Spæjó og Sinfó

James Bond-veisla **** (4 stjörnur)
Tónleikar í Eldborgarsal Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjóri: Carl Davis. Veislustjóri: Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Einsöngvarar: Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Inga Stefánsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Sigríður Thorlacius, Valgerður Guðnadóttir.

Kvikmyndaserían um spólgraða spæjarann James Bond fagnar fimmtugsafmæli sínu í ár. Í tilefni af því hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt bandaríska stjórnandanum Carl Davis sett saman tónleikadagskrá þar sem tónlistinni úr kvikmyndunum er gert hátt undir höfði. Örfá lög á dagskránni eru ósungin en afgangnum er skipt mis-bróðurlega á milli sjö söngvara. Á milli laga rennir Jóhanna veislustjóri lauslega yfir sögu kvikmyndaseríunnar með leikrænum tilþrifum, en lögin 26 eru flutt hér um bil í tímaröð.

Útsetningarnar eru í flestum tilfellum nauðalíkar upprunalegu útgáfunum. Auðvitað er svuntuþeysir hér og trommuheili þar sem skipt hefur verið út fyrir önnur hljóðfæri, en það kemur ekki að sök. Það eru tónleikar fimmtudagskvöldsins sem eru til umfjöllunar hér og Sinfóníuhljómsveitin skilaði sínu og hljómaði vel. Það var síðan söngvaranna að láta í sér heyra og gekk sumum það betur en öðrum. Það er auðvitað ekki á allra færi að syngja með svo stórri hljómsveit án þess að rödd þeirra hreinlega týnist. Eyþór náði best allra að láta ljós sitt skína og lögin þrjú sem hann flutti einn gerði hann óaðfinnanlega. Live and Let Die í hans flutningi var jafn flott og gardínan sem hann klæddist var ljót. Sem betur fer skipti hann henni seinna út fyrir jakkaföt.

Gæsahúð kvöldsins framkallaði Valgerður með frábærum flutningi á laginu For Your Eyes Only, en þar var það ekki síst Sinfóníuhljómsveitin sem lék á als oddi. Valgerður söng hin lögin sín smekklega og leyfði sér meira að segja stöku mjaðmahristu til að skapa stemningu. Sigga Beinteins byrjaði brösuglega en sótti í sig veðrið og náði hápunkti í laginu GoldenEye, en þar lék hún listir sínar á tónskalanum, bæði neðst niðri og efst uppi. Páll Óskar gerði þremur sixtíslögum góð skil, en eitíslögin hans tvö, A View to a Kill og The Living Daylights, voru klaufaleg. Síðara lagið leið þó helst fyrir skort á bakröddum. Helst hefði ég vilja sjá hann spreyta sig á Nobody Does it Better, en það kom í hlut Sigríðar Thorlacius, og var það hennar eina einsöngslag.

Það er mikilvægt að hafa í huga að Bond-lögin eru misgóð. Aumingja Inga Stefáns sat uppi með öll leiðinlegu lögin og náði því ekki að heilla mig í þetta sinn. Hún hlýtur að hafa tapað í pantekki. Þrátt fyrir þessi örfáu andlausu lög var ég gífurlega ánægður með að fá að heyra öll lögin, en ekki bara brot af því besta. Öll lögin segi ég, en þó var það eitt lag sem vantaði. Aðeins eitt lag. Það eitt og sér er nógu skrýtið, að sleppa aðeins einu lagi, en að það hafi þurft að vera besta seinnitíma Bond-lagið er ófyrirgefanlegt. Titillag myndarinnar Tomorrow Never Dies var skilið útundan, en staðgengill þess var lokalag sömu myndar, Surrender.

Þrátt fyrir stöku misbresti var James Bond-veislan glæsilegur og þrælskemmtilegur viðburður. Ég tel nær allar líkur á að hver einasta hræða í salnum muni setja einhverja af myndunum í tækið á næstu dögum. Mörg þessara laga eru svo falleg en önnur svo yndislega lummó. Á leiðinni út leið mér pínu eins og ég hefði verið viðstaddur Eurovisionkeppni, nema með heimsklassa flytjendum og almennilegum lögum.

Birt í Fréttablaðinu 21.1.2011

Niðurstaða: Sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem vitum fyrir hvað SPECTRE stendur. Aðrir ættu þó einnig að geta skemmt sér ljómandi vel.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: