Flókið líf gagnrýnandans

Að vera kvikmyndagagnrýnandi á lítið lesinni bloggsíðu er ánægjan ein. Frá því ég opnaði þessa síðu hef ég haft einkar gaman af því að upphefja það sem mér þykir merkilegt og draga hitt niður í svaðið. Séu lesendur mér sammála fæ ég stundum skemmtilegar athugasemdir á vefinn minn frá ánægðum lesendum. Séu þeir ósammála er lítill skaði skeður. Flestir sem kommenta hér eru manneskjur sem ég þekki persónulega, annað hvort vel eða lítillega. Skrifi ég níð um kvikmynd sem er einhverjum lesenda minna hjartfólgin fæ ég einfaldlega athugasemd þess efnis að ég sé fáviti, nú eða einlæg og yfirleitt vel skrifuð mótrök. Ekkert nema gott um það að segja.

Um daginn fékk ég símtal frá Fréttablaðinu. Mér bauðst það spennandi verkefni að gerast kvikmyndagagnrýnandi blaðsins, og þrátt fyrir að einungis sé um aukavinnu að ræða þá þáði ég boðið. Aukakrónur eru ávallt vel þegnar en fyrst og fremst fannst mér það spennandi tilhugsun að geta skrifað um kvikmyndir í mest lesna blaði Íslands. Það má því segja að lesendafjöldi minn hafi tekið góðan kipp upp á við, og er það vel.

Þegar þetta er skrifað hef ég farið að sjá þrjár kvikmyndir á vegum blaðsins. Einn dómur hefur nú þegar verið birtur. Hinir tveir eru væntanlegir í vikunni. Það eru þó nokkur atriði við nýja djobbið sem ég hef velt miklum vöngum yfir.

Stjörnugjöf
Mér finnst skrýtið að gefa kvikmyndum stjörnur. Ef ég þyrfti að gefa kvikmyndunum A Clockwork Orange og Annie Hall stjörnur fengju þær báðar fullt hús stiga. Þýðir það sjálfkrafa að þær séu jafn góðar? Nefnilega ekki. Mér finnst önnur þeirra betri en hin. Báðar finnst mér þær samt verðskulda fullt hús. Sá sem læsi umfjallanir mínar (væru þær til) um báðar kvikmyndirnar gæti mögulega giskað á hvor mér þætti betri. Það er samt ekki víst, þar sem pistlarnir væru ekki skrifaðir með það í huga að bera þær saman. Orð vega þyngra en einkunnagjöf og einkunnagjöf í lok pistils getur jafnvel stangast á við það sem innihald pistilsins gefur til kynna. Annað varðandi þetta, þá tek ég sjálfur lítið mark á stjörnugjöf manna sem ég þekki ekki. Ef ég sé stjörnugjöf frá Roger Ebert og Leonard Maltin þá tel ég mig einhvers vísari, en það er vegna þess að ég hef lesið óteljandi kvikmyndadóma frá hvorum um sig og er farinn að „læra“ á þá, allavega upp að vissu marki. ÖFÞ hjá Mogganum eða Fréttablaðinu er andlitslaus aðili úti í bæ sem ég hef ekki hugmynd um hvort dragi stjörnurnar úr afturendanum á sér eða ekki. Vonandi næ ég þó að aðlagast stjörnugjöfinni.

Lengd
Á blogginu mínu get ég skrifað endalaust um kvikmynd telji ég þörf á því. Í dagblaði eru mér settar ákveðnar takmarkanir varðandi lengd umfjallana. Ég þarf ekki að binda mig við ákveðinn orðafjölda, en gagnrýnin má þó ekki vera mjög löng. Stundum er ekki þörf á löngum pistli, en í sumum tilfellum kem ég til með að naga mig í handarbökin á meðan ég stytti og sleppi. Ég þarf að læra betur á þetta.

Hagsmunaárekstrar
Ef ég sé kvikmynd sem mér finnst ömurleg ber mér siðferðisleg skylda til að gefa henni lélega einkunn. Það gefur augaleið. Ég tæki sjálfur lítið mark á gagnrýnanda sem gæfi aldrei lægri einkunn en t.d. tvær stjörnur. Margar kvikmyndir eru góðar, en inn á milli leynast stórar og ljótar hauskúpur sem gagnrýnandi á ekki að reyna að fegra. Ég get ímyndað mér að dreifingaraðili kvikmyndar sem ég gef falleinkunn bölvi mér í hljóði þegar dómur birtist. Kannski er þetta óþarfa paranoja í mér, en hann hefur að sjálfsögðu mikilla hagsmuna að gæta. Hann vill að sem flestir sjái kvikmyndina. Hagsmunir mínir eru hins vegar þeir að mark á mér sé tekið. Ég verð því að vera hreinskilinn, en um leið finnst mér ég bera mikla ábyrgð og verð að vanda mig. Ég þarf ekki að hugsa um neitt slíkt á blogginu.

Íslenskar kvikmyndir
Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hugsa um þá staðreynd að það muni koma að því að ég sjái íslenska kvikmynd sem mér finnst hræðileg, og að ég þurfi að skrifa um hana. Ísland er lítið land þar sem allir þekkja alla. Sjálfur útskrifaðist ég úr kvikmyndaskóla árið 2007. Í skólanum varð á vegi mínum dágóður fjöldi fólks sem starfar innan kvikmyndageirans á Íslandi. Sumir hafa eflaust gleymt mér, en flestir þessara einstaklinga heilsa mér úti á götu, og sumir spjalla meira að segja við mig. Allt er þetta toppfólk en vegna smæð iðnaðarins hér á Íslandi er það nærri óhjákvæmilegt að einhver þeirra muni koma að gerð kvikmyndar sem mér kemur til með að finnast slæm. Ég ætla mér ekki að fara neinum silkihönskum um kvikmyndir sem eiga það ekki skilið. Þetta veldur mér þó eilitlu hugarangri í augnablikinu. En ég veð þann læk þegar ég kem að honum.

Þrátt fyrir þessar vangaveltur mínar þá lít ég á þetta sem skemmtilegt tækifæri. Áðurnefndur lesendafjöldi er ekkert nema gott mál. Ég hlakka til að heyra hvað fólki finnst. Ég hlakka einnig til að fá að þjálfa færni mína í skoðun kvikmynda. Sama hversu mikið ég vanda mig við þetta í dag, mun ég verða betri að ári liðnu. Og vonandi fæ ég að gera þetta í einhvern tíma.

Og það besta við þetta allt saman? Ég fæ að fara frítt í bíó eins oft og ég kæri mig um. Ég mun sjá frábærar myndir og ég mun sjá afleitar myndir. Kannski læt ég drauminn rætast og labba út af bíómynd í fyrsta skipti á ævinni. Hingað til hef ég ekki tímt því. Setið undir djöfullegum leiðindum til þess að fá allt fyrir aurinn minn. Hver veit? Kannski mun tilvitnun í mig birtast á DVD-hulstri einhvern daginn. „„Rob Schneider hefur aldrei verið betri!“ – Haukur Viðar, Fréttablaðið“. Það væri nú gaman. Ég myndi kaupa þá mynd á DVD.

Auglýsingar

10 svör to “Flókið líf gagnrýnandans”

 1. Hlakka til að sjá þig á DVD hulstri einhverntímann, þá get ég sagst þekkja celeb!

  Koma þessir dómar þá á visir.is líka eða?

 2. Varðandi stjörnugjöfina. Þá finnst mér líka erfitt að nota hana. Finnst svolítið eins og ég sé að gefa orðunum mínum stjörnur. Afar takmarkandi tilfinning.

 3. Gaman væri ef tilvitnun eftir þig birtist á endurútgáfu Shawshank Redemption: „Algjört Timber og ekki næstum því jafn góð og Congo!“

 4. HAHAHAHAHA! Fyndnasta sem þú hefur sagt!

  Elli: Ég vona það. Síðasti kom reyndar ekki á Vísi. Þarf að tékka á þessu.

 5. Ein pæling samt: Finnst þér það ekki vera skylda kvikmyndagagnrýnanda að sitja út alla myndina? Mér finnst það sjálfsagt mál ef pistlahöfundar eða spekúlantar labba út af myndum en kvikmyndagagnrýnendur sem fá borgað fyrir starf sitt eru svolítið annað mál, ekki satt?

  Annars er frábært að labba út af mynd. Ég labbaði út af hinni skelfilegu „The Cell“ og að mig minnir af hinni enn skelfilegri „American History X.“ En ég hef líka setið út alveg skelfilegar myndir. Hvað var maður til dæmis að pæla að labba ekki út af „Contact“? Helv… „Contact.“ Ekki næstum því jafn góð og „Congo.“

 6. Tjah skylda og ekki skylda. Ef ég fer á ömurlega mynd og beila eftir klukkutíma gæti ég alveg skrifað um hana án þess að einhver viti að ég hafi beilað.

  HINS VEGAR var ég nú bara að tala almennt um að geta labbað út án þess að vera að horfa í aurinn. Ég fæ frítt í öll bíó á allar myndir hvenær sem ég vil (á meðan ég gegni þessu starfi). Kem til með að sjá miklu meira en það sem ég skrifa um.

  Ég reikna síður með því að ég færi að labba út af mynd sem ég þyrfti að skrifa um, jafnvel þó hún væri hræðileg.

  Næst hef ég komist því að labba út þegar ég fór á Matrix Reloaded. Eina ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki (algjörlega EINA ástæðan) var sú að ég var með öðru fólki og var sá sem var á bíl :/

  Og jú, við Atli gengum út af Apocalypse Now í Bæjarbíói þegar við föttuðum að þetta væri Redux. Snobbaðasta sem ég hef gert. Fengum meira að segja endurgreitt :p

 7. bingibergs Says:

  Þetta þýðir þá væntanlega að þú sért að skrifa um frumsýningar í kvikmyndahúsum borgarinnar ? … … Gturðu reynt að fá þá að skrifa óreglulega um eitthvað sem er ekki í bíó,því varla er nú vanþörf á að æsa fólk upp í að tjekka á gullmolunum. Ellegar sé ég fram á þreytandi vertíð..

 8. bingibergs Says:

  og þessi mynd af Harry. Skjárinn sem hann á að vera að lesa á þarna er einhvernveginn alveg á skjön við sjónsvið hans þarna..hann er ekki að sjá neitt…er þetta tónninn sem er gefinn ..á þetta að vera málið.. ætlarðu að steypa bara eitthvað (fyrir alla peningana) ?

 9. Ég efast stórlega um að það sé spenningur fyrir því að gullmolar verði teknir fyrir þó við sveittustu nördarnir hefðum gaman af því.

 10. Hmm, en mögnuð pæling. Þú ættir klárlega að stinga upp á því (þegar þú hefur gegnt þessu starfi dulítið lengur) að fá að skrifa pistla um kvikmyndir almennt, t.d. um klassískar myndir, ákveðnar kvikmyndagreinar (genre) o.s.frv. Það yrði klárlega vinsælt!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: