Sarpur fyrir ágúst, 2010

Kaffið hans Tarantino

Posted in Blogg on 27.8.2010 by snobbhaensn

Samtalið hér að neðan er þýdd og staðfærð útgáfa af samtali í einni ástsælustu kvikmynd síðustu 30 ára.

JULES:
Skrambinn hafi það Jimmie, þetta er sannkallað sælkerakaffi. Ég og Vincent hefðum sætt okkur við Nescafé. Svo býðurðu okkur upp á þetta eðalkaffi. Hvaða bragðtegund er um að ræða?

JIMMIE:
Hættu þessu Julie.

JULES:
Hvað þá?

JIMMIE:
Hvorki er ég maís né stöngull, þannig að þú getur hætt að smyrja mig. Þú þarft ekki að segja mér hversu gott kaffi ég býð upp á. Það er ég sem kaupi það og veit því mætavel hversu bragðgott það er. Þegar Bonnie verslar í matinn kaupir hún hægðir. Ég kaupi hins vegar dýra sælkerakaffið vegna þess að er ég drekk það kýs ég að finna af því bragð. En það er ekki kaffið í eldhúsinu mínu sem er mér efst í huga í augnablikinu, heldur dauði blámaðurinn í bílskúrnum mínum.

JULES:
Jimmie…

JIMMIE:
Ég er að tala. Leyfðu mér að spyrja þig spurningar. Sást þú skilti hér fyrir utan sem gaf það til kynna að hér væri geymsla fyrir dauða blámenn?

JULES:
Nei það gerði ég ekki.

JIMMIE:
Veist þú af hverju þú sást ekki slíkt skilti?

JULES:
Af hverju?

JIMMIE:
Vegna þess að það að geyma dauða blámenn er ekki starfsvettvangur minn!

Þessi umrædda sena er úr kvikmyndinni Reyfari eftir bandaríska leikstjórann Quentin Tarantino. Skemmtilegur leikstjóri og frábær handritshöfundur. En þarna varð honum á.

Samtalið er rembingslegt, illa skrifað og tilgerðarlegt. Tarantino beit síðan höfuðið af skömminni þegar hann ákvað að leika þetta sjálfur. Betri leikari hefði getað bjargað þessu illa skrifaða atriði fyrir horn, en Tarantino er enginn leikari, og atriðið gerir Reyfara að verri mynd fyrir vikið.

Þessi bloggfærsla er tileinkuð Ágústi Ingvari Magnússyni. Og þeim sem halda að allar klukkur myndarinnar séu tuttugu mínútur yfir fjögur.

Auglýsingar

Það er tár í hóstamixtúrunni minni…

Posted in Blogg on 26.8.2010 by snobbhaensn

Kannski var það allt þriðja flokks 90’s alternative rokkið sem bugaði mig að lokum, eða það að ég er með hálsbólgu og hita, en fyrr í dag grenjaði ég yfir kvikmyndinni Empire Records. Það er nógu sársaukafullt að viðurkenna það að ég hafi yfir höfuð horft á þessa mynd, en grenjað yfir henni? Komm on!

Mér datt í hug að þetta væri sæmileg næntís útgáfa af High Fidelity. Mynd sem gerist í plötubúð, fallegt fólk að diskútera músík, hresst sándtrakk…..gat ekki klikkað.

Kemur í ljós að myndin er léleg, illa skrifuð, og öll „hressa“ næntísmúsíkin er í raun ömurlegt post-grunge með böndum sem eru ekki einu sinni á Wikipedia.

Ég er reiður sjálfum mér fyrir að hafa sokkið niður á þetta plan. Grenjandi eins og smástelpa yfir svona glataðri mynd. Það er fokking hundur með heyrnartól á plakatinu!! Að grenja yfir atriðum eins og þegar Fredo er drepinn í Godfather tvö, þegar Meryl Streep þarf að velja hvort barna hennar verði drepið af nasistum í Sophie’s Choice, þegar Sean Penn er tekinn af lífi í Dead Man Walking….það er afsakanlegt að fella tár yfir slíkum atriðum.

En að grenja yfir Liv Tyler að kyssa einhvern gaur með Gavin Rossdale-hár uppi á þaki plötuverslunar…..það er algjörlega aumkunarvert.

Síðasti sjens

Posted in Blogg on 23.8.2010 by snobbhaensn

Kæri herra Godard. Mér finnst þú hundleiðinlegt og tilgerðarlegt franskt fífl og myndirnar þínar eru ömurlegar. Samt ætla ég að horfa á Breathless, eða viltu frekar að ég kalli hana „À bout de souffle“? Hvað í andskotanum þýðir það annars? „Saga um frauð“?

Þetta á allavega að vera besta myndin þín þannig að það er eins gott að hún sé ekki jafn ógeðslega glötuð og allt annað sem ég hef séð eftir þig.

Auli.

Besti vestri allra tíma?

Posted in Blogg on 22.8.2010 by snobbhaensn

Bíónördum finnst gaman að bera saman kvikmyndirnar High Noon og Rio Bravo. Fyrir utan það að vera báðar alveg hreint glimrandi góðar myndir þá á samanburðurinn sér kvikmyndasögulegar ástæður.

High Noon kom út árið 1952 og var leikstýrt af Fred Zinneman. Í helstu hlutverkum voru þau Gary Cooper, Grace Kelly og Lloyd Bridges. Söguþráðurinn er í stuttu máli þannig að Gary Cooper leikur skerfara í villta vestrinu sem er í þann mund að flytjast búferlum ásamt nýbakaðri eiginkonu sinni, þegar hann fær fregnir af því að bófi sem hann stakk í steininn fimm árum áður sé væntanlegur í bæinn, ásamt föruneyti þriggja annarra ribbalda. Hann fær fréttirnar klukkan 10:35 fyrir hádegi og glæponinn er væntanlegur með lest sem kemur klukkan 12 á hádegi. Hann hefur því tæpar 90 mínútur til að vígbúast, safna liði og láta hart mæta hörðu.

Rio Bravo kom út árið 1959 og leikstjóri hennar er Howard Hawks. Helstu hlutverk eru í höndum þeirra John Wayne, Dean Martin, Walter Brennan, Ricky Nelson og Angie Dickinson. Myndin segir frá öðrum skerfara, sem John Wayne leikur, sem handtekur mann fyrir morð. Bróðir morðingjans er ríkur og valdamikill karl sem fær hóp kúreka til að sitja um fangelsið og þá sem gæta þess, en það kemur í hlut skerfarans og bandamanna hans að passa fangelsið og koma í veg fyrir að fanginn verði frelsaður.

Báðar myndirnar eru frábærar, en af hverju metast menn sérstaklega um hvor þeirra sé betri, frekar en einhverjir aðrir af þeim fleiri hundruð vestrum sem gerðir hafa verið í Hollywood?

John Wayne og Howard Hawks sáu High Noon og voru lítið hrifnir. Báðir voru þeir íhaldssamir í pólitík og litu á myndina sem einskonar ádeilu á nornaveiðar Joseph McCarthy gegn kommúnisma í Hollywood. Ákváðu þeir því að gera Rio Bravo, mynd sem var bókstaflega gerð til höfuðs High Noon.

Þó söguþræðir myndanna séu áþekkir upp að vissu marki eru myndirnar tvær andstæður að mörgu leyti, bæði efnislega og útlitslega. High Noon sviptir vestranum þeim gyllta og nostalgíska ljóma sem gullaldarvestrarnir byggðu upp á sínum tíma. Myndin er tekin á svarthvíta filmu, umhverfið er drungalegt og einmanalegt, og Zinneman leikur sér skemmtilega með ljós og skugga og hæfir það gjörðum aðalpersónunnar vel, sem og aðstæðunum sem hún er í.

Rio Bravo er technicolor epík fyrir allan peninginn. Hawks sparar nærmyndir, öfugt við Zinneman, og drunginn sem einkennir High Noon er hvergi til staðar. Kúrekarnir í Rio Bravo syngja meira að segja, og andrúmsloftið er miklu léttara og augljóslega er reynt að hörfa aftur til gullaldarinnar sem High Noon reyndi að brjótast undan.

Hetjan í High Noon er venjulegur maður. Hann óttast örlög sín og reynir í örvæntingu sinni að safna liði gegn ógninni en hvergi er hjálp að finna. Bæjarbúar kjósa að líta undan, og þegar klukkan slær tólf er Gary Cooper einn á báti. Hetjunni í Rio Bravo býðst hjálp úr öllum áttum, en afþakkar hjálpina oftar en ekki, hvetur fólk til að blanda sér ekki í málið, en þegar að lokauppgjörinu kemur hefur hann lítinn hóp manna sér til aðstoðar.

Ég hafði séð High Noon áður, en var ekki viss með Rio Bravo. Ég hef aldrei sökkt mér almennilega í vestrana og ruglaði þeim auðveldlega saman. Í ljós kom að ég hafði aldrei séð Rio Bravo og gerði það upplifunina við að bera myndirnar saman enn skemmtilegri. Að áhorfi loknu komst ég að niðurstöðu. Rio Bravo er mun skemmtilegri mynd. Ætli „hressari“ sé ekki orðið sem á best við. Leikarahópurinn er stórkostlegur, aukapersónurnar litríkar, og guð minn almáttugur hvað Angie Dickinson var sexí. Ég mun líta hana allt öðrum augum næst þegar ég horfi á Dressed to Kill.

High Noon er hins vegar flottari á hinn sjónræna máta, og mér segist svo hugur að hún höfði frekar til nútímamannsins. Hún er styttri, söguþráðurinn er einfaldari og skýrari, og ég tel að venjulegt fólk sjái sig mun frekar í persónu Gary Cooper heldur en í persónu John Wayne í Rio Bravo. High Noon fær engu að síður mínus fyrir persónu Grace Kelly sem er leiðinleg og pirrandi, þrátt fyrir að leikkonan hafi verið flestum konum fegurri.

Ég hef tekið ákvörðun um það að gera ekki upp á milli High Noon og Rio Bravo. Mér finnst þær báðar æðislegar og kýs því að standa utan við barnalega typpakeppni John Wayne og Howard Hawks. Ég tel þar að auki enga þörf á því að metast um hvor þeirra sé „besti vestri allra tíma“ af þeirri einföldu ástæðu að hvorug þeirra er það.

Og hver er þá besti vestrinn? Það er ekki auðvelt að svara því, en nú hyggst ég komast að því. Það verður því mikið um kaktusa, spora og sjálfspilandi píanó í bíómyndaáhorfi mínu á næstunni. Núna strax er ég búinn að sjá mynd sem ég tel betri en bæði High Noon og Rio Bravo. Og ég er rétt að byrja.

The Expendables [2010]

Posted in Gagnrýni on 19.8.2010 by snobbhaensn

Loksins kom að því að maður fengi að sjá harðjaxlana Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger leika saman í mynd (og meira að segja í sama atriðinu). Þessi viðburður hefur verið blautur draumur hasarmyndaáhugamanna í meira en 20 ár og loksins er þetta orðið að veruleika. Reyndar má spyrja að því um leið hvaða menn séu ekki hallir undir hasarmyndir, en ég hef í það minnsta ekki hitt slíkan mann um ævina.

