Sarpur fyrir desember, 2011

2011 á Fréttablaðinu

Posted in Blogg, Fréttablaðið on 31.12.2011 by snobbhaensn

Árið 2011 var fyrsta heila árið mitt sem kvikmyndarýnir Fréttablaðsins. Ég ákvað að taka saman smá tölfræði um myndirnar sem ég skrifaði um á árinu. Vert er að taka fram að sumar myndirnar eru frá því árinu áður, en voru frumsýndar snemma á þessu ári hér á landi. En yfir í samantektina.

Ég skrifaði rýni um 48 kvikmyndir á árinu. Það eru færri myndir en ég hefði viljað, rétt tæplega ein á viku. Ég ætla að hífa þessa tölu upp á komandi ári, enda verður starf mitt auðveldara og skemmtilegra með hverri myndinni sem ég sé og skrifa um. Byrjum á bestu myndunum.

Ég er ennþá að venjast því að gefa stjörnur. Á Fréttablaðinu eru gefnar stjörnur á bilinu 1-5. Ekki er gefið í hálfum og núll stjörnur eru ekki í boði. Þegar ég renni yfir þá dóma sem ég skrifaði á árinu sé ég það strax að sennilega er ég of þrjóskur þegar kemur að því að gefa myndum fullt hús. Þær myndir sem ég gaf fimm stjörnur á árinu voru aðeins þrjár. Og þar af eru tvær frá því í fyrra. Svona lítur listinn út yfir fimm stjörnu myndirnar:

127 Hours *****
Captain America: The First Avenger *****
The King’s Speech *****

Þetta er allt og sumt. Eina fimm stjörnu myndin frá árinu 2011 að mínu mati (miðað við þetta) er Kafteinn Ameríka (127 Hours og The King’s Speech eru báðar frá 2010). Það er náttúrulega ekki alveg í lagi. Þó hún sé frábær. Allar þrjár eiga þessar myndir þó fullt hús skilið (127 Hours er með betri kvikmyndum sem ég hef séð það sem af er þessari öld). Spurning að renna yfir listann yfir fjögurra stjörnu myndirnar og sjá hvort einhverjar af þeim hefðu verðskuldað meira.

Fjögurra stjörnu listinn er mun lengri en fimm stjörnu listinn. Reyndar er fjögurra stjörnu listinn lengsti listinn af öllum. Á honum eru heilar 17 kvikmyndir. Listinn er svohljóðandi:

Another Year ****
Á annan veg ****
Barney’s Version ****
Black Swan ****
Bobby Fischer Against the World ****
Bridesmaids ****
Eldfjall ****
Ge9n ****
Hjem til jul ****
The Ides of March ****
Midnight in Paris ****
Mission: Impossible – Ghost Protocol ****
Moneyball ****
Super 8 ****
The Tree of Life ****
True Grit ****
We Need to Talk About Kevin ****

Þegar ég renni yfir listann finnst mér ég hafa verið of rausnarlegur við eina mynd. Það er myndin Super 8. Auðvitað er erfitt (og tilgangslaust) að ætla að dæma myndir upp á nýtt eftir minni, en þetta er nú fyrst og fremst til gamans gert. Super 8 er solid þriggja stjörnu mynd og ekkert múður. Ef hálfar stjörnur væru inni í myndinni myndi þetta að sjálfsögðu líta allt öðruvísi út. Þá væri slatti úr fjögurra stjörnu hópnum með hálfri meira, eða minna. Þið vitið hvernig þetta virkar.

En aðal glappaskotið þarna er einkunn myndar Woody Allen, Midnight in Paris. Það er ofsalega góð mynd, besta eftir Allen síðan Match Point, og algjörlega ein af hans tíu bestu frá upphafi. Hún hefði átt fullt hús skilið. Another Year og We Need to Talk About Kevin eru fjarki plús, á meðan t.d. Bridesmaids og Eldfjall eru fjarki mínus. Þetta er þó yfirleitt voðalegt slump. Mér fannst bæði Bridesmaids og Eldfjall alveg ljómandi.

12 myndir fengu þrjár stjörnur hjá mér á árinu. Svona lítur listinn út.

The Adventures of Tintin ***
Arthur ***
Cowboys and Aliens ***
The Fighter ***
The Girl With the Dragon Tattoo ***
Jón og séra Jón ***
Megamind ***
The Myth of the American Sleepover ***
Real Steel ***
Scream 4 ***
Thor ***
X-Men: First Class ***

Þrjár stjörnur eru rausnarlegar fyrir Scream 4, hinar verðskulda allar þristana sína.

Tvistarnir voru jafnmargir þristunum, 12 talsins. Hér eru tveggja stjörnu myndirnar:

The Adjustment Bureau **
Blitz **
Borgríki **
Conan the Barbarian **
The Hangover: Part II **
Inside Lara Roxx **
Little Fockers **
The Mechanic **
Rise of the Planet of the Apes **
Seeking Justice **
The Thing **
Tower Heist **

Dómur minn um myndina Borgríki var á skjön við aðra gagnrýnendur. DV og Fréttatíminn gáfu fjórar stjörnur, netgagnrýnendur voru hrifnir og myndin fékk almennt afbragðs dóma (sjá mynd að ofan). Mér fannst þetta skrýtið og þykir enn. Mér fannst gaman að heyra af fyrirhugaðri endurgerð myndarinnar og ég vona að sjálfsögðu að myndinni og aðstandendum hennar vegni sem best. En ég er ennþá hissa yfir velgengninni því mér fannst myndin alls ekki góð.

[Innskot: Ef aðstandendur Borgríkis vilja svipta mig trúverðugleika í eyrum fólks geta þeir sagt að myndin hafi fengið góða dóma frá öllum nema gerpinu á Fréttablaðinu sem fannst Kafteinn Ameríka besta mynd ársins. Bara hugmynd.]

Annars er tveggja stjörnu listinn í lagi og ekkert sem ég tel að hafi verið illa ígrundað af minni hálfu. Hvað um það…..eruð þið til í ásana? Botnskafið? Skítugustu naríurnar á botninum í óhreinatauskörfunni?

Það voru fjórar kvikmyndir sem fengu þann vafasama heiður að fá einungis eina stjörnu frá mér á árinu. Skoðum þetta:

Battle: Los Angeles *
The Human Centipede 2 (Full Sequence) *
Jack and Jill *
Transformers: Dark of the Moon *

Battle: LA og Transformers 3 voru fyrst og fremst hryllilega leiðinlegar. Að horfa á þær var eins og að vera í rosalega langri messu. Human Centipede 2 var þó enn verri, og Jack and Jill toppaði allar hörmungar sem ég hef séð. Ekki bara á árinu 2011 heldur alveg frá því að ég fæddist. Adam Sandler er útsendari andskotans og þessi mynd er af hinu illa. Og hvað var Al Pacino eiginlega að gera þarna? Það væri minna pínlegt að horfa á hann í skítaklámi, í alvöru.

655 manns lækuðu rýnina mína um Jack and Jill á Vísi.is og er það u.þ.b. 655 lækum meira en ég fæ vanalega. Fólk fílar það greinilega mun betur þegar ég ríf kjaft heldur en þegar ég lofa eitthvað upp í hæstu hæðir.

Tökum þetta saman í lokin:

5 stjörnur: 3 myndir
4 stjörnur: 17 myndir
3 stjörnur: 12 myndir
2 stjörnur: 12 myndir
1 stjarna: 4 myndir

Svo vill fólk meina að ég sé alltaf svo neikvæður 🙂

[ATH: Enn á fullt af góðmeti frá árinu 2011 eftir að koma í íslensk kvikmyndahús. Næstu tvo til þrjá mánuði verður góssentíð í bíó. Myndir frumsýndar sem þykja líklegar á verðlaunahátíðum og svona. Ég ætla því ekki að gera árslista fyrir árið 2011 að svo stöddu. En kannski í febrúar? Kannski ekki…..sjáum til.]

Auglýsingar