Snobbhænsnið vs. Leðurfés

Fyrir tæpum tveimur árum síðan áskotnaðist mér sá mikli heiður að taka símaviðtal við sjálfan Gunnar Hansen (sem lék hinn morðóða Leatherface í hrollvekjunni klassísku The Texas Chain Saw Massacre árið 1974) fyrir tímaritið Monitor. Viðtalið var tekið í tilefni af útgáfu kvikmyndarinnar The Reykjavík Whale Watching Massacre, en Gunnar fór með lítið hlutverk í myndinni. Mér datt í hug að gaman væri að setja viðtalið hér inn.

Leðurfés ætlaði að bíða tilbúinn við símann kl. 10:00 á hans tíma eftir símtali frá mér. Klukkan var orðin tvær mínútur í, og símaupptökugræjan virkaði ekki. Sama hvað reynt var, það náðist enginn sónn. Það væri hefði nú alveg verið eitt ef hinum megin við hafið hefði beðið rólegheitamaður eftir símtalinu. Ljóðskáld með engiferte í engum sokkum. Svoleiðis gæjar hafa alveg eirð í sér að hinkra í tíu mínútur eftir tækninni. En þarna var klukkan orðin sjö mínútur yfir, og sjálfur LEATHERFACE beið eftir mér. Sérstaklega óþægilegt í ljósi þess að hann á það til að búta fólk niður með keðjusög.

Að lokum leystist úr tæknilegu vandamálunum og ég hringdi lúpulegur í Leðurfés, tíu mínútum of seinn. Hann svaraði og hljómaði pollrólegur. Hafði ég slegið inn vitlaust númer? Nei nei, Gunnar Hansen sjálfur var á hinum enda línunnar, og var lítið að æsa sig yfir seinkuninni.

Fyrir ykkur sem þekkið ekki Gunnar Hansen ætla ég að fræða ykkur um hann í örstuttu máli. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá heitir hann Gunnar Hansen, ekki Gunnar Hansson. Báðir eru þeir leikarar en Gunnar Hansen selur ekki vespur.

Gunnar er fæddur í Reykjavík árið 1947 og flutti fimm ára gamall til Maine-fylkis í Bandaríkjunum. 11 ára gamall flutti hann til Texas ásamt fjölskyldu sinni og eyddi þar afgangi skólaára sinna. Árið 1973 fékk hann hlutverk keðjusagarmorðingjans ógurlega, Leatherface, í kvikmyndinni The Texas Chain Saw Massacre. Myndin naut mikilla vinsælda og er álitin ein af merkilegustu og áhrifamestu hrollvekjum bandarískrar kvikmyndasögu.

Og nú fá Íslendingar loksins að sjá keðjusagardrenginn í alíslenskri kvikmynd, en Gunnar leikur í nýjustu mynd Júlíusar Kemp, spennutryllinum The Reykjavík Whale Watching Massacre.

Gunnar er ryðgaður í íslenskunni að eigin sögn og því er eftirfarandi texti þýddur úr ensku.

Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverk geðsjúks keðjusagarmorðingja í hryllingsmynd?

„Ég frétti að til stæði að taka upp hryllingsmynd í heimaborg minni (Austin) sumarið 1973 og að það vantaði leikara. Ég hugsaði með mér að það gæti verið ágætis sumarvinna og fór því í prufu. Ég fékk hlutverkið og The Texas Chain Saw Massacre varð til. Ég hafði ekki mikla reynslu af leik, en hafði þó leikið í tveimur leikritum. Annað þeirra var Of Mice and Men, þar sem ég lék Lennie.“

Maður ímyndar sér að þér hafi boðist hin ýmsu hlutverk eftir velgengni myndarinnar?

„Jájá, það var ýmislegt í boði. Mér var t.d. boðið hlutverk í myndinni The Hills Have Eyes eftir Wes Craven sem ég afþakkaði. Ég hafði komist að því að ég hafði mun meiri áhuga á því að starfa sem rithöfundur, þannig að ég afþakkaði fullt af spennandi tilboðum.“

Og skrifaðir eins og þú ættir lífið að leysa?

„Já ég hef unnið sem ritstjóri tímarits, verið að skrifa skáldsögur og kvikmyndahandrit og ýmislegt fleira. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem ég ákvað að ég gæti alveg sinnt skrifunum og tekið að mér kvikmyndahlutverk í bland við það.“

Og hafa einhver handritanna litið dagsins ljós á hvíta tjaldinu?

„Nei ekki enn. Hitt og þetta hefur verið skipulagt en aldrei orðið meira úr því. Hins vegar hef ég leikstýrt heimildarmyndum sjálfur, sem ég hef einnig skrifað.“

Þegar þarna var komið við sögu var andardráttur blaðamanns farinn að yfirgnæfa Gunnar, enda hafði tæknivesenið verið leyst þannig að skjálfhentur blaðamaðurinn hélt níðþungum hljóðnema upp við símtólið og vonaðist til þess að geta hækkað í Gunnari í tölvuforriti eftirá.

Og nú má loksins sjá þig í íslenskri mynd, The Reykjavík Whale Watching Massacre. Hver var aðdragandinn að því?

„Júlíus Kemp hafði samband við mig og bauð mér hlutverkið. Þetta hitti líka þannig á að ég var á leið til Íslands að hitta fjölskyldu mína, þannig að ég lengdi fríið eilítið til að geta leikið í myndinni.“

Hvernig var að vinna með Júlíusi?

„Það var alveg frábært. Ég skemmti mér mjög vel. Ég held að þetta muni verða ein af bestu kvikmyndum sem ég hef komið nálægt. Líklega verður The Texas Chain Saw Massacre alltaf sú stærsta, en ég hef mikla trú á þessari mynd. Það sem ég hef séð úr henni lítur ótrúlega vel út og ég hlakka til að sjá hana fullkláraða.
En já, það var þægilegt að vinna með Júlíusi. Hann er frekar þögull en mér líkar vel við hann og hann er mikill fagmaður.“

Má maður eiga von á því að heyra þig tala einhverja íslensku í myndinni?

„Ég tala reyndar mestmegnis ensku þó að persónan sem ég leik sé íslensk. Ég leik skipstjóra hvalaskoðunarskipsins og samskipti mín eru að mestu við ferðamenn á bátnum og ég tala ensku við þá. En jú, ég tala íslensku í einu atriði.“

Nú er titill myndarinnar augljós tilvísun í The Texas Chain Saw Massacre. Eru fleiri tilvísanir í myndinni?

„Þær eru til staðar. Ef þú þekkir The Texas Chain Saw Massacre vel þá muntu sjá nokkrar skemmtilegar vísanir í hana. En þær eru smekklega gerðar og til gamans. Hún stælir hina myndina ekki á nokkurn máta heldur vitnar hún í hana, og reyndar aðrar kvikmyndir einnig.“

Munt þú verða viðstaddur frumsýninguna á Íslandi?

„Því miður var það ekki hægt. Ég hefði mikið viljað það og vonandi verður myndin sýnd í kvikmyndahúsum hér í Bandaríkjunum og þá mæti ég.“

Að lokum langar mig að spyrja þig hvort þú heimsækir Ísland reglulega?

„Já ég geri það. Eftir að ég flutti til Bandaríkjanna kom ég alltaf til Íslands á sumrin þar sem ég var í sveit hjá ömmu minni og afa. En eftir að ég fullorðnaðist þá reyni ég að koma árlega. Ég á fullt af skyldmennum hérna og það er alltaf gaman að koma og hitta þau.“

Blaðamaður kvaddi Gunnar en þurfti að leita læknisaðstoðar vegna blóðskorts í hægri handlegg. Læknarnir náðu að bjarga handleggnum í þetta skiptið.

The Reykjavík Whale Watching Massacre verður frumsýnd föstudaginn 4. september í Sambíóunum.

Ásamt viðtalinu við Gunnar skrifaði ég svo smá greinargerð og trivia um hina klassísku The Texas Chain Saw Massacre, sem og einhverja bjánalega statistík um Gunnar sjálfan. Best að láta það fylgja með.

8 – Dagar sem Gunnar vann við gerð The Reykjavík Whale Watching Massacre.

3 – Þykktartommur gúmmíhælanna sem voru festir undir skó Gunnars þegar hann lék Leðurfés.

10.000 – Dollarar sem einhver brjálæðingur borgaði fyrir blóðugu svuntuna sem Leðurfés klæddist í myndinni.

28 – Fjöldi kvikmynda sem Gunnar hefur leikið í.

4 – Fjöldi unglinga sem Gunnar brytjaði niður í The Texas Chain Saw Massacre.

7.5 – Einkunn The Texas Chain Saw Massacre á Imdb.com.

The Texas Chain Saw Massacre – fróðleiksmolar

The Texas Chain Saw Massacre er ódauðlegt innlegg í bandaríska hryllingsmyndasögu. Hún kom út árið 1974 og sló í gegn. Hún er af mörgum talin vera upphafsmynd nýrrar bylgju hryllingsmynda, svokallaðra slasher-mynda, en þær nutu mikillar velgengni á 9. áratugnum. Texas Chainsaw er hins vegar ekki hefðbundin slasher-mynd, enda kom hún út nokkrum árum áður en bylgjan skall á. Hún kynnti engu að síður til sögunnar marga af þeim þáttum sem einkenndu slasher-myndir stóru bylgjunnar.

1. Unglingarnir – Hópur unglinga fer upp í sveit að skemmta sér.
2. Afskiptaleysi – Unglingarnir eru á afskekktum stað, fjarri afskiptum fullorðinna.
3. Viðvörunin – Sveitungar vara unglingana við.
4. Örkumlunin – Ein persónanna er í hjólastól.
5. Gríman – Illmennið er grímuklætt.
6. Vopnið – Illmennið notast aðallega við eitt vopn, í þessu tilfelli keðjusög.
7. Málleysi – Illmennið segir ekkert.
8. Síðasta stúlkan – Aðeins eitt ungmennana lifir af. Harðgerð stúlka í góðu hlaupaformi.
9. Opni endirinn – Illmennið lifir af, sem skapar möguleika á framhaldsmyndum.

Gaman er að geta þess í lokin að kvikmyndin var bönnuð á Íslandi í heil 25 ár.
Árið 1999 var hún þó leyfð á ný, og eftirfarandi texta má finna á heimasíðu Kvikmyndaskoðunar Íslands:

Skýring á dómi:
Myndin hefur áður verið skoðuð ( sjá M85-06393) og hlaut þá allsherjarbann.
Myndin lýsir að sínu leyti hinum verstu verkum, drápi á fólki og limnlestingum líka. Myndataka og hljóðsetning er all áhrifamikið hvoru tveggja þó langur tími sé liðinn frá því að myndin var gerð (25 ár). Myndin er þó með heimildarsögulegu yfirbragði sem kann fyrir einhverjum að auka á áhrif hennar á vissum sviðum.
Það er álit skoðunarmanna að þau viðmið sem skapast hafa í gerð kvikmynda og við mat á þeim leiði til þess að myndin geti ekki lengur talist varða við ákvæði í lögum um kvikmyndaskoðun um allsherjarbann. Þau rök sem skoðunarmenn færa fyrir niðurstöðu sinni eru einkum þau að sá óhugnaður sem myndin lýsir og fjallar um sé ekki sýndur opinskátt nema á tveimur stöðum. Þar er um að ræða að ung kona er sett á einhvers konar krók. Í hinu tilvikinu er gerð marg ítrekuð tilraun til að lemja unga konu í höfuð með barefli, sem þó tekst ekki. Þessu atriði fylgjir sterk og örvæntingarfull tjáning.
Ódæðismenn myndarinnar eru heldur óskýrar persónur, eins konar andhetjur sem áhorfendur finna ekki samsvörun í heldur fyllast ótta og viðurstyggð gagnvart sem og gerðum þeirra.
Þessir þættir eru ekki þess eðlis að valda ætti fólki skaða sem er handan þeirra aldursmarka sem niðurstaða tilgreinir.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: