The Expendables [2010]

Loksins kom að því að maður fengi að sjá harðjaxlana Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger leika saman í mynd (og meira að segja í sama atriðinu). Þessi viðburður hefur verið blautur draumur hasarmyndaáhugamanna í meira en 20 ár og loksins er þetta orðið að veruleika. Reyndar má spyrja að því um leið hvaða menn séu ekki hallir undir hasarmyndir, en ég hef í það minnsta ekki hitt slíkan mann um ævina.

The Expendables er leikstýrt af Stallone sjálfum og fær hann til liðs við sig ólympíulið harðjaxla og actionhetja. Fyrir utan Stallone og Schwarzenegger fáum við Dolph Lundgren, Mickey Rourke, Jason Statham, Jet Li, Bruce Willis, Terry Crews, Steve Austin, Gary Daniels og Eric Roberts. Mögulega er ég að gleyma einhverri kempu en það verður að hafa það.

Söguþráðurinn er á þessa leið. Stallone, ásamt stórum hópi vöðvabúnta, drepur fullt af vondum köllum. Ástæðulaust er að tíunda söguþráðinn frekar, enda er handrit myndarinnar þynnra en nauta-carpaccioið á Hótel Holti. Allir þessir karlmenn gerðu myndina til þess að við hinir karlmennirnir gætum gleymt kærustum, eiginkonum, vinnu og börnum í einn og hálfan tíma og rifjað upp Hollywood-hasar að hætti níunda áratugarins. Ásetningur Stallone er stórfenglegur, en afraksturinn er heldur síðri.

Stærsti vandinn við The Expendables er „gimmick“-ið, þ.e. að fá öll þessi búnt í sömu myndina. Tökum Jet Li sem dæmi. Hann er heimsþekktur bardagakappi sem allir þekkja. Þrátt fyrir að vera einn af helstu leikurum myndarinnar er hann nánast ósýnilegur. Hann fær nokkrar mínútur af sprikli, örfáa (misgóða) brandara, og þar með er hans viðveru í myndinni lokið. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir alla þessa „leikara“ í sömu myndinni. Bruce Willis og Schwarzenegger fá einungis eina senu sem er u.þ.b. fimm mínútur að lengd. Það er vissulega gaman að sjá gömlu brýnin þrjú (Stallone er með þeim í atriðinu) í sama ramma, en atriðið er ekki af því kaliberi sem maður óskaði sér. Kaffisopi þeirra Al Pacino og Robert De Niro í Heat er því ennþá mesta „Clash of the Titans“-sena nútíma kvikmyndasögu. Tríó-atriðið í The Expendables er þó sögulega merkilegt að því leyti að þar klæðist Arnold Schwarzenegger ljótari fötum en hann gerði í kvikmyndinni Twins, og þá er ansi mikið sagt.

Einu leikarar myndarinnar sem fá virkilega að láta ljós sitt skína eru þeir Dolph Lundgren og Mickey Rourke. Þó að refurinn Mikki líti út eins og gamall kynskiptingur í sjóræningjabúningi er nærvera hans sterk og díalógarnir nokkuð góðir. Það var þó hinn sænski Dolph sem stal senunni að mínu mati sem hinn kolklikkaði Gunner Jensen. Ég mun fara í hungurverkfall fái Lundgren ekki tilnefningu til Óskarsverðlauna eftir áramót!

Aftur á móti er The Expendables ekki að fara að fá neinar styttur fyrir tæknibrellur því að brellurnar eru vægast sagt hörmung. Á köflum fór ég að rifja upp brellur í eldri myndum sem kitluðu hláturtaugar mínar jafnmikið og ber þá helst að nefna krókódílana í Eraser og hýenurnar í Exorcist: The Beginning. Hvernig stendur á því að 80 milljón dollara mynd býður okkur upp á cheapo tölvubrellur sem þættu meira að segja lélegar fyrir einhverja „beint-á-DVD“ hörmung með Ice Cube? Hvað er að því að sprengja og skemma í alvörunni? Hvað er að kornsírópi að spýtast út úr latexdúkkum? Fyrst að Stallone var svona mikið í mun að gera back-to-basics eitíshasar, af hverju gekk hann ekki alla leið og gerði þetta á gamla mátann? Vissulega voru brellur níunda áratugarins misjafnar, en þær toppa CGI-blóðslettur hvenær sem er.

Nóg af neikvæðninni. The Expendables er sæmilegasti poppkorns-hasar. Stallone er Stallone, Jason Statham er fínn, vondu kallarnir eru ógeðslega vondir, og það deyr ógeðslega mikið af fólki. Er það ekki það sem við vildum allir? Við fengum það allavega svo sannarlega.

Stallone er að hóta okkur framhaldsmynd. Það gæti orðið gaman. Vonandi leggur hann meiri áherslu á skemmtilega sögu heldur en að sanka að sér sem flestum kílóum af vöðvamassa. Á internetinu eru menn strax byrjaðir að spá í spilin og búa til sína draumalista yfir leikara í framhaldinu. Van Damme og Seagal væri fyndið. Wesley Snipes og Kurt Russell væri enn betra. Öflugra handrit væri langbest.

Auglýsingar

9 svör to “The Expendables [2010]”

 1. Ef þú, sjálfur bjartsýnisboltinn og stemmningstillinn, ert ekki að sjúdda kúlurnar á þessari mynd, þá er pottþétt að ég læta hana alveg eiga sig. Ekki það að ég ætlaði á hana.

 2. Hahaha já ég held þú værir betur settur að horfa bara aftur á Cobra.

  ÞAR erum við líka að tala um alvöru mynd!

 3. En það endemis bull. Betra handrit?!? Ég hef aldrei vitað aðra eins vitleysu. Þetta er eins og að biðja um dýpri og meiri skoðun á mannlegri náttúru í Tango og Cash. Expendables er roshaleg. Roshaleg! Ég gæti, að sjálfsögðu, komið með góð rök og haldbæra punkta, en slíkt er fyrir pussur og eymingja sem finnst The Expendables sæmileg.

 4. Tango and Cash er mun dýpri og meiri skoðun á mannlegri náttúru en The Expendables nokkurn tímann. Burt séð frá því…

  Að sjálfsögðu er mér slétt sama um „storyline“ myndar af þessu tagi. Því þynnra því betra, segi ég bara. En ef þú ætlar að troða öllum þessum „kanónum“ í sömu myndina er eins gott að þú hafir eitthvað fyrir þá að gera. Stallone tókst að gera persónur Dolph Lundgren og Mickey Rourke skemmtilegar og áhugaverðar. Í tilfellum Jet Li, Jason Statham og fleiri (þ.á.m. sjálfs síns) reyndi hann ekki einu sinni.

  Og niðurstaðan? The Expendables skartar hæst launuðu statistum kvikmyndasögunnar.

  Hvergi varð ég var við neinskonar „chemistry“ milli leikara (sem er nú nokkuð crucial í buddy/„bunch of guys on a mission“-myndum). Menn fengu ekki einu sinni að segja fyndna one-linera. Mikil synd er að nýta þennan góða mannskap ekki í eitthvað aðeins merkilegra og betra.

  Að því sögðu þá fannst mér myndin langt frá því að vera leiðinleg. Hún hefði bara getað verið svo miklu betri.

  Vonandi verður Stallone ennþá á lífi þegar ég geri „ensemble-cast“ myndina mína, gritty Peckinpah-vestrann minn með öllum Baldwin-bræðrunum. Hún verður margfalt skemmtilegri og betur skrifuð.

 5. Hmm, þú átt hér nokkuð góða punkta. Ég er ekki alveg sammála hvað efnasamskiptin varðar. Mér þótti Statham og Stallone skemmta sér vel og Lundgren, Rourke og Stallone eiga þarna mjög skemmtileg atriði sín á milli. Þetta er vissulega ekkert á við gleðina og skemmtanagildið í samskiptum leikara í myndum á borð við The Great Escape eða Rio Bravo en mun betra heldur en í flestum nýrri myndum (þar sem menn þurfa jú að leika á móti róbotum og CGI-grænskjás viðbjóðum).

  Ég held að besti punktur þinn sé sá að myndin hefði getað verið mun betri, sem er nokkuð sem vissulega þarf að taka tillit til. Ég hef verið að gefa þessari mynd ansi mikinn slaka á línunni sökum þess hvað hún endurvekur mörg þemu og atriði frá klassískum hasarmyndum níunda áratugarins. En maður má auðvitað ekki gefa mynd of háa einkunn einfaldlega fyrir að reyna eitthvað rosalega skemmtilegt og sniðugt ef henni tekst það ekki að framkvæma það.

  Peckinpah ensemble myndin þín verður það besta síðan smurt brauð var fundið upp; stórfengleg samblanda af Ride the High Country og The Hard Way.

  Takk fyrir IMDB umræðuna sem þú sendir mér. Ég er farinn að verða hallur undir að halda meira upp á DePalma í ellinni heldur en Hitch. Ég horfi allavegna tólf þúsund sinnum oftar á myndir DePalma heldur en Hitchcocks og það hlýtur að hafa eitthvað að segja.

 6. Ég er kannski hættur við að sjá þetta í bíó bara.

  En, af algjörlega eins og fullkomlega sambærilegum formúlu hasarmyndum frá þessu ári, hver er þá best: The Expendables, The A-Team, The Losers?

 7. Sveinn:
  Ég hef ekki séð hinar myndirnar. Veit ekki hvort ég leggji í þær 🙂

  Ágúst:
  Ég held nefnilega að það megi líkja saman kvikmyndinni The Expendables og laginu We Are the World. Lag sem er svo drekkhlaðið stórstjörnum að aðeins örfáar þeirra ná að skína í gegn. Hinar eru bara með í kórnum 🙂

  Drengirnir á IMDB komu báðir með fullt af áhugaverðum punktum og pælingum (og vel skrifuðum) um De Palma.

  Fyrir ykkur sem hafið ekki hugmynd um hvað við erum að tala um þá sendi ég Ágústi þennan spjallborðsþráð af IMDB.com þar sem menn eru að skeggræða Brian De Palma og Alfred Hitchcock. Inngangspunkturinn er kvikmyndin Obsession, en fljótlega verða umræðurnar nokkuð almennar og góð lesning fyrir aðdáendur leikstjóranna (sérstaklega De Palma).

  Þráðurinn: http://www.imdb.com/name/nm0000033/board/flat/164369074

 8. Ómar Says:

  van damme er bestur

 9. Well Ebert segir að the Losers sé langbest svo ég ætla bara að horfa á hana í staðinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: