Sarpur fyrir maí, 2010

Bjarnfreðarson [2009]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 18.5.2010 by snobbhaensn

Verandi snobbhænsn fer fátt meira í taugarnar á mér en afþreyingartíska pöpulsins, og það sem „slær í gegn“ á yfirleitt lítið erindi við minn smekk. Vinsælar gamanmyndir síðustu ára finnst mér meira og minna sorp. Superbad var ekkert fyndin, The 40-Year-Old Virgin var slöpp, The Hangover var flatneskja út í gegn og ég hafði ekki einu sinni neitt sérstaklega gaman af Tropic Thunder.

Nætur-, Dag- og Fangavaktin voru því síður en svo ofarlega á lista mínum yfir eitthvað sem ég nennti að tékka almennilega á. Fyrir mér var þetta bara Jón Gnarr að vera leiðinlegur (sem er jú oft mjög fyndið) og Pétur Jóhann að segja leiðinlega frasa.

Fyrir nokkrum vikum tók ég viðtal við Jón Gnarr fyrir tímaritið Monitor og mér þótti frekar leiðinlegt hvað ég var lítið inni í þessum vinsælu seríum og ákvað því að horfa á þær allar, og þá sérstaklega til þess að ég gæti horft á lokahnykkinn, kvikmyndina Bjarnfreðarson.

Mér þótti þessir þættir töluvert merkilegri en ég hafði ímyndað mér. Og ef við skiptum þessu í fjögur aðskilin atriði, Næturvaktina, Dagvaktina, Fangavaktina og Bjarnfreðarson, þá kemur í ljós að öll eru þau ólík innbyrðis, þrátt fyrir að innihalda sömu persónur og einhverskonar gegnumgangandi söguþráð. Næturvaktin er lo-fi vandræðalegheitagrín í anda The Office og Curb Your Enthusiasm. Dagvaktin er eiginlega hálfgert drama, kryddað kolsvörtum og mjög evrópskum húmor. Fangavaktin er máske aðgengilegust, meira brosleg en fyndin, og góður undirbúningur fyrir kvikmyndina. Kvikmyndin sjálf er síðan það sem er til umfjöllunar hér.

Bjarnfreðarson segir sögu þrímenninganna Georgs Bjarnfreðarsonar, Daníels og Ólafs Ragnars eftir að Georg losnar úr fimm ára fangelsisvist. Inn á milli atriða úr nútímanum fylgjumst við með uppvaxtarárum Georgs, og í þeim atriðum er Georg túlkaður af nokkrum misgömlum leikurum, en Bjarnfreður fortíðarinnar er leikin af Ágústu Evu Erlendsdóttur. Kvikmyndin eyðir mestu púðri í að útskýra það af hverju Georg er eins og hann er, hvað hefur mótað hann sem einstakling, og hvernig hann reynir að losa sig úr gamla farinu og takast á við lífið utan múranna.

Jón Gnarr sýnir það og sannar að hann er einn af okkar allra bestu leikurum, og auk þess að vera svívirðilega fyndinn glæðir hann Georgi dramatískri dýpt og gerir hann í raun mun áhugaverðari persónu heldur en nokkurn tímann í þáttunum. Þetta er að sjálfsögðu svolítið á kostnað grínsins, en Bjarnfreðarson er ekki jafn fyndin og t.d. Næturvaktin og Fangavaktin. Það kemur þó ekki að sök, því að það er talsvert í myndina spunnið þrátt fyrir að hún haldi gríninu í aukahlutverki.

Aðrir leikarar standa sig mjög vel. Pétur Jóhann er skemmtilegur sem áður, en það er mín tilfinning að Dagvaktin hafi verið serían hans Péturs (Ólafs Ragnars). Í þeirri seríu toppaði hann í leik, og sagan hans er áhugaverðust. Í Bjarnfreðarson er Ólafur Ragnar aftur orðin sú aukapersóna sem hann var í upphafi. „Aukapersóna“ er kannski ekki alveg rétta orðið, en hann hefur yfirleitt verið svona comic-relief, eins undarlega og það kann að hljóma í gamanþáttum. Jörundur er góður í hlutverki Daníels, og er hans persóna ennþá jafn aumkunarverð og hún hefur ávallt verið, en í lokin glittir þó í vonarglætu fyrir hann. Ágústa Eva er góð, sem og minni persónur.

Ég tel það hafa verið rétta ákvörðun að skilja við persónurnar sem fylgdu þeim í Fangavaktinni. Þó vissulega hefði verið gaman að vita hvað varð um Loðfílinn (Ólaf Darra) og Kenneth Mána (Björn Thors) hefði því sennilega verið ofaukið hér. Mér finnst þó vert að taka það fram að snobbhænsnið telur frammistöðu Bjarnar Thors í Fangavaktinni eina þá bestu sem sést hefur í sögu íslenskrar kvikmynda-/sjónvarpsþáttagerðar.

Ég hef nú þann sið að hafa á orði hversu vel heppnuð tæknileg atriði íslenskra mynda eru. Ástæða þess er sú að íslenskar kvikmyndir hafa ekki alltaf verið jafn tæknilega fullkomnar og þær eru að verða í dag. Bjarnfreðarson er fallega tekin, leikmynd og búningar eru fyrsta flokks, og hljóðið er alveg ágætt.

Ég veit ekki hvort ég hefði haft gaman af myndinni hefði ég ekki verið búinn að kynna mér þættina, en Bjarnfreðarson er þrusu mynd, gerð af fagmennsku og listrænum metnaði, og lokar sögunni um Georg Bjarnfreðarson og félaga með glæsibrag. Þeir örfáu vankantar sem hænsnið fann eru tittlingaskítur og verða ekki tíundaðir hér. Tjah, nema einhver biðji um það sérstaklega.

Auglýsingar