The Expendables er leikstýrt af Stallone sjálfum og fær hann til liðs við sig ólympíulið harðjaxla og actionhetja. Fyrir utan Stallone og Schwarzenegger fáum við Dolph Lundgren, Mickey Rourke, Jason Statham, Jet Li, Bruce Willis, Terry Crews, Steve Austin, Gary Daniels og Eric Roberts. Mögulega er ég að gleyma einhverri kempu en það verður að hafa það.

Söguþráðurinn er á þessa leið. Stallone, ásamt stórum hópi vöðvabúnta, drepur fullt af vondum köllum. Ástæðulaust er að tíunda söguþráðinn frekar, enda er handrit myndarinnar þynnra en nauta-carpaccioið á Hótel Holti. Allir þessir karlmenn gerðu myndina til þess að við hinir karlmennirnir gætum gleymt kærustum, eiginkonum, vinnu og börnum í einn og hálfan tíma og rifjað upp Hollywood-hasar að hætti níunda áratugarins. Ásetningur Stallone er stórfenglegur, en afraksturinn er heldur síðri.

Stærsti vandinn við The Expendables er „gimmick“-ið, þ.e. að fá öll þessi búnt í sömu myndina. Tökum Jet Li sem dæmi. Hann er heimsþekktur bardagakappi sem allir þekkja. Þrátt fyrir að vera einn af helstu leikurum myndarinnar er hann nánast ósýnilegur. Hann fær nokkrar mínútur af sprikli, örfáa (misgóða) brandara, og þar með er hans viðveru í myndinni lokið. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir alla þessa „leikara“ í sömu myndinni. Bruce Willis og Schwarzenegger fá einungis eina senu sem er u.þ.b. fimm mínútur að lengd. Það er vissulega gaman að sjá gömlu brýnin þrjú (Stallone er með þeim í atriðinu) í sama ramma, en atriðið er ekki af því kaliberi sem maður óskaði sér. Kaffisopi þeirra Al Pacino og Robert De Niro í Heat er því ennþá mesta „Clash of the Titans“-sena nútíma kvikmyndasögu. Tríó-atriðið í The Expendables er þó sögulega merkilegt að því leyti að þar klæðist Arnold Schwarzenegger ljótari fötum en hann gerði í kvikmyndinni Twins, og þá er ansi mikið sagt.

Einu leikarar myndarinnar sem fá virkilega að láta ljós sitt skína eru þeir Dolph Lundgren og Mickey Rourke. Þó að refurinn Mikki líti út eins og gamall kynskiptingur í sjóræningjabúningi er nærvera hans sterk og díalógarnir nokkuð góðir. Það var þó hinn sænski Dolph sem stal senunni að mínu mati sem hinn kolklikkaði Gunner Jensen. Ég mun fara í hungurverkfall fái Lundgren ekki tilnefningu til Óskarsverðlauna eftir áramót!

Aftur á móti er The Expendables ekki að fara að fá neinar styttur fyrir tæknibrellur því að brellurnar eru vægast sagt hörmung. Á köflum fór ég að rifja upp brellur í eldri myndum sem kitluðu hláturtaugar mínar jafnmikið og ber þá helst að nefna krókódílana í Eraser og hýenurnar í Exorcist: The Beginning. Hvernig stendur á því að 80 milljón dollara mynd býður okkur upp á cheapo tölvubrellur sem þættu meira að segja lélegar fyrir einhverja „beint-á-DVD“ hörmung með Ice Cube? Hvað er að því að sprengja og skemma í alvörunni? Hvað er að kornsírópi að spýtast út úr latexdúkkum? Fyrst að Stallone var svona mikið í mun að gera back-to-basics eitíshasar, af hverju gekk hann ekki alla leið og gerði þetta á gamla mátann? Vissulega voru brellur níunda áratugarins misjafnar, en þær toppa CGI-blóðslettur hvenær sem er.

Nóg af neikvæðninni. The Expendables er sæmilegasti poppkorns-hasar. Stallone er Stallone, Jason Statham er fínn, vondu kallarnir eru ógeðslega vondir, og það deyr ógeðslega mikið af fólki. Er það ekki það sem við vildum allir? Við fengum það allavega svo sannarlega.

Stallone er að hóta okkur framhaldsmynd. Það gæti orðið gaman. Vonandi leggur hann meiri áherslu á skemmtilega sögu heldur en að sanka að sér sem flestum kílóum af vöðvamassa. Á internetinu eru menn strax byrjaðir að spá í spilin og búa til sína draumalista yfir leikara í framhaldinu. Van Damme og Seagal væri fyndið. Wesley Snipes og Kurt Russell væri enn betra. Öflugra handrit væri langbest.

Српски филм [2010]

Posted in Gagnrýni on 17.8.2010 by snobbhaensn

Serbneska kvikmyndin Srpski film (A Serbian Film) hefur valdið miklu fjaðrafoki undanfarið, enda er söguþráður myndarinnar ansi ónotalegur og sum atriðin urðu þess valdandi að mér nánast blöskraði. „Nánast“, segi ég, en ég er ýmsu vanur þegar kemur að ofbeldi og hryllingi og komst á endanum að þeirri niðurstöðu að ég yrði að sjá myndina þrátt fyrir varnaðarorð margra.

Reyndar blöskraði mér í fyllstu alvöru, en ekki var það vegna hryllingsins heldur vegna þess hversu kjánaleg og leiðinleg myndin varð eftir því sem á hana leið. Hafir þú í hyggju að sjá þessa mynd ráðlegg ég þér að stöðva lesturinn hér og nú.

Myndin segir frá fyrrverandi klámmyndaleikara sem fær tilboð um að leika í mynd fyrir himinhá laun sem hann ákveður að þiggja. Í ljós kemur að kvikmyndagerðarmennirnir eru fársjúkir glæpamenn sem svífast einskis og „myndin“ sem þeir eru að gera er í besta falli vafasöm. Okkar maður er píndur til að gera allskonar ólýsanleg voðaverk fyrir framan myndavélina og áður en langt um líður flækist fjölskylda leikarans inn í atburðarásina.

Ég ætla ekki að fjölyrða um allan þann hrylling sem fyrir augu ber í myndinni. Hafir þú áhuga á nánari útlistunum geturðu t.d. skoðað plot keywords á imdb.com þar sem lesa má nánar um viðbjóðinn.

Þó mér hafi ekki líkað A Serbian Film væri ósanngjarnt að segja hana hafa verið vonbrigði frá A til Ö. Vonbrigði frá sirka J til Ö er nærri lagi því að myndin byggir upp ágætis spennu í fyrri hálfleik. Myndataka, leikur og leikstjórn eru nokkuð vel heppnuð, en leikstjórnin (ásamt mörgu öðru) fer gjörsamlega út af sporinu eftir u.þ.b. 45 mínútur.

Leikstjórinn vill meina að myndin sín sé ádeila á serbnesk yfirvöld. Svo ég vitni nú bara beint í manninn, „This is a diary of our own molestation by the Serbian government…It’s about the monolithic power of leaders who hypnotize you to do things you don’t want to do. You have to feel the violence to know what it’s about.“ – Jahá! Þar höfum við það.

Ég held að leikstjórinn yrði sjálfum sér minna til skammar ef hann væri hreinskilinn og kallaði myndina sína það sem hún er: Exploitation hryllingsklám. Það er nákvæmlega það sem hún er, og án þess að ég hafi eitthvað á móti slíkum myndum þá er A Serbian Film bara ekki góð. Drungalegur realismi fyrri hlutans hoppar út um gluggann í seinni hlutanum og myndin verður eins og langur og extra blóðugur Tommi og Jenni (með rassnauðgunum).

En ógeðsleg er hún, ég skal fúslega viðurkenna það.

Til hamingju með daginn

Posted in Blogg on 13.8.2010 by snobbhaensn