Maðurinn sem gaf öllum myndum fjórar stjörnur…

Störf mín hjá Fréttablaðinu hefjast á skemmtilegum tíma kvikmynda- ársins. Á haustin og alveg fram að jólum leggja stúdíóin áherslu á frumsýningar mynda sem þykja sigurstranglegar á verðlaunatímabili næsta árs (janúar og febrúar). Óskarinn, Golden Globe, BAFTA og þar fram eftir götunum. Þessar myndir eru því gagnrýnendum ofarlega í huga þegar kemur að árslistagerð og verðlaunatilnefningum.

Fyrstu þrjár myndirnar sem ég hef skrifað um fyrir blaðið fá allar fjórar stjörnur (af fimm). Þetta væri máske saga til næsta bæjar ef ég hefði byrjað í maímánuði, en núna er einfaldlega bara góssentíð í bíó. Ég vona að enginn dragi heilindi mín í efa þrátt fyrir að ég byrji á jákvæðu nótunum. Allt eru þetta prýðilegar myndir sem ég mæli með að sem flestir sjái.

Hér eru umfjallanirnar þrjár:

Allir í gallana!

Brim ****
Leikstjóri: Árni Ólafur Ásgeirsson
Leikarar: Ólafur Egilsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ingvar E. Sigurðsson

Kvikmyndin Brim er byggð á samnefndu verðlaunaleikriti Jóns Atla Jónassonar sem leikhópurinn Vesturport sýndi á sínum tíma við góðan orðstír. Nú er leikritið orðið að kvikmynd og er það leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson sem stendur í brúnni.

Brim segir frá ungri konu sem ræður sig á togarann Jón á Hofi, en skipverjar bátsins eru enn nokkuð andlega laskaðir eftir sjálfsvíg eins þeirra í túrnum á undan. Báturinn er síbilandi ryðhrúga og mannskapurinn er samansafn furðufugla sem eiga erfitt með að venjast landkrabbameinssjúkum kvenmanni um borð. Andrúmsloftið um borð er á köflum hrollvekjandi og andi hins látna virðist hafa tekið sér bólfestu í skipinu og áhöfn þess.

Árni Ólafur heldur vel utan um söguna og virðist hafa sérlega gott auga fyrir sjónrænum smáatriðum og myndmálið er sterkt. Sumum kann að þykja myndin fremur hæg framan af en í tilfelli Brim er það kostur frekar en galli. Hverri persónu er gefið svigrúm til að kynna sig fyrir áhorfandanum og þegar leikar fara að æsast er áhorfandinn því sem næst kominn í pollagallann á ruggandi þilfarið með áhöfninni.

Leikararnir endurtaka hlutverk sín úr leikritinu og auðvelt er að ímynda sér það sem algjöran lúxus að fá að stýra hópi leikara sem allir hafa leikið persónur sínar áður. Hver leikari virðist þekkja sinn karakter vel og góður tími hefur gefist til að fínpússa skapgerð þeirra og takta. Það skilar sér á tjaldið og Brim er því afskaplega vel leikin. Skemmtilegastar eru persónur þeirra Gísla Arnar Garðarssonar og Ólafs Egilssonar en báðir leika þeir undirmálsmenn kryddaða mikilli kómík og sérstöku fasi.

Ég fagna því að ekki er lengur ástæða til að dvelja lengi við hjal um tæknilega úrvinnslu íslenskra kvikmynda. Íslenskar kvikmyndir eru komnar í meistaraflokk hvað útlit og frágang varðar. Fólkið bak við tjöldin hefur staðið vakt sína með sóma við erfiðar aðstæður á sjó og reka þannig smiðshöggið á vel heppnað verkið.

Niðurstaða: Brim er köld og blaut en gerð af ást og hlýju.

[Birtist í Fréttablaðinu 4. október 2010]


Kani í völundarhúsi

The American ****
Leikstjóri: Anton Corbijn
Leikarar: George Clooney, Thekla Reuten, Violante Placido, Paolo Bonacelli

George Clooney kallar sig Jack og er staddur í Svíþjóð á fyrstu mínútum kvikmyndarinnar The American. Þar berst hann við byssuglaða snáða í snjónum og hefur betur. Skömmu síðar gengur hann undir nafninu Edward í smáþorpi á Ítalíu þar sem örlög hans munu ráðast.

Í fyrstu dregst áhorfandinn inn í sögufléttuna en þegar líða tekur á myndina kemur í ljós að hún skiptir ekki máli. Hver mun drepa hvern og af hverju? Hverjir eru sannir bandamenn Ameríkanans og hverjir munu stinga hann í bakið? Edward treystir engum vegna þess að hann er í helvíti. Vingjarnlegur prestur reynir að benda honum á það en líklega er það orðið of seint.

Aftanverð eyrun á George Clooney eru í miklu aðalhlutverki. Við sjáum aftan á hann þar sem hann gengur hægum en ákveðnum skrefum um þröng og tómleg stræti þorpsins, fram og til baka. Það er líkt og hann sé staddur í völundarhúsi án útgönguleiðar.

Það eru engar sprengingar í myndinni. Hún býður áhorfandanum upp á merkilegri og betri hluti en það. Á endanum stoppar sýningarvélin en kvikmyndin heldur áfram. Tveir sólarhringar hafa liðið og ég er ennþá að horfa á The American.

Niðurstaða: Falleg og djörf mynd sem tekur tíma að melta. Þeir sem vilja hasar verða vonsviknir.

[Birtist í Fréttablaðinu 14. október 2010]


Góð í dag, betri á morgun?

The Social Network ****
Leikstjóri: David Fincher
Leikarar: Jesse Eisenberg, Andrew Garfield, Armie Hammer, Justin Timberlake

The Social Network er „Facebook-myndin“ sem allir eru að tala um. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, var ekki par hrifinn af því að vera gerður að sögupersónu í kvikmynd. Hann er umdeildur maður og margir telja að hann eigi velgengni sína öðrum að þakka. Myndin reynir að varpa ljósi á það hvers konar mann hann hefur að geyma, og hvernig Facebook-fyrirbærið varð vinsælla en Jesús og Bítlarnir.

Flestir ættu að þekkja leikstjóra myndarinnar, en það er sjálfur David Fincher, maðurinn sem færði okkur myndir á borð við Zodiac, Fight Club og hina klassísku Se7en. Fincher hefur ávallt verið mikill stílisti og einhverjir hafa kvartað undan því að hann eigi erfitt með að hemja sig þegar kemur að útlitsþáttum líkt og myndatöku, klippingu og brellum. Á götumáli eru slíkar hneigðir stundum kallaðar „rúnk“. Afsakið orðbragðið.

Hann gerir sig þó ekki sekan um slíkt í The Social Network. Persónurnar halda frásögninni gangandi og vel skrifuðum samtölum handritshöfundarins er leyft að baða sig í mesta sviðsljósinu. Leikarahópurinn er nokkuð öflugur og er það aðalleikarinn Jesse Eisenberg sem á mesta hrósið skilið. Hann hefur hingað til verið þekktur sem „Michael Cera fátæka mannsins“ en hér fær hann tækifæri til að sanna sig sem alvöru leikari og stenst prófið með glæsibrag.

Ég hlakka mikið til að sjá myndina eftir áratug eða tvo. Hún á eftir að verða stórskemmtileg heimild um merkilegt menningarfyrirbæri sem allir þekkja í dag, en enginn veit hvort muni halda velli til framtíðar.

Niðurstaða: The Social Network er vel heppnuð. Og hún er ekkert verri þó þú sért ekki á Facebook.

[Birtist í Fréttablaðinu 15. október 2010]

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: