Precious [2009]

Í heild sinni er titill myndarinnar Precious: Based on the Novel „Push“ by Sapphire, en þar sem það er alltof langt og kjánalegt mun ég kalla myndina Precious. Þessi mynd er semsagt byggð á skáldsögu, og viti menn, hún heitir Push og er eftir konu sem kallar sig Sapphire. Bókin var gefin út árið 1996 og hlaut mikið umtal, en bókin segir harmsögu ungrar blökkustúlku sem gengur í gegnum meiri mannraunir en flest okkar hafa ímyndunarafl í að geta sér til um. Ég hef ekki lesið bókina en ég lét verða af því að horfa á þessa mynd, enda eru töluverðar líkur á því að hún muni fá eitthvað af tilnefningum til Óskarsverðlauna í febrúarmánuði.

Myndin fjallar um hina 16 ára gömlu Claireece „Precious“ Jones, sem býr í Harlem-hverfi New York-borgar ásamt móður sinni. Claireece var misnotuð frá þriggja ára aldri af föður sínum, og gengur nú með barn hans undir belti, barn númer tvö í röðinni. Frumburðurinn er með Downs-heilkenni og býr hjá langömmunni. Móðir Claireece er aumingi og skíthæll af verstu sort. Hún fer ekki útúr húsi nema til að sækja bæturnar sínar, og beitir Claireece grófu andlegu, líkamlegu, já og kynferðislegu ofbeldi. Claireece er ólæs, óhugnanlega feitlagin, og lifir vægast sagt ömurlegu lífi. Dag einn skráir hún sig í sérkennsluskóla fyrir vandræðaunglinga og verður það til þess að líf hennar breytist hægt og bítandi.

Af og til verða til nýyrði sem almenningur tekur ástfóstri við og ofnotar þar til orðin tapa upprunalegu merkingu sinni. Ég kýs yfirleitt að forðast notkun þessara orða, en geri þó undantekningar. Tilfinningaklám er eitt þessara orða, og má segja að það hæfi myndinni vel. Sagan er í grunninn svo hrikalega melódramatísk að það er nánast óhjákvæmilegt að myndin losni undan þeim örlögum. Ég skal þó gefa henni prik fyrir það að hún hefði vissulega getað gengið enn lengra í tilfinningalegri stýringu, en gengur þó ansi langt.

Móðirin er svo ofsalega vond, og aðstæðurnar eru svo hryllilegar að auðvitað finnur maður til samúðar með stúlkunni. Maður er bókstaflega neyddur til þess. Að horfa á svona kvikmyndir er svipað og þegar maður les dóma yfir hrikalegustu ofbeldisglæpamönnum sem til eru. Öll smáatriði fá að vera með, og eina ástæðan fyrir því að maður situr ósköpin til enda er þörfin fyrir að sjá kvalarann fá sína refsingu. Maður þráir réttlæti fyrir hönd fórnarlambsins, og að sjálfsögðu fær maður það eiginlega alltaf. Þá er ég að tala um kvikmyndirnar. Raunveruleikinn er oft ekki jafn einfaldur.

Og þetta er nákvæmlega það sem mætti kalla tilfinningaklám. Í stað þess að láta smáatriðin liggja milli hluta, gefa þau mögulega óljóst í skyn, og leyfa áhorfandanum að upplifa sínar eigin tilfinningar, er samúðinni og meðaumkuninni þröngvað upp á mann, svo maður á engrar undankomu auðið. Og þess vegna er vonlaust að ætla að gera svona myndir vel. Það hefur allavega sjaldan heppnast. The Color Purple virkaði vegna þess að hún var krydduð kómík, ástarsögu, smá vonarglætu, en Precious gefur sér engan tíma fyrir slíkt. Myndin rekur ofan í mann hvert óhræsis hörmungaratriðið á fætur öðru, svo manni langi nú alveg örugglega aldrei til þess að sjá myndina aftur.

Mikið hefur verið fjallað um frammistöðu leikara myndarinnar, og í þeirri deild fær maður vissulega að sjá frábæra frammistöðu hjá flestum. Gamanleikkonan Mo’Nique hefur fengið hvað mest lof, en hún leikur hina hræðilegu móður Claireece. Hún gerir það vissulega nokkuð vel, en ég er reyndar á því að það sé ekkert rosalegt afrek að leika illmenni sem er svona gjörsamlega yfir strikinu allan tímann. Ég ætla þó ekki að níða hana fyrir leikinn, því hann er vissulega góður. Aðalleikkonan, Gabourey Sidibe, er fallbyssa myndarinnar. Límið sem heldur henni saman. Þessi unga leikkona sýnir stórleik, hvað svo sem mér kann að þykja um myndina. Mariah Carey kom mér á óvart í litlu hlutverki félagsráðgjafa, og einnig má sjá sjálfum Lenny Kravitz bregða fyrir í örhlutverki.

Í raun var aldrei möguleiki á að myndin gæti hrifið mig neitt sérstaklega. Til þess held ég að bókin sé einfaldlega of léleg. Of mikið melódrama. Of mikið Oprah Winfrey. En leikhópurinn hélt mér við efnið, ásamt hefndarþorsta fyrir hönd aðalpersónunnar. Ég var eiginlega að vona að móðir hennar fengi glóandi heitan Rambóhníf upp í klofið á sér í lokin, en að sjálfsögðu gerðist það ekki.

Auglýsingar

2 svör to “Precious [2009]”

  1. Já, veistu? Það er dálítið síðan ég ákvað að sneiða algerlega framhjá þessari.

  2. Sá Logan’s run frá 1976 í gær. Ef þú þekkir ekki, þá must see.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: