Saga kvikmyndar

Í kvöld fór ég í Bæjarbíó að sjá gamla klassík. Vertigo eftir Alfred Hitchcock var á dagskrá, og þrátt fyrir að vera mikill aðdáandi Fredda feita þá hef ég aldrei talið Vertigo meðal hans bestu mynda. Þetta er eilítið á skjön við almenningsálitið og því fannst mér tilvalið að sjá hana í kvikmyndahúsi af filmu. Mögulega kynni ég betur við hana þannig heldur en á DVD eða VHS.

Þetta er þó ekki hugsað sem umfjöllun um kvikmyndina heldur frekar sem vangaveltur um þá upplifun sem Bæjarbíó veitir á sýningum sínum. Ég hef verið sæmilega duglegur við að sækja þessar sýningar í gegnum tíðina. 500 kall, og ég geng yfirleitt hress þaðan út. Í bíóinu hef ég séð myndir af ýmsum toga. Nasistaáróðursmyndir Leni Riefenstahl, eitthvað af Hitchcock, íslensku kvikmyndina Húsið, Jesúmyndina hans Scorsese, Verkfallið hans Eisenstein, gamlar Roger Corman-myndir, Dario Argento…..þetta er svona það sem ég man eftir í fljótu bragði. Allt er þetta sýnt af gömlum filmum sem Kvikmyndasafn Íslands skaffar.

Það er hreinasti unaður að sitja á óþægilegum trébekk og horfa á meira en hálfrar aldar gamalt sýningareintak kvikmyndar. Óneitanlega fer ég að ímynda mér sögu eintaksins. Hvar var kvikmyndin sýnd á sínum tíma? Flakkaði hún um allt land eða var hún einungis sýnd í Reykjavík? Hverjir sáu hana á sínum tíma? Ætli afi og amma hafi horft á nákvæmlega sama eintak af myndinni fyrir hálfri öld? Hvernig brást fólk á Íslandi við myndinni í kringum 1960? Hvar var myndin geymd áður en Kvikmyndasafnið fékk hana? Var hún uppi á háalofti hjá einhverjum löngu dauðum fyrrum sýningarstjóra í 30 ár? Eru þetta skegghár á filmunni úr manni sem dó áður en móðir mín fæddist?

Göngum eilítið lengra. Ætli ég hafi horft á nákvæmlega sama eintak af myndinni í fyrra lífi? Hver var ég? Var ég reykvískur rakari í hamingju- snauðu hjónabandi með konu sem ég kynntist á frumsýningarkvöldi myndarinnar í kvikmyndahúsi sem er ekki lengur til? Var sjoppa í bíóinu? Hvað ætli ég hafi keypt? Kók í gleri og lakkríspípu? Fannst mér endir myndarinnar jafn furðulegur og mér finnst núna? Var ég mögulega ekki karl heldur kona? Lét ég mig dreyma um að kynnast manni sem líktist Jimmy Stewart? Gafst ég upp á leitinni að honum og giftist þess í stað drykkfelldum sjómannssyni frá Siglufirði sem barði mig og barnaði til skiptis?

Maður spyr sig.

Auglýsingar

6 svör to “Saga kvikmyndar”

 1. Atli Jarl Martin Says:

  Hahahaha!! Snilldarpælingar!! Mjög average mynd þó, en ég væri sannarlega til í að sjá hana aftur af orginal filmunni. Upplifun.

 2. Arnór Says:

  Hahahaha, eintóm snilld.

 3. Skemmtileg pæling. Það er einmitt hið furðulega við listgreinar eins og kvikmyndir og tónlist (sem hlustað er á af upptöku) að við metum verkið sjálft án þess að tengja það við ákveðið sögulegt og sértækt eintak af verkinu, eins og við gerum með málverk. Að sjá eftirhermu af Mónu Lísu hans DaVinci er allt önnur upplifun en að sjá upprunalega verkið í Louvre safninu en það skiptir okkur lítið hvaða eintak af Vertigo við sjáum. Hinsvegar má spyrja sig hvort við göngum ekki oft helst til langt með þessa aftengingu frá hinu sögulega eintaki, sérstaklega í dag þegar list er sífellt meira færð yfir á stafrænt form. Ég hef mjög tilfinningalega tengingu við ákveðna geisladiska og jafnvel DVD myndir sem ég á, en á erfitt með að eiga í slíku sambandi við lög, plötur eða kvikmyndir sem geymdar eru á tölvunni minni eða á ipod spilara. Þessvegna verður einmitt athyglisvert að sjá hvort samband okkar við lesefni, ljóð og skáldverk, eigi eftir að breytast gífurlega eftir að mikið af þessu efni verður fært á stafrænt form meðfram aukinni notkun tækja á borð við ipad og Kindle.

  Walter Benjamin, þýskur spekúlant og heimspekingur (sem var með frábært yfirskegg, eins og þýskum spekúlentum er auðleikið) skrifaði merkilega grein um þessa þróun snemma á 20. öldinni sem nefnist „Art in the Age of Reproduction.“ Greinina má finna hér fyrir þá sem hafa áhuga:

  http://www.marxists.org/reference/subject/philosophy/works/ge/benjamin.htm

  Takk fyrir aðra skemmtilega grein Haukur. Og ég mæli eindregið með að þú sjáir kvikmyndina „The Last of Sheila“ sem ég horfði á um daginn og skrifaði lítinn pistil um á síðunni okkar. Hún er gæðamynd frá áttunda áratugnum sem svipar mjög til „Sleuth“ og er með James Coburn og James Mason í aðalhlutverkum. Mikið Hauk, svo ekki sé meira sagt.

 4. ég hugsa stundum svona líka þegar ég hlusta á notaðar vínilplötur úr kolaportinu. soldið skemmtilegt.

 5. Takk fyrir kommentin.

  Kominn með Last of Sheila, ætla að horfa á hana á næstunni. Ég er að melta þetta sem þú skrifaðir Ágúst. Og er sammála að mörgu leyti. Að vísu hef ég ekki þessa tilfinningalegu tengingu við CD eða DVD sökum þess að öll eintökin eru eins (að því gefnu að þau hafi ekki skemmst), en varðandi t.d. málverk og slíkt þá jú. Að vísu, varðandi CD……ég á geisladisk sem var í eigu látins manns. Held svolítið upp á það eintak. Það er einmitt Zeppelin II (í hulstrinu af Zeppelin IV) 🙂

 6. Og jú, svo auðvitað binst maður þessum böndum við hluti sem maður fær að gjöf. Allavega í einhverjum tilfellum. Tengir hlutina við þá sem gáfu manni þá. Allavega ég.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: