Gestahænsnið: Bóas Hallgrímsson

Söngfuglinn Bóas Hallgrímsson úr hljómsveitinni Reykjavík! er gestahænsni vikunnar. Þessi geðþekki grunnskólakennari er sérlegur áhugamaður um hrollvekjur og fannst mér því tilvalið að demba á hann spurningum úr heimi hryllings og ótta. Hann var eitthvað efins með þessa spaugilegu ljósmynd sem ég lagði hart að honum að leyfa mér að nota. En hann bauð mér ekkert betra í staðinn þannig að hundaflipp verður það.

Snobbhænsnið: Hvað ertu að brasa?
Bóas: Ég er að fást við ýmislegt þessa dagana. Hljómsveitin Reykjavík! sem ég tilheyri er alltaf að gera eitthvað rugl, semja dansverk og tónverk og smíða grindverk. Svo er ég alltaf að kenna, ala upp börn, skrifa skáldsögu og horfa á bíó.

Hvaða nýju eða nýlegu hrollvekju mælirðu með?
Ég er búinn að vera fáranlega latur við að horfa á bíómyndir að undanförnu og ég ætla klárlega að bæta úr því á þessu ágæta ári. Það sem ég hef séð nýlega er flest drasl. En ef ég ætti að týna til myndir sem ekki eru drasl þá eru það helst Troll Hunter sem mér þótti alveg stórkostleg, það er alveg ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því sem Norðurlöndin eru að senda frá sér í bíó, ég vildi að ég væri duglegri að sjá allar þær frábæru myndir sem eru að koma frá þeim slóðum. En Troll Hunter og Låt den rätte komma in eru alveg með því ferskara sem ég hef séð undanfarin ár.

Svo þótti mér I Saw the Devil alveg ótrúlega sterk, hún tekur fjöldamorðingjamyndir á nýjar hæðir. Jee Woon Kim hefur gert einstaklega grípandi og spennandi mynd. Mér hefur þótt hann spennandi frá því að ég sá A Tale of Two Sisters, en þessi mynd, I Saw the Devil, er margfalt betri. Margfalt. Svo fannst mér Last Exorcism ógeðslega hress.

Hver var fyrsta myndin sem hræddi úr þér líftóruna?
Ég stalst til þess, eins og svo margir minnar kynslóðar, að horfa á Jaws. Það hefði ég betur látið ógert. Ég held að ég hafi verið sex eða sjö ára. Ég var ekki fáanlegur til þess að baða mig, sundferðir fylltu mig kvíða og hryllingi. Ég get enn ekki farið á ströndina án þess að fá kvíðahnút í magann. Eftir að pabbi fór svo með mig á Gremlins þá svaf ég vopnaður vasaljósi svo vikum skipti.

Uppáhalds hryllingsmynd í öllum heiminum?
The Shining og Rosemary’s Baby. Í báðum tilfellum er það vegna þess að þessar myndir hræddu úr mér líftóruna. Það er svo einstök tilfinning að vera límdur við að horfa á eitthvað sem vekur hjá manni óhug og veldur vanlíðan og vellíðan samtímis. Þegar ég horfði á The Shining þá var ég einn heima, tólf ára að vetrarlagi. Ég átti heima í Mosfellsdalnum og það var óvenju snjóþungt þetta tiltekna kvöld. Mamma og pabbi höfðu brugðið sér eitthvað af bæ og ég var með videokvöld, eins manns videokvöld þar sem engin var til í að vaða skaflana til þess að horfa á einhverja hryllingsmynd með mér.

Ég kom mér því einn fyrir í leðursófanum með teppi breytt yfir mig, örbylgjupopp í skál og líter af appelsínusafa og ræsti myndina. Tæpum þreumur tímum síðar komu foreldrar mínir heim. Ég hafði ekki snert á poppkorninu, ekki tekið einn sopa af appelsínusafanum og hafði ekki fyrir mitt litla líf treyst mér til þess að teygja mig í fjarstýringuna til þess að stoppa myndina. Á skjánum var snjónvarpssnjór og ég var stjarfur af skelfingu. Romemary’s Baby hafði svipuð áhrif á mig.

Hver er ofmetnasta hryllingsmyndin?
Það er svo erfitt að tala um ofmetna hryllingsmynd held ég. Það er ekki eins og þessi flokkur kvikmyndanna sé á háum stalli hjá snobbhænsnum úr heimi kvikmyndanna, meira að segja meistarastykki úr flokki hryllingsmynda eiga upp á pallborðið hjá takmörkuðum hópi kvikmyndaunnenda. Og það er gott og vel. En umtalaðar hryllingsmyndir sem eiga umtalið kannski ekki skilið, það er önnur ella. Þar þykir mér Tom Six, Íslandsvinurinn, grunsamlegur. Þegar menn gera kvikmyndir sem ganga eins langt og mögulegt hægt er, aðeins til þess að hneyksla þá er það ekki minn tebolli. Því myndi ég segja að The Human Centipede og Hostel eftir Eli Roth væru of-umtalaðar.

Er einhver hryllingsmynd sem gengur að þínu mati of langt í ofbeldi og viðbjóði?
Vissulega, fullt af þeim. Ég veit ekki hversu oft ég hef setið í sófanum heima hjá mér og velt því fyrir mér hvernig mér dettur í hug að horfa á eitthvað viðbjóðsklám. Þegar ég segi viðbjóðsklám þá vona ég að fólk átti sig á því að ég á við myndir sem ganga svo langt í ofbeldi og viðbjóði að það er varla hægt að kalla það annað en klám. Ég nefni sem dæmi ógeðið Serbian Film sem ég gat með engu móti fengið mig til þess að horfa á. Eins má alveg segja að Hostel, Frontiers, Human Centipede, High Tension hafi fátt annað fram að færa en ógeð.

Trúir þú á yfirnáttúru (drauga, andsetningar, einhverskonar ófreskjur eða önnur yfirnáttúruleg fyrirbæri)?
Já, ég geri það. Ég held að það sé ormur í Lagarfljóti, Nykur í Reykjavíkurtjörn og illir andar á Alþingi.

Fimm bestu hrollvekjur allra tíma?
Rosemary’s Baby, The Shining, Evil Dead.

Þarna bræddi heili Bóasar úr sér, enda einkar erfið lokaspurning. Við þökkum honum kærlega fyrir og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að hlusta á nýjustu plötu hljómsveitarinnar Reykjavík!

Auglýsingar

5 svör to “Gestahænsnið: Bóas Hallgrímsson”

 1. Bóas hittir naglann á höfuðið. Troll Hunter er algjör snilld.

 2. Ég á enn eftir að sjá hana :/

 3. Nú á dögum er fátt um fína drætti fyrir hryllingsmyndabuff. Ég vil þó mæla með tveimur spænskum myndum sem ég sá á síðasta ári sem eru framúrskínandi, þær heita einfaldlega Rec og svo Rec II.

  kv

  S

 4. Takk fyrir innlitið Sigurður. Rec er hressandi, en Rec II á ég eftir að sjá. Ég þorði því eiginlega ekki vegna reglunnar um ömurlegar framhaldsmyndir. Er vikið frá henni hér?

 5. Rec II er prýðilegt framhald, sama stemning og skemmtilegt handrit sem gengur upp.

  kv

  S

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: