Sarpur fyrir apríl, 2010

Religulous [2008]

Posted in Gagnrýni on 28.4.2010 by snobbhaensn

Ég hef hingað til verið í hópi þeirra sem finnst Bill Maher óþolandi hrokafullur fáviti. Það var því aldrei neitt sérstaklega líklegt að mér fyndist eitthvað varið í heimildarmyndina hans, Religulous, en í henni ferðast Maher um heiminn og reynir að afhjúpa trúarbrögð sem einhverskonar svindlstarfsemi og/eða geðveilu.

Maher byrjar heima fyrir, spjallar við allskonar fólk í Bandaríkjunum, og varpar fram þeirri spurningu hvernig vel gefið fólk geti trúað á eins fjarstæðukenndan hlut og Biblíuna. Um miðbik myndar færist fókuspunkturinn yfir á Islam, og þær hörmungar sem herskáir Múslimar hafa valdið. Í lokin ávarpar Maher áhorfendur beint og biður þá vinsamlegast um að hætta að stunda trúarbrögð. Til þess að mannkynið eyði ekki sjálfu sér verði það að láta af trúnni. Hljómar egótískt og klikkað, vissulega.

Maher spyr í raun allra þeirra spurninga sem hinn heiðni meðaljón hefur margoft spurt sig. Hvernig getur gáfað fólk trúað á Biblíuna? Ef Guð er almáttugur, af hverju hefur hann ekki fokkað upp Skrattanum fyrir fullt og allt? Er Kristni ekki jafn fjarstæðukennd og kenningar Vísindakirkjunnar? Er það ekki tvískinnungur að hlæja að Vísindakirkjunni en trúa sögunum um Örkina hans Nóa og Adam og Evu og snákinn talandi? Er stjórnmálamönnum sem trúa á slíkt  treystandi til að vera í pólitík yfir höfuð?

Ég var ánægður að sjá Ísland í efsta sæti lista yfir þjóðir sem trúa þróunarkenningunni. Vissulega er það samt skrýtið að trúa þróunarkenningunni en trúa um leið á álfa og tröll í steinum, og hafa ekki ein hjúskaparlög fyrir alla.

Viðmælendur Mahers eru margir hverjir skrautlegir, og hafa eflaust flestir verið valdir vegna skemmtanagildisins og hversu miklir „vitleysingar“ þeir eru. Mér fannst á köflum of mikið af svona vitleysingaviðmælendum, og fékk það á tilfinninguna að trúaður einstaklingur sem sæi myndina myndi auðveldlega geta notfært sér það sem réttlætingu fyrir því að finnast myndin léleg. „Já hann var bara að tala við einhverja vitleysinga, he he“.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er páfinn í Róm alveg sami vitleysingurinn og Suður-ameríski fituhlunkurinn sem heldur að hann sé Jesús Kristur endurfæddur. Munurinn er sá að páfinn hefur milljónir á bak við sig, en Suður-ameríski fituhlunkurinn er bara einhver karlkyns Leoncie sem auðvelt er að hlæja að. Það gerir páfann (og hattinn hans) ekkert minna asnalegan.

Religulous er skemmtileg mynd, það verður ekki frá henni tekið, enda er henni leikstýrt af Larry Charles (Borat, Bruno, Curb Your Enthusiasm ofl.), en það er ekkert sérstaklega mikið kjöt á beinunum. Maher er mikið í því að spyrja sömu spurninganna (sem við öll vitum að þeir sem „trúa“ munu forðast að svara), og hann er mikið í því að skjóta ódýrum skotum. Viðmælendurnir dæma sig nefnilega flestir sjálfir, og því algjör óþarfi að hnippa í áhorfandann og segja „Hey, þessi gæi…..ertu að tékka hvað hann er heimskur?“.

Á köflum varð ég þó að taka viljann fyrir verkið, og Bill Maher er ekki lengur á lista mínum yfir óþolandi fólk sem ég vona að fái blóðniðurgang. Hann er óvitlaus og Religulous er heiðarlegt verk. Niðurstaðan er því ágætis mynd fyrir okkur heiðingjana, en of mikið sprell til að skipta raunverulega einhverju máli.

Auglýsingar

Reykjavík – Rotterdam [2008]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 19.4.2010 by snobbhaensn

Fyrir 10 árum síðan var ég staddur á Hótel Örk í slagtogi með vini mínum, sem var að taka upp einhverja árshátíð á myndbandstökuvél (líklega á Super VHS). Ég var vel við skál, hljómsveitin Í svörtum fötum lék fyrir dansi (gott ef þeir spiluðu ekki Friends-lagið átta sinnum þetta kvöld) og Skari skrípó sýndi töfrabrögð. Þegar fólk var farið að tínast inn á herbergi sín (við gistum þarna uppfrá) ráfaði ég um hótelgangana í leit að okkar herbergi. Á einum ganginum stendur Skari sjálfur og er að pakka töfradótinu sínu niður í töskur. Eins og ölvuðum leiðindasegg sæmir fór ég að sjálfsögðu að tala við hann. Ég veit ekki hvort honum leiddist félagsskapur minn eða ekki (hann feikaði það þá allavega ágætlega) en mér fannst ég tilneyddur til þess að spyrja hann hvenær mætti eiga von á nýrri kvikmynd frá honum. Hann sagði að það gæti liðið talsverður tími þangað til, hann hefði ekki efni á að fjármagna slíkt sjálfur, Kvikmyndasjóður væri nokkuð harður heim að sækja um þær mundir, og hann ætlaði að einbeita sér að töfrabrögðunum um sinn.

Átta árum síðar sendi Óskar frá sér sína næstu kvikmynd, Reykjavík – Rotterdam. Ég verð að viðurkenna það að spennan hafði dvínað umtalsvert eftir nýrri mynd frá leikstjóranum. 90’s-myndirnar hans fannst mér eldast illa, og stiklur úr Reykjavík – Rotterdam bentu til þess að um enn eina misheppnuðu íslensku glæpamyndina væri að ræða („EF ÞÚ KEMUR EKKI MEÐ STÖFFIÐ ÞÁ ERTU DAUÐUR!!!“). Mér lá ekkert á að sjá myndina, en hef nú loksins látið verða af því, eftir að hafa heyrt um hana ágætis hluti.

Baltasar Kormákur leikur Kristófer, fyrrverandi spírasmyglara á skilorði, sem vinnur sem öryggisvörður og á í vandræðum með að ná endum saman fjárhagslega. Þegar leiguíbúð fjölskyldunnar er sett á sölu, og Kristófer sér ekki fram á að geta keypt íbúð í bráð, fær hann sig fullsaddan af brauðstritinu og fellst á það að fara í einn smygltúr til viðbótar. Hann fær pláss sem messagutti á vöruflutningaskipi á leið í 12 daga siglingu til Rotterdam. En áður en langt um líður er Kristófer búinn að skapa sér aðstæður sem óvíst er að hann ráði við. Ég fer ekki nánar út í einstakar söguflækjur og smáatriði, enda er tilgangur bloggs míns ekki sá að endursegja söguþræði kvikmynda í rituðu máli.

Ég vind mér þess í stað beint í það að ausa myndina lofi. Já, Reykjavík – Rotterdam er best heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi. Mögulega eina vel heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi? Það er kannski ósanngjarnt að staðhæfa það. Ég hef ekki séð allar íslenskar spennumyndir sem framleiddar hafa verið, en í flokki spennu-þrillera hlýtur þessi mynd að standa framarlega, eða jafnvel fremst.

Þar vegur skemmtileg og spennandi saga nokkuð þungt. Það er nokkuð grunnt á persónusköpun á heildina litið, en persóna Kristófers er þó undantekning, enda aðalpersóna og fantagóð sem slík. Kristófer fær athyglisverða forsögu, sem og sambúð hans við eiginkonu sína, og öllum mikilvægum atriðum fortíðar er laumað snyrtilega inn í gífurlega vel skrifuð samtöl sem leikarar flytja áreynslulítið. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Baltasar er stórskemmtilegur og fær áhorfandann á sitt band, þrátt fyrir það að hann leiki krimma, en áhorfendur eru jú frekar til í að líta framhjá smygli á spíra heldur en eiturlyfjasmygli. Þó verður maður að spyrja sig hvort eitthvað sé um spírasmygl á Íslandi í dag. Ekki veit ég það. Ingvar E. Sigurðsson er trúverðugur í hlutverki Steingríms, besta vinar Kristófers, og það er gaman að sjá Ingvar loksins leika eitthvað annað en hvunndagshetju með default-svip. Smærri hlutverk eru ekki síðri, og það er nánast sama hvar stikkprufan er tekin, leikhópurinn er sannarlega fyrsta flokks. Já, ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Leikstjórn Óskars er til fyrirmyndar, og ég vona að íslenskir kvikmyndaleikstjórar skikki sjálfa sig til þess að horfa á þessa mynd í hvert sinn sem þeir undirbúa nýja spennumynd. Vandamálið við íslenskar spennumyndir hefur hingað til verið það að þær eru of ýktar. Áhorfandanum er kippt inn í heim sem honum finnst ótrúverðugur, þar sem glæpamenn tala íslensku sem hljómar eins og hún sé beinþýdd úr glæpamyndum Hollywood, blóta allt of mikið, illmennin eru svo ill að maður hefur ekki einu sinni gaman að þeim, kvenhlutverk eru lítil og ómerkileg (einskorðast yfirleitt við að vera undirgefnar hækjur hrottafenginna karlmanna sem berja þær og öskra „HALTU KJAFTI HELVÍTIS MELLAN ÞÍN EÐA ÉG NAUÐGA ÞÉR!!!“ á meðan þær öskra og grenja), og allir virðast bera skotvopn á gervi-Íslandi þar sem ekki einn einasti lögreglumaður er sjáanlegur.

Þrátt fyrir að hafa enga innsýn inn í undirheima Íslands, og varla svo mikið sem yrt á einn einasta stórglæpamann um ævina, þá finnst mér heimur Óskars í þessari mynd trúverðugur. Óskar hefur verið á bremsunni allan tímann, enda hef ég hann grunaðan um að deila skoðunum mínum á íslenskum spennumyndum, allavega að hluta. Tæknileg atriði líkt og myndataka, klipping og hljóð eru leyst fagmannlega og án þess að draga sérstaka athygli að sjálfum sér.

Já, loksins kom að því. Allt í myndinni virkar og allir sem að henni komu eiga heiður skilinn. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Giallo

Posted in Blogg on 8.4.2010 by snobbhaensn

Undanfarið ár eða tvö hef ég sökkt mér ofan í jaðarflokk sem nefnist giallo. „Giallo“ er ítalska og þýðir gulur, en nafngift kvikmyndastefnunnar er dregin af gulum kili ítalskra sakamálareyfara, sem voru undanfari hinna vinsælu giallo-mynda. Giallo-myndir voru að stærstum hluta gerðar á Ítalíu á fyrri hluta áttunda áratug síðustu aldar. Gullöld stefnunnar er á árabilinu 1971 – 1976 og helstu leikstjórar voru þeir Dario Argento, Sergio Martino, Umberto Lenzi og Lucio Fulci.

Það er erfitt að ætla sér að mæla með einhverri einni mynd til þess að byrja á. Hafi áhorfandinn ekki ákveðinn tolerans fyrir evrópskum 70’s hallærislegheitum, eða finnist þau jafnvel sjarmerandi og kúl, má leiða líkur að því að honum þyki flestar giallo-myndir vera óttalegt prump, allavega við fyrstu sýn. Söguþræðirnir eru oftast áþekkir, og flestar giallo-myndir fylgja ákveðinni formúlu sem kann að virðast ofnotuð og þreytt, og ég var ekki búinn að horfa á nema fjórar til fimm giallo-myndir þegar ég var búinn að læra eftirfarandi: Morðinginn er alltaf með svarta eða gulbrúna leðurhanska, aldrei treysta prestum, og morðinginn þarf ekki endilega að hafa komið við sögu áður en hann er afhjúpaður (stundum bara einhver Jói úti í bæ).

Giallo-myndir eru margar hverjar mikið augnakonfekt. Kvikmyndataka og lýsing er mjög oft áberandi (hikar ekki við að draga athyglina að sjálfu sér) og ýkt, og líklega eru það að miklu leyti þessi tæknilegu atriði sem laða mig að greininni. Blóðið er þekjulita-rautt og sjaldan sparað, skuggar eru kolsvartir og aðrir litir jaðra við að vera psychedelic í samsetningu, linsur oft á tíðum kúptar og/eða bjagaðar og maður ímyndar sér daga á daga ofan sem farið hafa í það að nostra við minnstu smáatriði sviðsmyndanna. Leikurinn er sjaldan upp á marga fiska, með undantekningum þó, en það truflar mig þó lítið. Yfirkeyrður visual stíll réttlætir oft yfirkeyrðan leik að mínu mati.

Leikdrottning giallo-myndanna er þokkagyðjan Edwige Fenech. Hún lék í mörgum þekktustu kvikmyndum greinarinnar, og er að mínu mati ein fegursta kona sem gengið hefur á vorri jörð. Ég verð alltaf pínu bitur þegar ég horfi á mótleikara hennar kela við hana, og þarf þá að minna sjálfan mig á að hún er rúmlega sextug í dag.

Ég ætla að ljúka þessari (alltof) stuttu umfjöllun minni á að búa til stuttan lista yfir merkilegar giallo-myndir sem ég hef séð.

Deep Red (Profondo rosso) [1975]

Don’t Torture A Duckling (Non si sevezia un paperino) [1972]

The Bird with the Crystal Plumage (L’ucello dalle piume di cristallo) [1970]

Your Vice Is a Locked Room and Only I Have the Key (Il tuo vizio è una stanza chiusa e solo io ne ho la chiave) [1972]

Black Belly of the Tarantula (La tarantola dal ventre nero) [1971]

Læt staðar numið við fimm myndir, þó vissulega séu þær miklu fleiri.