafa uppi á dóttur sinni.

Þó þetta eigi að heita gagnrýni þá veit ég ekki ennþá alveg hversu góð mér fannst myndin. Ég hallast þó að því að mæla með henni. Í gærkvöldi fannst mér þetta hans næstbesta mynd í langan tíma en eftir góðan nætursvefn er ég ekki svo viss. Myndin er þó skemmtileg og það er gaman að sjá leikstjórann aftur í New York eftir smá frí frá heimaborginni. Það er þá helst að ég setji spurningamerki við þá lífsspeki sem Woody otar að manni í myndum sínum, og þessi mynd gengur einna lengst í því að boða manni níhílíska heimssýn hans þar sem allt er tilviljunum háð og manni væri hollast að reyna að hafa það bara sem „bærilegast“ þar til maður drepst því að ekkert í lífinu skiptir máli.

Kannski hefur hann rétt fyrir sér? Sjitt, ég vona ekki!

vlcsnap-1263880

Auglýsingar

Brüno [2009]

Posted in Gagnrýni on 12.10.2009 by snobbhaensn

Bruno

Það var óumflýjanlegt að ég myndi horfa á Brüno. Ég er afskaplega ginnkeyptur fyrir myndum sem sjokkera fólk, reyni yfirleitt að sjá þær, en finnst þær yfirleitt ómerkilegar. Kannski er ég orðinn svona ónæmur fyrir ofbeldi, kynlífi og munnsöfnuði.

Sacha Baron Cohen kynntumst við fyrst í þáttunum um Ali G. Síðan kom hann fram í hinni meinfyndnu mynd um Borat, en hann var spin-off karakter úr Ali G þáttunum. Og nú snýr hann aftur sem samkynhneigða tískulöggan frá Austurríki, Brüno.

vlcsnap-8107795

Brüno er ekkert spes. Uppbygging myndarinnar er nákvæmlega sú sama og í Borat (sem nefnist fullu nafni: Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan). Furðulegur útlendingur heimsækir Bandaríkin og veldur þar miklum usla. Sum atriðin eru sviðsett, önnur ekki. Brüno er bara ekki jafn spaugileg og Borat. Þarna á ég bæði við kvikmyndirnar sem og persónurnar.

Borat er rasisti sem baðar sig ekki, karlremba og fávís dólgur, en maður finnur til með honum vegna þess að hann er eins og hann er vegna undarlegrar menningar hinnar afskræmdu útgáfu af heimalandi hans, Kazakhstan. Brüno er hins vegar siðlaus, heimskur, ábyrgðarlaus og grunnhygginn, og maður finnur enga ástæðu fyrir því hvers vegna hann er eins og hann er. Er hann vond manneskja? Illa upp alinn? Eða er það svona sem leikarinn sér samkynhneigða karlmenn almennt? Mig grunar að hann hafi einfaldlega ekki pælt í því og einbeitt sér meira að því að skapa fyndnar og/eða vandræðalegar senur í myndina. Og það er svo sem nokkuð um þær.

vlcsnap-8108517

Ég vona að Sacha Baron Cohen geri betur næst. Hann er greinilega hvergi banginn við að koma sér í klandur í þágu listar sinnar. Útkoman er oft hrikalega fyndin þegar vel tekst til. Og Brüno virkar alveg á köflum, reyni maður að gleyma hinni myndinni. Það sem virkar hins vegar ekki er að endurvinna Borat-myndina með nýrri persónu. Það er metnaðarlaust og lélegt.

Konur sem leikstýra kvikmyndum

Posted in Blogg on 11.10.2009 by snobbhaensn

samira

Kvikmyndagerð hefur lengi vel verið karlasport.

Þrátt fyrir eina og eina konu sem nær frama á hinum og þessum sviðum innan geirans er það samt því miður þannig að greinin er að mestu einokuð af körlum, og þá er sérstaklega áberandi hversu fáar konur starfa sem leikstjórar. Þessi bloggfærsla er í raun ekki umfjöllun eða einhver skoðun sem ég vil koma á framfæri. Nei, mig vantar ykkar hjálp lesendur góðir, við að benda mér á góðar og merkilegar kvikmyndir í leikstjórn kvenna.

Ég veit um nokkrar. The Piano var frábær. Leikstjóri hennar er Jane Campion frá Nýja Sjálandi. Hef ekki séð fleiri myndir eftir hana. American Psycho er frekar rosaleg. Það er hin kanadíska Mary Harron sem leikstýrði henni. Leni Riefenstahl gerði nokkrar stórmerkilegar. Má þar helst nefna Triumph of the Will og Olympia. Kathryn Bigelow kom sterk inn í action-geirann á tíunda áratugnum með Point Break og Strange Days. Hennar nýjasta mynd, The Hurt Locker, þykir ansi góð. Sjálfur hef ég ekki séð hana. Sofia Coppola gerði hinar frábæru Lost in Translation og The Virgin Suicides. Hin íranska Samira Makhmalbaf gerði hina frábæru The Apple aðeins 17 ára gömul og hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan. Þær eru vissulega mikið fleiri, en hlutfallið er engu að síður ansi ójafnt.

Hér heima höfum við svo átt leikstjóra eins og Kristínu Jóhannesdóttur, Guðnýju Halldórsdóttur, Ásdísi Thoroddsen og núna seinast, Valdísi Óskarsdóttur. Þær eru meira að segja nokkrar til viðbótar. Ætli Ísland sé ekki með talsvert meira jafnvægi í þessu blessaða kynjahlutfalli en flest önnur lönd?

1083_012199

En hvernig ætli standi samt á þessu gríðarlega ójafna hlutfalli? Sækja konur meira í önnur störf innan kvikmyndageirans en leikstjórn? Eru þær á einhvern hátt verri í faginu en karlar? Eru karlmenn mögulega sekir um að halda þeim niðri? Allt góðar og gildar spurningar, þó ég hafi engin svör. Þó finnst mér ólíklegt að konur hafi þetta eitthvað „minna í sér“ en karlar.

Ég hefði gaman af því að fá komment frá bæði körlum og konum. Karlrembusvínum og femínistum. Og ábendingar um góðar myndir eftir konur eru mjög vel þegnar. Ég mun leggja mig fram við að nálgast þær og sjá þær.

Walking Tall [1973]

Posted in Gagnrýni on 10.10.2009 by snobbhaensn

vlcsnap-6868717

Ég hef nælt mér í ansi skæða hálsbólgu með tilheyrandi viðbjóði og nota því tækifærið til að horfa á bíómyndir. Ég ætla að reyna að skikka sjálfan mig til að blogga um þær myndir sem ég sé á meðan ég hef úthald í þetta blogg. Gildir þá einu hvort um nýjar eða eldri myndir er að ræða.

Walking Tall er löngu gleymd amerísk 70’s mynd sem var endurgerð fyrir nokkrum árum síðan. Ég man glögglega eftir því þegar RÚV sýndi þá upprunalegu fyrir mörgum árum síðan. Ég var örugglega ekki meira en svona 12 ára gamall og ofbeldisfull stiklan vakti forvitni mína. Þegar allt kom til alls mátti ég síðan ekki horfa á myndina. Man þó að RÚV þýddi titil myndarinnar sem „Keikur karl“. Hver elskar ekki RÚV?

Ég ákvað að sjá ekki endurgerðina fyrr en ég væri búinn að sjá þá upprunalegu, þó ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að upprunalega myndin er frekar ómerkileg í kvikmyndasögulegu samhengi. Fellur í stóran skugga hefndarþorstamynda á borð við Death Wish og Straw Dogs. Loksins ákvað ég þó að kíkja á myndina, enda liðin ca. 17 ár síðan ég var sendur í rúmið þegar myndin byrjaði.

vlcsnap-6894279

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá fyrrverandi glímukappa, Buford Pusser, sem flyst ásamt fjölskyldu sinni á heimaslóðir sínar í Tennessee. Honum ofbýður ofbeldið og spillingin sem lögreglan á staðnum lætur viðgangast og eftir að hafa orðið fyrir fólskulegri árás misyndismanna og úrþvætta ákveður Buford að bjóða sig fram til embættis lögreglustjóra sýslunnar. Þegar hann tekur við starfinu fara lókal glæpamennirnir að ofsækja hann og myndin endar í ansi hrottafengnu uppgjöri laganna varða við glæpamennina.

Buford Pusser er hin hörundsljósa útgáfa af Shaft, ef undanskilið er sjóðheitt kynlífið. Vopnaður viðarlurki lætur hann hart mæta hörðu og þarf á endanum að gjalda fyrir það þegar bófarnir láta til skarar skríða gegn fjölskyldu hans.

Þrátt fyrir að vera kvikmyndasögulegur ómerkingur er myndin nokkuð góð. Hún er rúmir tveir tímar að lengd en er aldrei langdregin. Skv. hinu mis-áreiðanlega interneti var hinn eini sanni Buford Pusser hálfgerður dólgur og svo sannarlega ekki jafn sléttur og felldur og sá sem við kynnumst í kvikmyndinni. Það verður þó að líta framhjá því enda „sannsögulegar“ kvikmyndir aldrei 100% eftir raunverulegum atburðum, þó vissulega taki þær sér mismikið skáldaleyfi.

Joe Don Baker er öflugur í aðalhlutverkinu og aukaleikarar eru upp og ofan að gæðum. Ætla nú ekkert að kafa dýpra ofan í þessa mynd. 70’s löggudrama eftir bókinni og þrælfín sem slík.

WALKINGTALLPARENTS

Schwarzenegger vs. Stallone

Posted in Blogg on 6.10.2009 by snobbhaensn

arnold_sylvester

Að bera saman vöðvatröllin tvö er nú varla sæmandi snobbarabloggi eins og mínu, en þar sem ég set reglurnar ætla ég að skrifa nokkrar línur um þessa æðaþrútnu kraftajötna. Flestir alvöru karlmenn kunna vel að meta þá báða, þ.e. Arnold Scwarzenegger og Sylvester Stallone. Hins vegar gef ég mér það að margir haldi eilítið meira upp á annan heldur en hinn. Sjálfur á ég ákaflega erfitt með að setja annan fyrir ofan hinn. Það er svolítið eins og að þurfa að fórna annað hvort eyrum sínum eða augum, og alls ekki ákvörðun sem ber að taka í flýti.

arnold

Byrjum á Schwarzenegger. Tortímandanum sjálfum. The Governator. Austurríska vaxtarræktarfjallinu sem var eitt sinn Herra Alheimur.

Hans helstu myndir eru að sjálfsögðu myndirnar um Tortímandann. Fremst í þeim flokki er að sjálfsögðu hin upprunalega, The Terminator frá árinu 1984. Terminator 2: Judgment Day frá 1991 er ekkert slor heldur þó síðri sé.

Arnold var einnig í Predator árið 1987 og það var svo sannarlega ekkert aumingjahlutverk. Commando (1985) er sígild í hvaða veikindum sem er, og villimaðurinn Conan (Conan the Barbarian frá 1981) er stórkostlega vanmetin utan síns flokks (Sverða- og túttumyndir).

Schwarz var nokkuð öflugur í spoof-hasarmyndinni True Lies frá 1994, fínn í End of Days (ég er lélegri í ártölum eftir því sem við færumst nær nútímanum), og bráðfyndinn í Last Action Hero (1993 kannski?). Já, og ekki má gleyma Eraser frá 1996.

En Arnold á einnig lakari myndir. Af þeim má helst nefna Junior, Jingle All the Way og Collateral Damage. Hans versta er samt vafalaust Batman & Robin. Ömurlegt hlutverk í aumkunarverðri kvikmynd.

sylvester

Ferill Stallone er eilítið lengri en ferill kollega hans. Stallone byrjaði fyrr og er enn að. Hans þekktasta hlutverk er líklega Rocky Baloboa í Rocky-myndunum ódauðlegu. Misgóðar eru þær vissulega, en samt allar frábærar. En Stallone á aðra seríu í rassvasanum. Hann lék nefnilega líka Rambó.

Svo við teljum til að byrja með upp bestu myndir Stallone: Rocky (1975), Rambó-fjórleikurinn eins og hann leggur sig, Cobra (er hún ekki ’85 módel?) og Death Race 2000. Hann var fantagóður í Copland (leit næntís) og Demolition Man er einnig frábær, þó mig gruni að hún eldist ekkert sérlega vel. Vona þó að mér skjátlist.

Stallone hefur þó leikið í aragrúa af drasli. Stop! Or my Mom will Shoot var handónýt, D-Tox var léleg, Get Carter endurgerðin var hrossaskítur og Rhinestone er ekki góð, þrátt fyrir að vera fyndin óvart.

Sjálfur get ég ekki gert upp á milli þeirra. Báðir eru þeir lifandi goðsagnir og við munum aldrei sjá meiri harðjaxla á hvíta tjaldinu svo lengi sem við lifum.

Skeggræðum þetta nú aðeins á meðan við bíðum eftir The Expendables (2010).

expendables_poster_m

Í takt við tímann?

Posted in Blogg on 2.10.2009 by snobbhaensn

Mammytwoshoes

Verandi einstæður karlmaður í yngri kantinum geri ég það oft að borða kvöldmat um leið og ég horfi á eitthvað. Oftast eru það bara einn eða tveir þættir af Tomma og Jenna. Það vekur alltaf furðu mína þegar ég sé Tomma og Jenna-þætti sem hafa verið ritskoðaðir. Flestir sem eru komnir á þrítugsaldurinn og yfir muna eftir mörgum bröndurum í þáttunum sem orkað gætu tvímælis í ofverndaða samfélagi nútímans. Kettir og mýs brenndust í andlitinu og fengu við það krullað hár með Coolio-fléttum og risavaxnar varir. Indíánar voru sýndir sem steríótýpískir villimenn með boga og örvar, og þegar þeir kumpánar fóru til Afríku lentu þeir að sjálfsögðu í bandbrjáluðum mannætum sem skelltu þeim í stóran pott og suðu.

Þessar senur eru á bak og burt í DVD-útgáfum þáttanna. Yfirleitt eru hroðvirknislegar klippingar sem hoppa yfir þessi atriði og tempóið í viðkomandi senu fer alveg í hönk. Í þeim þáttum þar sem hinn þeldökki umsjónarmaður Tomma sést er búið að döbba hana upp á nýtt. Hún hljómar enn eins og steríótýpísk blökkukona frá Suðurríkjunum en það er búið að tóna talandann töluvert niður. Í sumum þáttum er gengið enn lengra (og eru það víst ritskoðanir sem hafa verið í umferð mun lengur en 90’s rídöbbin) og þar er búið að skipta blökkukonunni út fyrir hvít upper-middle class hjón, karlinn með pípu og konan í háhæluðum skóm.

vlcsnap-7345082

Þetta hefur lengi farið í skapið á mér og hefur mér þótt þetta ástæðulaus tilfinningasemi og hrein og klár listræn hryðjuverk. Ég fór hins vegar að velta því fyrir mér hvort ég væri hæfur til að dæma um það hvort þessi ritskoðun (sem þetta augljóslega er) eigi rétt á sér eða ekki. Verandi jafn hvítur og vinur minn hann Navin R. Johnson hef ég afar takmarkaðan skilning á þeim tilfinningum sem þeldökkt fólk upplifir mögulega þegar það sér teiknimyndir sem þessar óritskoðaðar. Særa þær blygðunarkennd þeirra? Er þetta krúttlegur rasismi af gamla skólanum og ekkert til að æsa sig yfir? Eða er þetta óþarfur minnisvarði um hræðilega og niðurlægjandi tíma í sögu þeldökkra Bandaríkjamanna sem er ástæða til að ritskoða? Ég get hreinlega ekki svarað því, en mér þykir vænt um teiknimyndirnar í sinni upprunalegu mynd, enda næpuhvítur Evrópubúi.

triumph

Ef ég kæmist að þeirri niðurstöðu að réttlætanlegt væri að ritskoða þetta hvar myndi ég draga línuna? Væri ástæða til þess að ritskoða kvikmyndir eins og Triumph of the Will og Birth of a Nation. Og væri það tæknilega mögulegt? Maður á afskaplega erfitt með að ímynda sér það. Stórbrotnar myndir og listrænar þó þær skilji vissulega eftir sig óbragð í munnum áhorfenda nútímans. Mig langar að geta sagst hafa komist að niðurstöðu um það hvað mér finnst en ég á erfitt með það. Ég sá Trimph of the Will t.a.m. í kvikmyndahúsi fyrir nokkrum árum síðan og það var mikilfengleg sjónræn upplifun sem ég mun seint gleyma. En gæti þeldökkur maður eða gyðingur upplifað sömu tilfinningar og ég upplifði við áhorfið? Myndu þeir ekki bara upplifa viðbjóðstilfinningu og depurð?

