Sarpur fyrir janúar, 2010

Precious [2009]

Posted in Gagnrýni on 17.1.2010 by snobbhaensn

Í heild sinni er titill myndarinnar Precious: Based on the Novel „Push“ by Sapphire, en þar sem það er alltof langt og kjánalegt mun ég kalla myndina Precious. Þessi mynd er semsagt byggð á skáldsögu, og viti menn, hún heitir Push og er eftir konu sem kallar sig Sapphire. Bókin var gefin út árið 1996 og hlaut mikið umtal, en bókin segir harmsögu ungrar blökkustúlku sem gengur í gegnum meiri mannraunir en flest okkar hafa ímyndunarafl í að geta sér til um. Ég hef ekki lesið bókina en ég lét verða af því að horfa á þessa mynd, enda eru töluverðar líkur á því að hún muni fá eitthvað af tilnefningum til Óskarsverðlauna í febrúarmánuði.

Myndin fjallar um hina 16 ára gömlu Claireece „Precious“ Jones, sem býr í Harlem-hverfi New York-borgar ásamt móður sinni. Claireece var misnotuð frá þriggja ára aldri af föður sínum, og gengur nú með barn hans undir belti, barn númer tvö í röðinni. Frumburðurinn er með Downs-heilkenni og býr hjá langömmunni. Móðir Claireece er aumingi og skíthæll af verstu sort. Hún fer ekki útúr húsi nema til að sækja bæturnar sínar, og beitir Claireece grófu andlegu, líkamlegu, já og kynferðislegu ofbeldi. Claireece er ólæs, óhugnanlega feitlagin, og lifir vægast sagt ömurlegu lífi. Dag einn skráir hún sig í sérkennsluskóla fyrir vandræðaunglinga og verður það til þess að líf hennar breytist hægt og bítandi.

Af og til verða til nýyrði sem almenningur tekur ástfóstri við og ofnotar þar til orðin tapa upprunalegu merkingu sinni. Ég kýs yfirleitt að forðast notkun þessara orða, en geri þó undantekningar. Tilfinningaklám er eitt þessara orða, og má segja að það hæfi myndinni vel. Sagan er í grunninn svo hrikalega melódramatísk að það er nánast óhjákvæmilegt að myndin losni undan þeim örlögum. Ég skal þó gefa henni prik fyrir það að hún hefði vissulega getað gengið enn lengra í tilfinningalegri stýringu, en gengur þó ansi langt.

Móðirin er svo ofsalega vond, og aðstæðurnar eru svo hryllilegar að auðvitað finnur maður til samúðar með stúlkunni. Maður er bókstaflega neyddur til þess. Að horfa á svona kvikmyndir er svipað og þegar maður les dóma yfir hrikalegustu ofbeldisglæpamönnum sem til eru. Öll smáatriði fá að vera með, og eina ástæðan fyrir því að maður situr ósköpin til enda er þörfin fyrir að sjá kvalarann fá sína refsingu. Maður þráir réttlæti fyrir hönd fórnarlambsins, og að sjálfsögðu fær maður það eiginlega alltaf. Þá er ég að tala um kvikmyndirnar. Raunveruleikinn er oft ekki jafn einfaldur.

Og þetta er nákvæmlega það sem mætti kalla tilfinningaklám. Í stað þess að láta smáatriðin liggja milli hluta, gefa þau mögulega óljóst í skyn, og leyfa áhorfandanum að upplifa sínar eigin tilfinningar, er samúðinni og meðaumkuninni þröngvað upp á mann, svo maður á engrar undankomu auðið. Og þess vegna er vonlaust að ætla að gera svona myndir vel. Það hefur allavega sjaldan heppnast. The Color Purple virkaði vegna þess að hún var krydduð kómík, ástarsögu, smá vonarglætu, en Precious gefur sér engan tíma fyrir slíkt. Myndin rekur ofan í mann hvert óhræsis hörmungaratriðið á fætur öðru, svo manni langi nú alveg örugglega aldrei til þess að sjá myndina aftur.

Mikið hefur verið fjallað um frammistöðu leikara myndarinnar, og í þeirri deild fær maður vissulega að sjá frábæra frammistöðu hjá flestum. Gamanleikkonan Mo’Nique hefur fengið hvað mest lof, en hún leikur hina hræðilegu móður Claireece. Hún gerir það vissulega nokkuð vel, en ég er reyndar á því að það sé ekkert rosalegt afrek að leika illmenni sem er svona gjörsamlega yfir strikinu allan tímann. Ég ætla þó ekki að níða hana fyrir leikinn, því hann er vissulega góður. Aðalleikkonan, Gabourey Sidibe, er fallbyssa myndarinnar. Límið sem heldur henni saman. Þessi unga leikkona sýnir stórleik, hvað svo sem mér kann að þykja um myndina. Mariah Carey kom mér á óvart í litlu hlutverki félagsráðgjafa, og einnig má sjá sjálfum Lenny Kravitz bregða fyrir í örhlutverki.

Í raun var aldrei möguleiki á að myndin gæti hrifið mig neitt sérstaklega. Til þess held ég að bókin sé einfaldlega of léleg. Of mikið melódrama. Of mikið Oprah Winfrey. En leikhópurinn hélt mér við efnið, ásamt hefndarþorsta fyrir hönd aðalpersónunnar. Ég var eiginlega að vona að móðir hennar fengi glóandi heitan Rambóhníf upp í klofið á sér í lokin, en að sjálfsögðu gerðist það ekki.

Auglýsingar

Up in the Air [2009]

Posted in Gagnrýni on 10.1.2010 by snobbhaensn

George Clooney leikur Ryan Bingham, mann sem vinnur við það að ferðast um Bandaríkin þver og endilöng, og tilkynna fólki (í nafni fyrirtækja sem þau starfa hjá) að þeim hafi verið sagt upp. Einhverskonar þjónusta (sem ég efast nú um að sé til í alvörunni) fyrir yfirmenn fyrirtækja sem nenna ekki að standa í því sjálfir að reka fólk. Bingham er að heiman 90% af árinu og hann elskar vinnuna sína. Hann fær að ferðast út um allt, hann gistir á fínum hótelum, hann flýgur daglega á fyrsta farrými og safnar vildarpunktum sem hann veit ekkert hvað hann ætlar að gera við.

Up in the Air er þriðja mynd leikstjórans Jason Reitman (hinar tvær verandi Thank You For Smoking og Juno) og er að mínu mati hans langbesta mynd til þessa. George Clooney skilar skotheldum leik sem hinn yfirborðskenndi Bingham sem er ófær um að elska nokkurn hlut nema sjálfan sig. Sem er í sjálfu sér margtugginn söguþráður, en á honum eru margir vinklar sem hægt er að leika sér með.

Í rauninni er persóna Clooney eins og miðaldra unglingur. Maður sem neitar að hægja á sér sökum hræðslu við að gróa fastur, og kýs þess í stað að neita sér um eðlileg samskipti við fjölskyldu sína, hitt kynið, og á enga alvöru vini. „Að þekkja mig er að fljúga með mér“, segir hann í myndinni, og hittir þar naglann á höfuðið. En hvað gerist svo þegar hann fer að finna fyrir óþekktum tilfinningum eins og það að verða ástfanginn?

Up in the Air er mynd af gamla skólanum. Mynd sem ég get auðveldlega ímyndað mér í leikstjórn Billy Wilder á 6. eða 7. áratugnum, og þá líklega með Jack Lemmon í aðalhlutverki. Ég er að sjálfsögðu að vísa beint í The Apartment, en eitthvað við Up in the Air minnti mig á hana.

Og þess vegna svínvirkar það að setja George Clooney í aðalhlutverkið. Clooney er leikari af gamla skólanum. Mér dettur í hug Cary Grant, Jimmy Stewart, já eða Dean Martin. Fjölhæfur leikari, en oft er nóg fyrir hann að leika bara George Clooney í jakkafötum og glottandi út í annað.

Ég var gífurlega hrifinn af þessari mynd. Ólíkt því sem ég er vanur, þá ætla ég aðeins að nefna eitt sem angraði mig við áhorfið. Í seinni helmingi myndarinnar koma þrjú atriði með stuttu millibili sem eru montage-senur* með einhverju hipstera-trúbadoragauli undir (tók t.d. eftir Elliott Smith-lagi í einni senunni). Soldið svona Juno/Wes Anderson og orðið voða þreytt, og í sumum tilfellum svolítið cheap aðferð til að skapa tilfinningar, í stað þess að skapa þær með nokkrum litlum senum. Eitt svona atriði hefði ekki endilega komið að sök, en þrjú í röð? Kommon!

Burt séð frá því, Up in the Air er mögulega mynd ársins fyrir mér. Allavega í topp 3. Rómantísk, fyndin, falleg og sorgleg. Til hamingju með það Jason Reitman, þú hárprúði föðurbetrungur.

*Montage-senur eru hálfgerð tónlistarmyndbönd, notuð í kvikmyndum til að sýna framþróun einhvers á sem stystum tíma. T.d. þjálfun fyrir íþróttaviðburð, nördastelpu breytt í kynbombu, vinátta að breytast í ást, vöðvabúnt að setja saman vopn og klæða sig upp fyrir lokauppgjörið o.s.frv. Oftast er lag undir senunni sem fær að rúlla frá upphafi til enda.

The Hurt Locker [2009]

Posted in Gagnrýni on 9.1.2010 by snobbhaensn

The Hurt Locker er að hirða flest gagnrýnendaverðlaun í Bandaríkjunum um þessar mundir, og líklegt er að myndin verði áberandi í Óskarsverðlaunaslagnum í ár. Myndin segir frá sérsveit sprengjusérfræðinga Bandaríkjahers í Írak og daglegu lífi þeirra, sem gengur út á að finna og aftengja sprengjur við verstu mögulegu aðstæður. Aðalsöguhetjan, William James, veldur félögum sínum sífelldu hugarangri sökum fífldirfsku sinnar, en hann er sá sem sér um að aftengja sjálfar sprengjurnar. Ég er mótfallinn því að tíunda söguþráð mynda sem ég fjalla um meira en ég mögulega þarf, og hyggst því láta staðar numið.

Leikstýra myndarinnar, Kathryn Bigelow, á nærri 30 ára feril að baki sem kvikmyndagerðarmaður. Hún gerði hinar klassísku Point Break og Strange Days, hressar myndir sem hafa mögulega elst illa. Seinasta mynd hennar á undan The Hurt Locker var hin þrælmisheppnaða K-19: The Widowmaker, þar sem þeir Harrison Ford og Ingvar E. Sigurðsson hjökkuðu í hvors annars leiðindum í kafbát í næstum tvo og hálfan tíma. The Hurt Locker virðist vera myndin sem skýtur Bigelow endanlega á kortið sem alvöru kvikmyndagerðarmaður, og það er hreint ekki óverðskuldað, þrátt fyrir að ég sé ósammála þeim sem lofa myndina hvað mest.

Myndin er afskaplega spennandi fyrir það fyrsta. Samspil myndatöku, klippingar og góðrar frammistöðu leikara skapa óþægilegt andrúmsloft, og hvort sem það er rétt eða ekki, þá getur maður ímyndað sér að svona sé Írak.

Myndin segir í raun ekki eina heilsteypta sögu, heldur margar litlar sögur af störfum hermannana. Skiptist myndin þannig í margar smærri einingar, og senurnar eru misjafnar, en þó er engin þeirra léleg eða óspennandi. Mest spennandi hluti myndarinnar er sá hluti þegar herdeildin hittir fyrir hóp breskra hermanna og lenda í langri og erfiðri fyrirsát, með tilheyrandi leyniskyttu-actioni. Á þeim tímapunkti var ég að því kominn að naga neglur mínar niður í kviku, og þar liggur helsti styrkur leikstjórans, hún er gífurlega flink í að skapa taugatrekkjandi spennu hjá áhorfandanum.

The Hurt Locker er góð kvikmynd, á því liggur enginn vafi, en hversu góð er hún? Kannski þyrfti ég að vera Bandaríkjamaður til að skilja hæpið betur, ég veit það ekki, en samt efast ég um það. Á meðan gagnrýnendur tala um myndina eins og Apocalypse Now eða Platoon, þá sé ég hana frekar eins og aðra Víetnam-mynd sem er ekki nærri jafn klassísk, Casualties of War eftir Brian De Palma. Virkilega góð mynd, en herslumuninn vantar til að hún geti talist jafn merkileg og Víetnam-risarnir. Kannski græðir The Hurt Locker á því að Íraks-risana vantar. Það er ekki til mynd um Íraksstríðið af sama kaliberi og bestu Víetnam-myndirnar og bestu WW2-myndirnar, og því verður The Hurt Locker að duga í bili.

En í hverju felst þessi herslumunur? Því verður ekki auðsvarað, og líkur eru á að þú, lesandi góður, finnist ég vera farinn að ganga full langt í snobbinu, og af ásetningi vera farinn að finna minnstu vankanta góðra kvikmynda til þess eins að upphefja sjálfan mig á þeirra kostnað.

Kannski var það tilfinningasnauði „fluga á vegg“-stíllinn sem truflaði mig. Nei, samt ekki. Ég kunni t.d. ákaflega vel við það að myndin reyndi aldrei að troða ofan í mig einhverjum beiskum boðskap um það að stríð sé vont. Redacted, önnur mynd eftir De Palma, gerði það t.d. og var það henni að falli. Samt snerti sú mynd mig á einhvern hátt meira en The Hurt Locker. Mögulega er það vegna þess að ég tilbið jörðina sem De Palma gengur á, en nei. Líklega var það experimental kvikmyndagerðin sem heillaði mig þar. Svo fór ég líka að grenja yfir henni.

Ég held ég þurfi einfaldlega að melta The Hurt Locker aðeins lengur. Góð mynd og vel gerð, en kannski þarf ég að sjá hana aftur. Annað hvort til þess að kunna að meta hana 100%, eða til þess að staðfesta grunsemdir mínar um það að mögulega sé hún……tjah, pínulítið ofmetin?

Paranormal Activity [2007]

Posted in Gagnrýni on 9.1.2010 by snobbhaensn

Þó að hrollvekjan Paranormal Activity hafi ekki farið í almenna bíóhúsadreifingu fyrr en á síðasta ári þá telst hún strangt til tekið vera framleidd árið 2007 og skulum við leyfa því að standa.

Mikið hefur talað um myndina og hversu óhugguleg hún sé, enda þykja hrollvekjur í þessum „found footage“-stíl einkar hrollvekjandi fyrir það hversu raunverulegar þær eru. Góð dæmi um það eru t.d. myndirnar Cannibal Holocaust og The Blair Witch Project, sem þó eru báðar frekar misheppnaðar.

Paranormal Activity segir frá parinu Katie og Micah, sem búa í stóru og fínu húsi í San Diego, en Micah hefur fjárfest í myndbandstökuvél til að festa á myndband það sem þau telja vera draugagang í húsi sínu. Öll myndin er síðan sett fram sem efnið sem þau tóku á myndbandstökuvélina, en þau stilla henni ýmist upp á þrífæti (sérstaklega á nóttunni þegar þau sofa) eða halda á henni.

Myndin er einkar vel leikin og því ber að hrósa, enda báðir aðalleikararnir algjörlega óþekktir fram að þessu. Tæknileg úrvinnsla er einnig til fyrirmyndar, en vankantar stafrænnar upptökutækni vinna í þessu tilfelli með myndinni, og gera hana jafnvel raunverulegri.

Ég ætla ekki að ljúga að ykkur, og viðurkennist það hér með að mér stóð hreinlega ekki á sama, sitjandi einn í myrkrinu um miðja nótt að horfa á ósköpin. Myndin vakti upp hjá mér ótta, en eins og svo oft með blessaðar hrollvekjurnar (sérstaklega í seinni tíð), þá stafaði óttinn frekar af því að ég var á nálum yfir því að mér ætti mögulega eftir að bregða, frekar en að ég óttaðist raunverulega það sem fyrir augu og eyru bar.

Og það er í raun það eina sem þessi mynd hefur upp á að bjóða. Ótta við myrkur, þrusk, suð og umgang. Allt hlutir sem skelfa jafnvel hin mestu karlmenni, ef um uppruna skarkalans er ekki vitað. Í þessa einu og hálfu klukkustund sem myndin varir gerist sárafátt markvert. Nema kannski undir blálokin. Og svo er myndin búin.

Líkt og með The Blair Witch Project þá er Paranormal Activity nauðaómerkileg mynd. Vissulega er alltaf gaman að sjá amatöra búa til eitthvað úr engu (myndin kostaði 15 þúsund dollara og var tekin upp á heimili leikstjórans á 7 dögum), en gaman væri að sjá einhvern gera eitthvað stórgott úr engu. Svo er ekki í þessu tilfelli.

Moon [2009]

Posted in Gagnrýni on 8.1.2010 by snobbhaensn

Það er frekar erfitt að ætla að skrifa greinargerð um kvikmyndina Moon án þess að skemma hana algjörlega fyrir þeim sem ekki hafa séð hana. Ég mun þó gera mitt besta.

Moon er fyrsta kvikmynd breska leikstjórans Duncan Jones, en hann er sonur popparans Dawid Bowie, hvorki meira né minna.

Sam Rockwell leikur Sam Bell, geimfara sem hefur eytt seinustu þremur árum aleinn á tunglinu, þar sem hann mannar geimstöð og viðheldur tæknibúnaði sem framleiðir orku til notkunar á jörðu niðri. Sam er orðinn ansi tæpur eftir vistina og talar mikið við sjálfan sig og fer að sjá ofsjónir, en einangrunin og fjarlægðin frá fjölskyldu hans reynast honum mjög erfið. Eini félagsskapur geimfarans er talandi tölva að nafni GERTY, sem talar með rödd Kevin Spacey, og tjáir tilfinningar sínar með mismunandi brosköllum (líkt og þeim sem við þekkjum t.d. úr MSN-forritinu). Tveimur vikum fyrir brottför sína frá tunglinu verður einbeitingarskortur geimfarans (og ofsjónir) til þess að hann lendir í slysi, og hrindir um leið af stað þeirri atburðarás sem nánast öll myndin er.

Moon er glæsileg mynd að mörgu leyti. Sviðsmyndirnar eru minimalískar og flottar, landslag tunglsins er raunverulegt, og öll þau tæki og tól sem prýða geimstöðina eru sannfærandi. Þannig skapar leikstjórinn einhverskonar gerviveröld sem maður trúir fullkomlega, sem er að sjálfsögðu ein af helstu forsendum þess að myndin gangi upp.

Sam Rockwell er öflugur leikari, og rokkar til og frá í skemmtilegum blæbrigðum ofleiks og undirleiks. Í raun ekkert út á hann að setja. Það segir kannski meira en mörg orð að leikari sem er einn í mynd, nánast allan tímann, nái að halda áhorfandanum við efnið.

Samanburður við aðrar geimfantasíur er óhjákvæmileg. Ég gæti talið upp fullt af vísunum, meðvitaðar jafnt sem ómeðvitaðar, í myndir á borð við 2001 hans Kubrick, Solaris eftir Tarkovsky, og jafnvel út í Alien hans Ridley Scott. Moon kemur ágætlega frá þeim samanburði, gerir sig aldrei seka um að stæla, og er í raun jafn ólík þessum myndum og þær eru sjálfar innbyrðis.

Ég held að það sem muni á endanum verða til þess að Moon nær aldrei þeim stalli sem þessar myndir hafa komist á, sé það hversu klippt og skorin hún er. Hún byrjar sem einhverskonar vísir að hægri sci-fi fantasíu, geðsturlun í geimnum, en breytist síðan hægt og rólega í sálfræði spennuþriller. Tempóið verður hraðara, sagan verður skýrari, og öllum stykkjum púsluspilsins er komið fyrir á sínum stað áður en myndin rennur sitt skeið. Á köflum verður púsluspilið meira að segja fyrirsjáanlegt, og þrátt fyrir sniðuga sögu, þá fannst mér ég oft vera tíu mínútum á undan myndinni.

Það hefur nú seint talið af hinu slæma þegar kvikmyndir hafa skýran söguþráð, og fara ekki út í of miklar málalengingar til að segja söguna. Það er þó spurning hvort það hefði ekki hentað Moon betur að vera eilítið óræðari. Fókusa meira á aðdraganda atburðanna, einveru geimfarans, hugrenningar hans og ofsjónir. Lengja hana jafnvel um hálftíma eða svo. Það er eitthvað virkilega drungalegt og dularfullt við geiminn, þó það sé ekki lengra en bara til tunglsins. Maður sem er aleinn á tunglinu…..ef það er ekki efniviður þá veit ég ekki hvað er það.

Einnig fór það svolítið illa ofan í mig þessi þörf leikstjórans (sem er handritshöfundur myndarinnar einnig) fyrir að hnýta saman alla lausa enda, og skilja lítið sem ekkert eftir fyrir mig til að fabúlera yfir. Við viljum hafa geiminn svolítið kaótískan og ofar mannlegum skilningi, er það ekki?

Tónlist myndarinnar var upp og ofan. Aldrei gerðist það að hún væri virkilega órjúfanlegur hluti af atriði, heldur surgaði hún meira í bakgrunninum, og í raun alveg eins mátt minnka hana til muna. Titlasenan í upphafi myndar var einnig misheppnuð. Sá tími sem fer í að sýna okkur aðstæður á tunglinu og inni í geimstöðinni, er truflaður af stíliseruðum upphafstitlum, líkt og um auglýsingu væri að ræða. Tilgangslaust.

Mér finnst ég í raun hafa fókuserað aðallega á hið neikvæða í þessum pistli. Það er kannski ósanngjarnt, því að Moon er prýðileg mynd, þrátt fyrir allt saman. Ég er bara vonsvikinn yfir því að hún sé ekki instant-klassík, eins og veggspjaldið gaf til kynna. Hún er samt örugg um költ-status eftir nokkur ár, ef hún er þá ekki orðin það nú þegar. Ég hlakka til að sjá hana aftur, sem og önnur verk höfundarins í framtíðinni, því að sem fyrsta mynd listamanns er Moon skrambi frambærileg.

Black Book (Zwartboek) [2006]

Posted in Gagnrýni on 7.1.2010 by snobbhaensn

Paul Verhoeven er á góðum degi alveg frábær leikstjóri. Myndir hans eru fram úr hófi ofbeldisfullar, kynlíf og nekt er ekkert feimnismál fyrir honum, og hann er frábær satíristi. Hans besta kvikmynd er að mínu mati myndin RoboCop, mynd sem ég fæ hreinlega ekki nóg af því að ausa lofi yfir. Mynd sem enginn annar en nákvæmlega hann hefði getað gert svona frábærlega.

Þessi snarklikkaði Hollendingur byrjaði feril sinn í heimalandinu á áttunda áratugnum en endaði í Hollywood, eins og annar hver evrópskur leikstjóri virðist gera. En ólíkt mörgum evrópskum kollegum sínum, varð Verhoeven aldrei óspennandi samhliða því að verða mainstream. Hann fór ekki út í það að gera tveggja og hálfrar-stjörnu myndir með Harrison Ford í flugvél, heldur hélt hann sínu striki og leikstýrði mörgum af merkilegustu (og sumir vilja meina verstu) kvikmyndum Hollywood, síðustu 25 ár.

Ég hef yfirleitt afskaplega gaman af myndum hans, því að þrátt fyrir ýmsa vankanta (oft á tíðum) eru myndir hans gerðar af sjaldséðri einlægni, og því þótti mér það spennandi að sjá dramatíska mynd frá honum, sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni, og það á hollensku. Paul tjaldar ávallt öllu til. Því skyldi hann ekki gera það nú?

Söguþráður Black Book er í stuttu máli þessi. Hin hundelta gyðingastúlka, Rachel Stein, villir á sér heimildir til að ná til háttsettra manna í þýska hernum, verður ástfangin, og flækist um leið í allskonar baktjaldamakk nasista, jafnt sem andspyrnuhreyfingarinnar. Allir svíkja alla, sumir nasistanna eru verri en sálarlausar skepnur, aðrir eru ekki jafn slæmir og þeir virtust í fyrstu. Voða basic og efni í ágætis stríðsþriller.

Myndin vann til fjölda verðlauna víða um heim, og líkt og með myndir sem eru ekki á enskri tungu, þá hefur það tekið þó nokkurn tíma fyrir myndina að ná alheimsdreifingu. Ég man t.d. ekki eftir því að þessi mynd hafi ratað í íslensk kvikmyndahús, enda hefði ég verið vís til að mæta á frumsýningardegi.

Sjónræn atriði myndarinnar eru leyst af mikilli fagmennsku, enda Verhoeven löngu orðinn þekktur fyrir slíkt, en þó verð ég að lýsa yfir vanþóknun minni á ofnotkun stafrænna litafiltera, eins og sjá má glögglega í fyrstu og seinustu senum myndarinnar. Stúlkan sem leikur aðalhlutverkið, Carice van Houten (tengsl við Milhouse ekki vituð), stendur sig með mikilli prýði. Hún leikur ágætlega, en fyrst og fremst hefur hún mikinn sjarma og bætir hann upp fyrir mögulega vankanta hennar sem leikkonu.

Þar er ég kominn að fyrsta, og mögulega stærsta mínusnum við myndina. Hún er afskaplega illa leikin. Ég veit hreinlega ekki hvort leikurunum sé um að kenna, eða þá að handritið (og þá sérstaklega samtölin) sé mögulega það kauðslega skrifað að jafnvel frambærilegir leikarar skili af sér lélegri frammistöðu (mig grunar reyndar frekar að svo sé), en mikið hlýtur mynd að vera illa leikin þegar maður kemur auga á það, þrátt fyrir að skilja ekki bofs í því tungumáli sem talað er.

Ég hef Verhoeven grunaðan um að vera hreinlega ekki nógu góðan dramatískan leikstjóra. Hann er hárbeittur húmoristi, kann að búa til hasar og sprengjur, jafnvel betur en flestir aðrir, en dramatísku senur myndarinnar eru afskaplega klaufalegar, og á köflum líður áhorfandanum eins og hann sé að horfa á hollenska sápuóperu.

Þegar myndin dettur svo inn í ævintýrafílinginn er hún bærileg, hefði mögulega getað virkað sem slík, en þá hefði hún átt að vera gerð sem slík. Þessi samsuða virkar illa, gerir myndina ótrúverðuga og nánast óþægilega. Þegar öllu er á botninn hvolft er Verhoeven exploitation-leikstjóri, og mann grunar að hans heimavöllur innan stríðsmynda væri frekar Ilsu-geirinn*, eins undarlega og það kann að hljóma.

Ég mæli þó með að aðdáendur leikstjórans sjái þessa mynd, því að ég tel Verhoeven vera í flokki þeirra leikstjóra hverra slæmu myndir hafa samt eitthvað frambærilegt við sig, og geta jafnvel verið jafn skemmtilegar áhorfs og þær vel heppnuðu. Nú er ég alls ekki að tala um „svo vont að það verður fyndið“-flokkinn sígilda, heldur meira að maður njóti höfundareinkennanna, og voni svo að þeir geri mun betur næst.

* Ilsu-geirinn vísar til undirflokks exploitation-mynda sem nefnist „nazisploitation“, og eru þær þekktustu í þeim geira myndirnar um hina illræmdu Ilsu (Ilsa, She Wolf of the SS, verandi sú fyrsta). Myndir af þessu tagi eru ofbeldisfullar pyntingamyndir með ljósbláum kynlífssenum inn á milli, og gerast oftar en ekki í fangabúðum nasista í seinna stríði.

Gömul mynd í nýju ljósi

Posted in Blogg on 7.1.2010 by snobbhaensn

Nú ligg ég í streptókokkum, í þriðja skiptið á minna en einu ári, og læknirinn vill fá að fjarlægja hálskirtla mína. Nóg um það. Þegar maður er lasinn, þá horfir maður á hasarmyndir. Enginn nennir að horfa á Fellini eða Antonioni þegar hann þarf að ýta á pásu reglulega til að snýta sér. Eða til þess að „hvíla augun“. Myndir á borð við Commando, Raw Deal og Demolition Man henta töluvert betur til veikinda-áhorfs, og núna ákvað ég að horfa á myndina Cobra, hrottafengna eitísmynd með Sylvester Stallone í aðalhlutverki.

Söguþráður myndarinnar er einfaldur. Stallone leikur löggu, Marion Cobretti, sem berst við kaldrifjað glæpagengi sem virðist fremja morð sér til skemmtunar. 80 mínútum af blóðsúthellingum síðar er myndin búin. Ekki sérlega flókið?

Þegar myndin var hálfnuð fór ég hinsvegar að sjá hana í áður óþekktu ljósi. Cobra er nefnilega ekki bara týpískur thriller frá níunda áratugnum, heldur einskonar Ameríkuvædd útfærsla á ítölskum giallo-myndum og systurflokki þeirra, ítölsku harðhausalöggumyndunum („poliziotteschi“), en þessar stefnur áttu sitt blómaskeið á árunum 1970 til 1985. Margir gætu verið mótfallnir árabilinu sem ég nefni hér, en t.d. voru verk Lucio Fulci uppúr 1980 einskonar samblanda af báðum stefnum (myndir eins og The New York Ripper og Murder-Rock).

Löggan sem Stallone leikur er týpísk ítölsk harðhausalögga. Gallabuxur hans eru vel þröngar og girtar upp fyrir mitti. Í munninum geymir hann eldspýtu. Hann starfar í útjaðri ramma laga og reglna, og á meira að segja félaga með sixpensara.

Illmennin, sem eru fleiri en eitt (en löggurnar vita það ekki í upphafi), klæðast grímum (eða nælonsokkabuxum yfir andlitum sínum) og eru í hvítum einnota hönskum (þekkt stef úr fyrrnefndum giallo-myndum). Þau eru í einhverskonar „söfnuði“ (cult) og hafa myrkraverk þeirra tengingu við heimssýn þeirra og hugmyndir um breytt heimsskipulag. Það er svo sem ekki þekkt sem giallo-stef, en þó man ég eftir vafasömum söfnuði úr myndinni All the Colors of the Dark („Tutti i colori del buio“) eftir Sergio Martino, sem myrti fólk með skipulögðum hætti, og gerði hvað sem er til að hylja spor sín.

Kvenpersónan er falleg en hálf ósjálfbjarga. Hún nær að verjast ein síns liðs nógu lengi til að bægja hættunni frá þar til karlhetjan kemur henni til bjargar. Þekkt stef úr hryllingsmyndum, máske ósanngjarnt að eigna giallo-stefnunni það alfarið, en var engu að síður mjög ríkjandi í myndum innan þeirrar hefðar.

Nú gætu margir spurt sig hvort þetta geti ekki átt við nánast allar 80’s hasarmyndir sem til eru, þar sem stefin eru margtuggðar klisjur sem við sjáum jafnvel enn í dag. Það gæti vel verið að samlíking mín sé oftúlkun og hrein tilviljun, en þar kemur kvikmyndagerðin sjálf til sögunnar.

Kvikmyndatakan, lýsingin og klippingin ber mikinn keim af ítölsku hefðinni, og eftir stutt internet-ráf hef ég komist að því að leikstjóri myndarinnar, George P. Cosmatos, er fæddur og uppalinn í Flórens á Ítalíu. Það rennir stoðum undir kenningu mína, og líklega eru áhrifin ekki bara óvart, heldur einmitt viljandi gerð, sem gerir Cobra að giallo-mynd í dulargervi.

Já, það er alveg merkilegt hvað blanda af sýklalyfjum og Íbúfeni getur verið „hugvíkkandi“.