Gæsahúð af gamla skólanum

Hrollvekjan The House of the Devil kom út í fyrra og fór algjörlega fram hjá mér. Hrollvekju-nördismi er erfiður viðureignar því framboðið er svo mikið. Þess vegna sofnaði ég á verðinum og heyrði ekki af þessari mynd fyrr en nú. Og nú er ég búinn að sjá hana.

Það fer ekki framhjá neinum að Ti West (leikstjóri myndarinnar) er slefandi hrollvekjunörd af grófustu sort. Hann þekkir formið greinilega út og inn og notar upphafsmínútur myndarinnar til að leika sér. Við sjáum freeze-frame, gula titla, hröð zoom og allar klisjurnar. Já við erum augljóslega stödd í fortíðinni.

Þó ártal atburðarásarinnar sé ekki gefið upp þá vill internetið meina að myndin eigi að gerast á 9. áratugnum (80’s fyrir þá sem nenna ekki að læra þetta). Sönnunargögn internetsins eru eflaust hlutir eins og props, bílar og sú popptónlist sem heyrist. Ég er þó á því að myndin vitni mun meira í síðari hluta 8. áratugarins (70’s). Ég þykist hafa hártísku og snið gallabuxna með mér í liði, sem og leturgerð titlanna og freeze-frames. Ef ég vissi ekki að myndin væri ný myndi ég giska á að hún hefði komið út á bilinu 1977-1980.

Þetta er þó allt frekar smávægilegt, enda væri lítið varið í mynd sem byggðist alfarið á tilvísunum í gamla tímann. Sem betur fer hættir leikstjórinn að leika sér þegar sagan fer að rúlla, og eftir stendur frekar tímalaus saga sögð með aðferðum fortíðarinnar.

Í stuttu máli er söguþráðurinn á þessa leið. Samantha tekur íbúð á leigu og sér fram á að eiga erfitt með fyrstu leigugreiðsluna. Hún tekur að sér barnapössun fyrir ókunnugan mann en þegar hún mætir á staðinn kemur í ljós að maðurinn á ekki barn. Hann vantar í raun „pössun“ fyrir aldraða móður sína en hafði ekki þorað að taka það fram í auglýsingunni. Samantha tekur illa í ósannsöglið en fellst á endanum á það að passa þá gömlu fyrir 400 dollara.

Lítið ber á þeirri gömlu og Samantha virðist í raun vera ein í húsinu og verður smám saman nokkuð óttaslegin, enda húsið stórt og aðstæður furðulegar. Í forvitni sinni rannsakar hún þó húsið í þaula og kemst á endanum að því að ekki er allt með felldu. Kunnuglegt? Já ætli það ekki.

Helsti vandinn við The House of the Devil er sá að hún er ekkert sérstaklega skemmtileg. Gamli fílingurinn heppnast upp á 10, myndin byrjar hægt, myndatakan er lágstemmd, langt er á milli klippinga o.s.frv. En þegar klukkustund var liðin af myndinni var í raun voða fátt búið að gerast. Það er ekki fyrr en u.þ.b. korter er eftir af myndinni sem hryllingurinn hefst og þá um leið kemur myndin upp um sjálfa sig og sitt sanna ártal. Hún missir sig alls ekki í hryllings-modernisma en hraðinn og hrottaskapurinn verður meiri en gömlu myndirnar höfðu yfirleitt. Þá er ég aðallega að tala um þær myndir sem virðast hafa haft mest áhrif á leiktjórann og nefni þar Rosemary’s Baby og The Tenant eftir Roman Polanski, The Amityville Horror og The Sentinel.

Ég get þó óhikað mælt með myndinni fyrir hrollvekjuáhugafólk. Fyrir hina er hún eflaust allt of hæg og tíðindalítil, en þó ber að nefna að sérstaklega gaman er að horfa á aðalleikkonuna því bæði er hún afskaplega vel af Guði gerð, og einnig er hún sláandi svipuð Margot Kidder í útliti, sem eitt og sér er skemmtileg tilvísun í hrollvekjuarfinn.

Fyrir allra mestu nördana er gaman að segja frá því að myndin er tekin upp á 16mm filmu, en það gefur henni afskaplega nostalgískt yfirbragð. Framleiðendur myndarinnar gengu síðan alla leið með retróið þegar þeir gáfu myndina út á löðursveittu VHS.

Bæri ég hatt tæki ég hann ofan fyrir þeim.

Auglýsingar

8 svör to “Gæsahúð af gamla skólanum”

 1. Skank Says:

  eru túttur?

 2. Neibb. Algjört túttuleysi. Annars hefði ég líklega póstað þeim hér (þessi stelpa er rugl sæt).

  En það er mikið retró-fjör!

  Já og geðsjúkt score!!!

 3. Skank Says:

  hmmm interessant.

  • bingibergs Says:

   Þetta var einmitt poster-artið sem ég hafði séð + castmynd af einhverjum táningum kringum Tom Noonan. Sold!

 4. Hefur þú séð myndina „Stuck“ eftir hann Stuart Gordon, vin okkar (Re-Animator, o.s.frv.)? Hún er alveg hesthúsaskemmtileg og fín hrollvekja.

  Annars hljómar þetta eins og ágætis ræma. Annars er það farið að vera dulítið áhyggjuefni hvað leikstjórar nútímans eiga erfitt með að brydda upp á nýjum og skemmtilegum stíl í stað þess að vitna sífellt í rósrauða fortíðina.

 5. Ég hef ekki stórar áhyggjur af þessu. Að gera óldskúl klisjukennda hrollvekju á 16mm og gefa út á VHS er svona svipað og ein vinsælasta hljómsveit landsins, Hjálmar, er að gera.

  Músík sem var vinsælli í gamla daga, tekin upp með gamla sándinu, gefin út á vínyl (og CD reyndar líka, rétt eins og þessi mynd sem kom einnig út á DVD og BluRay).

  Enn er nóg af njúskúl efni í boði og á meðan megnið af því er ekki betra en það er tek ég svona nostalgíutilraunum fagnandi.

  Meiri áhyggjur hef ég af rímeik-geðveikinni. Pældu ef Morðingjarnir myndu endurgera In Utero eða Dookie. Þá yrði hlegið! 🙂

  PS: Ekki séð Stuck. Fletti henni upp hið snarasta.

 6. Arnór Says:

  Já, nú er ég forvitinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: