Sarpur fyrir mars, 2010

No Such Thing [2001]

Posted in Gagnrýni on 24.3.2010 by snobbhaensn

Hvað eiga þau Helen Mirren, Helgi Björns, Julie Christie og Bessi Bjarnason sameiginlegt? Jú, fyrir utan það að vera öll (eða hafa verið) leikarar, þá léku þau öll í kvikmyndinni No Such Thing fyrir tæpum áratug. Líkur eru á að þú, lesandi góður, komir af fjöllum þegar á þessa mynd er minnst, en hún hvarf fljótlega af radarnum eftir að hún var frumsýnd, og er vissulega ekki allra.

Söguþráður myndarinnar er í stuttu máli þessi. Beatrice (leikin af Sarah Polley) er starfsmaður dagblaðs í New York-borg sem fær dag einn hljóðupptöku frá skrímsli (já skrímsli) sem játar það að hafa orðið unnusta hennar, og tveimur öðrum, að bana. Skrímslið er búsett á Íslandi, en hið látna þríeyki hafði ferðast þangað til að rannsaka skrímslið nánar. Beatrice er send til Íslands til að hafa uppi á skrímslinu en lendir í því að flugvélin steypist í hafið á leiðinni, og er Beatrice sú eina sem kemst lífs af. Hún er háfuð upp úr hafinu af nokkrum fiskimönnum (Bessa Bjarnasyni og co.) og flutt til Reykjavíkur. Þar gengst hún undir mikla endurhæfingu, lærir að ganga á nýjan leik, og fer svo út í óbyggðir Íslands til að hafa uppi á skrímslinu.

Já, þetta er plottið í stuttu máli, og ég er ekkert að spauga.

Auðvitað er myndin ekki góð. Söguþráðurinn er það absúrd að ég þurfti að setja mig í sérstakar stellingar til að meðtaka það sem var að gerast. Og það er í raun það sem kom mér í gegnum myndina á enda. Hversu undarleg hún er, og svo að sjálfsögðu Íslands-vinkillinn, en einkar gaman er fyrir Íslendinga að geta staldrað við og hugsað: „Nú er ég að horfa á skrímsli þjarma að Helga Björns“, eða: „Þarna er Margrét Ákadóttir að tala bændaensku við Helen Mirren“. Mjög spes.

Hvað allir þessir leikarar eru að gera í myndinni er í raun mjög sérstakt. Handritið er skelfilegt, og ég taldi a.m.k. tvo Óskarsverðlaunaleikara sem hafa látið draga sig út í vætuna og kuldann hingað til Íslands til að leika á móti skrímsli og Birni Jörundi. Hal Hartley, leikstjóri myndarinnar, er arthouse költ-hetja frá New York sem ég hef þó aldrei séð mynd eftir. Mér skilst þó að þessi sé ein af hans verstu, þannig að mögulega á ég eftir að skoða hann eitthvað nánar.

Að sjálfsögðu endar myndin í hinni klassísku „Hverjir eru skrímslin í raun og veru?“-pælingu. Allt gott og blessað, ef myndin væri ekki svona léleg. En eins og ég segi, skemmtilegt áhorf fyrir forvitna Íslandsperverta. Myndin er að mestu leyti tekin upp hér, Friðrik Þór er meðframleiðandi (og Francis Ford Coppola!), og fullt af íslenskum leikurum í misstórum (og misgóðum) hlutverkum.

Auglýsingar

Capitalism: A Love Story [2009]

Posted in Gagnrýni on 24.3.2010 by snobbhaensn

Vafalaust eru margir orðnir langþreyttir á rausinu í Michael Moore. Ég er ekki einn af þeim. Þrátt fyrir að hann hafi haldið sig á kunnuglegum slóðum frá upphafi hef ég alltaf gaman af myndunum hans. Ég ætla ekki að slengja fram „þrátt fyrir að ég sé ekki alltaf sammála honum“, því það væri einfaldlega ekki rétt. Ég held ég sé nærri undantekningarlaust sammála honum. Þetta játa ég fúslega.

Aftur á móti er stöðugt þráttað um það hvort myndir hans séu heimildarmyndir eða áróðursmyndir. Og margir sem eru á þeirri skoðun að þær séu áróðursmyndir spyrja sig gjarnan að því hvort tilgangurinn helgi meðalið. Nýjasta mynd hans, Capitalism: A Love Story, fjallar um hin kapitalísku öfl sem ráða ríkjum í Bandaríkjunum, og hvernig þeir ríku halda áfram að sanka að sér auðæfum á kostnað hinna snauðu.

Nú er hætt við að þeir sem eru á öndverðum meiði við öfgakenndar skoðanir Moore muni aldrei nenna að sjá myndina, og sjái þeir hana, er líklegt að þeim finnist hún jafn pirrandi og vessandi blaðra á hæl. En þegar öllu er á botninn hvolft þá kann Moore að taka „áróður“ sinn og pakka honum inn í neytendavænan pakka, kómískan og tragískan, og til þess kann hann mörg trix. Að sjálfsögðu er það undir áhorfandanum komið hvort hann sé móttækilegur fyrir boðskapnum, en mér þótti t.a.m. mjög athyglisvert að sjá brauðverksmiðjuna þar sem starfsmenn á færibandi voru einnig eigendur verksmiðjunnar, hvernig stór fyrirtæki og bankar hagnast á því með beinum hætti þegar starfsmenn þeirra geispa golunni, og einkar sláandi þótti mér að heyra að flugmenn geti jafnvel verið með lægri laun en Falafel-sali úti á götu. Fólki er síðan í sjálfsvald sett hvort það kjósi að lesa sér nánar til um réttmæti staðhæfinga Moore, eða trúi honum blint.

Helsti löstur myndarinnar er lengd hennar. Ég var persónulega ekki orðinn órólegur, en ætli Michael Moore sér að breiða út boðskapinn til sem flestra ætti hann að íhuga þann möguleika að hugsanlega megi finna kafla hér og þar sem mætti fórna. Einnig fannst mér kristilegi/kaþólski vinkillinn undarlegur og ekki koma málinu við. Hvað myndi Guði finnast um kapítalisma? Hverjum er ekki sama?

Það merkilegasta við myndina er síðan magnað myndskeið frá árinu 1944 af Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta sem var talið hafa glatast. Myndskeiðið sýnir forsetann ávarpa þjóðina og kynna henni hugmyndir sínar um svokallað „second bill of rights“ sem hann náði þó aldrei að hrinda í framkvæmd sökum heilsufars (og andláts skömmu síðar). Hingað til hafa bara heyrst hljóðbútar af ræðunni, en Moore þefaði myndskeiðið uppi, og hefur hlotið miklar þakkir fyrir frá þarlendum sagnfræðingum. Jájá, nokkuð vel gert hjá gamla.

Lady Snowblood (Shurayukihime) [1973]

Posted in Gagnrýni on 17.3.2010 by snobbhaensn

Japanskar samúræjamyndir eru óplægður akur fyrir mér. Tilviljun ein réði því að ég ákvað að horfa á þessa mynd, Lady Snowblood, en þegar betur er að gáð er hún fín byrjun fyrir amatör í þessum fræðum. Samkvæmt alfræðiorðabókum internetsins sækir Kill Bill-tvíleikur Quentin Tarantino einna mest í þessa tilteknu mynd, bæði hvað varðar söguþráð, sjónrænan stíl og jafnvel músík.

Söguþráðurinn í stuttu máli er eftirfarandi. Yuki er alin upp af samúræjapresti og líf hennar er fyrirfram skipulagt. Hún fæddist til að hefna móður sinnar og elskhuga hennar, en eftir að harðsvíruð  glæpaklíka myrti elskhugann og nauðgaði móðurinni sór móðirin þess eið að hefna. Því miður náði hún aðeins að slátra einum af fjórum, og var fyrir það sett í steininn til æviloka. Í fangelsinu eðlar hún sig með hverjum sem kærir sig um það til þess að verða þunguð, þannig að ófætt barn hennar geti haldið hefndinni áfram. Dóttirin fæðist, en móðirin lætur lífið í kjölfar fæðingarinnar. Þannig fæddist Yuki, saklaust stúlkubarn sem á að hefna móður sinnar.

Myndin er alveg sturluð. Ofbeldi og blóðsúthellingar eru áberandi, en þó ekki í aðalhlutverki. Sagan er spennandi og myndi alveg ganga án ofbeldisins. En því verður þó ekki neitað að myndin á heima undir hatti exploitation-myndanna, en það þarf nú alls ekki að vera amalegur hattur. Aðalleikkonan, Meiko Kaji, var súperstjarna í Japan, og sló bæði í gegn sem söngkona og sem leikkona. Þarna hoppar hún og skoppar um með samúræjasverð, blóðið spýtist í lítravís og viti menn, nú dauðlangar mig að sjá fleiri samúræjamyndir. Er þetta kannski ekkert samúræjamynd? Það eru allavega sverð í henni. Og japanskir menn sem tala alltaf eins og þeir séu reiðir.

Ef ég gæfi stjörnur fengi þessi fullt hús.