Sarpur fyrir desember, 2009

Avatar [2009]

Posted in Gagnrýni on 31.12.2009 by snobbhaensn

Eftir tveggja mánaða langa bloggpásu hef ég loksins tíma og nennu í meira blogg. Dr. Gunni minnti mig á bíóbloggið á bloggi sínu í dag og hér sá ég nokkur komment um meinta leti mína. En ég er svona skorpukall.

Það er gaman að segja frá því að í fyrsta skipti á ævinni sem ég skoðaði internetið (árið 1996) prófaði ég að slá inn orð í leitarvél (Webcrawler) og hlakkaði til að sjá loksins út á hvað þetta blessaða internet gengi. Ég ákvað að slá inn „James Cameron“ og athuga hvort internetið gæti sagt mér hvað hann væri með á prjónunum. Hann var í miðri gerð myndarinnar Titanic, en röflaði samt heilmikið um einhverja mynd sem honum langaði að gera, sem héti Avatar. Mér fannst þetta undarlegt nafn, vissi ekkert hvað það þýddi, eða hvað myndin gengi út á, en hann gaf þó upp það að hún væri eins konar vísindaskáldsaga. 13 árum síðar pungaði ég út 1250 krónum og fékk asnaleg gleraugu til að geta séð þessa nýjustu mynd hans, sem allir hafa talað svo fögrum orðum um.

Ég hef hingað til ekki gefið mikið fyrir tölvubrellur í kvikmyndum, a.m.k. ekki svona á heildina litið, þó einstaka mynd hafi komist upp með ágætis tölvubrelluskot. Brellumyndir síðustu 10 ára hafa alltaf virkað á mig eins og rosalega flott tölvuleikja-intró. Að sjálfsögðu, enda er ég þrátt fyrir allt saman, alveg hrikalega snobbaður og fúll á móti.

Trailerinn sem ég sá úr Avatar gaf það til kynna að hér væri á ferðinni einn sá allra mesti tölvubrellu-hundaskítur sem sést hefði, og ég hugsaði: „Getur það verið að þessi mynd sé svona mikið drasl?“. Orðið á götunni fór þó fljótlega að berast til minna eyrna og fólk virtist almennt sammála um það að þarna væri brotið blað í kvikmyndagerð og tölvubrellum.

Eitt mesta afrek kvikmyndarinnar Avatar hvað mig varðar er það að hafa tekist að láta mig gleyma því algjörlega að ég væri að horfa á tölvubrellur nánast allan tímann sem myndin varði. Þær eru svo langtum betri en allt sem ég hef séð áður, og sýnir okkur ekki bara hvað er hægt að gera með tölvubrellum, heldur hvernig á að nota þær rétt.

Tæknilegur frágangur myndarinnar væri efni í heila bloggfærslu útaf fyrir sig, en ég hef bara það takmarkaðan áhuga á efninu að ég hyggst sleppa því. Þó ber að hrósa Cameron fyrir að vera alltaf tíu skrefum á undan kollegum sínum hvað tölvubrellurnar varðar. Vatns-ormurinn í The Abyss var það langflottasta sem ég hafði séð á sínum tíma, og þegar ég sá illmennið úr fljótandi málminum í Terminator 2 hélt ég að brellan yrði aldrei toppuð. Hér væru kvikmyndagerðarmenn búnir að setja viðmiðið það hátt að frekar framfarir á þessu sviði væru óþarfar og ómögulegar.

Þegar upp er staðið er Avatar besta ævintýramynd sem ég hef séð síðan Jurassic Park kom út árið 1993. Brellurnar í Júragarðinum voru vissulega í mun hærri gæðaflokki en allt sem maður hafði séð fram að því, en ef brellurnar eina og sér hefðu þurft að halda myndinni á floti væri hún löngu gleymd. Myndin var hins vegar þrælskemmtileg, spennandi og fyndin.

Avatar tekst þetta með miklum ágætum. Sagan er áhugaverð, spennandi (þrátt fyrir að vera fyrirsjáanleg á köflum), væmin (án þess þó að fara yfir strikið) og með heimspekilegan boðskap (sem er neytendavænn en þarfur og aldrei of oft tugginn ofan í okkur).

Lord of the Rings-þríleikurinn finnst mér allt of alvörugefinn og beiskur. Harry Potter-serían er of barnaleg fyrir mig. The Mummy-batteríið er rusl, og Pirates of the Caribbean er eins og Indiana Jones á sjó, nema minna skemmtilegt (og nasistana vantar). Úff, minnumst síðan sem minnst á fjórðu myndina um Indiana Jones. Já eða Star Wars (Episode I – III).

Já, ævintýramyndir hafa legið í metnaðarlítilli lægð síðasta áratuginn eða svo. Menn hafa rembst og hjakkað, en útkoman verið í besta falli „Jájá þetta er allt í lagi, en svo sem ekkert Back to the Future“.

Helsti löstur myndarinnar er lengd hennar. Vissulega þarf tempóið að vera hægt á köflum, til þess að kynnast persónum betur, þessum Pandóru-heimi sem leikstjórinn hefur skapað, og til að leyfa manni að kasta mæðinni milli spennandi atriða, en hún hefði mátt vera 20 mínútum styttri, og það hefði ekki komið að sök.

Forljótt titilspjald með ógeðslegum fonti slengdist framan í mig eftir að myndinni lauk (þó ekki steiktum lauk) og ég engdist um af smekkleysu og viðbjóði undir hrikalegu lokalaginu, sem er væmin og Disney-leg drulla, eingöngu til þess gerð að grípa eitt stk. Óskarstilnefningu fyrir besta lag.

Nú er Cameron búinn að hóta því að gera tvær framhaldsmyndir í kjölfarið. Ég kveiki að sjálfsögðu strax á fyrirvaranum, enda eru framhaldsmyndir svarinn óvinur snobbhænsna, allavega þar til þær sanna sig. Það er engin þörf á framhaldi, en ætli maður gefi því ekki sjens þegar að því kemur.

Ég hlakka mikið til að sjá hvort Avatar virki án þrívíddarinnar. Loksins fékk ég að sjá þrívíddarmynd þar sem markmiðið er ekki að fleygja sem mestu af drasli í átt að áhorfendum sem kippa sér undan, heldur er þrívíddin notuð til að láta manni virkilega finnast maður vera á staðnum. Og það svínvirkar. Gæti hinsvegar tapast við áhorf heima í stofu.

Gleðilegt ár.

Auglýsingar