Og já, svo það fari ekki milli mála þá að sjálfsögðu tel ég það algjörlega ómögulegt að ritskoða þær tvær myndir sem ég nefndi hér að ofan. Nema þá að þeim yrði bara hreinlega ekið beint á haugana.

Fullt af ógeðslegum rímeikum á leiðinni

Posted in Blogg on 1.10.2009 by snobbhaensn

robocop

Nú ætla ég ekki að halda því fram að allar endurgerðir séu sorp. En flestar þeirra eru það. Síðustu ár hafa verið sérstaklega ömurleg þeim sem hafa óbeit á endurgerðum. Og ekkert lát virðist ætla að verða á endurgerðaröldunni miklu. Hæfileikalausi drulluspaðinn hann Darren Aronofsky (óbermið sem færði okkur hina skelfilegu Requiem For A Dream) er sagður vinna að endurgerð kvimyndarinnar RoboCop, en upprunalega myndin var í leikstjórn Hollendingsins Paul Verhoeven. Hún var stútfull af sósíal-satíru, kolsvörtum húmor, groddalegu ofbeldi og vélmennabrellum. Ef grunur minn reynist réttur verða vélmennabrellurnar það eina sem eftir stendur þegar Aronofsky hefur lokið sér af. Þær verða líka bókað ógeðslega lélegar þrátt fyrir að flestum muni finnast þær frábærar. Shia LeBouf mun bókað leika Róbó.

alien

Alien fær ekki að vera í friði frekar en fyrri daginn. Ridley Scott (leikstjóri upprunalegu myndarinnar) er sagður vera með endurgerð í bígerð, en einnig flýgur sá orðrómur að um prequel sé að ræða. Leikstjóranum er vel treystandi til að klúðra þessu, hvorn vinkilinn sem hann ákveður að taka á þetta. Við megum eiga von á Alien-skrímslinu eins gerfilegu og það hefur nokkurn tímann sést, enda nennir Hollywood ekki að gera tæknibrellur lengur nema í tölvu. Treggáfaðir unglingar munu samt taka þessu fagnandi. Megan Fox mun bókað leika Ellen Ripley.

suspiria

Leikstjórinn sem færði okkur Pineapple Express (já þið lásuð rétt) er að endurgera Suspiria eftir Dario Argento. Það hljómar eins og eitt tilgangslausasta rímeik kvikmyndasögunnar þar sem handrit og saga upprunalegu myndarinnar eru nú ekki beinlínis til að hrópa húrra fyrir. Sjarminn við myndina er hvernig Argento leikstýrir henni, kvikmyndatakan, tónlistin, litirnir og gerfiblóðið. Af hverju í ósköpunum býr fólk ekki bara frekar til eitthvað nýtt?

Af öðrum væntanlegum rímeikum má nefna A Nightmare On Elm Street en hana framleiðir Michael Bay (að sjálfsögðu) og um leikstjórn sér einhver rugguhestur sem hefur aldrei gert mynd áður (en hefur þó gert tónlistarmyndbönd fyrir m.a. Papa Roach og Tears For Fears…..greinilega mikill reynslubolti). Eitthvað ísraelskt nóboddí er síðan að endurgera Straw Dogs eftir Peckinpah. Eini leikarinn sem ég kannast við úr þeim leikarahópi er hasbeen-ið James Woods. Örugglega sérdeilis prýðilegt. Conan the Barbarian mun birtast okkur á ný á næsta ári og myndasögunördar munu væla yfir vælinu í mér út af því að upprunalega myndin er byggð á teiknimyndasögu/bók/bla dí bla bla. Total Recall er víst í vinnslu, They Live og fleira og fleira og fleira.

Eigum við að fá okkur Kool-Aid saman? Ég býð!