Svo mikið bíó, svo lítill tími…

Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til þess að ganga gjörsamlega fram af lesendum mínum í hroka, elítisma og snobbi. En ég er handviss um að einhver ykkar séuð mér sammála.

Undanfarinn mánuð eða svo hef ég kerfisbundið horft á margar af þeim perlum kvikmyndasögunnar sem ég hafði dregið á langinn að sjá. Rétt áðan sá ég eina af þeim örfáu Kubrick-myndum sem ég átti eftir, Paths of Glory, og þótti með afbrigðum áhrifamikil og góð. Í gær var það Some Like It Hot, mynd sem trónir ofarlega á flestum listum yfir bestu gamanmyndir allra tíma, en samt fyrir einhverjar sakir hafði ég aldrei séð hana. Breathless eftir Godard hafði ég aldrei séð (sjá blogg hér aðeins neðar), og þrátt fyrir að Godard sé alls ekki minn kaffibolli, þá hafði ég í raun enga afsökun fyrir að hafa ekki séð hans frægustu mynd (vert er að taka það fram að ég hef ekki enn myndað mér skoðun á henni, hana ber að melta).

Já myndirnar eru margar, og þrátt fyrir að hafa séð margfalt fleiri kvikmyndir yfir ævina en meðalmaðurinn, þá á ég svo sannarlega nóg eftir. Og það er reyndar frekar notaleg tilhugsun.

Poppkornsmyndir frá Hollywood hafa almennt ekki heillað mig frá því ég var unglingur. Þetta er reyndar ekki algilt þar sem ég hef jú séð myndir á borð við I, Robot með Will Smith, War of the Worlds með Tom Cruise og Die Hard 4.0 með Bruce Willis. Nýlegar (fyrir gamalmenni eins og mig) myndir sem ég hafði misgaman af. Enda er það jú engin lygi að það eru til góðar poppkornsmyndir, en það er líka til nóg af lélegum.

Líklega er þetta nú tilgangslítið þvaður, enda er klukkan farin að ganga tvö um nótt, en ég er bara svo gífurlega þakklátur fyrir það að finna ekki neina einustu þörf fyrir það að fara í bíó og borga 1.100 krónur fyrir að sjá nýjustu myndina hans M. Night Shyamalan. Og að sama skapi get ég ekki með nokkru móti skilið þá sem gera slíkt.

Árið 1997 hefði ég líklega mætt á miðnæturforsýningu á kvikmynd á borð við Inception, íklæddur Eraser-bol (nú er ég að tala hýpóþetískt, ég er ekki svo lánsamur að eiga slíkan bol) og einkennisflík bíónörds tíunda áratugarins: Bíóleðurjakkanum. Ég hefði geymt miðann minn í bíómiðavindlakassanum mínum (ég á slíkan kassa og hann geymir bíómiða frá árunum 1993 til ársins 1999 á að giska), ég hefði beðið með fiðring í maganum eftir að sjá stjörnugjöf Maltins, og líklega hefði ég keypt undir-meðallagi-gott sándtrakkið úr myndinni, eftir Hans Zimmer, eða álíka aula.

Nú vil ég ekki gera lítið úr óhörðnuðum bíólúðum nútímans. Ég var sjálfur einn slíkur og það voru frábærir tímar. Að hafa getað farið á myndir eins og Congo og Broken Arrow, og talið þær til kvikmynda sem væru þess verðugar að fabúlera yfir. Í það minnsta var ég laus við þjáningar þær er fylgja því að vera kaldhæðinn og forpokaður miðaldra fáviti, sem ég svo sannarlega er í dag.

En fullorðinsárunum fylgir ábyrgð, og ábyrgðin sú hvað mig varðar er að eyða ekki tíma mínum í myndir sem ég veit fyrir víst að eru rusl. Að sjálfsögðu slæðist ein og ein slík inn í áhorf mitt (ég get t.d. ekki beðið eftir Piranha 3-D og ég skal hundur heita ef hún verður ekki stórskemmtileg) en á meðan ég hef ekki séð klassískar kvikmyndir eins og Beitiskipið Pótemkin, Tokyo Story og Bride of Frankenstein finnst mér algjörlega ástæðulaust að sjá nýjustu myndina hans Michael Bay.

Auglýsingar

3 svör to “Svo mikið bíó, svo lítill tími…”

 1. Snorri Stefánsson Says:

  Fuss. Það þarf nú meira en þetta til þess að ganga fram af almennilegu fólki.

 2. Ég er þér gjörsamlega sammála og það sama á líklegast við um flesta sem eru komnir yfir táningsaldur. Það er einmitt skeflilegt að hugsa til þess að svo mikið af skríbentum og krítíkum dagsins í dag eru svo falir undir kvikmyndaáhorf 14 ára lúðans í Eraser bolnum (hýpóthetíska) og lofa Timberwolves ræmur eins og Inception og The Dark Knight sem einhverskonar meistaraverk.

  Hinsvegar hefur mér fátt þótt skemmtilegra í ellinni heldur en vaxandi ást mín á „greina“ kvikmyndum (e. genre) og einstaka sinnum má sjá alveg stórfenglegar nýjar myndir af þeim meiði. Einnig er gífurlega mikið af dásemdar kvikmyndum frá Evrópu og sjálfstæða geiranum sem vert er að sjá í kvikmyndahúsum (þó það sé mun erfiðara ef maður á heima á Íslandi þar sem kvikmyndahús sérhæfa sig einungis í nýjabrumi Jerry Brúck og Shía Lebúff).

  Ég hlakka mikið til að heyra álit þitt á „Andleysi“ hans Godard, sem mér þykir svo ákaflega fín, þó ég eigi oft erfitt með að kunna að meta verk hans.

  PS.
  Ég er loksins búinn að skrifa pistilinn góða um „Psycho“ hans Hitchcock. Ég hlakka til að heyra ummæli (mótmæli) þín.

 3. Já ég er svei mér þá bara nokkuð ánægður með Breathless. Sumar myndir/bækur eru þess eðlis að maður nýtur þeirra ekki fyrr en þeim er lokið. Jafnvel ekki fyrr en dögum eða vikum síðar. Það örlitla af Dostojevskí sem ég hef lesið er nákvæmlega þannig. Þrautarganga meðan á því stendur, en langvarandi áhrif og aðdáun.

  Breathless er sú mynd Godard sem mér finnst komast næst þessu. Ég neita því ekki að nokkrum sinnum langaði mig til að slökkva og horfa frekar á Norbit með Eddie Murphy. En ég kláraði myndina og nú hefur hún gerjast í svolitla stund. Hinar Godard gerjast ekki neitt. Þær sitja bara í manni eins og ælulykt í nefi.

  Ég ætla að lesa Psycho-fabúleringuna þína í góðu tómi á morgun. Nú er það lúll.

  Takk fyrir kommentin drengir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: