Black Book (Zwartboek) [2006]

Paul Verhoeven er á góðum degi alveg frábær leikstjóri. Myndir hans eru fram úr hófi ofbeldisfullar, kynlíf og nekt er ekkert feimnismál fyrir honum, og hann er frábær satíristi. Hans besta kvikmynd er að mínu mati myndin RoboCop, mynd sem ég fæ hreinlega ekki nóg af því að ausa lofi yfir. Mynd sem enginn annar en nákvæmlega hann hefði getað gert svona frábærlega.

Þessi snarklikkaði Hollendingur byrjaði feril sinn í heimalandinu á áttunda áratugnum en endaði í Hollywood, eins og annar hver evrópskur leikstjóri virðist gera. En ólíkt mörgum evrópskum kollegum sínum, varð Verhoeven aldrei óspennandi samhliða því að verða mainstream. Hann fór ekki út í það að gera tveggja og hálfrar-stjörnu myndir með Harrison Ford í flugvél, heldur hélt hann sínu striki og leikstýrði mörgum af merkilegustu (og sumir vilja meina verstu) kvikmyndum Hollywood, síðustu 25 ár.

Ég hef yfirleitt afskaplega gaman af myndum hans, því að þrátt fyrir ýmsa vankanta (oft á tíðum) eru myndir hans gerðar af sjaldséðri einlægni, og því þótti mér það spennandi að sjá dramatíska mynd frá honum, sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni, og það á hollensku. Paul tjaldar ávallt öllu til. Því skyldi hann ekki gera það nú?

Söguþráður Black Book er í stuttu máli þessi. Hin hundelta gyðingastúlka, Rachel Stein, villir á sér heimildir til að ná til háttsettra manna í þýska hernum, verður ástfangin, og flækist um leið í allskonar baktjaldamakk nasista, jafnt sem andspyrnuhreyfingarinnar. Allir svíkja alla, sumir nasistanna eru verri en sálarlausar skepnur, aðrir eru ekki jafn slæmir og þeir virtust í fyrstu. Voða basic og efni í ágætis stríðsþriller.

Myndin vann til fjölda verðlauna víða um heim, og líkt og með myndir sem eru ekki á enskri tungu, þá hefur það tekið þó nokkurn tíma fyrir myndina að ná alheimsdreifingu. Ég man t.d. ekki eftir því að þessi mynd hafi ratað í íslensk kvikmyndahús, enda hefði ég verið vís til að mæta á frumsýningardegi.

Sjónræn atriði myndarinnar eru leyst af mikilli fagmennsku, enda Verhoeven löngu orðinn þekktur fyrir slíkt, en þó verð ég að lýsa yfir vanþóknun minni á ofnotkun stafrænna litafiltera, eins og sjá má glögglega í fyrstu og seinustu senum myndarinnar. Stúlkan sem leikur aðalhlutverkið, Carice van Houten (tengsl við Milhouse ekki vituð), stendur sig með mikilli prýði. Hún leikur ágætlega, en fyrst og fremst hefur hún mikinn sjarma og bætir hann upp fyrir mögulega vankanta hennar sem leikkonu.

Þar er ég kominn að fyrsta, og mögulega stærsta mínusnum við myndina. Hún er afskaplega illa leikin. Ég veit hreinlega ekki hvort leikurunum sé um að kenna, eða þá að handritið (og þá sérstaklega samtölin) sé mögulega það kauðslega skrifað að jafnvel frambærilegir leikarar skili af sér lélegri frammistöðu (mig grunar reyndar frekar að svo sé), en mikið hlýtur mynd að vera illa leikin þegar maður kemur auga á það, þrátt fyrir að skilja ekki bofs í því tungumáli sem talað er.

Ég hef Verhoeven grunaðan um að vera hreinlega ekki nógu góðan dramatískan leikstjóra. Hann er hárbeittur húmoristi, kann að búa til hasar og sprengjur, jafnvel betur en flestir aðrir, en dramatísku senur myndarinnar eru afskaplega klaufalegar, og á köflum líður áhorfandanum eins og hann sé að horfa á hollenska sápuóperu.

Þegar myndin dettur svo inn í ævintýrafílinginn er hún bærileg, hefði mögulega getað virkað sem slík, en þá hefði hún átt að vera gerð sem slík. Þessi samsuða virkar illa, gerir myndina ótrúverðuga og nánast óþægilega. Þegar öllu er á botninn hvolft er Verhoeven exploitation-leikstjóri, og mann grunar að hans heimavöllur innan stríðsmynda væri frekar Ilsu-geirinn*, eins undarlega og það kann að hljóma.

Ég mæli þó með að aðdáendur leikstjórans sjái þessa mynd, því að ég tel Verhoeven vera í flokki þeirra leikstjóra hverra slæmu myndir hafa samt eitthvað frambærilegt við sig, og geta jafnvel verið jafn skemmtilegar áhorfs og þær vel heppnuðu. Nú er ég alls ekki að tala um „svo vont að það verður fyndið“-flokkinn sígilda, heldur meira að maður njóti höfundareinkennanna, og voni svo að þeir geri mun betur næst.

* Ilsu-geirinn vísar til undirflokks exploitation-mynda sem nefnist „nazisploitation“, og eru þær þekktustu í þeim geira myndirnar um hina illræmdu Ilsu (Ilsa, She Wolf of the SS, verandi sú fyrsta). Myndir af þessu tagi eru ofbeldisfullar pyntingamyndir með ljósbláum kynlífssenum inn á milli, og gerast oftar en ekki í fangabúðum nasista í seinna stríði.

Auglýsingar

3 svör to “Black Book (Zwartboek) [2006]”

  1. Jói Hermanns Says:

    Ég er mjög ánægður með að þú sért farinn að blogga aftur. Stattu þig gæðingur.

  2. Ég er ekki viss um að ég sé sammála þér um Robocop. Mér finnst Basic Instinct betri. Hún eldist merkilega vel.

  3. Basic Instinct er ljómandi fín.

    RoboCop myndi ég ganga svo langt að setja inn á topp 5 listann minn fyrir 80-89. Finnst hún alltaf betri með hverju áhorfi. Húmorinn sauðsvartur. Einskonar ádeila á 80’s uppastemninguna, Reaganismann, yfirborðskenndina og geðveikina sem einkenndi þann áratug í Bandaríkjunum. Auðvelt að gera í dag, en öllu erfiðara að gera í hringiðunni, á þeim tíma. Ég held því allavega fram. Og að gera það svona spot on. Almáttugur!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: