Gagnrýni á gervihnattaöld

Undanfarið hef ég velt fyrir mér hlutverki gagnrýnenda í því kvikmyndaumhverfi sem við lifum í nú á dögum. Í gær lenti ég á spjalli við vin minn um þennan málaflokk, og eins og oft þegar tveir meðalgreindir hrokagikkir koma saman urðu samræðurnar áhugaverðar og lengri en upphaflega var ætlað. Áður en lengra verður haldið langar mig að benda á fantagóða bloggsíðu hans, en á síðunni skrifar hann bíópistla ásamt norður-amerískum nördavinum sínum.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum lesenda minna að ég skrifa bíórýni í Fréttablaðið, enda þykir mér gaman að kitla hégómagirnd mína með því að koma því að í flestum samræðum sem ég á við fólk. „Ég samhryggist þér með hann afa þinn. Ótímabær dauði hans minnir um margt á kvikmyndina La Règle du jeu sem ég skrifaði um í Fréttablaðið nú á dögunum. Ég er kvikmyndagagnrýnandi að atvinnu sjáðu til.“

Um daginn var mér bent á að ég hefði líklega gerst sekur um að skemma áhorfið fyrir þeim lesendum sem ættu eftir að sjá myndina sem ég tók fyrir í pistli mínum. „Skemmdarverkin“ voru þess eðlis að ég fjallaði um fyndna senu úr myndinni, sem myndi nú ekki koma neinum á óvart sem lesið hefði rýnina og verða þar af leiðandi minna fyndin en ella. Manneskjan sem benti mér á þetta gerði það nú í hálfkæringi og er það ekki ætlun þessa pistils að fetta fingur út í vinsamlegar ábendingar sem mér berast. Ég tek þeim öllum fagnandi.

Sjálfur reyni ég að forðast það að lesa gagnrýni um kvikmyndir sem ég hef ekki séð. Og í þau skipti sem ég hreinlega stenst ekki mátið, þá er ég meðvitaður um það að mögulega gæti ég lesið eitthvað sem drægi úr áhrifamætti myndarinnar þegar ég á endanum horfði á hana. Það er mín einlæga skoðun (og skoðun hrokafulla, meðalgreinda vinarins) að kvikmyndagagnrýni eigi að vera skrifuð fyrir þá sem hafa séð myndina sem um er fjallað. Það er t.d. nánast óhugsandi að ætla að skrifa gagnrýni um mynd á borð við The Ususal Suspects án þess að fjalla um lokafléttuna ógurlegu, þegar í ljós kemur að ódámurinn Verbal Kint hefur logið öllu saman og er í raun hinn dularfulli Keyser Söze. Þetta „final twist“ er svo mikilvægur þáttur í allri sögunni að gagnrýni sem kæmi ekki inn á það væri líklega afar kjötlítil.

En í hraðsoðinni 300 orða gagnrýni í dagblaði gefst hvorki tími né pláss til að snerta á flötum sem þessum. Þar er til siðs að tíunda söguþráðinn í stuttu máli, segja frá því hvernig leikarar stóðu sig, hvað var gott og hvað hefði mátt betur fara. Til að lesendur átti sig betur á því hversu naumt plássið er, þá hafið þið lesið 200 orð eftir að þið skoðuðuð ljósmyndina af körlunum úr The Usual Suspects hér fyrir ofan. Ég þyrfti því að koma afgangi þess sem ég hefði að segja í 100 orð eða minna.

Þessi skrif eru þó ekki til þess ætluð að gera lítið úr stefnu dagblaðanna hvað kvikmyndaumfjöllun varðar. Dagar akademískrar kvikmyndaskoðunar á síðum dagblaða og tímarita eru liðnir. Í gamla daga voru jafnvel heilu opnurnar nýttar í umfjöllun um kvikmyndir, en þá var öldin líka önnur.

Vinsældarvænar kvikmyndir voru ekki frumsýndar í 8000 bíósölum samtímis fyrir 50 árum. Og ekki heldur fyrir 30 árum. Sýningareintök gengu bíóhúsa á milli, voru sýndar vikum og jafnvel mánuðum saman, og jafnvel endursýndar nokkrum árum seinna „vegna fjölda áskorana“ og gafst því gagnrýnendum góður tími til að melta, spá og spekúlera. Og eftir að löng og ítarleg umfjöllun hafði verið skrifuð var hægt að stóla á að myndin væri ennþá í sýningu. Í dag hverfa myndir úr bíó löngu áður en gagnrýnanda gefst tími til að skrifa mikið meira en nokkur hundruð orða langan pistil um myndatökuna, klippinguna og um hvað myndin fjallaði.

Að sjálfsögðu reyni ég að sníða mér stakk eftir vexti og skrifa pistla mína eins vel og ég mögulega get. Oft hefst ég handa um leið og ég kem heim úr kvikmyndahúsinu. Á Íslandi eru kvikmyndir gjarnan frumsýndar á miðvikudagskvöldum og því er fínt að geta klárað pistilinn fyrir hádegi á fimmtudögum svo hann komist í föstudagsblaðið, sem fer í prent síðdegis á fimmtudögum. Þetta er því ekki mikill tími sem gefst til djúprar skoðunar á viðfangsefninu. Ég hef að vísu aldrei verið „rukkaður“ um pistil af mínum yfirmönnum, enda gera þeir sér eflaust grein fyrir því að svona nokkuð getur tekið tíma. En engu að síður er leiðinlegt að vera „síðastur“ með sína gagnrýni. Vonandi gerir þetta ekki það að verkum að pistlar mínir verði lélegir. Þið hnippið vonandi í mig ef það gerist.

Auglýsingar

3 svör to “Gagnrýni á gervihnattaöld”

  1. Akademísk kvikmyndaskoðun á netinu.
    Gaurinn er 19 http://thecinephilereview.blogspot.com/

  2. Góð færsla um Saw. Ég er ekki að öllu leyti sammála, en vel skrifað og rökstutt. Efnilegur andskoti, og ljósárum á undan mér í snobbi.

  3. Þessi meðalgreindi vinur þinn hljómar eins og snobbhænsn og menningarpurka. Varaðu þig á honum.

    Internetið ætti auðvitað að vera hinn nýi vettvangur greindarlegrar gagnrýni af gamla skólanum, án þess að þurfa að vera akademísk eða snobbuð. Þess í stað fáum við gagnrýni áhangandadrengsins (e. fanboy) eins og Harry Knowles og félagar á Ain’t it Cool hafa gert með svo mikillri (fjárhagslegri) lukku. Það virðist lítið sem ekkert af vitsmunalegri og skemmtilegri gagnrýni á borð við Andrew Sarris og Pauline Kael og svoleiðis fólk, nema ef vera skyldi í New York Times og þá aðeins einstaka sinnum.

    Ég krefst þess að þú lagir þetta ástand undir eins. Heimurinn hefur aldrei þurft á snobbhænsnum að halda jafn mikið og nú!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: