Kubrick kláraður

Á sólríkum sumarmorgni þegar ég var fjórtán viðurkenndi ég það fyrir flokkstjóranum mínum í unglingavinnunni að ég hefði aldrei séð The Shining. Mér fannst í sjálfu sér ekkert athugavert við það þar sem hún var bönnuð börnum undir sextán ára aldri og enn átti ég tvö ár í að ná þeim áfanga. En flokkstjórinn brást fljótt við og mætti eftir hádegishléið með myndina á vídeóspólu og skipaði mér að horfa.

Fram að þessum mikilvæga tímapunkti í sögu bíófíknar minnar hafði ég séð fullt af myndum. En ekki get ég sagt að ég hafi verið jafn vandfýsinn og ég varð síðar. Fjórtán ára drengir horfa bara á það sem rekur á fjörur þeirra. Þeir hafa allan tímann í heiminum og sjá ekki eftir einum og hálfum tíma í bíómynd þó hún sé ömurleg.

Eftir vinnu var ennþá bjart. Gott ef við fengum ekki að fara heim um þrjúleytið sökum veðurblíðu og leti flokkstjórans. Spólan var sett í myndbandstækið og ýtt var á play. Aðstæður í sjónvarpsstofunni voru upp á sitt versta þennan dag. Hitinn var óbærilegur og sterk sólin skein beint í andlitið á mér í gegnum gluggann á bak við sjónvarpið. Ekki skil ég að foreldrum mínum hafi þótt góð hugmynd að staðsetja sjónvarpið þarna, sérstaklega í ljósi þess að fyrir umræddum glugga voru engin gluggatjöld. Líklega höfðu þau ekki gert ráð fyrir úrkynjun frumburðarins; að þykja það í lagi að horfa á kvikmyndir um hábjartan dag.

Eftir tæplega hálftíma varð ég að gera stutt hlé á áhorfinu. Ástæða þess var lamandi ótti minn við þessa kvikmynd, sem mér þótti einkar furðulegt að upplifa við þessar aðstæður. Að vera lafhræddur í gluggasólbaði yfir eldgamalli hryllingsmynd. Eftir smá kjarksöfnun úti á svölum settist ég aftur niður og hélt áfram.

Þetta var líklega í fyrsta skipti sem ég gerði mér grein fyrir því hvað hægt var að gera ótrúlega áhrifamikla hluti í kvikmyndagerð án þess að það sneri beint að því sem áhorfandinn sér á skjánum/tjaldinu. Það var eitthvað virkilega kaldrifjað við það hvernig myndavélin hreyfðist, hvernig tónlistin byggði upp hræðsluna, hvernig furðulegar klippingar (sem sumir myndu nú bara kalla rúnk, jafnvel ég sjálfur á góðum degi) gátu gert myndmálið tíu sinnum áhrifameira og hrollvekjandi. Þessi mynd var ekkert spaug og ég spurði sjálfan mig að því hvort ég hefði í raun gott af því að sjá þessa mynd svona ungur. En dáleiddur sat ég myndina á enda og var staðráðinn í því að sjá fleiri myndir eftir þennan Stanley Kubrick.

Sextán árum síðar hef ég lokið ætlunarverki mínu. Ég er búinn að horfa á allar kvikmyndir Stanley Kubrick. Merkilegt nokk þá eru þær einmitt sextán talsins (þó þrjár þeirra séu reyndar stuttmyndir). Misjafnar eru þær vissulega, en upp úr stendur að Kubrick sveik mig aldrei um áhrifamikið myndmál. Jafnvel í þessum fyrstu myndum hans sér maður hversu fær hann er í öllum sjónrænu þáttum kvikmyndagerðarinnar. Það kann að hljóma sem sjálfsagður hlutur, enda var hann lunkinn ljósmyndari löngu áður en hann sneri sér að kvikmyndum, en kvikmyndir hans eru þó eitthvað annað og meira en bara flott innrammaðar stílæfingar.

Kubrick kenndi mér það að stundum er feykinóg að mynd skapi stemningu. Það getur verið jafn mikilvægt og sagan sjálf, frammistaða leikara og samtölin þeirra á milli. Stundum verður stemningin meira að segja mikilvægari en þetta allt (sbr. Brian De Palma). Kvikmyndin er jú sjónrænt listform og mikil skömm er að því þegar hið sjónræna er sett í annað sæti á eftir sögu sem þú gætir eins lesið í bók.

Auglýsingar

2 svör to “Kubrick kláraður”

 1. Glæsilegur pistill. Ég ætlaði einmitt að minnast á það í pistli mínum um Psycho að mér þykir Shining næstum því vanmetinn hvað klassískan hrylling varðar miðað við Rosemary, Exorcist og Psycho. Hún er svo miklum betri en þessar þrjár settar til samans að mér þykir næstum um aðra íþrótt að ræða.

  Annað skemmtilegt: Sá í dag ræmu sem nefnist „Cigarette Burns“ eftir Jónas Carpenter, vin okkar, sem er hluti af sjónvarpseríunni „Masters of Horror.“ Það er hin prýðilegasta mynd og gengur langt í því að vera uppreisn æru fyrir Jónas gamla eftir margar misgóðar myndir á síðustu árum (sem eru reyndar allar stórfenglegar, jafnvel þær ömurlegustu – maðurinn gæti ekki gert Timberwolves mynd þó hann reyndi það). Mér þætti gaman að heyra álit þitt á þessari ágætu sjónvarpsmynd og vonandi að þú hafir tök á að sjá eitthvað af þessari seríu á Íslandi þar sem þessar myndir eru einmitt upp húsasund þitt.

  Friður,
  Jimmy frá Taluca vatni

 2. Takk fyrir það.

  Ég var rétt í þessu að ljúka við þessa stuttu og skrýtnu mynd Jóns. Tók þig á orðinu og varð mér úti um hana með „krókaleiðum“. Nokkuð skemmtileg mynd og þá sérstaklega fyrir það að vera Carpenter seinnitíma mynd sem er ekki algjörlega worthless.

  Ég var búinn að skrifa smá pistil en fór út af sporinu og ákvað þess í stað að henda í eina „Hrollvekjur: Nú vs þá“-færslu.

  Smelli henni inn á morgun.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: