Sarpur fyrir júlí, 2011

Hrollvekjur í felum – fyrsti hluti

Posted in Áróður, Blogg on 4.7.2011 by snobbhaensn

Ég er haldinn ólæknandi hrollvekjufíkn. Þetta ættu þeir að vita sem fylgst hafa með þessu bloggi og ég veit fyrir víst að meðal lesenda minna leynast samskonar fíklar, virkir jafnt sem óvirkir.

Úr röðum klassískra hrollvekja má finna ýmislegt sem er mér að skapi. The Exorcist, The Shining, Halloween og The Omen eru allar í uppáhaldi og myndir sem ég get horft á aftur og aftur. Minn helsti pervertismi er þó að leita uppi gleymdar perlur. „Gleymdar“ er kannski full leiðinlegt orðalag. Ég ætti kannski frekar að tala um myndir sem margir hrollvekjufíklar þekkja vel, en hinn „almenni“ áhorfandi (reynið að leiða hjá ykkur yfirlætið) veit e.t.v. ekki af.

Ég hef ákveðið að taka saman nokkrar hrollvekjur sem mér finnst eiga skilið örlitla kynningu og umfjöllun. Sumar þeirra eru í eldri kantinum, aðrar eru nýrri. Og þær eru ekki allar frábærar. Í sumum tilfellum er meira að segja auðvelt að sjá hvað það er sem veldur því að þær eru ekki nefndar í sömu andrá og fyrrnefndar myndir. En allar tel ég þær hafa eitthvað frambærilegt við sig. Og sumar þeirra eru vissulega æðislegar.

Ég ætla að skipta upptalningunni upp í nokkrar færslur. Hér koma fyrstu fimm.

House of Usher [1960]

Meistaraverk Roger Corman, House of Usher, er vissulega á barmi þess að teljast til klassískra hrollvekja. Corman gerði svo ofboðslegt magn mynda, og margar þeirra urðu svo mikið költ, að mér finnst þessi stundum gleymast. Myndin segir frá ungum manni sem heimsækir ættaróðal Usher-fjölskyldunnar, en unnusta hans er af þeirra ættkvísl. Aðalmaður Usher-óðalsins er sjálfur Roderick Usher, leikinn af hinum goðsagnakennda Vincent Price, og áður en langt um líður er hinn ungi unnusti flæktur í sjúklegt ráðabrugg húsbóndans.

House of Usher er besta mynd Roger Corman (af þeim sem ég hef séð) og auk þess að vera spennandi er hún glæpsamlega glæsileg útlits. Myndataka, lýsing og búningar hjálpa til við stemninguna og á köflum jaðrar myndin við að vera sækadelísk. Handritið er byggt á smásögu eftir Edgar Allan Poe.

The Changeling [1980]

George C. Scott leikur miðaldra tónskáld sem missir konu sína og dóttur í hræðilegu bílslysi. Hann tekur á leigu gamalt óðalssetur (hvað er málið með hrollvekjur og óðalssetur?) til þess að jafna sig og semja tónlist. Fljótlega fer hann að gruna að ekki sé allt með felldu. Hann heyrir undarleg hljóð í húsinu og fer að grennslast fyrir um fortíð hússins.

Þessi kanadíska draugamynd er hryllilega spennandi og Scott er frábær í hlutverki tónskáldsins ráðvillta. Ég hef tekið eftir því undanfarið að myndin dúkkar upp á hinum og þessum nördalistum og hver veit, kannski myndin sé loks að öðlast þá virðingu sem hún á skilið, því hún er sannarlega frábær.

The Stepford Wives [1975]

Margir kannast eflaust við endurgerð þessarar myndar, sem er misheppnuð gamanmynd með Nicole Kidman í aðalhlutverki. Þessi frumgerð myndarinnar er byggð á klassískri skáldsögu Ira Levin (skáldið ástsæla sem skrifaði m.a. Rosemary’s Baby, The Boys From Brazil og A Kiss Before Dying) og segir frá ungu pari sem flyst úr stórborg í úthverfið Stepford, sem við fyrstu sýn virðist fullkomið. Stemningin er ekki ósvipuð Wisteria Lane (úr sjónvarpsþáttunum Desperate Housewives) á yfirborðinu, en undir niðri kraumar ótti og óhamingja, sem eiginkonan unga verður fljótt vör við. Svo virðist sem hverfið allt eigi sér ljótt leyndarmál sem að sjálfsögðu kemur í ljós að lokum.

The Stepford Wives er nú yfirleitt ekki flokkuð sem hrollvekja, enda á hún eflaust frekar heima undir formerkjum sálfræðitrylla (eða jafnvel sci-fi), en hún hræddi þó úr mér líftóruna. Myndin er þó ekki fullkomin. Heldur hægfara framan af og krefst þess að áhorfandinn sé eilítið sveigjanlegur hvað trúverðugleika varðar. En algjört must-see engu að síður.

The Sentinel [1977]

Ung fyrirsæta fjárfestir í fallegri íbúð í gömlu húsi í Brooklyn. Skömmu eftir flutningana byrjar hún að sjá ofsjónir og „muna“ eftir atburðum úr fortíðinni sem hún kannast ekki við. Íbúar hússins eru furðulegir og fyrirsætan upplifir yfirnáttúrulega atburði sem smám saman heltaka heilabú hennar. Leyndarmál hússins er óhugnanlegt og hryllingurinn nær hámarki í lokin.

Þessi undarlega mynd eftir Michael Winner (hvers þekktasta mynd er líklega Death Wish) hefur elst ágætlega og þrátt fyrir að vera meingölluð nær hún að skapa magnþrungið andrúmsloft og paranoju sem halda henni uppi. Hafið augun opin fyrir heilum haug heimsfrægra leikara í minni hlutverkum. Af þeim má t.d. nefna Christopher Walken, Jeff Goldblum, Ava Gardner, Eli Wallach, Martin Balsam og sjálfan Burgess Meredith, en hann er sérstaklega eftirminnilegur.

Frozen [2010]

Þrjú ungmenni fara í skíðaferð og skemmta sér prýðilega. Um það leyti sem skíðasvæðið lokar ná þau að suða út eina ferð til viðbótar í stólalyftunni en þegar þau eru komin hálfa leið upp fær lyftuvörðurinn hjartaáfall og deyr. Svæðinu er lokað og framundan er þriggja daga helgi. Tríóið situr fast í lyftunni og enginn veit af þeim. Nóttin skellur á, kuldinn verður óbærilegur og þau verða því að taka til sinna ráða.

Þessi frábæri þriller frá því í fyrra kom mér skemmtilega á óvart. Ég er að teygja lopann eilítið með að setja myndina í horror-flokkinn en hrollvekjandi er hún vissulega. Það voru skiptar skoðanir meðal manna á gæðum myndarinnar, en stór hluti myndarinnar gerist jú í stólalyftu, og það kann að virka óspennandi í augum sumra. Sjálfur sat ég sem límdur við skjáinn (alveg fullt af pönni intended) og geng svo langt að segja Frozen eina af fimm bestu myndum síðasta árs.

Auglýsingar