The Hurt Locker [2009]

The Hurt Locker er að hirða flest gagnrýnendaverðlaun í Bandaríkjunum um þessar mundir, og líklegt er að myndin verði áberandi í Óskarsverðlaunaslagnum í ár. Myndin segir frá sérsveit sprengjusérfræðinga Bandaríkjahers í Írak og daglegu lífi þeirra, sem gengur út á að finna og aftengja sprengjur við verstu mögulegu aðstæður. Aðalsöguhetjan, William James, veldur félögum sínum sífelldu hugarangri sökum fífldirfsku sinnar, en hann er sá sem sér um að aftengja sjálfar sprengjurnar. Ég er mótfallinn því að tíunda söguþráð mynda sem ég fjalla um meira en ég mögulega þarf, og hyggst því láta staðar numið.

Leikstýra myndarinnar, Kathryn Bigelow, á nærri 30 ára feril að baki sem kvikmyndagerðarmaður. Hún gerði hinar klassísku Point Break og Strange Days, hressar myndir sem hafa mögulega elst illa. Seinasta mynd hennar á undan The Hurt Locker var hin þrælmisheppnaða K-19: The Widowmaker, þar sem þeir Harrison Ford og Ingvar E. Sigurðsson hjökkuðu í hvors annars leiðindum í kafbát í næstum tvo og hálfan tíma. The Hurt Locker virðist vera myndin sem skýtur Bigelow endanlega á kortið sem alvöru kvikmyndagerðarmaður, og það er hreint ekki óverðskuldað, þrátt fyrir að ég sé ósammála þeim sem lofa myndina hvað mest.

Myndin er afskaplega spennandi fyrir það fyrsta. Samspil myndatöku, klippingar og góðrar frammistöðu leikara skapa óþægilegt andrúmsloft, og hvort sem það er rétt eða ekki, þá getur maður ímyndað sér að svona sé Írak.

Myndin segir í raun ekki eina heilsteypta sögu, heldur margar litlar sögur af störfum hermannana. Skiptist myndin þannig í margar smærri einingar, og senurnar eru misjafnar, en þó er engin þeirra léleg eða óspennandi. Mest spennandi hluti myndarinnar er sá hluti þegar herdeildin hittir fyrir hóp breskra hermanna og lenda í langri og erfiðri fyrirsát, með tilheyrandi leyniskyttu-actioni. Á þeim tímapunkti var ég að því kominn að naga neglur mínar niður í kviku, og þar liggur helsti styrkur leikstjórans, hún er gífurlega flink í að skapa taugatrekkjandi spennu hjá áhorfandanum.

The Hurt Locker er góð kvikmynd, á því liggur enginn vafi, en hversu góð er hún? Kannski þyrfti ég að vera Bandaríkjamaður til að skilja hæpið betur, ég veit það ekki, en samt efast ég um það. Á meðan gagnrýnendur tala um myndina eins og Apocalypse Now eða Platoon, þá sé ég hana frekar eins og aðra Víetnam-mynd sem er ekki nærri jafn klassísk, Casualties of War eftir Brian De Palma. Virkilega góð mynd, en herslumuninn vantar til að hún geti talist jafn merkileg og Víetnam-risarnir. Kannski græðir The Hurt Locker á því að Íraks-risana vantar. Það er ekki til mynd um Íraksstríðið af sama kaliberi og bestu Víetnam-myndirnar og bestu WW2-myndirnar, og því verður The Hurt Locker að duga í bili.

En í hverju felst þessi herslumunur? Því verður ekki auðsvarað, og líkur eru á að þú, lesandi góður, finnist ég vera farinn að ganga full langt í snobbinu, og af ásetningi vera farinn að finna minnstu vankanta góðra kvikmynda til þess eins að upphefja sjálfan mig á þeirra kostnað.

Kannski var það tilfinningasnauði „fluga á vegg“-stíllinn sem truflaði mig. Nei, samt ekki. Ég kunni t.d. ákaflega vel við það að myndin reyndi aldrei að troða ofan í mig einhverjum beiskum boðskap um það að stríð sé vont. Redacted, önnur mynd eftir De Palma, gerði það t.d. og var það henni að falli. Samt snerti sú mynd mig á einhvern hátt meira en The Hurt Locker. Mögulega er það vegna þess að ég tilbið jörðina sem De Palma gengur á, en nei. Líklega var það experimental kvikmyndagerðin sem heillaði mig þar. Svo fór ég líka að grenja yfir henni.

Ég held ég þurfi einfaldlega að melta The Hurt Locker aðeins lengur. Góð mynd og vel gerð, en kannski þarf ég að sjá hana aftur. Annað hvort til þess að kunna að meta hana 100%, eða til þess að staðfesta grunsemdir mínar um það að mögulega sé hún……tjah, pínulítið ofmetin?

Auglýsingar

5 svör to “The Hurt Locker [2009]”

 1. Mér fannst Hurt Locker ákaflega góð, en ég er sammála þér að hún er of hæpuð. Mér fannst reyndar mjög töff að kynna til sögunnar tvær stjörnur og drepa þær báðar 1 mínútu seinna.

  Þetta er samt klárlega besta íraksstríðsmyndin to date.

  Ég horfði the Messenger í fyrradag. Hún er ein af þessum myndum sem hafa verið að poppa upp á ársendalistum vestra. Hún er nokkuð góð. Woody Harrelson aldrei verið betri.

 2. Annars er Hurt Locker efst á metacritic.com yfir myndir frá 2009.

 3. Já ég þarf að tékka á Messenger. Er núna í því að vinna upp myndir sem fóru framhjá mér á síðasta ári.

  Mæli líka með Redacted-áhorfi. Ekki vegna gæða hennar heldur vegna þess hvað hún er spes. De Palma er sífellt að reyna eitthvað nýtt (finnst mér). Það heppnast auðvitað misvel, en þó skárra en að hjakka í sama farinu.

 4. Atli Jarl Martin Says:

  Hún kom mér einmitt á óvart hvað „söguþráðinn“ eða réttara sagt, vöntun hans varðaði og því voru það karakterar og hendingar myndarinnar sem voru fyrir mér aðalatriðið. Margt óhugnalegt sem myndin nær að koma til skila, s.s. óvissan sem þessir menn sem þarna starfa og herja búa við, en það er ekki nokkur leið fyrir þá að vita hver er vinur eða óvinur og hvenær þeir eiga von á að lenda í skærum. Þess vegna var ég þrælspenntur alla myndina.

  Ég er líka sammála því að hún sé hype’uð, því þetta er svosem ekkert meistaraverk, en þetta er ansi góð mynd. Mér fannst svo K-19 alveg ágæt, en það held ég að orsakist af því að mér finnst Das Boot besta…ne..LANGbesta stríðsmynd allra tíma.

 5. K-19 er eina kafbátamyndin sem ég hef séð sem mér hefur þótt léleg. U-571 var ekkert spes heldur. Das Boot, Red October, Crimson Tide, Destination: Tokyo, Run Silent, Run Deep……….ég elska þetta stöff!

  En já, ég mæli alveg með Hurt Locker sko. Þessi sniper-sena er atriði ársins!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: