Sarpur fyrir október, 2010

Saga kvikmyndar

Posted in Blogg on 26.10.2010 by snobbhaensn

Í kvöld fór ég í Bæjarbíó að sjá gamla klassík. Vertigo eftir Alfred Hitchcock var á dagskrá, og þrátt fyrir að vera mikill aðdáandi Fredda feita þá hef ég aldrei talið Vertigo meðal hans bestu mynda. Þetta er eilítið á skjön við almenningsálitið og því fannst mér tilvalið að sjá hana í kvikmyndahúsi af filmu. Mögulega kynni ég betur við hana þannig heldur en á DVD eða VHS.

Þetta er þó ekki hugsað sem umfjöllun um kvikmyndina heldur frekar sem vangaveltur um þá upplifun sem Bæjarbíó veitir á sýningum sínum. Ég hef verið sæmilega duglegur við að sækja þessar sýningar í gegnum tíðina. 500 kall, og ég geng yfirleitt hress þaðan út. Í bíóinu hef ég séð myndir af ýmsum toga. Nasistaáróðursmyndir Leni Riefenstahl, eitthvað af Hitchcock, íslensku kvikmyndina Húsið, Jesúmyndina hans Scorsese, Verkfallið hans Eisenstein, gamlar Roger Corman-myndir, Dario Argento…..þetta er svona það sem ég man eftir í fljótu bragði. Allt er þetta sýnt af gömlum filmum sem Kvikmyndasafn Íslands skaffar.

Það er hreinasti unaður að sitja á óþægilegum trébekk og horfa á meira en hálfrar aldar gamalt sýningareintak kvikmyndar. Óneitanlega fer ég að ímynda mér sögu eintaksins. Hvar var kvikmyndin sýnd á sínum tíma? Flakkaði hún um allt land eða var hún einungis sýnd í Reykjavík? Hverjir sáu hana á sínum tíma? Ætli afi og amma hafi horft á nákvæmlega sama eintak af myndinni fyrir hálfri öld? Hvernig brást fólk á Íslandi við myndinni í kringum 1960? Hvar var myndin geymd áður en Kvikmyndasafnið fékk hana? Var hún uppi á háalofti hjá einhverjum löngu dauðum fyrrum sýningarstjóra í 30 ár? Eru þetta skegghár á filmunni úr manni sem dó áður en móðir mín fæddist?

Göngum eilítið lengra. Ætli ég hafi horft á nákvæmlega sama eintak af myndinni í fyrra lífi? Hver var ég? Var ég reykvískur rakari í hamingju- snauðu hjónabandi með konu sem ég kynntist á frumsýningarkvöldi myndarinnar í kvikmyndahúsi sem er ekki lengur til? Var sjoppa í bíóinu? Hvað ætli ég hafi keypt? Kók í gleri og lakkríspípu? Fannst mér endir myndarinnar jafn furðulegur og mér finnst núna? Var ég mögulega ekki karl heldur kona? Lét ég mig dreyma um að kynnast manni sem líktist Jimmy Stewart? Gafst ég upp á leitinni að honum og giftist þess í stað drykkfelldum sjómannssyni frá Siglufirði sem barði mig og barnaði til skiptis?

Maður spyr sig.

Auglýsingar

Maðurinn sem gaf öllum myndum fjórar stjörnur…

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg, Gagnrýni on 17.10.2010 by snobbhaensn

Störf mín hjá Fréttablaðinu hefjast á skemmtilegum tíma kvikmynda- ársins. Á haustin og alveg fram að jólum leggja stúdíóin áherslu á frumsýningar mynda sem þykja sigurstranglegar á verðlaunatímabili næsta árs (janúar og febrúar). Óskarinn, Golden Globe, BAFTA og þar fram eftir götunum. Þessar myndir eru því gagnrýnendum ofarlega í huga þegar kemur að árslistagerð og verðlaunatilnefningum.

Fyrstu þrjár myndirnar sem ég hef skrifað um fyrir blaðið fá allar fjórar stjörnur (af fimm). Þetta væri máske saga til næsta bæjar ef ég hefði byrjað í maímánuði, en núna er einfaldlega bara góssentíð í bíó. Ég vona að enginn dragi heilindi mín í efa þrátt fyrir að ég byrji á jákvæðu nótunum. Allt eru þetta prýðilegar myndir sem ég mæli með að sem flestir sjái.

Hér eru umfjallanirnar þrjár:

Allir í gallana!

Brim ****
Leikstjóri: Árni Ólafur Ásgeirsson
Leikarar: Ólafur Egilsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ingvar E. Sigurðsson

Kvikmyndin Brim er byggð á samnefndu verðlaunaleikriti Jóns Atla Jónassonar sem leikhópurinn Vesturport sýndi á sínum tíma við góðan orðstír. Nú er leikritið orðið að kvikmynd og er það leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson sem stendur í brúnni.

Brim segir frá ungri konu sem ræður sig á togarann Jón á Hofi, en skipverjar bátsins eru enn nokkuð andlega laskaðir eftir sjálfsvíg eins þeirra í túrnum á undan. Báturinn er síbilandi ryðhrúga og mannskapurinn er samansafn furðufugla sem eiga erfitt með að venjast landkrabbameinssjúkum kvenmanni um borð. Andrúmsloftið um borð er á köflum hrollvekjandi og andi hins látna virðist hafa tekið sér bólfestu í skipinu og áhöfn þess.

Árni Ólafur heldur vel utan um söguna og virðist hafa sérlega gott auga fyrir sjónrænum smáatriðum og myndmálið er sterkt. Sumum kann að þykja myndin fremur hæg framan af en í tilfelli Brim er það kostur frekar en galli. Hverri persónu er gefið svigrúm til að kynna sig fyrir áhorfandanum og þegar leikar fara að æsast er áhorfandinn því sem næst kominn í pollagallann á ruggandi þilfarið með áhöfninni.

Leikararnir endurtaka hlutverk sín úr leikritinu og auðvelt er að ímynda sér það sem algjöran lúxus að fá að stýra hópi leikara sem allir hafa leikið persónur sínar áður. Hver leikari virðist þekkja sinn karakter vel og góður tími hefur gefist til að fínpússa skapgerð þeirra og takta. Það skilar sér á tjaldið og Brim er því afskaplega vel leikin. Skemmtilegastar eru persónur þeirra Gísla Arnar Garðarssonar og Ólafs Egilssonar en báðir leika þeir undirmálsmenn kryddaða mikilli kómík og sérstöku fasi.

Ég fagna því að ekki er lengur ástæða til að dvelja lengi við hjal um tæknilega úrvinnslu íslenskra kvikmynda. Íslenskar kvikmyndir eru komnar í meistaraflokk hvað útlit og frágang varðar. Fólkið bak við tjöldin hefur staðið vakt sína með sóma við erfiðar aðstæður á sjó og reka þannig smiðshöggið á vel heppnað verkið.

Niðurstaða: Brim er köld og blaut en gerð af ást og hlýju.

[Birtist í Fréttablaðinu 4. október 2010]


Kani í völundarhúsi

The American ****
Leikstjóri: Anton Corbijn
Leikarar: George Clooney, Thekla Reuten, Violante Placido, Paolo Bonacelli

George Clooney kallar sig Jack og er staddur í Svíþjóð á fyrstu mínútum kvikmyndarinnar The American. Þar berst hann við byssuglaða snáða í snjónum og hefur betur. Skömmu síðar gengur hann undir nafninu Edward í smáþorpi á Ítalíu þar sem örlög hans munu ráðast.

Í fyrstu dregst áhorfandinn inn í sögufléttuna en þegar líða tekur á myndina kemur í ljós að hún skiptir ekki máli. Hver mun drepa hvern og af hverju? Hverjir eru sannir bandamenn Ameríkanans og hverjir munu stinga hann í bakið? Edward treystir engum vegna þess að hann er í helvíti. Vingjarnlegur prestur reynir að benda honum á það en líklega er það orðið of seint.

Aftanverð eyrun á George Clooney eru í miklu aðalhlutverki. Við sjáum aftan á hann þar sem hann gengur hægum en ákveðnum skrefum um þröng og tómleg stræti þorpsins, fram og til baka. Það er líkt og hann sé staddur í völundarhúsi án útgönguleiðar.

Það eru engar sprengingar í myndinni. Hún býður áhorfandanum upp á merkilegri og betri hluti en það. Á endanum stoppar sýningarvélin en kvikmyndin heldur áfram. Tveir sólarhringar hafa liðið og ég er ennþá að horfa á The American.

Niðurstaða: Falleg og djörf mynd sem tekur tíma að melta. Þeir sem vilja hasar verða vonsviknir.

[Birtist í Fréttablaðinu 14. október 2010]


Góð í dag, betri á morgun?

The Social Network ****
Leikstjóri: David Fincher
Leikarar: Jesse Eisenberg, Andrew Garfield, Armie Hammer, Justin Timberlake

The Social Network er „Facebook-myndin“ sem allir eru að tala um. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, var ekki par hrifinn af því að vera gerður að sögupersónu í kvikmynd. Hann er umdeildur maður og margir telja að hann eigi velgengni sína öðrum að þakka. Myndin reynir að varpa ljósi á það hvers konar mann hann hefur að geyma, og hvernig Facebook-fyrirbærið varð vinsælla en Jesús og Bítlarnir.

Flestir ættu að þekkja leikstjóra myndarinnar, en það er sjálfur David Fincher, maðurinn sem færði okkur myndir á borð við Zodiac, Fight Club og hina klassísku Se7en. Fincher hefur ávallt verið mikill stílisti og einhverjir hafa kvartað undan því að hann eigi erfitt með að hemja sig þegar kemur að útlitsþáttum líkt og myndatöku, klippingu og brellum. Á götumáli eru slíkar hneigðir stundum kallaðar „rúnk“. Afsakið orðbragðið.

Hann gerir sig þó ekki sekan um slíkt í The Social Network. Persónurnar halda frásögninni gangandi og vel skrifuðum samtölum handritshöfundarins er leyft að baða sig í mesta sviðsljósinu. Leikarahópurinn er nokkuð öflugur og er það aðalleikarinn Jesse Eisenberg sem á mesta hrósið skilið. Hann hefur hingað til verið þekktur sem „Michael Cera fátæka mannsins“ en hér fær hann tækifæri til að sanna sig sem alvöru leikari og stenst prófið með glæsibrag.

Ég hlakka mikið til að sjá myndina eftir áratug eða tvo. Hún á eftir að verða stórskemmtileg heimild um merkilegt menningarfyrirbæri sem allir þekkja í dag, en enginn veit hvort muni halda velli til framtíðar.

Niðurstaða: The Social Network er vel heppnuð. Og hún er ekkert verri þó þú sért ekki á Facebook.

[Birtist í Fréttablaðinu 15. október 2010]

Flókið líf gagnrýnandans

Posted in Blogg on 11.10.2010 by snobbhaensn

Að vera kvikmyndagagnrýnandi á lítið lesinni bloggsíðu er ánægjan ein. Frá því ég opnaði þessa síðu hef ég haft einkar gaman af því að upphefja það sem mér þykir merkilegt og draga hitt niður í svaðið. Séu lesendur mér sammála fæ ég stundum skemmtilegar athugasemdir á vefinn minn frá ánægðum lesendum. Séu þeir ósammála er lítill skaði skeður. Flestir sem kommenta hér eru manneskjur sem ég þekki persónulega, annað hvort vel eða lítillega. Skrifi ég níð um kvikmynd sem er einhverjum lesenda minna hjartfólgin fæ ég einfaldlega athugasemd þess efnis að ég sé fáviti, nú eða einlæg og yfirleitt vel skrifuð mótrök. Ekkert nema gott um það að segja.

Um daginn fékk ég símtal frá Fréttablaðinu. Mér bauðst það spennandi verkefni að gerast kvikmyndagagnrýnandi blaðsins, og þrátt fyrir að einungis sé um aukavinnu að ræða þá þáði ég boðið. Aukakrónur eru ávallt vel þegnar en fyrst og fremst fannst mér það spennandi tilhugsun að geta skrifað um kvikmyndir í mest lesna blaði Íslands. Það má því segja að lesendafjöldi minn hafi tekið góðan kipp upp á við, og er það vel.

Þegar þetta er skrifað hef ég farið að sjá þrjár kvikmyndir á vegum blaðsins. Einn dómur hefur nú þegar verið birtur. Hinir tveir eru væntanlegir í vikunni. Það eru þó nokkur atriði við nýja djobbið sem ég hef velt miklum vöngum yfir.

Stjörnugjöf
Mér finnst skrýtið að gefa kvikmyndum stjörnur. Ef ég þyrfti að gefa kvikmyndunum A Clockwork Orange og Annie Hall stjörnur fengju þær báðar fullt hús stiga. Þýðir það sjálfkrafa að þær séu jafn góðar? Nefnilega ekki. Mér finnst önnur þeirra betri en hin. Báðar finnst mér þær samt verðskulda fullt hús. Sá sem læsi umfjallanir mínar (væru þær til) um báðar kvikmyndirnar gæti mögulega giskað á hvor mér þætti betri. Það er samt ekki víst, þar sem pistlarnir væru ekki skrifaðir með það í huga að bera þær saman. Orð vega þyngra en einkunnagjöf og einkunnagjöf í lok pistils getur jafnvel stangast á við það sem innihald pistilsins gefur til kynna. Annað varðandi þetta, þá tek ég sjálfur lítið mark á stjörnugjöf manna sem ég þekki ekki. Ef ég sé stjörnugjöf frá Roger Ebert og Leonard Maltin þá tel ég mig einhvers vísari, en það er vegna þess að ég hef lesið óteljandi kvikmyndadóma frá hvorum um sig og er farinn að „læra“ á þá, allavega upp að vissu marki. ÖFÞ hjá Mogganum eða Fréttablaðinu er andlitslaus aðili úti í bæ sem ég hef ekki hugmynd um hvort dragi stjörnurnar úr afturendanum á sér eða ekki. Vonandi næ ég þó að aðlagast stjörnugjöfinni.

Lengd
Á blogginu mínu get ég skrifað endalaust um kvikmynd telji ég þörf á því. Í dagblaði eru mér settar ákveðnar takmarkanir varðandi lengd umfjallana. Ég þarf ekki að binda mig við ákveðinn orðafjölda, en gagnrýnin má þó ekki vera mjög löng. Stundum er ekki þörf á löngum pistli, en í sumum tilfellum kem ég til með að naga mig í handarbökin á meðan ég stytti og sleppi. Ég þarf að læra betur á þetta.

Hagsmunaárekstrar
Ef ég sé kvikmynd sem mér finnst ömurleg ber mér siðferðisleg skylda til að gefa henni lélega einkunn. Það gefur augaleið. Ég tæki sjálfur lítið mark á gagnrýnanda sem gæfi aldrei lægri einkunn en t.d. tvær stjörnur. Margar kvikmyndir eru góðar, en inn á milli leynast stórar og ljótar hauskúpur sem gagnrýnandi á ekki að reyna að fegra. Ég get ímyndað mér að dreifingaraðili kvikmyndar sem ég gef falleinkunn bölvi mér í hljóði þegar dómur birtist. Kannski er þetta óþarfa paranoja í mér, en hann hefur að sjálfsögðu mikilla hagsmuna að gæta. Hann vill að sem flestir sjái kvikmyndina. Hagsmunir mínir eru hins vegar þeir að mark á mér sé tekið. Ég verð því að vera hreinskilinn, en um leið finnst mér ég bera mikla ábyrgð og verð að vanda mig. Ég þarf ekki að hugsa um neitt slíkt á blogginu.

Íslenskar kvikmyndir
Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hugsa um þá staðreynd að það muni koma að því að ég sjái íslenska kvikmynd sem mér finnst hræðileg, og að ég þurfi að skrifa um hana. Ísland er lítið land þar sem allir þekkja alla. Sjálfur útskrifaðist ég úr kvikmyndaskóla árið 2007. Í skólanum varð á vegi mínum dágóður fjöldi fólks sem starfar innan kvikmyndageirans á Íslandi. Sumir hafa eflaust gleymt mér, en flestir þessara einstaklinga heilsa mér úti á götu, og sumir spjalla meira að segja við mig. Allt er þetta toppfólk en vegna smæð iðnaðarins hér á Íslandi er það nærri óhjákvæmilegt að einhver þeirra muni koma að gerð kvikmyndar sem mér kemur til með að finnast slæm. Ég ætla mér ekki að fara neinum silkihönskum um kvikmyndir sem eiga það ekki skilið. Þetta veldur mér þó eilitlu hugarangri í augnablikinu. En ég veð þann læk þegar ég kem að honum.

Þrátt fyrir þessar vangaveltur mínar þá lít ég á þetta sem skemmtilegt tækifæri. Áðurnefndur lesendafjöldi er ekkert nema gott mál. Ég hlakka til að heyra hvað fólki finnst. Ég hlakka einnig til að fá að þjálfa færni mína í skoðun kvikmynda. Sama hversu mikið ég vanda mig við þetta í dag, mun ég verða betri að ári liðnu. Og vonandi fæ ég að gera þetta í einhvern tíma.

Og það besta við þetta allt saman? Ég fæ að fara frítt í bíó eins oft og ég kæri mig um. Ég mun sjá frábærar myndir og ég mun sjá afleitar myndir. Kannski læt ég drauminn rætast og labba út af bíómynd í fyrsta skipti á ævinni. Hingað til hef ég ekki tímt því. Setið undir djöfullegum leiðindum til þess að fá allt fyrir aurinn minn. Hver veit? Kannski mun tilvitnun í mig birtast á DVD-hulstri einhvern daginn. „„Rob Schneider hefur aldrei verið betri!“ – Haukur Viðar, Fréttablaðið“. Það væri nú gaman. Ég myndi kaupa þá mynd á DVD.

Kuldahrollur

Posted in Áróður, Blogg on 5.10.2010 by snobbhaensn

Örblogg.

Sá myndina Frozen í gær og var hrifinn. Hún er ekki hefðbundin hrollvekja heldur meira eins og kvikmyndin Alive + smá gæsahúð og gore. Á Sundance leið víst yfir fólk og einhverjir ældu og svona. Kvikmyndir reyna yfirleitt að nota slíkt sem sölutrix en aðstandendur Frozen reyndu, þvert á móti, að kveða niður slíkar sögusagnir. Þeir töldu að slíkt gæti gefið ranga mynd af „ógeðsmagni“ myndarinnar. Sem það gerir, hún er ekki það ógeðsleg. En eins og Hlussu-Harry hjá Aint It Cool segir……hún er intense.