Moon [2009]

Það er frekar erfitt að ætla að skrifa greinargerð um kvikmyndina Moon án þess að skemma hana algjörlega fyrir þeim sem ekki hafa séð hana. Ég mun þó gera mitt besta.

Moon er fyrsta kvikmynd breska leikstjórans Duncan Jones, en hann er sonur popparans Dawid Bowie, hvorki meira né minna.

Sam Rockwell leikur Sam Bell, geimfara sem hefur eytt seinustu þremur árum aleinn á tunglinu, þar sem hann mannar geimstöð og viðheldur tæknibúnaði sem framleiðir orku til notkunar á jörðu niðri. Sam er orðinn ansi tæpur eftir vistina og talar mikið við sjálfan sig og fer að sjá ofsjónir, en einangrunin og fjarlægðin frá fjölskyldu hans reynast honum mjög erfið. Eini félagsskapur geimfarans er talandi tölva að nafni GERTY, sem talar með rödd Kevin Spacey, og tjáir tilfinningar sínar með mismunandi brosköllum (líkt og þeim sem við þekkjum t.d. úr MSN-forritinu). Tveimur vikum fyrir brottför sína frá tunglinu verður einbeitingarskortur geimfarans (og ofsjónir) til þess að hann lendir í slysi, og hrindir um leið af stað þeirri atburðarás sem nánast öll myndin er.

Moon er glæsileg mynd að mörgu leyti. Sviðsmyndirnar eru minimalískar og flottar, landslag tunglsins er raunverulegt, og öll þau tæki og tól sem prýða geimstöðina eru sannfærandi. Þannig skapar leikstjórinn einhverskonar gerviveröld sem maður trúir fullkomlega, sem er að sjálfsögðu ein af helstu forsendum þess að myndin gangi upp.

Sam Rockwell er öflugur leikari, og rokkar til og frá í skemmtilegum blæbrigðum ofleiks og undirleiks. Í raun ekkert út á hann að setja. Það segir kannski meira en mörg orð að leikari sem er einn í mynd, nánast allan tímann, nái að halda áhorfandanum við efnið.

Samanburður við aðrar geimfantasíur er óhjákvæmileg. Ég gæti talið upp fullt af vísunum, meðvitaðar jafnt sem ómeðvitaðar, í myndir á borð við 2001 hans Kubrick, Solaris eftir Tarkovsky, og jafnvel út í Alien hans Ridley Scott. Moon kemur ágætlega frá þeim samanburði, gerir sig aldrei seka um að stæla, og er í raun jafn ólík þessum myndum og þær eru sjálfar innbyrðis.

Ég held að það sem muni á endanum verða til þess að Moon nær aldrei þeim stalli sem þessar myndir hafa komist á, sé það hversu klippt og skorin hún er. Hún byrjar sem einhverskonar vísir að hægri sci-fi fantasíu, geðsturlun í geimnum, en breytist síðan hægt og rólega í sálfræði spennuþriller. Tempóið verður hraðara, sagan verður skýrari, og öllum stykkjum púsluspilsins er komið fyrir á sínum stað áður en myndin rennur sitt skeið. Á köflum verður púsluspilið meira að segja fyrirsjáanlegt, og þrátt fyrir sniðuga sögu, þá fannst mér ég oft vera tíu mínútum á undan myndinni.

Það hefur nú seint talið af hinu slæma þegar kvikmyndir hafa skýran söguþráð, og fara ekki út í of miklar málalengingar til að segja söguna. Það er þó spurning hvort það hefði ekki hentað Moon betur að vera eilítið óræðari. Fókusa meira á aðdraganda atburðanna, einveru geimfarans, hugrenningar hans og ofsjónir. Lengja hana jafnvel um hálftíma eða svo. Það er eitthvað virkilega drungalegt og dularfullt við geiminn, þó það sé ekki lengra en bara til tunglsins. Maður sem er aleinn á tunglinu…..ef það er ekki efniviður þá veit ég ekki hvað er það.

Einnig fór það svolítið illa ofan í mig þessi þörf leikstjórans (sem er handritshöfundur myndarinnar einnig) fyrir að hnýta saman alla lausa enda, og skilja lítið sem ekkert eftir fyrir mig til að fabúlera yfir. Við viljum hafa geiminn svolítið kaótískan og ofar mannlegum skilningi, er það ekki?

Tónlist myndarinnar var upp og ofan. Aldrei gerðist það að hún væri virkilega órjúfanlegur hluti af atriði, heldur surgaði hún meira í bakgrunninum, og í raun alveg eins mátt minnka hana til muna. Titlasenan í upphafi myndar var einnig misheppnuð. Sá tími sem fer í að sýna okkur aðstæður á tunglinu og inni í geimstöðinni, er truflaður af stíliseruðum upphafstitlum, líkt og um auglýsingu væri að ræða. Tilgangslaust.

Mér finnst ég í raun hafa fókuserað aðallega á hið neikvæða í þessum pistli. Það er kannski ósanngjarnt, því að Moon er prýðileg mynd, þrátt fyrir allt saman. Ég er bara vonsvikinn yfir því að hún sé ekki instant-klassík, eins og veggspjaldið gaf til kynna. Hún er samt örugg um költ-status eftir nokkur ár, ef hún er þá ekki orðin það nú þegar. Ég hlakka til að sjá hana aftur, sem og önnur verk höfundarins í framtíðinni, því að sem fyrsta mynd listamanns er Moon skrambi frambærileg.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: