Sarpur fyrir nóvember, 2010

Rokk í Reykjavík – hugleiðingar

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg on 2.11.2010 by snobbhaensn

Kvikmyndasafn Íslands sýnir í kvöld kvikmyndina Rokk í Reykjavík í Bæjarbíói. Í tilefni af því var ég beðinn um að skrifa pistil um kvikmyndina og féllst ég á það. Aðaláhersla pistilsins eru þau gríðarlegu áhrif sem Rokk í Reykjavík hefur haft á íslenska menningu, og þá aðallega á tónlistarlífið. Þó ég taki það ekki fram í pistlinum þá hef ég misgaman af listamönnunum sem koma fram í myndinni. Reyndar eru aðeins fimm hljómsveitir í myndinni sem ég get í einlægni sagst „fíla“. Hvika ég þó hvergi frá yfirlýsingum mínum um þau miklu áhrif sem kvikmyndin (og „aðalpersónur“ hennar) hefur haft á íslenskt músíklíf, og reyndar íslenska nútímalist eins og hún leggur sig.

Hvað um það. Hér er pistillinn:

Rokk í Reykjavík

Ég ætti auðvelt með að skrifa nokkuð langan pistil um kvikmyndina Rokk í Reykjavík. Og það ætla ég einmitt að gera nú. Rokk í Reykjavík er engin venjuleg kvikmynd. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að segja hana hryggjarstykki íslenskrar popp- og rokktónlistarsögu. Allavega á síðustu 30 árum. Að segja hana hafa haft mikil áhrif er það sem á engilsaxnesku myndi kallast „understatement“.

Áður en ég rökstyð þetta er best að kynna myndina lítillega fyrir þeim sem illa þekkja til. Rokk í Reykjavík var frumsýnd á því herrans ári 1982 og er í grunninn afskaplega venjuleg heimildarmynd um tónlist. Listamennirnir sem eru til umfjöllunar í myndinni tilheyrðu margir hverjir nafnlausri neðanjarðarhreyfingu í Reykjavík í upphafi 9. áratugarins. Neðanjarðarhreyfingin var hvorki miðstýrð né skipulögð, heldur samanstóð hún af listamönnum sem sumir kusu að kalla pönkara, en væru eflaust betur skilgreindir sem „jaðarlistamenn 80’s nýbylgjunnar á Íslandi“. Eftirminnilegustu nöfnin úr þessari senu eru hljómsveitir á borð við Fræbbblana, Tappa tíkarrass, Purrk Pillnikk, Þeyr (hljómsveitina sem enginn kann að fallbeygja) og Egó.

Uppbygging myndarinnar er hefðbundin og fléttar viðtölum saman við tónlistarflutning, en tilgangur myndarinnar hefur eflaust fyrst og fremst verið sá að búa til yfirgripsmikla heimild um það sem var að gerast í íslensku neðanjarðarrokki á þessu tveggja ára tímabili sem myndin spannar.

En þá hefst söluræðan mikla. Engan gat nokkurn tímann órað fyrir því hversu víðtæk áhrif listamennirnir í myndinni ættu eftir að hafa á íslenska menningu og samfélag. Þá er ég ekki einungis að tala um hljómsveitirnar sjálfar, heldur kannski fyrst og fremst manneskjurnar sem skipuðu þær og þá nálgun á listsköpun sem þær aðhyllast.

Sú manneskja í myndinni sem náð hefur lengst í alþjóðlegum heimi listarinnar er án nokkurs vafa söngkonan Björk. Í Rokk í Reykjavík er hún krúttlegur unglingur sem hoppar og skoppar um sviðið ásamt félögum sínum í Tappa tíkarrass. Í dag er hún litlu minni goðsögn en mamma poppsins (Madonna) og amma rokksins (Tina Turner). Sennilega er ég að ýkja vinsældir Bjarkar á heimsvísu, en staðreyndin eru engu að síður sú að útlendingar þekkja Björk miklu frekar en Eyjafjallajökul, Bjarna geimfara og íslenska lakkrísinn, sem eru þó allt hlutir sem blása stöðugum vindi í segl hins íslenska þjóðarstolts.

En Björk er langt því frá að vera sú eina úr Rokk í Reykjavík (má ég kalla hana RíR héðan í frá…..plís?) sem rúllað hefur niður brekku listarinnar og hlaðið utan á sig frægðarfönn. Félagi hennar úr Tappa, fyrrum hárprúði Evróvisionfarinn Eyþór Arnalds, varð síðar landsþekktur stjórnmálamaður en flestir muna eftir honum nuddandi nárafiðluna með hljómsveitinni Todmobile.

Þetta er skemmtilegur leikur og ég held því áfram. Sigtryggur Baldursson barði bumbur með hljómsveitinni Þeyr í RíR en var seinna í Sykurmolunum með Björk, dansaði marsbúa cha-cha-cha með Milljónamæringunum undir nafninu Bogomil Font, en þessi maður hefur slegið taktinn með langflestum af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar í meira en tvo áratugi. Einar Örn Benediktsson úr Purrki Pillnikk var einnig í Sykurmolunum með þeim Sigtryggi og Björk, en af öðrum afrekum hans má nefna hávaðalistahópinn Ghostigital, rekstur útgáfufyrirtækisins (og plötubúðarinnar) Smekkleysu og veru hans í núverandi borgarstjórn. Gott ef hann er ekki stjórnarformaður Strætó BS líka. Félagi hans úr Purrki, Friðrik Erlingsson, hefur starfað lengi sem rithöfundur og hefur skrifað fjöldann allan af skáldsögum, kvikmyndahandritum og meira að segja hefur hann séð um Jóladagatal Sjónvarpsins.

Þið ættuð núna að vera farin að skilja hvert ég er að fara. Listamennirnir úr Rokk í Reykjavík voru margir hverjir óþekktir um það leyti sem myndin var gerð, en hafa sáð listrænum fræjum sínum í börn jafnt sem fullorðna um allar götur síðan. Bubbi Morthens, Pálmi Gunnars, Egill Ólafs og fleiri voru reyndar byrjaðir að þenja sig í glymskröttum landans áður en Rokk í Reykjavík kom út. Engu að síður voru þeir hluti af „senunni“ sem myndin fjallar um.

Og þá komum við að tvískiptingunni. Rokk í Reykjavík er nefnilega ekki einungis sú pönkheimild sem margir telja hana vera. Í myndinni er fjöldi sveita sem Hlemmpönkurunum hefur eflaust þótt voðalega lummó. Egill jarmar í hljóðnema, spilandi á svuntuþeysi í hágæða hljóðveri með félögum sínum í Þursaflokknum. Pétur heitinn Kristjáns heldur ræðu um unglingana og rokkið en er í raun minnisvarði um tíma sem var að líða undir lok. Prógressívt hippapopprokkið þótti ekki lengur móðins og þessi atriði sýna stórskemmtilegar andstæður sem saman mynduðu rokkið í Reykjavík.

Leikstjóri myndarinnar, Friðrik Þór Friðriksson, er öllum Íslendingum kunnur sem einn fremsti kvikmyndaleikstjóri þjóðarinnar frá því land byggðist (nánar tiltekið síðustu 30 ár). Myndir hans hafa óútskýranlegt segulafl á afturenda íslenskra bíógesta. Þegar Friðrik gerir kvikmynd þá er varla autt sæti í bíóinu. Það er bara þannig.

Nú eru spássíurnar farnar að þrengja að mér þannig að ætli það sé ekki best að koma sér að kjarna málsins. Hinu íslenska listalífi má í raun skipta í tvo helminga. Fyrir Rokk í Reykjavík og eftir Rokk í Reykjavík. Seinasta íslenska hljómplata sem þú hlustaðir á er að öllum líkindum að einhverju leyti undir áhrifum frá RíR. Ef einhver flytjendanna á plötunni er ekki sonur eða dóttir einhvers sem kom fram í myndinni þá má allavega gera ráð fyrir því að samtals hafi allir þeir sem að plötunni komu séð RíR hundrað sinnum eða oftar.

En burt séð frá hinum stórtæku samfélagslegu áhrifum sem Rokk í Reykjavík hefur haft á hug og hjörtu landsmanna þá hljóta einhverjir að spyrja sig: En hvernig er myndin?

Þú kemst að því í Bæjarbíói.

Bloggsíða Kvikmyndasafns Íslands

Rokk í Reykjavík á Wikipedia

Auglýsingar