Capitalism: A Love Story [2009]

Vafalaust eru margir orðnir langþreyttir á rausinu í Michael Moore. Ég er ekki einn af þeim. Þrátt fyrir að hann hafi haldið sig á kunnuglegum slóðum frá upphafi hef ég alltaf gaman af myndunum hans. Ég ætla ekki að slengja fram „þrátt fyrir að ég sé ekki alltaf sammála honum“, því það væri einfaldlega ekki rétt. Ég held ég sé nærri undantekningarlaust sammála honum. Þetta játa ég fúslega.

Aftur á móti er stöðugt þráttað um það hvort myndir hans séu heimildarmyndir eða áróðursmyndir. Og margir sem eru á þeirri skoðun að þær séu áróðursmyndir spyrja sig gjarnan að því hvort tilgangurinn helgi meðalið. Nýjasta mynd hans, Capitalism: A Love Story, fjallar um hin kapitalísku öfl sem ráða ríkjum í Bandaríkjunum, og hvernig þeir ríku halda áfram að sanka að sér auðæfum á kostnað hinna snauðu.

Nú er hætt við að þeir sem eru á öndverðum meiði við öfgakenndar skoðanir Moore muni aldrei nenna að sjá myndina, og sjái þeir hana, er líklegt að þeim finnist hún jafn pirrandi og vessandi blaðra á hæl. En þegar öllu er á botninn hvolft þá kann Moore að taka „áróður“ sinn og pakka honum inn í neytendavænan pakka, kómískan og tragískan, og til þess kann hann mörg trix. Að sjálfsögðu er það undir áhorfandanum komið hvort hann sé móttækilegur fyrir boðskapnum, en mér þótti t.a.m. mjög athyglisvert að sjá brauðverksmiðjuna þar sem starfsmenn á færibandi voru einnig eigendur verksmiðjunnar, hvernig stór fyrirtæki og bankar hagnast á því með beinum hætti þegar starfsmenn þeirra geispa golunni, og einkar sláandi þótti mér að heyra að flugmenn geti jafnvel verið með lægri laun en Falafel-sali úti á götu. Fólki er síðan í sjálfsvald sett hvort það kjósi að lesa sér nánar til um réttmæti staðhæfinga Moore, eða trúi honum blint.

Helsti löstur myndarinnar er lengd hennar. Ég var persónulega ekki orðinn órólegur, en ætli Michael Moore sér að breiða út boðskapinn til sem flestra ætti hann að íhuga þann möguleika að hugsanlega megi finna kafla hér og þar sem mætti fórna. Einnig fannst mér kristilegi/kaþólski vinkillinn undarlegur og ekki koma málinu við. Hvað myndi Guði finnast um kapítalisma? Hverjum er ekki sama?

Það merkilegasta við myndina er síðan magnað myndskeið frá árinu 1944 af Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta sem var talið hafa glatast. Myndskeiðið sýnir forsetann ávarpa þjóðina og kynna henni hugmyndir sínar um svokallað „second bill of rights“ sem hann náði þó aldrei að hrinda í framkvæmd sökum heilsufars (og andláts skömmu síðar). Hingað til hafa bara heyrst hljóðbútar af ræðunni, en Moore þefaði myndskeiðið uppi, og hefur hlotið miklar þakkir fyrir frá þarlendum sagnfræðingum. Jájá, nokkuð vel gert hjá gamla.

Auglýsingar

7 svör to “Capitalism: A Love Story [2009]”

 1. bogi Says:

  Mér fannst myndin mögnuð, hún greip mig alveg frá fyrstu mínútu. Spurningin hvort þetta er heimildamynd eða áróðursmynd er orðin frekar þreytt að mínu mati. Þetta er skoðannamynd…. það er höfundur myndar setur fram skoðun sína á líðandi stundu og rökstyður í máli og myndum. Ég á ekki við orðið skoðun í sinni þrengstu mynd eins og viðhorf eða opinion á ensku, heldur skoðun eins og að skoða samfélagið, útfrá sínum ranni.

  Dæmi um myndir sem falla í sama flokk eru nýlegar íslenskar myndir: Draumalandið, og Maybe I should have.

  Ég hef heyrt höfunda þessarra mynda svara gagnrýni um að þeir séu hlutdrægir á þann hátt að mánuðum og jafnvel árum saman sé fólk matað á einlitum fréttum úr öllum fjölmiðlum beint úr spunamaskínum viðfangsefna myndanna. Þessar „upplýsingar“ séu gleyptar hráar og gagnrýnislaust og beinlínis mokað yfir neitendur. Þessar myndir verða aldrei annað en dropi í það haf.

 2. Já, ég skammast mín nú fyrir að segja það, en ég hef ekki séð Draumalandið. Maybe I Should Have….hvernig er hún?

  Meginmunurinn á Moore og öðrum í sama geira er skemmtanagildið…..eins grunnhyggið og það hljómar. The Corporation, Who Killed the Electric Car?, Zeitgeist og hvað þetta allt heitir…..mis-áhugavert (fannst The Corporation t.d. mjög vönduð), en þær lúta í lægra haldi fyrir Moore vegna þess að hann gerir þetta á sinn skemmtilega mainstream máta, á meðan hinar eru kannski svolítið torf fyrir þá sem hafa takmarkað gaman af svona myndum.

  En já, það er kannski bara þörf á nýju nafni yfir svona myndir eins og þú segir. Skoðanamyndir (Skoðunarmyndir væri þá rétta nafnið, ef pælingin er „að skoða“ en ekki „skoðun“) er óþjált. Á máske best við samt…

 3. bogi Says:

  ég mæli hiklaust með Draumalandinu, það er verulegt púður í henni. Væri reyndar gaman að sjá hvernig hún leggst í hænsnið, þar sem hún rambar á fínni línu þess að vera eitthvað lattésnobb eða hippapredikun.. en að mínu mati nær hún að feta þá línu og skila manni innihaldsmikilli úttekt á verulega viðfangsmiklu máli, sem gerðist beint fyrir framan nefið á alþjóð, án þess að fólk almennt tæki eftir því. Eða sá það en vildi/þorði/gat ekki gert neitt í því. Maybe I should have er svo ágætt innlegg í umræðu sem maður er bara búinn að fá upp í kok af. En samt þarft innlegg.

 4. Já mig langar að sjá Draumalandið. Er Andri Snær ekki eitthvað viðriðinn hana? Skrifaði hann ekki bókina? Mér finnst hann svolítið snjall.

 5. Jájá… Mér fannst þessi mynd ágæt. Hún var ekki eins góð og Fahrenheit eða Bowling for Columbine, en sennilega betri en Sicko. Ég hef yfirleitt mjög gaman af Michael Moore. Jafnvel meira gaman en af Roger Moore, sem var þó Simon Templar, sem segir talsvert.

  Hins vegar held ég að þú sért að missa af einhverju með kristindómspunktinum. Það verður að taka með í reikninginn að myndin er fyrst og fremst gerð fyrir Ameríkana, og í Ameríku er þetta hornsteinn samfélagsins. Það er bara vonlaust að ræða við meðalkana um trúmál. Það er þessi hópur sem er verið að ávarpa þarna, ekki einhver Snobbhænsn á Íslandi.

 6. Ágætis punktur. En flaug fyrir ofan höfuðið á mér. Matarboð með Sveini Birki, Michael Moore og Roger Moore? Það gæti verið áhugavert. Svo kæmu Julianne Moore og Mary Tyler Moore seinna um kvöldið, blindfullar með fiðring í brók!

 7. Össs, ekki má gleyma Gary Moore. Hann myndi sjá um dinnertónlistina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: