Reykjavík – Rotterdam [2008]

Fyrir 10 árum síðan var ég staddur á Hótel Örk í slagtogi með vini mínum, sem var að taka upp einhverja árshátíð á myndbandstökuvél (líklega á Super VHS). Ég var vel við skál, hljómsveitin Í svörtum fötum lék fyrir dansi (gott ef þeir spiluðu ekki Friends-lagið átta sinnum þetta kvöld) og Skari skrípó sýndi töfrabrögð. Þegar fólk var farið að tínast inn á herbergi sín (við gistum þarna uppfrá) ráfaði ég um hótelgangana í leit að okkar herbergi. Á einum ganginum stendur Skari sjálfur og er að pakka töfradótinu sínu niður í töskur. Eins og ölvuðum leiðindasegg sæmir fór ég að sjálfsögðu að tala við hann. Ég veit ekki hvort honum leiddist félagsskapur minn eða ekki (hann feikaði það þá allavega ágætlega) en mér fannst ég tilneyddur til þess að spyrja hann hvenær mætti eiga von á nýrri kvikmynd frá honum. Hann sagði að það gæti liðið talsverður tími þangað til, hann hefði ekki efni á að fjármagna slíkt sjálfur, Kvikmyndasjóður væri nokkuð harður heim að sækja um þær mundir, og hann ætlaði að einbeita sér að töfrabrögðunum um sinn.

Átta árum síðar sendi Óskar frá sér sína næstu kvikmynd, Reykjavík – Rotterdam. Ég verð að viðurkenna það að spennan hafði dvínað umtalsvert eftir nýrri mynd frá leikstjóranum. 90’s-myndirnar hans fannst mér eldast illa, og stiklur úr Reykjavík – Rotterdam bentu til þess að um enn eina misheppnuðu íslensku glæpamyndina væri að ræða („EF ÞÚ KEMUR EKKI MEÐ STÖFFIÐ ÞÁ ERTU DAUÐUR!!!“). Mér lá ekkert á að sjá myndina, en hef nú loksins látið verða af því, eftir að hafa heyrt um hana ágætis hluti.

Baltasar Kormákur leikur Kristófer, fyrrverandi spírasmyglara á skilorði, sem vinnur sem öryggisvörður og á í vandræðum með að ná endum saman fjárhagslega. Þegar leiguíbúð fjölskyldunnar er sett á sölu, og Kristófer sér ekki fram á að geta keypt íbúð í bráð, fær hann sig fullsaddan af brauðstritinu og fellst á það að fara í einn smygltúr til viðbótar. Hann fær pláss sem messagutti á vöruflutningaskipi á leið í 12 daga siglingu til Rotterdam. En áður en langt um líður er Kristófer búinn að skapa sér aðstæður sem óvíst er að hann ráði við. Ég fer ekki nánar út í einstakar söguflækjur og smáatriði, enda er tilgangur bloggs míns ekki sá að endursegja söguþræði kvikmynda í rituðu máli.

Ég vind mér þess í stað beint í það að ausa myndina lofi. Já, Reykjavík – Rotterdam er best heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi. Mögulega eina vel heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi? Það er kannski ósanngjarnt að staðhæfa það. Ég hef ekki séð allar íslenskar spennumyndir sem framleiddar hafa verið, en í flokki spennu-þrillera hlýtur þessi mynd að standa framarlega, eða jafnvel fremst.

Þar vegur skemmtileg og spennandi saga nokkuð þungt. Það er nokkuð grunnt á persónusköpun á heildina litið, en persóna Kristófers er þó undantekning, enda aðalpersóna og fantagóð sem slík. Kristófer fær athyglisverða forsögu, sem og sambúð hans við eiginkonu sína, og öllum mikilvægum atriðum fortíðar er laumað snyrtilega inn í gífurlega vel skrifuð samtöl sem leikarar flytja áreynslulítið. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Baltasar er stórskemmtilegur og fær áhorfandann á sitt band, þrátt fyrir það að hann leiki krimma, en áhorfendur eru jú frekar til í að líta framhjá smygli á spíra heldur en eiturlyfjasmygli. Þó verður maður að spyrja sig hvort eitthvað sé um spírasmygl á Íslandi í dag. Ekki veit ég það. Ingvar E. Sigurðsson er trúverðugur í hlutverki Steingríms, besta vinar Kristófers, og það er gaman að sjá Ingvar loksins leika eitthvað annað en hvunndagshetju með default-svip. Smærri hlutverk eru ekki síðri, og það er nánast sama hvar stikkprufan er tekin, leikhópurinn er sannarlega fyrsta flokks. Já, ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Leikstjórn Óskars er til fyrirmyndar, og ég vona að íslenskir kvikmyndaleikstjórar skikki sjálfa sig til þess að horfa á þessa mynd í hvert sinn sem þeir undirbúa nýja spennumynd. Vandamálið við íslenskar spennumyndir hefur hingað til verið það að þær eru of ýktar. Áhorfandanum er kippt inn í heim sem honum finnst ótrúverðugur, þar sem glæpamenn tala íslensku sem hljómar eins og hún sé beinþýdd úr glæpamyndum Hollywood, blóta allt of mikið, illmennin eru svo ill að maður hefur ekki einu sinni gaman að þeim, kvenhlutverk eru lítil og ómerkileg (einskorðast yfirleitt við að vera undirgefnar hækjur hrottafenginna karlmanna sem berja þær og öskra „HALTU KJAFTI HELVÍTIS MELLAN ÞÍN EÐA ÉG NAUÐGA ÞÉR!!!“ á meðan þær öskra og grenja), og allir virðast bera skotvopn á gervi-Íslandi þar sem ekki einn einasti lögreglumaður er sjáanlegur.

Þrátt fyrir að hafa enga innsýn inn í undirheima Íslands, og varla svo mikið sem yrt á einn einasta stórglæpamann um ævina, þá finnst mér heimur Óskars í þessari mynd trúverðugur. Óskar hefur verið á bremsunni allan tímann, enda hef ég hann grunaðan um að deila skoðunum mínum á íslenskum spennumyndum, allavega að hluta. Tæknileg atriði líkt og myndataka, klipping og hljóð eru leyst fagmannlega og án þess að draga sérstaka athygli að sjálfum sér.

Já, loksins kom að því. Allt í myndinni virkar og allir sem að henni komu eiga heiður skilinn. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Auglýsingar

5 svör to “Reykjavík – Rotterdam [2008]”

 1. Atli Fannar Says:

  Thumps up. Ég er sammála hænunni. Það eru svona gæðaskrif sem eru ástæðan fyrir því að þú ert vinsælasti lausapenninn í íslenska götublaðabransanum.

 2. Haha kærar þakkir fyrir það. Verð að reyna að selja Mogganum eða Fbl Snobbhænsnabloggið. Djöfull væri það sweet. Blogga á naríunum daglega um bíó……á launum

 3. Rétt hjá Atla. Þú ert feykigóður penni. Ég sá aldrei þessa mynd. Ég viðurkenni það að þegar ég sá Balta í treilernum þá varð ég sjálfkrafa efins enda þykir mér hann ofmetin kvikmyndaleikari og þá á ég við ofleikinn og hversu „óeðlilega“ hann talar. Enn mér finnst hann drullugóður leikstjóri. Það vantar ekki.
  Hlakka til að horfa á þessa mynd.

 4. Þakka þér einnig fyrir hlýju orðin. Þau gera að sjálfsögðu það að verkum að mér finnst ég verða að blogga oftar, sem ég er ávallt að reyna að gera.

  Ég hef deilt þessari skoðun með þér á honum Balta. Stundum hefur mér þótt hann góður, en oft heillar hann mig lítið.

  Persóna hans í þessari mynd er nokkuð margslungin að mínu mati. Það er alltof oft sem ég horfi á íslenska leikara í íslenskum myndum, og mér er bara nákvæmlega sama um afdrif persónanna. En þarna er einhver neisti. Kannski ekki risastórt bál, en nokkuð öflugur neisti. Og það á við um flesta þætti myndarinnar.

  Ég get ímyndað mér að herslumunurinn sem þarna náðist sé vegna þess að menn (og konur) vissu hvað þeir voru að gera. Oft virðast menn ekki alveg vissir um það, eru útum allar jarðir, og myndirnar verða losaralegar og undarlegar fyrir vikið.

  Íslensk kvikmyndagerð sleit barnsskónum fyrir löngu, en núna er hún vonandi að verða fullorðins.

 5. bogi Says:

  Ég veit ekki hvers vegna þessi mynd hefur flogið jafn lágt og raunin er, því þetta er vægast sagt algjör perla í íslenskri bíóflóru. Hún hefur líka allt með sér eins og þú gerir ágætlega skil hérna, samt er eins og enginn viti af henni. Gott að þú ert að gera þessu nokkur skil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: