Sarpur fyrir apríl, 2011

Hugleiðing um rúnk

Posted in Blogg on 3.4.2011 by snobbhaensn

Ég er haldinn bráðaofnæmi fyrir rúnki. Áður en lengra er haldið er best að ég útskýri þetta ofnæmi mitt ögn betur. Rúnkið sem um ræðir er ekki sú athöfn sem margir karlmenn stunda, að toga taktfast í getnaðarlim sinn uns eigandinn veltur um koll í örstuttri alsælu, heldur á ég við listrænt rúnk. Þegar listamaður býr til sjálfhverft og yfirborðskennt listaverk til þess eins að kitla sitt eigið egó, og til þess að fá klapp á bakið frá sjálfskipuðum menningarvitum sem telja sig alvitra um listgreinina.

Ef mynd er markaðssett sem „ögrandi“ eða „stuðandi“ eru miklar líkur á að hún falli undir þessa rúnk-skilgreiningu. Sumir kvikmyndaleikstjórar byggja feril sinn á þessari ógeðfelldu aðferð, en aðrir feta hina þunnu línu milli ómerkilegs rúnks og stórmerkilegrar listar. Eru stundum á línunni en detta annað veifið ofan í gallsúran rúnk-pyttinn. Leikstjórar á borð við David Lynch og Quentin Tarantino eru góð dæmi um þá sem tilheyra seinni flokknum. Stórgóðir á meðan þeir hafa hemil á sér. Fyrri flokkinn skipa svo leikstjórar sem ég ætla ekki að telja upp. Mér dettur strax til hugar ónefndur leikstjóri frá Danaveldi. Nóg um það.

Þær eru ófáar „umdeildu“ myndirnar sem ég hef forðast eins og heitan eldinn sökum orðspors þeirra. Aldrei hef ég nennt að tékka á Ken Park, Shortbus, The Brown Bunny og Trash Humpers. Að sjálfsögðu er ástæðan ekkert annað en fordómar og besserwiska, og vonandi eru allar þessar myndir jafn ömurlegar og ég hef þær grunaðar um að vera. Stundum hef ég lútað í lægra haldi fyrir forvitni minni, og þjáðst yfir myndum eins og Inland Empire, Requiem for a Dream og Happiness. Myndir Gus Van Sant hafa einnig valdið mér óþægindum og lít ég svo á að hann skuldi mér í það minnsta fimm klukkustundir af ævi sinni, þó ég viti vel að hann er ekki borgunarmaður fyrir þeim.

Ein af myndunum sem ég var handviss um að væri sérstaklega ömurleg er hin franska Irréversible eftir argentínska fransmanninn Gaspar Noé. Ég vissi vel að í henni væri tæplega tíu mínútna löng nauðgunarsena, og einnig hafði ég heyrt af sérdeilis hrottafengnu atriði þar sem „gaur er fokkað upp með slökkvitæki“. En eftir að hafa séð hina forvitnilegu Enter the Void (eftir fyrrnefndan fransmann) ákvað ég að brjóta odd af oflæti mínu og gefa Irréversible sinn fyrsta og eina sjens.

Nauðgunarsenan var vissulega á sínum stað, og manngreyið sem fékk að smakka slökkvitækið var ekkert sérstaklega hress eftir þann hitting. Söguþráður myndarinnar er sýndur afturábak og myndmálið er myrkt og martraðarkennt. Það er þó eitthvað við uppbyggingu myndarinnar og leikstjórnina sem gerir það að verkum að hún virkar. Vissulega má halda því fram að Noé fari stundum yfir strikið í frásögninni og seilist suður á bóginn með rúnkhöndinni, en það er eitthvað við kvikmyndagerðina sem grípur áhorfandann heljartökum og skilur hann eftir með eilítið breytta sýn á umfjöllunarefnið.

Irréversible fjallar um hefnd ástvinar í kjölfar ofbeldis og afturábak-vinkillinn svínvirkar að því leyti að í stað þess að áhorfandinn bíði með öndina í hálsinum eftir hinni sætu og „réttlátu“ hefnd, þá fær hann að sjá hefndina fyrst og aðdragandann þar á eftir. Það gerir atburðina sem orsökuðu hefndina ekkert þægilegri áhorfs þó áhorfandinn viti að þeirra verði hefnt. Það skiptir hreinlega ekki nokkru máli. Árásin er alveg jafn viðurstyggileg þó maður viti að árásarmannsins bíði makleg málagjöld. Er Noé að reyna að koma einhverjum skilaboðum á framfæri með því að segja söguna svona? „Skilaboð“ geta jú einnig verið vandmeðfarin í kvikmyndum og látið áhorfandanum líða eins og það sé verið að kenna sér muninn á réttu og röngu. Samanber hina ömurlegu Óskarsverðlaunamynd Crash, sem gerði allt sem hún gat til að segja okkur að rasismi væri ýkt vondur („Nú er það? Ég hélt nefnilega að rasismi væri geðveikt næs“).

Þrátt fyrir allt var það óvenjuleg ákvörðun hjá Noé að láta aðalpersónur Irréversible hefna sín á röngum manni. Ég veit hreinlega ekki hverju það breytir varðandi það sem myndin er að reyna að tjá okkur. Kannski engu. Ég á eftir að melta það. Ég hallast þó að því að þar hafi honum fatast flugið. Að þar hafi myndin breyst úr því að vera athyglisverð stúdía um eyðileggingarmátt reiðinnar í það að vera þriller með íronískt „punchline“. „Obbobobb! Þeir hefndu sín á röngum manni“.

Ég skal ekki segja. Get samt óhætt mælt með myndinni. Þó hún sé pínu rúnk.

Auglýsingar