Gestahænsnið: Baldur Ragnarsson


Það er kominn tími á annað gestahænsni. Að þessu sinni henti ég nokkrum spurningum í Baldur nokkurn Ragnarsson, en hann horfir ofsalega mikið á bíó.

Baldur er ofvirkur tónlistarmaður og hefur undanfarin misseri gert góða hluti með hljómsveitunum Innvortis, Skálmöld og Ljótu hálfvitunum. Hann hefur spriklað um land allt með Leikhópnum Lottu á sumrin, en hefur tekið því nokkuð rólega undanfarið í snjóþyngslunum. Sjáum hvort Baldur segi ekki eitthvað af viti.

Snobbhænsnið: Hvað ertu að gera og hvað er framundan?
Baldur: Framundan er að taka upp plötu með tríói sem ég er partur af sem heitir Dætrasynir, klára að semja og taka upp nýja plötu með Skálmöld, Ljótu hálfvitarnir eru að koma saman aftur með tilheyrandi tónleikahaldi og gleði og svo leikhúsvinna í ýmsu formi. Ásamt því auðvitað að reyna að halda sómasamlegt heimili.

Seinasta mynd sem þú horfðir á?
Hún heitir RoboGeisha og er japönsk. Ég er nýkominn frá Japan og fannst við hæfi að loka ferðinni með því að horfa á þessa. Hún er fullkomlega glórulaus og glæsileg, til dæmis blæðir húsunum kröftuglega þegar stóra húsavélmennið lemur þau. Brellurnar eru passlega illa gerðar og húmorinn mjög japanskur. Þeir sem hafa gaman af mátulega lélegum óútskýranlegum myndum ættu að sjá þessa. (trailer)

Uppáhaldsmynd í öllum heiminum?
Ég verð að feta í fótspor fyrri hænu og segja The Big Lebowski. Ég hef séð hana ótal sinnum, ég er enn að hlæja að sömu bröndurunum, enn að finna nýja og ég þreytist aldrei á því að horfa á einhvern horfa á þessa mynd í fyrsta skipti.

Fyrsta kvikmynd sem þú manst eftir að hafa séð í kvikmyndahúsi?
Ég held hreinlega að mín fyrsta hreina kvikmyndaminning sé þegar ég fer og sé Jurassic Park, þá nýútkomna í samkomuhúsinu á Húsavík með pabba. Hún var bönnuð yngri en 12 og ég var bara 9, við smygluðum mér inn. Pabbi talaði oft um það að það hefði enginn nokkurn tímann kreist höndina hans eins fast og ég þegar helvítis snareðlurnar mættu.

Áttu þér uppáhalds leikstjóra?
Nei ég á engan uppáhalds leikstjóra sem ber höfuð og herðar yfir aðra. Ég á hinsvegar marga leikstjóra í uppáhaldi. Til að nefna einhvern get ég nefnt Jean-Pierre Jeunet. Amelie og Delicatessen, sem hann leikstýrði reyndar með Marc Caro, eru myndir sem hafa fylgt mér lengi og gera mig reglulega glaðan.

Mynd sem alltof fáir hafa séð, en allir ættu að sjá?
Júgóslavneska myndin Underground í leikstjórn Emir Kusturica frá árinu 1995. Tónlistin er í höndum Goran Bregovic og er algjörlega stórbrotin. Þetta er ein af mínum uppáhaldsmyndum sem fæstir virðast því miður þekkja. Ég ætla ekki að segja neitt um söguþráðinn, sjáið hana bara. Hún er vel þess virði.

Nú áttu veglegt kvikmyndasafn. Hver er versti gripur safnsins?
Það er sennilega myndin Valhalla Rising. Þetta voru svo mikil vonbrigði. Ég sá trailerinn, hann var ágætur. Ég er hrifinn af Mads og hann klikkar sjaldan þannig að ég keypti þessa mynd á dvd-i í blindni. Svo fer hún meira að segja ágætlega af stað, ég er fullkomlega til í þessa rennireið en þá umturnast myndin snögglega yfir í mannaskít mannkyns. Ég hef aldrei verið eins illa svikinn af líflausum hlut og núna geymi ég þennan dvd-disk í sjónmáli til að minna mig á að byrja ekki að treysta of snemma í lífinu.

Hvort er betra: Strákakvöld yfir Rambo, eða kúr með sætri stelpu yfir rómantískri gamanmynd?
Þetta er erfið spurning. Þetta er líka spurning um tilgang og eftirmála. Ef spurningin snýr eingöngu að kvikmyndaáhorfinu hefur Rambó vinninginn. Maður veit jú að Rambó klikkar ekki en hvað ef rómantíska gamanmyndin er ein af þessum örfáu góðu en ekki enn ein ruslræman? Og maður verður líka að horfast í augu við það að kúr undir rómantískri gamanmynd með sætri stelpu er oft brú yfir í eitthvað sem sjaldnast brýst fram eftir Rambó-kvöld með strákunum, nema að hópurinn sé þeim mun þéttari.

Ég kýs að svara þessu ekki, þetta er svolítið eins og að spyrja: „Hvor er betri, Stephen Hawking eða Michael Johnson?“

Snobbhænsnið þakkar Baldri fyrir góð svör og snögg viðbrögð. Hlustið á Skálmöld.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: