Besti vestri allra tíma?

Bíónördum finnst gaman að bera saman kvikmyndirnar High Noon og Rio Bravo. Fyrir utan það að vera báðar alveg hreint glimrandi góðar myndir þá á samanburðurinn sér kvikmyndasögulegar ástæður.

High Noon kom út árið 1952 og var leikstýrt af Fred Zinneman. Í helstu hlutverkum voru þau Gary Cooper, Grace Kelly og Lloyd Bridges. Söguþráðurinn er í stuttu máli þannig að Gary Cooper leikur skerfara í villta vestrinu sem er í þann mund að flytjast búferlum ásamt nýbakaðri eiginkonu sinni, þegar hann fær fregnir af því að bófi sem hann stakk í steininn fimm árum áður sé væntanlegur í bæinn, ásamt föruneyti þriggja annarra ribbalda. Hann fær fréttirnar klukkan 10:35 fyrir hádegi og glæponinn er væntanlegur með lest sem kemur klukkan 12 á hádegi. Hann hefur því tæpar 90 mínútur til að vígbúast, safna liði og láta hart mæta hörðu.

Rio Bravo kom út árið 1959 og leikstjóri hennar er Howard Hawks. Helstu hlutverk eru í höndum þeirra John Wayne, Dean Martin, Walter Brennan, Ricky Nelson og Angie Dickinson. Myndin segir frá öðrum skerfara, sem John Wayne leikur, sem handtekur mann fyrir morð. Bróðir morðingjans er ríkur og valdamikill karl sem fær hóp kúreka til að sitja um fangelsið og þá sem gæta þess, en það kemur í hlut skerfarans og bandamanna hans að passa fangelsið og koma í veg fyrir að fanginn verði frelsaður.

Báðar myndirnar eru frábærar, en af hverju metast menn sérstaklega um hvor þeirra sé betri, frekar en einhverjir aðrir af þeim fleiri hundruð vestrum sem gerðir hafa verið í Hollywood?

John Wayne og Howard Hawks sáu High Noon og voru lítið hrifnir. Báðir voru þeir íhaldssamir í pólitík og litu á myndina sem einskonar ádeilu á nornaveiðar Joseph McCarthy gegn kommúnisma í Hollywood. Ákváðu þeir því að gera Rio Bravo, mynd sem var bókstaflega gerð til höfuðs High Noon.

Þó söguþræðir myndanna séu áþekkir upp að vissu marki eru myndirnar tvær andstæður að mörgu leyti, bæði efnislega og útlitslega. High Noon sviptir vestranum þeim gyllta og nostalgíska ljóma sem gullaldarvestrarnir byggðu upp á sínum tíma. Myndin er tekin á svarthvíta filmu, umhverfið er drungalegt og einmanalegt, og Zinneman leikur sér skemmtilega með ljós og skugga og hæfir það gjörðum aðalpersónunnar vel, sem og aðstæðunum sem hún er í.

Rio Bravo er technicolor epík fyrir allan peninginn. Hawks sparar nærmyndir, öfugt við Zinneman, og drunginn sem einkennir High Noon er hvergi til staðar. Kúrekarnir í Rio Bravo syngja meira að segja, og andrúmsloftið er miklu léttara og augljóslega er reynt að hörfa aftur til gullaldarinnar sem High Noon reyndi að brjótast undan.

Hetjan í High Noon er venjulegur maður. Hann óttast örlög sín og reynir í örvæntingu sinni að safna liði gegn ógninni en hvergi er hjálp að finna. Bæjarbúar kjósa að líta undan, og þegar klukkan slær tólf er Gary Cooper einn á báti. Hetjunni í Rio Bravo býðst hjálp úr öllum áttum, en afþakkar hjálpina oftar en ekki, hvetur fólk til að blanda sér ekki í málið, en þegar að lokauppgjörinu kemur hefur hann lítinn hóp manna sér til aðstoðar.

Ég hafði séð High Noon áður, en var ekki viss með Rio Bravo. Ég hef aldrei sökkt mér almennilega í vestrana og ruglaði þeim auðveldlega saman. Í ljós kom að ég hafði aldrei séð Rio Bravo og gerði það upplifunina við að bera myndirnar saman enn skemmtilegri. Að áhorfi loknu komst ég að niðurstöðu. Rio Bravo er mun skemmtilegri mynd. Ætli „hressari“ sé ekki orðið sem á best við. Leikarahópurinn er stórkostlegur, aukapersónurnar litríkar, og guð minn almáttugur hvað Angie Dickinson var sexí. Ég mun líta hana allt öðrum augum næst þegar ég horfi á Dressed to Kill.

High Noon er hins vegar flottari á hinn sjónræna máta, og mér segist svo hugur að hún höfði frekar til nútímamannsins. Hún er styttri, söguþráðurinn er einfaldari og skýrari, og ég tel að venjulegt fólk sjái sig mun frekar í persónu Gary Cooper heldur en í persónu John Wayne í Rio Bravo. High Noon fær engu að síður mínus fyrir persónu Grace Kelly sem er leiðinleg og pirrandi, þrátt fyrir að leikkonan hafi verið flestum konum fegurri.

Ég hef tekið ákvörðun um það að gera ekki upp á milli High Noon og Rio Bravo. Mér finnst þær báðar æðislegar og kýs því að standa utan við barnalega typpakeppni John Wayne og Howard Hawks. Ég tel þar að auki enga þörf á því að metast um hvor þeirra sé „besti vestri allra tíma“ af þeirri einföldu ástæðu að hvorug þeirra er það.

Og hver er þá besti vestrinn? Það er ekki auðvelt að svara því, en nú hyggst ég komast að því. Það verður því mikið um kaktusa, spora og sjálfspilandi píanó í bíómyndaáhorfi mínu á næstunni. Núna strax er ég búinn að sjá mynd sem ég tel betri en bæði High Noon og Rio Bravo. Og ég er rétt að byrja.

Auglýsingar

Eitt svar to “Besti vestri allra tíma?”

  1. bogi Says:

    Gjörðu svo vel:

    http://www.imdb.com/title/tt0067866/

    Besti vestrinn.

    Thank me later.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: