Sarpur fyrir janúar, 2011

Get ekki beðið

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg on 29.1.2011 by snobbhaensn

Hafnfirska hasarmyndin Blóðhefnd er loksins að verða tilbúin og samkvæmt Facebook-síðu myndarinnar verður hún frumsýnd núna í vor.  Söguna á bak við myndina þekki ég ekki 100%, en mér skilst hún sé gerð af atvinnulausum sendibílstjóra, Ingó Ingólfs,  sem leiddist aðgerðarleysið í kreppunni og ákvað að nýta færni sína í bardagalistum og gera fyrstu íslensku slagsmálamyndina.

heimasíða kvikmyndarinnar skoðuð má sjá myndir og nöfn allra leikara myndarinnar. Eftir smá gúggl sér maður að flestir leikararnir eru bílstjórar að atvinnu. Gera má því ráð fyrir að þetta séu mestmegnis  fyrrverandi vinnufélagar Ingós, og ég verð að segja að ég er afar spenntur fyrir útkomunni. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem amatör gerir bíómynd á Íslandi.

Trailerinn er vægast sagt safarík blóð- og bardagaorgía. Foley-deildin er svolítið að missa sig, en þrátt fyrir heimilislegan trailerinn hef ég trú á því að Blóðhefnd sé hin besta skemmtun. Ekki væri nú ónýtt að eignast íslenskan Steven Seagal. Eða Van Damme.

Hver vill koma með mér á Blóðhefnd og kasta poppi?

ATH: Ljósmyndirnar eru fengnar að láni af heimasíðu kvikmyndarinnar. Ég vona að Ingó verði ekki pirraður þó ég birti þær hér. Þá gæti ég nefnilega átt von á hringsparki í gamla hattastandinn.

Auglýsingar

Að klára

Posted in Blogg on 22.1.2011 by snobbhaensn

Þessi færsla hefur ekkert með kynlíf að gera. Nei, málaflokkur þessi er mér hugleiknari en öll bólfimi heimsins. Í seinni tíð er mér nefnilega farið að finnast æ erfiðara að „klára“ myndir.

Kannski er ég smám saman að átta mig á því að lífið varir ekki að eilífu og tími minn er dýrmætari en mér þótti hann hér á árum áður. Ég hef aldrei gengið út af kvikmynd í kvikmyndahúsi en ég finn það á mér að stundin nálgast. Einn góðan veðurdag mun ég segja með sjálfum mér „Nei fjandakornið, þessu nenni ég ekki!“ og taka á rás í átt að útganginum.

Það er auðveldara að taka þessa ákvörðun þegar áhorfið fer fram heima í stofu. Þá er ég ekki búinn að spreða í rándýran bíómiða og vesenast í því að koma mér á staðinn. Fyrir slíkt vesen er ég viljugri til að gefa myndum sjens. Sjens sem þær eiga oft ekki skilið. Heima í stofu er það hins vegar bara einn takki og leiðindunum linnir.

Stundum gefst ég upp um miðbik myndar. Oftast er það þó á fyrsta hálftímanum ef leiðindi og pirringur fara að láta á sér kræla. Myndin Aeon Flux á þó metið. Ég slökkti í dauðans ofboði áður en upphafstitlunum lauk. Ég sá hvert stefndi og gat ekki hugsað mér að halda áfram ódrukkinn.

Stöku sinnum geymi ég áhorfið til betri tíma. Þá er ég mögulega illa stemmdur, en gæti hugsað mér að tóra lengur við betra tækifæri. Oftast er þó gáfulegast að slökkva bara og reyna að gleyma. Reyna að þurrka það úr minninu að ég hafi séð fyrstu tuttugu mínúturnar af Big Momma’s House. Þegar dauði minn nálgast mun ég vera sjálfum mér þakklátur. Þakklátur fyrir að hafa verið hrokafullur fýlupúki sem gaf lélegum tímaþjófum ekki tækifæri til að eitra augu mín, eyru og heila.

Allt of oft hef ég klikkað á þessu. Setið undir einhverju djöfuls drasli þar til yfir lauk, og eftir sat ekkert nema andlegur tómleiki og sektarkennd. Af hverju horfði ég á Swordfish? Af hverju reif ég ekki Requiem for a Dream úr spilaranum og henti disknum fram af hæsta bjargi? Hvernig má það vera að ég hafi klárað Crash eftir Paul Haggis án þess að drepa mig?

Aldrei, aldrei aftur!

Að horfa á kvikmyndir með rassinum

Posted in Blogg on 20.1.2011 by snobbhaensn

Reglulega sé ég Facebook-statusa fólks sem er að „horfa“ á kvikmyndir. Af hverju er svona erfitt að horfa á kvikmynd án þess að gera eitthvað annað á meðan? Er það furða að fólki finnist hinar og þessar kanónur kvikmyndasögunnar algjört frat? „Ah, best að horfa á Arabíu-Lawrence og spila smá COD. Tékka á Farmville í leiðinni. Og komast að því hvaða persóna úr Friends er mest eins og ég“.

Er ekki alveg eins gott að sleppa þessu?