Piranha [2010]

Eins og margir vita eflaust núorðið þá er ég einungis snobbaður þegar það hentar mér. Það hentar mér til dæmis afar illa þegar kemur að hryllingsmyndum. Ástæða þess er sú að mér finnst hryllingsmyndir gífurlega skemmtilegar en oft dæmir maður þær á sínum eigin forsendum. Dramatískar myndir eru til dæmis sjaldan það slæmar að þær verði góðar, en aragrúa hryllingsmynda tekst einmitt það. Þess vegna tók ég niður snobb-gleraugun, setti upp þrívíddargleraugun og fór að sjá Piranha.

Piranha er lauslega byggð á samnefndri mynd frá árinu 1978, en sú mynd þótti mér afbragð. Hún var hálfgerð eftirherma af hinni klassísku Jaws eftir Steven Spielberg, en öllu meiri B-mynd og gerði helst út á fjörið. Söguþráður nýju myndarinnar er svipaður þeirri gömlu, en þó langt frá því að vera alveg eins. Svo við höfum það örstutt, þá segir endurgerðin frá baráttu fólks í strandbæ í Bandaríkjunum við mannýga Píranafiska sem éta allt sem í vegi þeirra verður. Og það vill svo heppilega til (fyrir fiskana) að ströndin er stútfull af unglingum í vorfríi (spring break) og því nóg að éta.

Persónusköpun og leikur eru ekki upp á marga fiska (afsakið þetta) enda öllum sama um slíkt. Það veit leikstjóri myndarinnar, Alexandre Aja, alveg upp á hár og einbeitir sér því að því sem mestu máli skiptir: Kynþokka og blóðsúthellingum.

Kynþokkinn er vissulega til staðar. Hálfberar (og stundum alveg berar) stúlkur spranga um og sýna sig fyrir vöðvastæltum fávitum með sólgleraugu og bjór. Ein nektarsena vakti sérstaka athygli mína þar sem tvær allsnaktar stúlkur láta vel að hvorri annarri neðansjávar undir dúndrandi óperutónlist, og enginn pælir neitt í því að fólk þurfi að anda til þess að deyja ekki. Þær dúllast þarna í sjónum í góðar tvær mínútur án þess að kvarta.

Svo er það subbuskapurinn. Hinn franski Aja (leikstjórinn…..verið með mér hérna) á líklega eitthvað mikið bágt. Hvað sem það er sem hrjáir hann þá vona ég að hann leiti sér aldrei aðstoðar, því að splatter-senur Piranha eru gjörsamlega tjúllaðar! High Tension sýndi glögglega að maðurinn væri fús til þess að ganga ansi langt í grafísku ofbeldi, og The Hills Have Eyes benti til þess að maðurinn væri hreinn og klár síkópati. Piranha gengur enn lengra og ég var beinlínis uppgefinn þegar myndinni lauk, slíkur var gassagangurinn og „gorið“. Mér finnst alltaf gaman að skoða plot keywords á Imdb.com þegar um splattermyndir er að ræða. Ég tímdi því að vísu ekki núna fyrr en ég kom heim úr bíó.

Nokkrum þekktum leikurum bregður fyrir í aukahlutverkum. Richard gamli Dreyfuss er étinn á fyrstu mínútum myndarinnar, Christopher Lloyd leikur ofvirkan prófessor (beisiklí Doc Brown með yfirskeggið hans Raul Julia), Dina Meyer birtist örstutt sem kafari og Eli Roth leikur (ótrúlegt en satt!!!) fávita að kynna blautbolakeppni.

Ég veit hreinlega ekki af hverju ég er ennþá að tala um þessa mynd. Ef þú fílar splattermyndir þá er Piranha pottþétt fyrir þig. Ef ekki, þá er ekkert sem ég skrifa hér að fara að láta þig skipta um skoðun. Í þínu tilfelli er Piranha örugglega ömurlega leiðinleg. Þér er alveg fyrirgefið samt. Stangveiði finnst mér til dæmis alveg óheyrilega leiðinleg og sama hversu vel eða illa gerð bíómynd um stangveiði væri, mér þætti hún bókað átakanlega slæm.

En Piranha þótti mér æðisleg. Góð sárabót fyrir hrotuveisluna hans Stallone sem ég fór á með svipuðu hugarfari en olli mér síðan gífurlegum vonbrigðum.

Auglýsingar

8 svör to “Piranha [2010]”

 1. Atli Jarl Says:

  JESS!!! Djöfull ætla ég að sjá þessa eftir þessa umfjöllun!! Snillingur!

 2. *hneigir sig*

  Aðeins eitt sem ég hafði út á að setja:

  Ég hef séð betri þrívídd og ég hef séð betri brellur. Gore-brellur eru fyrirtak, en fiskarnir sjálfir eru soldið eins og krókódilarnir í Eraser 😀

 3. Mér þykir leitt hvað þú ert orðinn mikill afstæðishyggjumaður. Auðvitað mun áhugi manns á hryllingsmyndum hafa áhrif á hvernig maður tekur í slíka mynd en gæði hennar eru varla gjörsamlega bundin við „smekk“ eða „skoðun“? Ef svo er, til hvers þá að skrifa um þessa mynd? Eða kvikmyndir almennt?

  Vill taka það skýrt fram að þessi pistill var afskaplega skemmtilegur, eins og öll þín skrif. Vildi bara ýta við þér ef þú værir að hörfa í einhvern aumingjalegan sófisma.

 4. Takk fyrir það.

  Ég er sammála því að gæði mynda séu aldrei gjörsamlega bundin við smekk eða skoðun. Ef svo væri hefði ég skrifað lofræðu um The Expendables (eitthvað sem ég átti reyndar von á því að ég myndi gera).

  Piranha og The Expendables eru einmitt tvö góð dæmi um kvikmyndir þar sem ég taldi nær öruggt að ég hefði gífurlega gaman af. Önnur þeirra stóðst væntingar en hin ekki. Væntingarnar voru hins vegar af nákvæmlega sama meiði. Það fór enginn á The Expendables haldandi það að leikframmistaða eða handritaskrif væru upp á tíu. Henni mistókst engu að síður (að mínu mati) fullkomlega það sem hún hefði getað gert, sem var: að vera ógeðslega hress. Ég bað í fyllstu einlægni ekki um neitt meira en það.

  Piranha aftur á móti sveik mig ekki. Og enn og aftur bað ég ekki um mikið meira en að hún væri „ógeðslega hress“. Sem hún reyndist vera.

 5. Ljótt „þar“ þarna að þvælast fyrir. Finnið það og vinnið út að borða fyrir tvo.

 6. Jói Hermanns Says:

  Búinn að finna þarið. Og búinn að sjá Piranha. Mér finnst þessi mynd alveg frámuna skemmtileg. I luvs it!

  Ps. „Kvikmyndir ÞAR sem…“

 7. Birta Says:

  Ég sakna Raul Julia.

 8. […] brandarinn var hin þrælskemmtilega Piranha 3D sem kom út fyrir tveimur árum og gekk fram af sjóuðustu splatterhundum með hamslausum (en […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: