Sarpur fyrir janúar, 2012

Stórkostlegt sjónarspil

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 31.1.2012 by snobbhaensn

The Artist ***** (5 stjörnur)
Leikstjórn: Michel Hazanavicius
Leikarar: Jean Dujardin, Bérénice Bejo, John Goodman, James Cromwell, Penelope Ann Miller, Malcolm McDowell

Auðvitað býst maður við miklu af kvikmynd sem tilnefnd er til 10 Óskarsverðlauna og 12 BAFTA-verðlauna. The Artist þykir sigurstrangleg í öllum helstu flokkum og væntingarnar til hennar því gífurlegar. Það er auðvitað eilítið ósanngjarnt en engu að síður skiljanlegt.

Myndin segir frá George Valentin, kvikmyndastjörnu í Hollywood á tímum þöglu myndanna. Árið er 1927 og talmyndirnar eru að yfirtaka iðnaðinn. Valentin þráast hins vegar við að skipta um leikvang og er honum því á endanum bolað burt úr bransanum. Við þetta fléttast svo þráhyggjukennd ást Valentin á ungri leikkonu, Peppy Miller, sem verður fljótlega ein skærasta stjarna talmyndanna.

Það vekur auðvitað athygli að The Artist er sjálf að mestu leyti þögul mynd. Það þjónar ákveðnum frásagnarlegum tilgangi, auk þess sem það styður við nostalgískt yfirbragðið og þvingar leikarana til að tjá sig eins myndrænt og þeir geta. Áður en langt um líður er áhorfandinn það djúpt sokkinn í frábæra söguna að tali eða umhverfishljóðum væri ofaukið, og gætu jafnvel truflað hið mikla sjónarspil sem myndin er.

Aðalleikarinn (Jean Dujardin) er stórkostlegur og með hvert einasta smáatriði á hreinu, hvort sem það er dans, skylmingar eða myndun míkróskópískra hrukka í námunda við yfirskeggið, sem öll gera hann svo aðlaðandi og aumkunarverðan í senn. Aðrir leikarar fara einnig á kostum og gaman er að sjá öll þessi kunnuglegu andlit tjá sig án notkunar hljóða og orða.

The Artist er sannkallað listaverk og stendur fyllilega undir öllum þeim væntingum sem til hennar eru bornar. Þær kvikmyndir sem etja við hana kappi á væntanlegum verðlaunahátíðum eru ekki öfundsverðar. Þegar maður sér hvernig hún notar myndmálið rennur það upp fyrir manni að stór hluti þeirra mynda sem út koma nú á dögum gætu eins verið útvarpsleikrit.

Niðurstaða: Ein allra besta mynd síðasta árs og nýtur sín best í kvikmyndahúsi. Nú er tækifærið. Ekki gera ekki neitt.

Birt í Fréttablaðinu 28.1.2012

Auglýsingar

Gestahænsnið: Dr. Gunni

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 30.1.2012 by snobbhaensn

Gestahænsni vikunnar er enginn annar en pönkarinn og poppfræðingurinn Dr. Gunni. Hann er ekki bara poppfróður, heldur einnig mikill áhugamaður um kvikmyndir og bloggar meira að segja stundum um þær. Ég veit þó lítið um smekk hans á kvikmyndum (nema að honum fannst Avatar rusl) og ákvað því að demba á hann nokkrum hænsnisspurningum, en gleymdi að vísu að spyrja hann hvort hann hefði farið aleinn í bíó.

[Gunnar gerði athugasemd við þetta og svo virðist sem sjálfu Snobbhænsninu sé að misminna. Gunnar kann vel að meta Avatar en finnst Kóngavegur hins vegar vera rusl.]

Hvað ertu að brasa og hvað er framundan?
Ég er að klára poppsöguhlúnk einn gríðarlegan sem á að koma út í haust. Vinnuheitið á bókinni er Stuð og menn, saga íslenskrar dægurtónlistar. Svo langar mig að gera barnaplötu með Heiðu á næstu misserum, Popppunktur verður líklega eitthvað á sveimi, en svo er það bara eitthvað sjitt til að borga reikningana. Veistu um eitthvað?

Hvaða mynd sástu síðast?
Ég fór á The Artist, mjög góð og skemmtileg feel-good mynd. Maður er alltaf aðeins á varðbergi þegar myndir hafa fengið jafn sláandi einróma lof, en þessi á það alveg skilið. Myndin byggir á frásagnastíl mynda frá þessum s/h-tímum en víkkar formið heldur betur út. Ég hef verið að spá í þessu tímabili, hef verið að skrifa um það í poppbókinni og svo tók ég törn í Chaplin og horfði á helstu myndirnar hans með krökkunum mínum. Eintóm meistaraverk þar á ferð, frá The Kid 1921 til Modern Times 1936. Ég var því mjög „andlega“ undirbúinn fyrir „heim“ The Artist og fílaði hann mjög vel. Gríðalegra flott og fín mynd.

Hver er fyrsta bíóminningin þín?
Ég man lítið af þessu ljóslifandi en ætli ég hafi ekki oft farið í 3-bíó þar sem safnað var saman gömlum teiknimyndum, annað hvort frá Disney eða eitthvað annað. Ég man eiginlega meira eftir poppinu í Kópavogsbíói, en það var af tegundinni Lollipopp. Ég fór svo á fyrstu Star Wars myndina í Nýja bíói 1978 með mömmu og pabba, næst fór ég með þeim á Titanic og svo á einhverja af þessum Stig Larson myndum. Ég man líka eftir því sem barn að hafa séð Maðurinn sem minnkaði, The Incredible Shrinking Man, í sjónvarpinu. Ég hef örugglega fengið martraðir af henni!

Áttu þér uppáhalds kvikmyndaleikstjóra?
Lengi framan af voru það þeir David Lynch og John Waters. Lítið komið frá þeim af viti nýlega þó. Ég hef tekið Hitchcock tarnir og Luis Bunuel er frábær. Alexander Payne er snillingur (á eftir að sjá nýju myndina hans en hlakka mikið til) og Todd Solondz lofaði góðu með Happiness, sem er geðveik, en stóð því miður ekki undir því. Coen-bræður eru hinsvegar alltaf mjög góðir og alltaf treystandi til góðra mynda.

Hvaða mynd hefur hrætt þig mest?
Það er örugglega fyrsta Friday the 13th sem ég sá í þynnku 14-15 ára. Ég var svo skelkaður að ég þurfti að skríða upp í á milli foreldra minna (ekki segja neinum). Ég tók tímabil þegar ég lagði mig fram við að sjá ógeðslegar myndir. Man að ég pantaði einhverjar bootleggútgáfur á VHS af einhverjum gaur frá Svíþjóð. Bókin frá Re/Search Incredible Strange Films hafði mikil áhrif og maður vildi sjá allar myndirnar sem voru í henni. Þetta var á Bless og Ham tímabilinu, 1987 eða svo, og allir sem maður þekkti höfðu áhuga á því sem var sikk og ógeðslegt. Það var nánast keppni í því hver gæti horft á meira sikk drasl.

Ég er löngu vaxinn upp úr þessu og sæki frekar í feel-good en feel-bad myndir. Hef lítið þol fyrir ógeði lengur, þurfti t.d. að loka augunum þegar hausinn var laminn í sundur með slökkvitæki í myndinni Irréversible, sem er svona það ógeðslegasta sem ég hef séð í seinni tíð. Mér finnst bara mjög óþægilegt að bregða!

Hvaða mynd ættu allir að sjá sem fáir hafa séð?
Tja, hafa ekki allir séð allt? En ok… Tékkið á Play Time eftir franska grínistann Jacques Tati frá 1967. Frábærlega „nútímaleg“ mynd, hæg og seiðandi, bara um gamlan karl að flækjast um á flugvelli og eitthvað og setti Tati á hausinn. The Trouble with Harry er lúmsk snilld eftir Hitchcock, hálfgerð grínmynd um fólk að væflast um með lík. Le Fantôme de la liberté eftir Luis Bunuel er súrrealísk snilld. Tékkaðu á „manninum sem brosti aldrei“, Buster Keaton, ef þú vilt eitthvað ævagamalt og fyndið. T.d. myndirnar hans Go West eða Steamboat Bill Jr. Og teiknimyndir eftir Tex Avery. Ég tók alveg kast á þeim einu sinni.

Leiðinlegasta mynd sem þú hefur séð?
Ég hætti nú auðvitað oftast að horfa áður en ég klára alveg gjörsamlega ömurlegar myndir. Ég man eftir einni sem ég gafst mjög fljótlega upp á, Joe Dirt með David Spade. Ég skil ekki afhverju einhver hélt að David Spade gæti eitthvað án Chris Farley. Það voru úrvals fávitamyndir sem þeir léku saman í. Ég og Pétur Magnússon vinur minn reynum að fara stundum á fávitamyndir í bíó. Fátt betra en góð fávitamynd, ef hún er fyndin!

Ég þakka Gunnari kærlega fyrir spjallið og ykkur fyrir lesturinn. Yfir og út.

Eastwood án ástríðu

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 25.1.2012 by snobbhaensn

J. Edgar ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Clint Eastwood
Leikarar: Leonardo DiCaprio, Armie Hammer, Naomi Watts, Josh Lucas, Judi Dench, Jeffrey Donovan, Ed Westwick

Það er frábært hvað Clint Eastwood er afkastamikill sem leikstjóri á efri árum. Hann er orðinn 81 árs og gerir eina mynd á ári, stundum tvær. Í nýjustu mynd sinni segir hann sögu J. Edgar Hoover, stofnanda bandarísku alríkislögreglunnar og yfirmanns hennar í tæplega 40 ár. Hoover var umdeildur maður í embætti og kjaftasögurnar um hann lifa enn góðu lífi í dag.

Eins safarík og mynd um hann hefði getað orðið er J. Edgar fremur andlaus og fyrirsjáanleg. DiCaprio er flinkur leikari þegar hann tekur sig til, en hér rembist hann og rembist en ekkert gerist. Sögumennska hans er þreytandi og elliförðunin óraunveruleg. Reyndar eru aðalleikararnir þrír, DiCaprio, Hammer og Watts, svo afkáralegir í gamlingjagervunum að ekki er með nokkru móti hægt að taka þá alvarlega.

Hér held ég að ekki hafi verið vandað nægilega til verka. Dramatíkin ristir grunnt og aðdróttanir um samkynhneigð Hoover eru feimnislega settar fram. Var hann hommi eða ekki? Skiptir það máli? Var hann svona siðferðislega brenglaður því hann var skápahommi og móðir hans vildi frekar eiga dauðan son en samkynhneigðan? Myndin setur ekki fram neinar kenningar, en ýjar þess í stað að ýmsu svo óræðu að eins mætti sleppa því.

Ég spyr mig, kæri herra Eastwood: Hví gerðir þú þessa mynd fyrst þú hefur ekkert um manninn að segja? Hvar er ástríðan? Hægðu á þér maður. Þú ert kominn á sjálfstýringu.

Niðurstaða: Óttalega bitlaust og klént. Lestu frekar um J. Edgar Hoover á Wikipedia.

Birt í Fréttablaðinu 25.1.2012

Gestahænsnið: Elísabet Ronaldsdóttir

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 23.1.2012 by snobbhaensn

Elísabet Ronaldsdóttir er gestahænsni vikunnar, en hún hefur starfað sem klippari í fjöldamörg ár. Meðal mynda sem hún hefur klippt eru Mýrin, Blóðbönd og teiknimyndin Legends of Valhalla: Thor, að ógleymdri nýjustu myndar Baltasars Kormáks, Contraband, sem er búin að hala inn 46 milljónir dala í bandarískum bíóhúsum þegar þetta er skrifað.

Hver er uppáhaldsmyndin þín í öllum heiminum?
Blade Runner frá 1982 af því ég man enn hvernig mér leið þegar ég kom út af henni.

Hver er elsta bíóminningin þín?
Dr. Goldfoot and the Bikini Machine frá 1965. Ég sá hana ca. 10 árum eftir að hún var framleidd í Hafnarbíó sem var hýst í bragga á horni Barónsstígs og Skúlagötu. Hafði fengið miða sem launauppbót fyrir að bera út Vísi. Þrátt fyrir verulegan athyglisbrest gleymi ég titli myndarinnar aldrei.

Hvaða kvikmynd ertu ánægðust með að hafa komið að?
Það er eins og að spyrja hvað sé uppáhalds barnið mitt. Mér þykir jafn vænt um öll mín börn og allar þær kvikmyndir sem ég hef unnið. En svona eins og frumburður þá er fyrsta kvikmyndin sem ég klippti og fékk kredit fyrir „Bye, Bye Bluebird“ varða í lífi mínu. Hún var framleidd í Danmörku 1999 í leikstjórn Katrínar Óttarsdóttur.

Kanntu að klippa kvikmynd með límbandi og skærum?
Já og hef gert. Þannig byrjaði kvikmyndaklippiferill minn á danskri barnamynd 1997. Sat íklædd hvítum hönskum og klippti og límdi filmuna saman. Þúsundir metrar af filmu héngu á krókum og lágu ofan í taupoka. Ég man vel eftir því þegar Steenbeckarnir og splæserarnir voru bornir útúr klippiskúrunum hjá Nordisk Film og tölvurnar bornar inn í staðinn. Ég fylgdist með því yfir kaffi og sígó í sumarsólinni. Sussum svei maður hefur lifað tímana tvenna.

Hefur orðið aukning í spennandi tilboðum hjá þér eftir Contraband?
Ég hef unnið sleitulaust í kvíkmyndum í meira en 20 ár og það væri asskoti kaldhæðið ef tilboðunum fækkaði í kjölfar vinsælda Contraband. Auðvitað lætur maður sig dreyma um vel borguð stórverkefni. Sjáum hvað setur.

Hverjar telur þú ástæður þess að það koma hlutfallslega fleiri konur að öllum öðrum hlutverkum kvikmyndagerðarinnar en leikstjórn?
Það eru margar ástæður fyrir því og sumar flóknar. Það er allavega ekki útaf því að karlmenn hafi almennt betri hæfileika til leikstjórnar. Mýmörg dæmi sanna það.

Hver er besti starfandi klippari í heiminum í dag að þínu mati?
Þeir eru margir góðir klippararnir. Valdís Óskarsdóttir er ein og Dodi Dorn önnur og svo er ég svag fyrir Christopher Rouse.
En enginn kemst með tærnar þar sem Dede Allen var með hælana. Ég vil verða eins og hún, og enn að vinna á fullu eftir áttrætt, eins og reyndar Anne V. Coates sem er annar massa flottur klippari. Algjörir töffarar.

Manstu eftir einhverri klassískri og mikils metinni kvikmynd í kvikmyndasögunni sem er að þínu mati illa klippt?
Allar kvikmyndir eru börn síns tíma. Það er ekki bara tæknin sem hefur breyst og hæfileiki kvikmyndagerðamanna til að vinna með formið heldur hefur hæfileiki áhorfenda til að lesa myndmálið gert það líka. Ef þú færir aftur í tímann og sýndir Contraband unglingum árið 1920 myndi enginn skilja hvað sagan gengur útá.

Eins getum við horft á gamlar myndir og séð á þeim galla og þær elstu eru ekki einu sinni klipptar heldur bara ein taka. En engin kvikmynd er mikils metin í kvikmyndasögunni nema standa undir því og myndar þannig grunn að því sem er að gerast í kvikmyndagerð í dag.

Hvaða fimm kvikmyndir hveturðu fólk til þess að horfa á með tilliti til góðrar klippingar?
Slaughterhouse-Five (1972)
Out of Sight (1998)
Memento (2000)
The Bourne Ultimatum (2007)
Þessar fjórar af ýmsum ástæðum góðum, og af því að maður lærir nú stundum mest með því að horfa á illa klipptar kvikmyndir, þá Swordfish (2001)

Ég þakka Elísabetu kærlega fyrir og vil hvetja alla til þess að sjá hina glæsilegu Contraband. Er hallærislegt ef ég segi Áfram Ísland?

Fjandinn hirði paradís

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 22.1.2012 by snobbhaensn

The Descendants ***** (5 stjörnur)
Leikstjórn: Alexander Payne
Leikarar: George Cloone, Shailene Woodley, Judy Greer, Beau Bridges, Matthew Lillard, Robert Forster, Amara Miller, Nick Krause

George Clooney leikur Matt King, lögfræðing á Hawaii sem hefur vanrækt dætur sínar tvær. Eiginkona hans lendir í bátaslysi og fer í dauðadá og því þarf King til að hysja upp um sig og annast börnin sín. En King kann illa á pabbahlutverkið og dæturnar gera honum það ekki beinlínis auðveldara fyrir.

The Descendants er grátbrosleg vandamálamynd þar sem mikið mæðir á aðalleikaranum. Clooney er sterkur leikari og fyrir vikið verður Matt King flókin og spennandi persóna. Alexander Payne er frábær leikstjóri í stöðugum vexti og hér toppar hann öll fyrri verk. Senan þar sem eldri dóttirin öskrar í kafi sundlaugar er tilfinningaleg kjarnorkusprengja, án þess þó að vera tilgerðarleg, en sorg í kvikmyndum getur mjög auðveldlega umturnast í sorgarklám. Payne er þó óhræddur við að létta okkur lundina annað slagið, og sum atriðanna eru sprenghlægileg.

Myndin er áferðarfögur og Hawaii fær að njóta sín, en áhorfendur hafa eflaust ekki oft fengið að sjá heila mynd sem gerist þar og tengja staðinn eflaust helst við sumarleyfi á exótískum slóðum en ekki erjur, sorg og yfirvofandi dauða. King gefur allavega lítið fyrir paradísarstimpilinn og segir hana mega fara fjandans til. Tónlist myndarinnar er sköpuð af heimamönnum og eykur það heildaráhrifin til muna. Hvern hefði grunað að þessi vinsæli ferðamannastaður ætti sér menningarlegar rætur, mun eldri en allar staðalímyndir um brimbretti og kókoshnetubikiní?

Það er eitthvað ákaflega fallegt og einlægt við The Descendants. Gamla tuggan um að lífið sé hverfult á alltaf við, en Payne heldur því fram að aldrei sé neitt of seint. Hvort sem þú þarft að byrja að ala upp börnin þín, segja deyjandi ástvini eitthvað eða að læra að meta fegurð umfram fé.

Niðurstaða: Ímynd Hawaii verður aldrei söm í mínum augum, en nú langar mig ennþá meira að fara þangað.

Birt í Fréttablaðinu 21.1.2012

Spæjó og Sinfó

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 21.1.2012 by snobbhaensn

James Bond-veisla **** (4 stjörnur)
Tónleikar í Eldborgarsal Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjóri: Carl Davis. Veislustjóri: Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Einsöngvarar: Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Inga Stefánsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Sigríður Thorlacius, Valgerður Guðnadóttir.

Kvikmyndaserían um spólgraða spæjarann James Bond fagnar fimmtugsafmæli sínu í ár. Í tilefni af því hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt bandaríska stjórnandanum Carl Davis sett saman tónleikadagskrá þar sem tónlistinni úr kvikmyndunum er gert hátt undir höfði. Örfá lög á dagskránni eru ósungin en afgangnum er skipt mis-bróðurlega á milli sjö söngvara. Á milli laga rennir Jóhanna veislustjóri lauslega yfir sögu kvikmyndaseríunnar með leikrænum tilþrifum, en lögin 26 eru flutt hér um bil í tímaröð.

Útsetningarnar eru í flestum tilfellum nauðalíkar upprunalegu útgáfunum. Auðvitað er svuntuþeysir hér og trommuheili þar sem skipt hefur verið út fyrir önnur hljóðfæri, en það kemur ekki að sök. Það eru tónleikar fimmtudagskvöldsins sem eru til umfjöllunar hér og Sinfóníuhljómsveitin skilaði sínu og hljómaði vel. Það var síðan söngvaranna að láta í sér heyra og gekk sumum það betur en öðrum. Það er auðvitað ekki á allra færi að syngja með svo stórri hljómsveit án þess að rödd þeirra hreinlega týnist. Eyþór náði best allra að láta ljós sitt skína og lögin þrjú sem hann flutti einn gerði hann óaðfinnanlega. Live and Let Die í hans flutningi var jafn flott og gardínan sem hann klæddist var ljót. Sem betur fer skipti hann henni seinna út fyrir jakkaföt.

Gæsahúð kvöldsins framkallaði Valgerður með frábærum flutningi á laginu For Your Eyes Only, en þar var það ekki síst Sinfóníuhljómsveitin sem lék á als oddi. Valgerður söng hin lögin sín smekklega og leyfði sér meira að segja stöku mjaðmahristu til að skapa stemningu. Sigga Beinteins byrjaði brösuglega en sótti í sig veðrið og náði hápunkti í laginu GoldenEye, en þar lék hún listir sínar á tónskalanum, bæði neðst niðri og efst uppi. Páll Óskar gerði þremur sixtíslögum góð skil, en eitíslögin hans tvö, A View to a Kill og The Living Daylights, voru klaufaleg. Síðara lagið leið þó helst fyrir skort á bakröddum. Helst hefði ég vilja sjá hann spreyta sig á Nobody Does it Better, en það kom í hlut Sigríðar Thorlacius, og var það hennar eina einsöngslag.

Það er mikilvægt að hafa í huga að Bond-lögin eru misgóð. Aumingja Inga Stefáns sat uppi með öll leiðinlegu lögin og náði því ekki að heilla mig í þetta sinn. Hún hlýtur að hafa tapað í pantekki. Þrátt fyrir þessi örfáu andlausu lög var ég gífurlega ánægður með að fá að heyra öll lögin, en ekki bara brot af því besta. Öll lögin segi ég, en þó var það eitt lag sem vantaði. Aðeins eitt lag. Það eitt og sér er nógu skrýtið, að sleppa aðeins einu lagi, en að það hafi þurft að vera besta seinnitíma Bond-lagið er ófyrirgefanlegt. Titillag myndarinnar Tomorrow Never Dies var skilið útundan, en staðgengill þess var lokalag sömu myndar, Surrender.

Þrátt fyrir stöku misbresti var James Bond-veislan glæsilegur og þrælskemmtilegur viðburður. Ég tel nær allar líkur á að hver einasta hræða í salnum muni setja einhverja af myndunum í tækið á næstu dögum. Mörg þessara laga eru svo falleg en önnur svo yndislega lummó. Á leiðinni út leið mér pínu eins og ég hefði verið viðstaddur Eurovisionkeppni, nema með heimsklassa flytjendum og almennilegum lögum.

Birt í Fréttablaðinu 21.1.2011

Niðurstaða: Sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem vitum fyrir hvað SPECTRE stendur. Aðrir ættu þó einnig að geta skemmt sér ljómandi vel.

Íslensk Ameríska

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 20.1.2012 by snobbhaensn

Contraband **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Baltasar Kormákur
Leikarar: Mark Wahlberg, Kate Beckinsale, Giovanni Ribisi, Ben Foster, Lukas Haas, Caleb Landry Jones, J.K. Simmons, Ólafur Darri Ólafsson

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Contraband, Mark Wahlberg-myndin sem þénaði rúmlega 24 milljónir dala í bandarískum bíóhúsum um síðustu helgi, sé upprunin úr hatti Skara Skrípó. Sú staðhæfing er að vísu ákaflega mikil einföldun, en ef ske kynni að það hafi farið fram hjá einhverjum þá er myndin endurgerð hinnar alíslensku og eiturhressu Reykjavík-Rotterdam frá árinu 2008 sem Óskar leikstýrði. Aðalleikari íslensku myndarinnar, Baltasar Kormákur, hefur nú aðlagað söguna amerískum aðstæðum, en þó eru myndirnar tvær glettilega líkar.

Wahlberg leikur Chris Farraday, fyrrverandi smyglara sem hefur snúið sér að löglegri iðju. Mágur hans flækist í fíkniefnamál sem endar með ósköpum, og eftir stendur stór peningaskuld við ósanngjörn illmenni. Eins og illmennum er von og vísa herja þeir á stórfjölskylduna, og sér fyrrnefndur Farraday ekki vænni kost í stöðunni en að fara í enn einn smygltúrinn og ræður því sig og bannsettan máginn á gámaskip á leið til Panama, en því fylgir að sjálfsögðu hasar.

En ólíkt mörgum nýlegum hasarmyndum skýlir Contraband sig ekki á bak við viðstöðulausan hávaða og yfirgengilegt sjónrænt áreiti. Það er raunveruleg spenna til staðar og myndin andar nokkuð eðlilega. Wahlberg hefur aldrei verið besti leikarinn í bransanum en hann hefur óumdeilanlegan sjarma og ræður vel við hlutverkið sitt hér. Ribisi skemmtir sér konunglega í hlutverki ógeðslegs dópsala og óbermis, J.K. Simmons er spaugilegur í hlutverki skipstjórans, og síðan fáum við Íslendingarnir óvæntan glaðning um borð, en þar er að finna stórglæsilegan Ólaf Darra. Hann segir ekki mikið en nærvera hans er sterk.

Leikstjórinn Baltasar skilar hér góðu verki þó erfitt sé að finna höfundareinkenni, enda sjaldan sem leikstjórar hasarmynda leyfa sér slíkt. Takturinn er temmilegur framan af og stígandinn góður. Myndatakan er óstöðug en þó ekki um of og klippingin snyrtileg. Ég held ég sé ekki of litaður af íslensku monti þegar ég fullyrði að endurgerðin hafi heppnast ljómandi vel. Það er gaman að sjá íslenskan listamann reyna við formúlumyndagerð og hitta beint í mark. Contraband er síðasti naglinn í líkkistu hinnar langlífu mýtu um að Íslendingar kunni bara að búa til kvikmyndir um sjálfsmorð og nauðganir uppi í sveit.

Niðurstaða: Coco hafði rétt fyrir sér. Contraband er þrælfín.

Birt í Fréttablaðinu 20.1.2012