Up in the Air [2009]

George Clooney leikur Ryan Bingham, mann sem vinnur við það að ferðast um Bandaríkin þver og endilöng, og tilkynna fólki (í nafni fyrirtækja sem þau starfa hjá) að þeim hafi verið sagt upp. Einhverskonar þjónusta (sem ég efast nú um að sé til í alvörunni) fyrir yfirmenn fyrirtækja sem nenna ekki að standa í því sjálfir að reka fólk. Bingham er að heiman 90% af árinu og hann elskar vinnuna sína. Hann fær að ferðast út um allt, hann gistir á fínum hótelum, hann flýgur daglega á fyrsta farrými og safnar vildarpunktum sem hann veit ekkert hvað hann ætlar að gera við.

Up in the Air er þriðja mynd leikstjórans Jason Reitman (hinar tvær verandi Thank You For Smoking og Juno) og er að mínu mati hans langbesta mynd til þessa. George Clooney skilar skotheldum leik sem hinn yfirborðskenndi Bingham sem er ófær um að elska nokkurn hlut nema sjálfan sig. Sem er í sjálfu sér margtugginn söguþráður, en á honum eru margir vinklar sem hægt er að leika sér með.

Í rauninni er persóna Clooney eins og miðaldra unglingur. Maður sem neitar að hægja á sér sökum hræðslu við að gróa fastur, og kýs þess í stað að neita sér um eðlileg samskipti við fjölskyldu sína, hitt kynið, og á enga alvöru vini. „Að þekkja mig er að fljúga með mér“, segir hann í myndinni, og hittir þar naglann á höfuðið. En hvað gerist svo þegar hann fer að finna fyrir óþekktum tilfinningum eins og það að verða ástfanginn?

Up in the Air er mynd af gamla skólanum. Mynd sem ég get auðveldlega ímyndað mér í leikstjórn Billy Wilder á 6. eða 7. áratugnum, og þá líklega með Jack Lemmon í aðalhlutverki. Ég er að sjálfsögðu að vísa beint í The Apartment, en eitthvað við Up in the Air minnti mig á hana.

Og þess vegna svínvirkar það að setja George Clooney í aðalhlutverkið. Clooney er leikari af gamla skólanum. Mér dettur í hug Cary Grant, Jimmy Stewart, já eða Dean Martin. Fjölhæfur leikari, en oft er nóg fyrir hann að leika bara George Clooney í jakkafötum og glottandi út í annað.

Ég var gífurlega hrifinn af þessari mynd. Ólíkt því sem ég er vanur, þá ætla ég aðeins að nefna eitt sem angraði mig við áhorfið. Í seinni helmingi myndarinnar koma þrjú atriði með stuttu millibili sem eru montage-senur* með einhverju hipstera-trúbadoragauli undir (tók t.d. eftir Elliott Smith-lagi í einni senunni). Soldið svona Juno/Wes Anderson og orðið voða þreytt, og í sumum tilfellum svolítið cheap aðferð til að skapa tilfinningar, í stað þess að skapa þær með nokkrum litlum senum. Eitt svona atriði hefði ekki endilega komið að sök, en þrjú í röð? Kommon!

Burt séð frá því, Up in the Air er mögulega mynd ársins fyrir mér. Allavega í topp 3. Rómantísk, fyndin, falleg og sorgleg. Til hamingju með það Jason Reitman, þú hárprúði föðurbetrungur.

*Montage-senur eru hálfgerð tónlistarmyndbönd, notuð í kvikmyndum til að sýna framþróun einhvers á sem stystum tíma. T.d. þjálfun fyrir íþróttaviðburð, nördastelpu breytt í kynbombu, vinátta að breytast í ást, vöðvabúnt að setja saman vopn og klæða sig upp fyrir lokauppgjörið o.s.frv. Oftast er lag undir senunni sem fær að rúlla frá upphafi til enda.

Auglýsingar

5 svör to “Up in the Air [2009]”

 1. Mynd ársins með þrjú yfirborðskennd og cheap montage? Nei, andskotinn.

 2. Það er víst ekki árið 1975 lengur.
  Fólk kann ekki að búa til jafn gott bíó og í þá daga, þannig að já…….mynd ársins fyrir mér (enn sem komið er……er að vinna í þessu) þrátt fyrir þennan leiðinlega mínus.

 3. Já, ég er sammál mörgu. Mér fannst þetta mjög góð mynd. Horfði á hana sömu helgi og Hurt Locker og The Messenger, sem er önnur mynd sem er talin upp meðal þeirra betri á árinu; og mér fannst þessi standa upp úr.

  Hún er bara merkilega mannleg einhvernveginn, þó stefið sé endurtekið. Clooney selur hlutverið fullkomlega. Sé ekki fyrir mér að margir leikarar hefðu geta stigið í hans skó hér. Það hefði orðið allt önnur mynd. Og Reitman er klárlega leikstjóri til að fylgjast með.

  Annars á ég bara eftir að sjá Crazy Horse til að þykjast fær um að setja saman hvað mér fannst best á síðasta ári. Ég bíð spenntur eftir henni.

 4. Þú ert líklega að tala um Crazy Heart. Já, mig langar að sjá hana líka. Þó hún fjalli um kántrí :p

  Bjútíið við Clooney finnst mér hvað hann er áreynslulaus. Flestir leikarar sem maður telur góða í seinni tíð eru method-leikarar. Oft á tíðum mjög flashy að leika löggu, leika bófa, leika þroskaheftan mann, leika frægan mann úr mannkynssögunni o.s.frv.

  Sean Penn er gott dæmi. Einn sá allra besti af þessari kynslóð, en akkúrat á hinum pólnum við Clooney. Þess vegna er Clooney aldrei að fara að komast á einhverja topplista yfir bestu leikara samtímans (hvað þá sögunnar). „Æ hann er alltaf voða svipaður“, sem er hálfur sannleikur, en í þessu tilfelli ekki slæmt (að mínu mati).

 5. Nei, ég var að meina að ég bíð eftir flösku af Crazy Horse viskí… þá get ég farið að raða þessu saman…

  Auðvitað er ég að tala um Crazy Heart.

  En já, nokkuð sammála þessu með Clooney, hlutverkið hentar honum einfaldlega mjög vel, enda held ég að það hafi verið skrifað með hann í huga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: