Sarpur fyrir september, 2010

„Hér er hanskinn þinn herra Roth“

Posted in Áróður, Blogg on 27.9.2010 by snobbhaensn

Síðustu daga hef ég verið duglegur í hrollvekjunum. Í kjölfar þess hef ég verið að velta honum Eli Roth fyrir mér. Það er ekki ofsögum sagt að segja hann einn umdeildasta kvikmyndaleikstjóra síðari ára. Hann hefur einungis leikstýrt þremur myndum í fullri lengd og eru það myndirnar Cabin Fever [2002], Hostel [2005] og Hostel: Part II [2007].

Þegar ég segi „umdeildur“ þá vísa ég aðallega til þess hversu móðins það er orðið hjá hrollvekjuáhugamönnum að úthúða Roth og myndum hans. Þær eru gjarnan flokkaðar sem svokallaðar „torture-porn“-myndir (þá sérstaklega Hostel-myndirnar) og þykja bjóða upp á lítið annað en ofbeldið. Sérstaklega hef ég tekið eftir þessu á spjallþráðum Imdb.com, en þar gerist það gjarnan á þráðum klassísku hrollvekjanna að fólk sem lýsir því yfir að umrædd mynd sé þeim ekki að skapi fái svarið: „Vilt þú ekki bara fara og horfa á Hostel?“. Já eða Eli Roth nefndur persónulega sem tákngervingur alls þess sem misfarist hefur í heimi hrollvekjunnar.

Mér finnst heldur ómaklega vegið að Roth. Auðvitað á maður að taka internetskrifum nafnleysingja með ákveðnum fyrirvara, en fyrir mér er þetta aðeins frekari staðfesting á því sem ég hef heyrt frá fólki í kjötheimum. Fólk virðist einfaldlega fíla Eli Roth afar takmarkað.

Persónuleiki Roth gerir það einnig að verkum að það er afskaplega erfitt að verja hann. Maðurinn er hnakki af amerísku gerðinni. Hann sést gjarnan ölvaður að gera asnastrik, er með stífelsi í hárinu, glottir á öllum ljósmyndum sem eru teknar af honum og það versta, hann er ungi og óreyndi strákurinn sem vingaðist við Quentin Tarantino (hliðstæða litla óþolandi drengsins sem alla í skólanum langar til að berja en þora því ekki vegna þess að vinsæli strákurinn tók hann undir verndarvæng sinn).

En komum þá aðeins að myndunum hans.

Cabin Fever var nokkuð skemmtileg. Roth segist hafa fengið hugmyndina að henni þegar hann fékk kláða og bráðaútbrot við vinnu í hesthúsi rétt hjá Selfossi. Persónur myndarinnar sýkjast af viðbjóðslegum húðvírus sem étur þær nánast upp til agna. Myndin var nokkuð blóðug en var krydduð húmor og var á heildina litið vel heppnuð hrollvekja í léttum dúr.

Hostel (og framhald hennar) var hundrað sinnum viðbjóðslegri. Hún er reyndar svo viðbjóðsleg að á köflum fann ég fyrir hræringum í iðrum mínum, og það gerist svo sannarlega ekki oft hjá Snobbhænsninu, enda ýmsu vant. Sennilega er það Hostel sem skildi flesta eftir með óbragð í munni. Konseptið, það að borga stórfé fyrir að pynta ókunnugt fólk og myrða það, er óhuggulegt og það óhuggulegasta við það er sennilega það að óhugsandi er það alls ekki. Og þar tel ég komna forsendu fyrir því að meta Hostel að verðleikum sínum. Hún er viðbjóðsleg vegna þess að hún skilur mann eftir með óteljandi spurningar um mannlegt eðli (og óeðli) og hvernig fólk sem lítur eðlilega út á yfirborðinu getur framkvæmt óhugsandi voðaverk. Þetta má reyndar segja um nokkuð margar hrollvekjur (góðar jafnt sem lélegar) en mér þykir Hostel fara nokkuð vel með viðfangsefnið. Og er hún óþarflega grafísk? Að sjálfsögðu ekki. Myndin fjallar um pyntingar og þarf að sjálfsögðu að sýna pyntingar.

Auðvitað á það ansi oft við að „minna sé meira“ (less is more). Hryllingurinn í myndum á borð við Alien, Se7en, Psycho og Halloween er svo ofboðslegur vegna þess að smáatriðin eru skilin eftir fyrir ímyndunarafl áhorfandans. Hostel er hins vegar „exploitation“-mynd (ef einhver þekkir ekki hugtakið þá mæli ég með Wikipedia.org) og tilgangur slíkra mynda er að skilja ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið. Sé slík kvikmyndagerð manni ekki að skapi þá dugir ekki að sneiða hjá Hostel. Hún er ein mynd af þúsundum sem lenda í þessum undirflokki og er í raun hvorki grafískari né grimmari en þær flestar.

Ég er til í að líta framhjá gagnrýni á hárið hans Eli Roth, á það hvað hann er fávitalegur í útliti og hegðun, hvað hann er takmarkaður leikari og leiðinlegur í viðtölum. Ég er jafnvel til í að virða þá skoðun fólks sem þykir myndirnar hans einfaldlega leiðinlegar, kjánalegar og á köflum misógynískar. En hafi fólk á annað borð gaman af exploitation/splattermyndum þá trúi ég því einfaldlega ekki að því finnist Eli Roth ganga of langt og myndir hans illa gerðar. Þær eru það einfaldlega ekki.

Og hey, fær hann ekki smá breik fyrir að vera aðdáandi íslensks Malts?

Auglýsingar

Piranha [2010]

Posted in Blogg, Gagnrýni on 26.9.2010 by snobbhaensn

Eins og margir vita eflaust núorðið þá er ég einungis snobbaður þegar það hentar mér. Það hentar mér til dæmis afar illa þegar kemur að hryllingsmyndum. Ástæða þess er sú að mér finnst hryllingsmyndir gífurlega skemmtilegar en oft dæmir maður þær á sínum eigin forsendum. Dramatískar myndir eru til dæmis sjaldan það slæmar að þær verði góðar, en aragrúa hryllingsmynda tekst einmitt það. Þess vegna tók ég niður snobb-gleraugun, setti upp þrívíddargleraugun og fór að sjá Piranha.

Piranha er lauslega byggð á samnefndri mynd frá árinu 1978, en sú mynd þótti mér afbragð. Hún var hálfgerð eftirherma af hinni klassísku Jaws eftir Steven Spielberg, en öllu meiri B-mynd og gerði helst út á fjörið. Söguþráður nýju myndarinnar er svipaður þeirri gömlu, en þó langt frá því að vera alveg eins. Svo við höfum það örstutt, þá segir endurgerðin frá baráttu fólks í strandbæ í Bandaríkjunum við mannýga Píranafiska sem éta allt sem í vegi þeirra verður. Og það vill svo heppilega til (fyrir fiskana) að ströndin er stútfull af unglingum í vorfríi (spring break) og því nóg að éta.

Persónusköpun og leikur eru ekki upp á marga fiska (afsakið þetta) enda öllum sama um slíkt. Það veit leikstjóri myndarinnar, Alexandre Aja, alveg upp á hár og einbeitir sér því að því sem mestu máli skiptir: Kynþokka og blóðsúthellingum.

Kynþokkinn er vissulega til staðar. Hálfberar (og stundum alveg berar) stúlkur spranga um og sýna sig fyrir vöðvastæltum fávitum með sólgleraugu og bjór. Ein nektarsena vakti sérstaka athygli mína þar sem tvær allsnaktar stúlkur láta vel að hvorri annarri neðansjávar undir dúndrandi óperutónlist, og enginn pælir neitt í því að fólk þurfi að anda til þess að deyja ekki. Þær dúllast þarna í sjónum í góðar tvær mínútur án þess að kvarta.

Svo er það subbuskapurinn. Hinn franski Aja (leikstjórinn…..verið með mér hérna) á líklega eitthvað mikið bágt. Hvað sem það er sem hrjáir hann þá vona ég að hann leiti sér aldrei aðstoðar, því að splatter-senur Piranha eru gjörsamlega tjúllaðar! High Tension sýndi glögglega að maðurinn væri fús til þess að ganga ansi langt í grafísku ofbeldi, og The Hills Have Eyes benti til þess að maðurinn væri hreinn og klár síkópati. Piranha gengur enn lengra og ég var beinlínis uppgefinn þegar myndinni lauk, slíkur var gassagangurinn og „gorið“. Mér finnst alltaf gaman að skoða plot keywords á Imdb.com þegar um splattermyndir er að ræða. Ég tímdi því að vísu ekki núna fyrr en ég kom heim úr bíó.

Nokkrum þekktum leikurum bregður fyrir í aukahlutverkum. Richard gamli Dreyfuss er étinn á fyrstu mínútum myndarinnar, Christopher Lloyd leikur ofvirkan prófessor (beisiklí Doc Brown með yfirskeggið hans Raul Julia), Dina Meyer birtist örstutt sem kafari og Eli Roth leikur (ótrúlegt en satt!!!) fávita að kynna blautbolakeppni.

Ég veit hreinlega ekki af hverju ég er ennþá að tala um þessa mynd. Ef þú fílar splattermyndir þá er Piranha pottþétt fyrir þig. Ef ekki, þá er ekkert sem ég skrifa hér að fara að láta þig skipta um skoðun. Í þínu tilfelli er Piranha örugglega ömurlega leiðinleg. Þér er alveg fyrirgefið samt. Stangveiði finnst mér til dæmis alveg óheyrilega leiðinleg og sama hversu vel eða illa gerð bíómynd um stangveiði væri, mér þætti hún bókað átakanlega slæm.

En Piranha þótti mér æðisleg. Góð sárabót fyrir hrotuveisluna hans Stallone sem ég fór á með svipuðu hugarfari en olli mér síðan gífurlegum vonbrigðum.

Gæsahúð af gamla skólanum

Posted in Blogg, Gagnrýni on 24.9.2010 by snobbhaensn

Hrollvekjan The House of the Devil kom út í fyrra og fór algjörlega fram hjá mér. Hrollvekju-nördismi er erfiður viðureignar því framboðið er svo mikið. Þess vegna sofnaði ég á verðinum og heyrði ekki af þessari mynd fyrr en nú. Og nú er ég búinn að sjá hana.

Það fer ekki framhjá neinum að Ti West (leikstjóri myndarinnar) er slefandi hrollvekjunörd af grófustu sort. Hann þekkir formið greinilega út og inn og notar upphafsmínútur myndarinnar til að leika sér. Við sjáum freeze-frame, gula titla, hröð zoom og allar klisjurnar. Já við erum augljóslega stödd í fortíðinni.

Þó ártal atburðarásarinnar sé ekki gefið upp þá vill internetið meina að myndin eigi að gerast á 9. áratugnum (80’s fyrir þá sem nenna ekki að læra þetta). Sönnunargögn internetsins eru eflaust hlutir eins og props, bílar og sú popptónlist sem heyrist. Ég er þó á því að myndin vitni mun meira í síðari hluta 8. áratugarins (70’s). Ég þykist hafa hártísku og snið gallabuxna með mér í liði, sem og leturgerð titlanna og freeze-frames. Ef ég vissi ekki að myndin væri ný myndi ég giska á að hún hefði komið út á bilinu 1977-1980.

Þetta er þó allt frekar smávægilegt, enda væri lítið varið í mynd sem byggðist alfarið á tilvísunum í gamla tímann. Sem betur fer hættir leikstjórinn að leika sér þegar sagan fer að rúlla, og eftir stendur frekar tímalaus saga sögð með aðferðum fortíðarinnar.

Í stuttu máli er söguþráðurinn á þessa leið. Samantha tekur íbúð á leigu og sér fram á að eiga erfitt með fyrstu leigugreiðsluna. Hún tekur að sér barnapössun fyrir ókunnugan mann en þegar hún mætir á staðinn kemur í ljós að maðurinn á ekki barn. Hann vantar í raun „pössun“ fyrir aldraða móður sína en hafði ekki þorað að taka það fram í auglýsingunni. Samantha tekur illa í ósannsöglið en fellst á endanum á það að passa þá gömlu fyrir 400 dollara.

Lítið ber á þeirri gömlu og Samantha virðist í raun vera ein í húsinu og verður smám saman nokkuð óttaslegin, enda húsið stórt og aðstæður furðulegar. Í forvitni sinni rannsakar hún þó húsið í þaula og kemst á endanum að því að ekki er allt með felldu. Kunnuglegt? Já ætli það ekki.

Helsti vandinn við The House of the Devil er sá að hún er ekkert sérstaklega skemmtileg. Gamli fílingurinn heppnast upp á 10, myndin byrjar hægt, myndatakan er lágstemmd, langt er á milli klippinga o.s.frv. En þegar klukkustund var liðin af myndinni var í raun voða fátt búið að gerast. Það er ekki fyrr en u.þ.b. korter er eftir af myndinni sem hryllingurinn hefst og þá um leið kemur myndin upp um sjálfa sig og sitt sanna ártal. Hún missir sig alls ekki í hryllings-modernisma en hraðinn og hrottaskapurinn verður meiri en gömlu myndirnar höfðu yfirleitt. Þá er ég aðallega að tala um þær myndir sem virðast hafa haft mest áhrif á leiktjórann og nefni þar Rosemary’s Baby og The Tenant eftir Roman Polanski, The Amityville Horror og The Sentinel.

Ég get þó óhikað mælt með myndinni fyrir hrollvekjuáhugafólk. Fyrir hina er hún eflaust allt of hæg og tíðindalítil, en þó ber að nefna að sérstaklega gaman er að horfa á aðalleikkonuna því bæði er hún afskaplega vel af Guði gerð, og einnig er hún sláandi svipuð Margot Kidder í útliti, sem eitt og sér er skemmtileg tilvísun í hrollvekjuarfinn.

Fyrir allra mestu nördana er gaman að segja frá því að myndin er tekin upp á 16mm filmu, en það gefur henni afskaplega nostalgískt yfirbragð. Framleiðendur myndarinnar gengu síðan alla leið með retróið þegar þeir gáfu myndina út á löðursveittu VHS.

Bæri ég hatt tæki ég hann ofan fyrir þeim.

Nokkrar væntanlegar

Posted in Blogg on 20.9.2010 by snobbhaensn

Það eru nokkrar kvikmyndir væntanlegar á næstunni frá Bandaríkjum Norður-Ameríku sem ég er nokkuð spenntur fyrir.

The American skartar einu flottasta veggspjaldi ársins og myndin gæti verið góð. Ebert er hrifinn, mér finnst Clooney öflugur, og leikstjórinn, hinn hollenski Anton Corbijn, er fantagóður ljósmyndari. Hlakka til að sjá bíó eftir hann.

Woody Allen færir okkur síðan myndina You Will Meet a Tall Dark Stranger, en meðal leikara eru þau Anthony Hopkins, Naomi Watts og Josh Brolin. Það að kvikmynd sé leikstýrt af Allen er yfirleitt næg ástæða fyrir mig til að fara í bíó.

Einn af feik-trailerunum úr Grindhouse, Machete, er orðið að bíómynd í fullri lengd. Robert Rodriguez leikstýrir (ásamt klippararnum sínum) og í helstu hlutverkum eru Danny Trejo, Steven Seagal, Jessica Alba, Jeff Fahey og Robert De Niro. Að vísu þykir mér Rodriguez misjafn en myndin ætti þó að verða solid. Trejo er ávallt skemmtilegur og conceptið gott og fyndið. Ein pæling samt: Getur virkilega verið að það sé styttra síðan maður sá góða Seagal-mynd heldur en góða De Niro-mynd?

Síðan er það Facebook-mynd David Fincher, The Social Network, en Fincher er klár þegar sá gállinn er á honum. Nennti ekki að sjá Benjamin Button en ég hef verið hrifinn af öðrum myndum leikstjórans.

Að lokum er það síðan þrívíddarhrollurinn Piranha 3D eftir franska geðsjúklinginn Alexandre Aja. Hryllingsmyndir í þrívídd eru æðsta form kvikmyndalistarinnar og ég verð illa svikinn ef pírönurnar éta ekki a.m.k. átta tonn af bikiníklæddu kjöti.

Sjáumst í bíó!

P.S: Gaman væri að fá ábendingar um fleira væntanlegt góðgæti.

Breakfast at Tiffany’s [1961]

Posted in Blogg, Gagnrýni on 15.9.2010 by snobbhaensn

Ég vissi að það myndi reynast mér erfitt að horfa á heila mynd þar sem hið undursamlega „Moon River“ er aðal þemalagið. Ljúfsárari gerast lögin ekki, og þess vegna var eldhúsrúllan í seilingarfjarlægð þegar ég horfði loksins á Breakfast at Tiffany’s.

Það var sjálfur Karl Berndsen sem skipaði mér að sjá þessa mynd. Ég fékk hann í Monitor-viðtal og þar barst myndin í tal. Hann gekk svo langt að segja að hún myndi líklega breyta lífi mínu. Betri gerast meðmælin varla, og því löngu orðið tímabært að sjá myndina.

Myndin fjallar um ungan rithöfund í New York sem flytur í nýja íbúð og kynnum hans af léttklikkaðri nágrannakonu sinni, Holly Golightly (leikinni af hinni stórkostlegu Audrey Hepburn), en þrátt fyrir að allt bendi til þess að hún sé vændiskona verður rithöfundurinn ungi engu að síður ástfanginn af henni. Það á kannski betur við en það kann að hljóma, því sjálfur selur hann blíðu sína til að eiga fyrir salti í grautinn.

Það er mjög auðvelt að sjá hvers vegna myndin er í uppáhaldi svo margra. Audrey Hepburn er frábær í sínu hlutverki, og ég held hreinlega að ég hafi ekki séð persónu í kvikmynd sem svipar til Holly Golightly, hvorki fyrr né síðar. Hún er furðuleg í fasi og háttalag hennar minnir einna helst á einhvern sem reykir afskaplega mikið gras. Heimspeki hennar er undarleg og truflandi, en hennar eini metnaður í lífinu er að giftast ríkum manni svo hún geti keypt allt það sem hugurinn girnist.

Þrátt fyrir þessa öfgakenndu persónuleikaröskun, og þá staðreynd að hún er gleðikona, verður áhorfandinn ástfanginn af henni um leið og rithöfundurinn ungi. Audrey Hepburn var stjarnfræðilega falleg, og þessir fyndnu taktar hennar ofan á allt annað gera það að verkum að helst langaði mig að ferðast aftur í tímann og gera hana að konunni minni.

Mikið hefur verið skrifað og pælt varðandi Breakfast at Tiffany’s. Holly Golightly lifir í gerviveröld og lýgur því að sjálfri sér að líf hennar sé spennandi og æðislegt, en afneitar ástinni vegna þess að hún er hrædd við hana. Allt gott og blessað. Það er t.a.m. athyglisvert að skoða samband samkynhneigðra við myndina, en hún er í miklum metum meðal margra samkynhneigðra og fyrir löngu orðinn hluti af samkynhneigðum kúltúr.

Það þarf svo sem ekki að kafa neitt sérstaklega djúpt til þess að sjá tenginguna. Holly gæti verið tákngervingur samkynhneigðs einstaklings sem lifir í sjálfsblekkingu í heimi hinna gagnkynhneigðu (inni í skápnum) en kvelst innra með sér vegna þess að innst inni veit hann að þetta er ekki sá sem hann er. Hmmm, ekkert einu sinni sérstaklega langsótt. Það er meira að segja atriði í myndinni þar sem Holly og rithöfundurinn hnupla hrekkjavökugrímum úr verslun og setja þær upp. Allavega þá þykist ég núna skilja betur gay-appeal Breakfast at Tiffany’s.

Fyrst og fremst held ég þó að myndin sé um einmanaleika. A.m.k. var ég farinn að horfa á hana með þeim gleraugum strax í byrjun. Holly og rithöfundurinn eru tvær einmana sálir sem þarfnast hvors annars, en sýna þá þörf með ólíkum hætti. Ég var staddur í New York um daginn og hafði það á orði við félaga minn að borg eins og New York væri örugglega frábær borg til að búa í fyrir ástfangin pör, en hreinasta helvíti fyrir vinafáa einstæðinga, og reyndar stórborgir yfirleitt (þrátt fyrir að „rannsóknir“ vilji meina að New York-borg sé besta borg heims fyrir einhleypa). Borgin er svo iðandi af mannmergð og lífi að það er eflaust afskaplega auðvelt að byrja að upplifa sig sem ómerkilegan og ósýnilegan maur. New York hentar því fullkomlega sem sögusvið myndarinnar og eflaust var sú ákvörðun að staðsetja söguna þar ekki tekin í hálfkæringi.

Ég var nokkuð hrifinn af myndinni. Myndatakan er falleg og litadýrðin mikil. Ég hef sjaldan séð kvikmynd nota lýsingu og liti jafn vel og jafn smekklega. Hver einasti rammi er stílhreinn og útpældur. Stundum er það leiðinlegt, þarna er það stórskemmtilegt.

En þrátt fyrir hvatningarorð Karls Berndsen þá er ég ennþá sami maður og fyrr í kvöld þegar ég hafði ekki séð Breakfast at Tiffany’s. Myndin verður 50 ára gömul á næsta ári og þó efnistök hennar séu tímalaus þá er framsetningin það ekki.

Japanski nágranni Holly (leikinn af hinum skjannahvíta Mickey Rooney) er illa liðinn og þykir ljótt merki um rasisma gamla tímans. Það má vera að hann sé það, en hann pirraði mig mest með því að vera ófyndinn og í vitlausri mynd. Slapstick-karakter í dramatískri ástarsögu.

Það getur einnig verið nokkuð truflandi þegar myndir eru það gamlar að ekki þótti til siðs að sýna hlutina eins og þeir voru í raun og veru. Það hefði nú ekki verið við hæfi að sýna Holly að totta útigangsmann á bakvið ruslagám fyrir þúsundkall (og það hefði ekki þjónað neinum tilgangi heldur), en tepruskapur gamla tímans gerir það að verkum að myndin hefur ekki jafn öflugan „dramatískan höggþunga“ og hún hefði getað gert. Kannski hefði það komið niður á góða fílingnum, ég veit það ekki.

Oft neyddi tepruskapurinn (Hays-kóðinn) leikstjóra og handritshöfunda til þess að gefa hlutina í skyn í stað þess að sýna þá blákalt, og það gat verið til mikilla bóta. Margir kannast við það að horfa á gamla kvikmynd og hugsa með sér eitthvað á þessa leið: „Hmmm, ætli persónan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þess vegna verið eins og hún var?“. Í myndum í dag er slíkum upplýsingum slengt framan í áhorfandann í einni setningu eða grafísku atriði. Oft er betra að fá að rýna í það óljósa. En í þessari kvikmynd fannst mér kötturinn mega fara aðeins nær heita grautnum.

En þá er það lokaspurningin. Þurfti ég að grípa til eldhúsrúllunnar?

Ég kýs að tjá mig ekki um það að svo stöddu.

Sá loksins Sideways

Posted in Blogg, Gagnrýni on 14.9.2010 by snobbhaensn

Lengi hef ég trassað það að sjá Sideways eftir Alexander Payne, myndina sem fékk alla til að hætta að drekka Merlot í smá tíma. Ég var mjög hrifinn af About Schmidt og stóð í þeirri röngu meiningu að það væri fyrsta mynd leikstjórans. Það er alls ekki rétt, og ég er ekki viss um hvort sá misskilningur stafi af röngum upplýsingum, eða af því að mér fannst nokkur byrjendabragur á henni. Það meina ég þó alls ekki illa, myndin er dásamleg og eldist vel.

Ég var nokkuð hrifinn af Sideways. Ég er ekki svo bergnuminn af hrifningu að ég sé að fara að panta mér myndina í Criterion-útgáfu af Ebay, en myndin er góð og ég er vel líklegur til að sjá hana aftur við tækifæri.

Hún er nefnilega ein af þessum myndum sem ég gríp ekki alveg 100% við fyrsta áhorf. Gagnrýnendur og kvikmyndaáhugamenn hafa ausið hana lofi, verðskuldað að vissu leyti, en ýmsa þætti myndarinnar væri ég til í að skoða betur áður en ég felli minn dóm.

Aumingjamyndir geta verið erfiðar við að eiga. Ef aðalpersónan er aumingi er það oftar en ekki svolítið lottó hvort maður finni til samkenndar með henni eða ekki. Aðalpersónan í Sideways er svo sannarlega fyrirlitlegur aumingi. Hann rænir móður sína, hann er snobbaðri en eigandi þessa bloggs, hann ónáðar fyrrverandi eiginkonu sína símleiðis þegar hann er kominn í glas, og hann lýgur meira en hann mígur.

Eftir því sem leið á myndina fór ég þó að sjá það betur að líklega hefði hann betri mann að geyma en mig grunaði í fyrstu. Ekki það, sumum finnst ekkert tiltökumál þó þeir finni enga samsvörun með neinni persónu kvikmyndar. Þeir geta notið hennar samt sem áður. Sjálfur á ég á erfitt með það.

Og já, Merlot er ekki sem verst.

Kubrick kláraður

Posted in Blogg on 9.9.2010 by snobbhaensn

Á sólríkum sumarmorgni þegar ég var fjórtán viðurkenndi ég það fyrir flokkstjóranum mínum í unglingavinnunni að ég hefði aldrei séð The Shining. Mér fannst í sjálfu sér ekkert athugavert við það þar sem hún var bönnuð börnum undir sextán ára aldri og enn átti ég tvö ár í að ná þeim áfanga. En flokkstjórinn brást fljótt við og mætti eftir hádegishléið með myndina á vídeóspólu og skipaði mér að horfa.

Fram að þessum mikilvæga tímapunkti í sögu bíófíknar minnar hafði ég séð fullt af myndum. En ekki get ég sagt að ég hafi verið jafn vandfýsinn og ég varð síðar. Fjórtán ára drengir horfa bara á það sem rekur á fjörur þeirra. Þeir hafa allan tímann í heiminum og sjá ekki eftir einum og hálfum tíma í bíómynd þó hún sé ömurleg.

Eftir vinnu var ennþá bjart. Gott ef við fengum ekki að fara heim um þrjúleytið sökum veðurblíðu og leti flokkstjórans. Spólan var sett í myndbandstækið og ýtt var á play. Aðstæður í sjónvarpsstofunni voru upp á sitt versta þennan dag. Hitinn var óbærilegur og sterk sólin skein beint í andlitið á mér í gegnum gluggann á bak við sjónvarpið. Ekki skil ég að foreldrum mínum hafi þótt góð hugmynd að staðsetja sjónvarpið þarna, sérstaklega í ljósi þess að fyrir umræddum glugga voru engin gluggatjöld. Líklega höfðu þau ekki gert ráð fyrir úrkynjun frumburðarins; að þykja það í lagi að horfa á kvikmyndir um hábjartan dag.

Eftir tæplega hálftíma varð ég að gera stutt hlé á áhorfinu. Ástæða þess var lamandi ótti minn við þessa kvikmynd, sem mér þótti einkar furðulegt að upplifa við þessar aðstæður. Að vera lafhræddur í gluggasólbaði yfir eldgamalli hryllingsmynd. Eftir smá kjarksöfnun úti á svölum settist ég aftur niður og hélt áfram.

Þetta var líklega í fyrsta skipti sem ég gerði mér grein fyrir því hvað hægt var að gera ótrúlega áhrifamikla hluti í kvikmyndagerð án þess að það sneri beint að því sem áhorfandinn sér á skjánum/tjaldinu. Það var eitthvað virkilega kaldrifjað við það hvernig myndavélin hreyfðist, hvernig tónlistin byggði upp hræðsluna, hvernig furðulegar klippingar (sem sumir myndu nú bara kalla rúnk, jafnvel ég sjálfur á góðum degi) gátu gert myndmálið tíu sinnum áhrifameira og hrollvekjandi. Þessi mynd var ekkert spaug og ég spurði sjálfan mig að því hvort ég hefði í raun gott af því að sjá þessa mynd svona ungur. En dáleiddur sat ég myndina á enda og var staðráðinn í því að sjá fleiri myndir eftir þennan Stanley Kubrick.

Sextán árum síðar hef ég lokið ætlunarverki mínu. Ég er búinn að horfa á allar kvikmyndir Stanley Kubrick. Merkilegt nokk þá eru þær einmitt sextán talsins (þó þrjár þeirra séu reyndar stuttmyndir). Misjafnar eru þær vissulega, en upp úr stendur að Kubrick sveik mig aldrei um áhrifamikið myndmál. Jafnvel í þessum fyrstu myndum hans sér maður hversu fær hann er í öllum sjónrænu þáttum kvikmyndagerðarinnar. Það kann að hljóma sem sjálfsagður hlutur, enda var hann lunkinn ljósmyndari löngu áður en hann sneri sér að kvikmyndum, en kvikmyndir hans eru þó eitthvað annað og meira en bara flott innrammaðar stílæfingar.

Kubrick kenndi mér það að stundum er feykinóg að mynd skapi stemningu. Það getur verið jafn mikilvægt og sagan sjálf, frammistaða leikara og samtölin þeirra á milli. Stundum verður stemningin meira að segja mikilvægari en þetta allt (sbr. Brian De Palma). Kvikmyndin er jú sjónrænt listform og mikil skömm er að því þegar hið sjónræna er sett í annað sæti á eftir sögu sem þú gætir eins lesið í bók.