„Hér er hanskinn þinn herra Roth“

Síðustu daga hef ég verið duglegur í hrollvekjunum. Í kjölfar þess hef ég verið að velta honum Eli Roth fyrir mér. Það er ekki ofsögum sagt að segja hann einn umdeildasta kvikmyndaleikstjóra síðari ára. Hann hefur einungis leikstýrt þremur myndum í fullri lengd og eru það myndirnar Cabin Fever [2002], Hostel [2005] og Hostel: Part II [2007].

Þegar ég segi „umdeildur“ þá vísa ég aðallega til þess hversu móðins það er orðið hjá hrollvekjuáhugamönnum að úthúða Roth og myndum hans. Þær eru gjarnan flokkaðar sem svokallaðar „torture-porn“-myndir (þá sérstaklega Hostel-myndirnar) og þykja bjóða upp á lítið annað en ofbeldið. Sérstaklega hef ég tekið eftir þessu á spjallþráðum Imdb.com, en þar gerist það gjarnan á þráðum klassísku hrollvekjanna að fólk sem lýsir því yfir að umrædd mynd sé þeim ekki að skapi fái svarið: „Vilt þú ekki bara fara og horfa á Hostel?“. Já eða Eli Roth nefndur persónulega sem tákngervingur alls þess sem misfarist hefur í heimi hrollvekjunnar.

Mér finnst heldur ómaklega vegið að Roth. Auðvitað á maður að taka internetskrifum nafnleysingja með ákveðnum fyrirvara, en fyrir mér er þetta aðeins frekari staðfesting á því sem ég hef heyrt frá fólki í kjötheimum. Fólk virðist einfaldlega fíla Eli Roth afar takmarkað.

Persónuleiki Roth gerir það einnig að verkum að það er afskaplega erfitt að verja hann. Maðurinn er hnakki af amerísku gerðinni. Hann sést gjarnan ölvaður að gera asnastrik, er með stífelsi í hárinu, glottir á öllum ljósmyndum sem eru teknar af honum og það versta, hann er ungi og óreyndi strákurinn sem vingaðist við Quentin Tarantino (hliðstæða litla óþolandi drengsins sem alla í skólanum langar til að berja en þora því ekki vegna þess að vinsæli strákurinn tók hann undir verndarvæng sinn).

En komum þá aðeins að myndunum hans.

Cabin Fever var nokkuð skemmtileg. Roth segist hafa fengið hugmyndina að henni þegar hann fékk kláða og bráðaútbrot við vinnu í hesthúsi rétt hjá Selfossi. Persónur myndarinnar sýkjast af viðbjóðslegum húðvírus sem étur þær nánast upp til agna. Myndin var nokkuð blóðug en var krydduð húmor og var á heildina litið vel heppnuð hrollvekja í léttum dúr.

Hostel (og framhald hennar) var hundrað sinnum viðbjóðslegri. Hún er reyndar svo viðbjóðsleg að á köflum fann ég fyrir hræringum í iðrum mínum, og það gerist svo sannarlega ekki oft hjá Snobbhænsninu, enda ýmsu vant. Sennilega er það Hostel sem skildi flesta eftir með óbragð í munni. Konseptið, það að borga stórfé fyrir að pynta ókunnugt fólk og myrða það, er óhuggulegt og það óhuggulegasta við það er sennilega það að óhugsandi er það alls ekki. Og þar tel ég komna forsendu fyrir því að meta Hostel að verðleikum sínum. Hún er viðbjóðsleg vegna þess að hún skilur mann eftir með óteljandi spurningar um mannlegt eðli (og óeðli) og hvernig fólk sem lítur eðlilega út á yfirborðinu getur framkvæmt óhugsandi voðaverk. Þetta má reyndar segja um nokkuð margar hrollvekjur (góðar jafnt sem lélegar) en mér þykir Hostel fara nokkuð vel með viðfangsefnið. Og er hún óþarflega grafísk? Að sjálfsögðu ekki. Myndin fjallar um pyntingar og þarf að sjálfsögðu að sýna pyntingar.

Auðvitað á það ansi oft við að „minna sé meira“ (less is more). Hryllingurinn í myndum á borð við Alien, Se7en, Psycho og Halloween er svo ofboðslegur vegna þess að smáatriðin eru skilin eftir fyrir ímyndunarafl áhorfandans. Hostel er hins vegar „exploitation“-mynd (ef einhver þekkir ekki hugtakið þá mæli ég með Wikipedia.org) og tilgangur slíkra mynda er að skilja ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið. Sé slík kvikmyndagerð manni ekki að skapi þá dugir ekki að sneiða hjá Hostel. Hún er ein mynd af þúsundum sem lenda í þessum undirflokki og er í raun hvorki grafískari né grimmari en þær flestar.

Ég er til í að líta framhjá gagnrýni á hárið hans Eli Roth, á það hvað hann er fávitalegur í útliti og hegðun, hvað hann er takmarkaður leikari og leiðinlegur í viðtölum. Ég er jafnvel til í að virða þá skoðun fólks sem þykir myndirnar hans einfaldlega leiðinlegar, kjánalegar og á köflum misógynískar. En hafi fólk á annað borð gaman af exploitation/splattermyndum þá trúi ég því einfaldlega ekki að því finnist Eli Roth ganga of langt og myndir hans illa gerðar. Þær eru það einfaldlega ekki.

Og hey, fær hann ekki smá breik fyrir að vera aðdáandi íslensks Malts?

Auglýsingar

13 svör to “„Hér er hanskinn þinn herra Roth“”

 1. Dísa Says:

  Skemmtileg tilviljun.
  Í morgun sat ég í tíma þar sem við stunduðum hugtakagreiningu í kvikmyndum. Hostel myndirnar komu þar við sögu þar sem þær flokkast undir tiltölulega nýja undirgrein í hrollvekjum, Gorno (Gore-porno) Síðan gerðum við líka grín að piranha en það er allt annar handleggur.
  Alltaf gaman að lesa greinarnar þínar frændi 🙂

 2. Kærar þakkir fyrir það 🙂

  Hvernig skilgreinir kennarinn Gore-porno? Skilgreinir hann það sem myndir sem innihalda kynferðisleg element og ofbeldisfull, eða vill hann meina að ofbeldið eitt og sér sé nóg og grófleiki þess jaðri við að vera „klámfenginn“ (án þess kynferðislega).

  Hvað sem því líður þá er þessi meinti undirflokkur allt annað en nýr af nálinni. Taka má sem dæmi nazisploitation-bylgju 8. áratugarins. Margar af þessum 70’s exploitation-myndum eru jafn grófar og Hostel, og sumar hverjar grófari. Þá bæði varðandi ofbeldi, gore, pyntingar og nekt.

 3. Ég hef sjaldan verið jafn kjaftstopp. Ég þarf allavegna eina, tvær vikur til að jafna mig eftir þessa grein. Og þessar myndir… Vá. Það er það eina sem ég get sagt… vá…

 4. Getum við verið sammála um að myndir 1 og 3 séu mun meira stuðandi en 2 og 4? 😀

  En já, ég vona að þú jafnir þig. Þessi grein var skrifuð án íroníu. Ég vildi að þú hefðir séð eitthvað eftir hann þannig að við gætum rætt þetta eins og menn. En við höfum svo sem Hitchcock.

 5. Já, það væri gaman að geta skeggrætt þetta eins og maður. En ég á bara svo erfitt með að þora. Þessi grein þín er næstum því eins og ef einhver myndi taka upp hanskann fyrir Simon West eða seinni tíma Michael Bay. Ég hef ekki séð eina einustu TransFormers og ætti erfitt með að rífa mig í það ef einhver tæki upp hanskann fyrir þeim. En þú ert nú svo smekklegur kvikmyndaskríbent að það er næstum að ég leggi í Hostel 1. Úff… trúi ekki að ég hafi sagt þetta.

 6. Af þeim sléttum 100 reviews sem finna má um hana á Rotten Tomatoes vilja 59 meina að hún sé fresh og 41 telja hana rotna. Það verður því seint sagt að það séu ekki skiptar skoðanir á henni.

  En það var kannski ekki ætlun mín með greininni að reyna að sannfæra fólk um að Cabin Fever og Hostel séu góðar (þó mér finnist það) heldur máske frekar að reyna að varpa ljósi á það hvers vegna tilfinningar fólks í garð Eli Roth og mynda hans eru svona sterkar.

  Ég trúi því í einlægni að það hafi mikið með persónu Roth að gera. Ef kvikmyndagerðarmaður framkallar svona sterk viðbrögð þá hlýtur það að vera annað hvort vegna myndanna eða persónu hans. Og myndir Eli Roth, þó illræmdar séu, finnst mér ekki ástæða fyrir svona sterkum viðbrögðum. A.m.k. ekki hjá þeim sem hafa sopið nokkrar fjörur í hryllingi.

  Þær eru ógeðslegar, en margar ógeðslegri og verr heppnaðar hrollvekjur hafa hneykslað minna.

 7. Hmm, satt og rétt, án efa. Er ekki málið að Roth greyið hafi einfaldlega verið gerður að veggspjaldabarni („poster child“) af þeim sem eru lítið gefnir fyrir slíkar myndir, mögulega (a.m.k. að einhverju leyti) að ósekju? Rísandi stjarna í kvikmyndaheiminum gerir það nokkuð gott með fyrstu mynd sinni og fær síðan dágóðan skammt af peningum til að gera næstu mynd og ákveður að gera subbulegt pyntingaklám. Slíkt er náttúrulega ofboðsleg skrýtið. Það er eitt ef sjoppulegir Evrópubúar eða Z-gráðu leikstjórar frá áttunda áratugnum gera slíkar myndir, en það að tiltölulega hæfileikaríkur leikstjóri með framtíðina fyrir sér ákveði að gera slíkt er einfaldlega ekki kosher.

  Ótrúlegt en satt þá held ég að þú hafir nokkuð fyrir þér í þessum hanskaupptökum. Hinsvegar held ég enn í efa minn hvað gæði myndanna varðar, allavegna þangað til ég píni mig til að sjá nr. 1. Ég spái því einmitt að ég muni klára að horfa á hana… (skjótið inn nafni á skjaldböku hér).

 8. Cabin Fever teldi ég líklegra að þú hefðir gaman af. Þú ert hinsvegar ólíkindatól og meiri líkur en minni að hún geri þig brjálaðan. Engu að síður er hún tiltölulega vel heppnað hryllings-fjör. Frekar all over the place á köflum, en ljómandi brómantískur gamanhrollur.

 9. Má ég bara segja hvað þessar siðuðu, fáguðu og yfirveguðu samræður ykkar Ágústs og Hauks vekja hjá mér mikla gleði?

  Mikið vildi ég að allur diskúrs íslendinga væri á þessu plani!

  Haukur SM

 10. Takk fyrir innlitið Haukur. Við Ágúst erum einlægir stuðningsmenn séntilmennsku. Við höldum okkur ávallt á kurteisu nótunum, allavega á meðan við ræðum ekki Mel Brooks.

 11. Haha. Ég stennst ekki mátið. Tökum séntilmennskuhanskana af eitt stundarkorn:

  Young Frankenstein er klárlega geeeeeeeeeeðveik. Það er líka rétt út af því að Hlussu Harry finnst það.

  (Ef þú ert með einhvern kjaft og vísar í rökvillur Aristóteles og bendir á hversu innihaldlaus þessi staðhæfing mín er þá segi ég bara: Prump á Aristóteles. Platón er miklu svalari).

 12. Álit þitt hefur ekkert vægi. Ég er kvikmyndagagnrýnandi að atvinnu hjá stærsta dagblaði Íslands og segi það og skrifa að ég myndi frekar horfa á allar seríurnar af According to Jim í rútu á malarvegi með brotinn öxul heldur en að tékka aftur á Young Frankenstein.

  Ef þú ert með einhvern kjaft þá hringi ég í minn mann Ebert og við komum og fokkum þér upp. Grínlaust.

 13. Haha. Þessi rútuferð hljómar alveg fín. Battdríslavr.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: