Sarpur fyrir febrúar, 2012

Gestahænsnið: Siggi Pönk

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 29.2.2012 by snobbhaensn

Sigurður Harðarson, betur þekktur sem Siggi Pönk, er í (allavega) fjórum hljómsveitum auk þess sem hann hefur sinnt slösuðum Íslendingum á „Slysó“ í fjöldamörg ár. En þessi 44 ára gamli húðflúraði harðkjarna-jálkur er einnig sérlegur áhugamaður um kvikmyndir. Snobbhænsnið spurði Sigurð spjörunum úr.

Hvað ertu að gera og hvað er framundan?
Ég er núna á flakki með konunni minni, Manon, en hún er upphaflega hollensk. Við flugum til Boston og heimsóttum vini þar (þegar maður hefur sett upp tónleika á Íslandi fyrir erlendar DIY hljómsveitir eignast maður vini um allan heim), tókum Greyhound til New York (mjög þægileg fjögurra tíma rútuferð) og gistum hjá gömlum Straight Edge/Vegan/Hardcore vini Manon þar. Síðan flugum við til Bonaire, sem er pínulítil eyja í karabíska hafinu, fyrrum hollensk nýlenda og margir Hollendingar sem búa hér og þar með tengdapabbi sem býr hér hálft árið. Við tókum þetta flakk núna því fyrir liggur að flytjast búferlum til Brighton í Suður-Englandi af menningarlegum ástæðum (ekki fjárhagslegum).

Annars er fjórða breiðskífa hljómsveitarinnar Gjöll á lokastigi, breiðskífa frá Forgarði Helvítis í hægu vinnsluferli og upptökur frá drulluga noisepönk-bandinu Ravachol í lokavinnslu og útgáfuundirbúningi. Bókasafn Anarkista komið á öruggt heimili í Reykjavíkurakademíunni og ég að plotta hvaða anarkistabækur ég eigi að þýða næst til útgáfu á klakanum.

Hvernig er fyrsta bíóminningin þín?
Ben Húr held ég. Fór með afa og foreldrum mínum ásamt Eiríki frænda. Við frændurnir vorum eitthvað innan við tólf ára. Það var ekið úr sveitinni og myndin var sýnd í Gamla bíó minnir mig (þar sem ég sat á Sólstafa-tónleikum um daginn sællar minningar). Þetta er massív stórmynd sem eldist vel og ég man enn eftir burtreiðunum þar sem Charlton Heston var nærri drepinn með svikum.

Ef þú mættir sjónvarpa kvikmynd til allra jarðarbúa, hvaða mynd myndirðu velja og af hverju?
Einhver af þeim sterku heimildamyndum sem til eru um lífsstílsmöguleika sem ekki er bráðdrepandi fyrir allar aðrar lífverur á plánetunni. En hún ætti þá einungis erindi til þess litla hluta mannkyns sem sóar megninu af öllu því sem aðra vantar.

Hefurðu farið einn í bíó?
Jájá. Gerði það bara nokkuð oft sem einhleypur maður. Hef oft haft orð á því að fátt sé leiðinlegra en að koma út af einhverri sterkri mynd, enn í trans og einhver kjaftaskur fer að blaðra og útskýra fyrir manni myndina. Fátt er meira eyðileggjandi fyrir bíóupplifun, nema ef vera skyldi kók-auglýsingar. Man enn þegar ég fór á DEAD MAN eftir Jim Jarmusch í Háskólabíó. Ég hálfþunnur og úti var nepja og myrkur og ég kom út hugsandi „til hvers er maður eiginlega að lifa!“ Svo sterk var hún þá.

Hvaða mynd er jafngóð eða betri en bókin sem hún er byggð á?
Mögulega „The Road“ eftir sögu Cormac McCarthy. Við hjónin erum unnendur post-apocalypse kvikmynda (auk Zombie mynda) og „The Road“ skar okkur í sálina. Það var gott. Seinna las ég bókina og einnig „No Country For Old Men“ einnig eftir hann. Þar má segja það sama um mynd og bók. Mögulega er það knappur ritstíll McCarthy sem gerir það að verkum að auðveld er að draga sögurnar upp á hvíta tjaldið án þess að fara að ofskreyta.

Hver er besta myndin sem þú sást í fyrra og af hverju?
Það veit ég ekki. Þetta er eins og með uppáhaldshljómsveitir þegar tónlistaráhuginn liggur í nokkrum geirum , smekkurinn víkkar stöðugt og nokkur hundruð hljómsveitir heilla mann á hverju ári. Ég get ekki alhæft hver sé uppáhaldshljómsveitin mín. Bara ómögulega. Á RIFF höfum við hjónin yfirleitt tekið allt að 40 myndir á tíu dögum og aðeins gengið út af einni. Heimildamyndir tala mikið til okkar (mér endist ekki ævin í að lesa bækur um allt sem ég vil vita) og ein sterk var „Fat, Sick and Nearly Dead“ um tvo unga karlmenn sem eru að kafna úr fitu og drepast úr sjálfs-ofnæmissjúkdómum en bjarga sér með því að fara á grænmetissafakúra. Bara venjulegir kallar, enginn neo-hippismi eða alhæfingar um hinn endanlega sannleika í mataræðisbreytingum sem guðsgjöf. Mjög mannleg mynd sem snart mig.

Áttu þér uppáhalds íslenska mynd?
Það má vel vera en ég man þá ekki eftir því. Nema auðvitað „Rokk í Reykjavík“. Var einmitt að hugsa með mér um daginn hvort að Friðriki Þór lumaði ekki á öllu aukaefninu úr henni einhversstaðar. Man eftir að ég las viðtal við hann um myndina á sínum tíma og þá kom fram að miklu fleiri hljómsveitir voru filmaðar en síðan enduðu í myndinni. Þetta er auðvitað sögulegt efni í dag og á erindi við okkur tónlistarnörda.

Áttu þér uppáhaldsleikstjóra?
Það væru þá nokkrir sem ég er til í að nefna: Gus Van Sant sem gerði „My Own Private Idaho“, „Elephant“ og margar fleiri hægar og afar mannlegar myndir um unga menn (og ungt fólk) á tímamótum í tilverunni. Todd Solondoz, þó ekki væri nema fyrir „Happiness“ sem ég sá á kvikmynda-hátíð á sínum tíma. Hann skapar undarlega karaktera sem funkera engan veginn í tilverunni. Hinn Gríski Yorgos Lanthimos sem gerði bæði „Dogtooth“ og „Alps“ sem sprengdu báðar upp marga mælikvarða á siðferðilega rétta hegðun í vestrænu samfélagi.

Hvaða leikara, íslenskan eða erlendan, gætir þú þolað að túlkaði þig í ævisögulegri mynd um Sigurð pönkhjúkku?
Þar sem ég sé sjálfan mig ekki fyrir mér get ég ekki ímyndað mér þetta. Ég bókstaflega er ekkert alltaf viss um hvernig ég lít út þegar ég sé ímyndir af sjálfum mér, nema þegar ég sé glitta í stóra bróður minn eða föður í spegilmyndinni. Ég hef heldur ekki unnið mér inn fyrir kvikmynd um sjálfan mig.

Ég þakka Sigurði kærlega fyrir spjallið og óska honum (og frú) velfarnaðar á flakki sínu um heiminn.

Auglýsingar

Tekur Van Damme í bóndabeygju

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 28.2.2012 by snobbhaensn

Haywire **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Steven Soderbergh
Leikarar: Gina Carano, Michael Fassbender, Ewan McGregor, Bill Paxton, Channing Tatum, Antonio Banderas, Michael Douglas

Hin grjótharða Mallory Kane lendir í blóðugum átökum á kaffihúsi en nær að yfirbuga árásarmanninn. Hún flýr af vettvangi með viðskiptavini kaffihússins sem hafði komið henni til aðstoðar í slagsmálunum, tekur bifreið hans tímabundnu eignarnámi, og segir honum alla sólarsöguna á bak við það sem gerðist. Hún starfar hjá leynilegu fyrirtæki sem tekur að sér allskonar pólitísk skítadjobb fyrir yfirvöld, en nú vill spilltur yfirmaður hana feiga og hefur fjölmarga útsendara á sínum vegum sem Kane þarf að kljást við.

Haywire er fyrsta hreinræktaða hasarmynd leikstjórans Steven Soderbergh, en hann hefur lengi átt það til að hoppa á milli kvikmyndategunda eins og ekkert sé. Hasarinn fer honum vel og útkoman er þrælspennandi og ofsafengin. Slagsmálasenurnar eru magnaðar enda er aðalleikkonan, Gina Carano, mikil bardagalistakona og hefur oftast betur gegn misfærum ofbeldismönnum. Soderbergh kvikmyndar sjálf slagsmálin í stað þess að púsla þeim saman eftirá með leifturklippingu. Fyrir vikið verða atriðin því bæði trúverðugri og tilkomumeiri.

Sagan er einföld og í sjálfu sér lítið merkileg. Carano er sæmileg leikkona og það sem upp á vantar bætir hún fyrir með sjarma sínum og fimi. Til allrar hamingju upphefur myndin þessa kosti hennar í stað þess að fara ódýru og algengu leiðina, þar sem kvenkyns harðhausar eru aðlagaðir kynórum óreyndra unglingspilta. Hún fær samt alveg að vera töffari, og lítur út fyrir að geta tekið gamla sleða á borð við Jean-Claude Van Damme í bóndabeygju. Aðrir leikarar skila sínu og sérstaklega hafði ég gaman af Bill gamla Paxton í hlutverki föður aðalpersónunnar.

Hasarmyndin virðist eftir allt saman enn eiga sér viðreisnar von. Það er óskandi að Soderbergh finni sig frekar í þessu en að segja alfarið skilið við kvikmyndagerð, eins og hann hefur sagst ætla að gera. Það væri mikil synd.

Niðurstaða: Haywire er vissulega formúlumynd en framsetningin lyftir henni upp fyrir meðalmennskuna.

Birt í Fréttablaðinu 27.2.2012

Óskar 2012 – Úrslitin

Posted in Blogg on 27.2.2012 by snobbhaensn

Í gærkvöldi birti ég mína spá. Rennum yfir listann og sjáum hvað ég gat. Ég strika yfir það sem ég var með vitlaust.

Besta mynd: The Artist
Besti leikari í aðalhlutverki: Jean Dujardin (The Artist)
Besta leikkona í aðalhluterki: Meryl Streep (The Iron Lady)
Besti leikari í aukahlutverki: Christopher Plummer (Beginners)
Besta leikkona í aukahlutverki: Octavia Spencer (The Help)
Besti leikstjóri: Michel Hazanavicius (The Artist)
Besta frumsamda handrit: Midnight in Paris (Woody Allen)
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni: The Descendants (A. Payne)
Besta “erlenda” mynd: A Seperation (Íran)
Besta teiknimynd í fullri lengd: Rango
Besta myndataka: The Tree of Life
Besta klipping: The Artist
Besta listræna stjórnun: Hugo
Besta búningahönnun: Hugo
Besta förðun: The Iron Lady
Besta kvikmyndatónlist: The Artist
Besta lag: The Muppets
Besta hljóðblöndun: The Girl with the Dragon Tattoo
Besta hljóðklipping: Transformers: Dark of the Moon
Bestu tæknibrellur: Real Steel
Besta heimildarmynd í fullri lengd: Paradise Lost 3: Purgatory
Besta stutta heimildarmynd: The Tsunami and the Cherry Blossom
Besta stutta teiknimynd: The Fantastic Flying Books of M. M. Lessmore
Besta leikna stuttmynd: The Shore

Margt af þessu var afskaplega fyrirsjáanlegt. Helsta fífldirfskan í minni spá var líklega Meryl Streep, en spekingar virtust flestir handvissir um að Viola Davis tæki styttu fyrir The Help. Af 24 verðlaunum spáði ég rétt fyrir um 16 og ég er nokkuð sáttur með það. Öll stóru verðlaunin voru rétt hjá mér og er þetta í fyrsta sinn sem það gerist.

Ég hefði samt viljað sjá Kenneth Branagh ræna styttunni af Christopher Plummer, og einnig hefði ég haft lúmskt gaman af því að sjá Alexander Payne taka leikstjórann. Annað var bara nokkuð verðskuldað held ég. Allavega í stóru verðlaununum.

Athöfnin sjálf var í leiðinlegra lagi. Kannski var hún eins og hún er venjulega en ég bara orðinn svona bitur að eðlisfari, en mér fannst t.d. Billy Crystal eiginlega bara leiðinlegur.

Meryl Streep átti skemmtilegustu ræðuna, Octavia Spencer átti grenj-ræðuna, tónskáld The Artist var franskasti maðurinn á svæðinu og Nick Nolte sá þrútnasti. Ég vona bara að hann verði ekki í myndamontage-inu á næsta ári um þá sem hafa fallið frá.

Óskarsupphitun

Posted in Blogg on 27.2.2012 by snobbhaensn

Afhending Óskarsverðlaunanna hefst eftir skamma stund. Ég ætla að henda inn minni spá.

Besta mynd: The Artist
Besti leikari í aðalhlutverki: Jean Dujardin (The Artist)
Besta leikkona í aðalhluterki: Meryl Streep (The Iron Lady)
Besti leikari í aukahlutverki: Christopher Plummer (Beginners)
Besta leikkona í aukahlutverki: Octavia Spencer (The Help)
Besti leikstjóri: Michel Hazanavicius (The Artist)
Besta frumsamda handrit: Midnight in Paris (Woody Allen)
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni: The Descendants (A. Payne)
Besta „erlenda“ mynd: A Seperation (Íran)
Besta teiknimynd í fullri lengd: Rango
Besta myndataka: The Tree of Life
Besta klipping: The Artist
Besta listræna stjórnun: Hugo
Besta búningahönnun: Hugo
Besta förðun: The Iron Lady
Besta kvikmyndatónlist: The Artist
Besta lag: The Muppets
Besta hljóðblöndun: The Girl with the Dragon Tattoo
Besta hljóðklipping: Transformers: Dark of the Moon
Bestu tæknibrellur: Real Steel
Besta heimildarmynd í fullri lengd: Paradise Lost 3: Purgatory
Besta stutta heimildarmynd: The Tsunami and the Cherry Blossom
Besta stutta teiknimynd: The Fantastic Flying Books of M. M. Lessmore
Besta leikna stuttmynd: The Shore

Ég er búinn að sjá ríflega helming myndanna sem tilnefndar eru eða samtals 31. Sumt er algjörlega gisk út í bláinn, annað er byggt á einhverri tilfinningu eða umtali. Og ég reyndi að láta óskhyggju mína ekki spila inn í spána. Sjáum hvað ég get af þessu.

Skemmdarverk

Posted in Blogg on 25.2.2012 by snobbhaensn

Það er mikill drungi og gífurleg eymd yfir myndinni The Woman in Black, sem Sambíóin Álfabakka (áður þekkt sem Dallas) forsýndu í gærkvöldi í samvinnu við útvarpsstöðina FM957. Sýningin var kl. 00:20 og tel ég það afar hentugan tíma fyrir sýningu á hrollvekju af þessu tagi. Ég mun fjalla nánar um myndina á síðum Fréttablaðsins um næstu helgi, og stikla því á stóru um söguþráðinn í bili.

Myndin gerist á Englandi í upphafi síðustu aldar og segir frá ungum ekkli (leiknum af Harry Potter) sem ferðast vegna vinnu sinnar til afskekktrar sveitar til að reyna að koma mannlausu húsi á sölu. Þegar á staðinn er komið reynast þorpsbúar hinir viðskotaverstu og vilja hann burt sem fyrst. Potter lætur sér ekki segjast og fer til að líta á húsið. Upphefst þá einn djöfullegasti draugagangur sem ég hef séð í kvikmynd í allnokkurn tíma og nokkrum sinnum gerðist ég sekur um að halda fyrir augun. Ég held almennt ekki fyrir augun enda er ég stór strákur, en andrúmsloft myndarinnar hreinlega neyddi mig til þess.

Myndin sækir innblástur sinn í óteljandi kvikmyndir og bækur og virðist leikstjórinn vera vel að sér í hrollvekjusögunni og er ófeiminn við að vitna í önnur verk. Sterkustu líkindin sá ég með myndinni og annarri breskri hrollvekju, kvikmyndina The Innocents frá árinu 1961 og eiga þær margt sameiginlegt bæði útlitslega og efnislega (þó báðar séu þær byggðar á skáldsögum).

Fljótlega mun ég koma mér að umfjöllunarefni þessa pistils og til þess að leyfa þér að setja þig í mínar stellingar finnst mér mikilvægt að þú vitir nákvæmlega hvers konar mynd um er að ræða. Tempóið er löturhægt á köflum, hræðslumáttur breskra barna í gamla daga er virkjaður til fullnustu, allir í þorpinu virðast hafa misst barn, og mörg þeirra hafa framið sjálfsvíg. Þrjár barnungar stúlkur hafa hoppað út um þakglugga og dáið. Enn önnur stúlkan deyr eftir að hún drekkur lút. Í mannlausa húsinu eru köngulóarvefir, heill hellingur af ófrýnilegum postulínsdúkkum, upptrekktum ógeðsleikföngum, spiladósum….. eiginlega bara allar klisjurnar sem við þó getum alltaf hryllt okkur yfir.

Í einni senunni í mannlausa húsinu gengur Harry Potter um gólf og leitar uppruna gæsahúðarvekjandi óhljóða. Hann finnur að hann er ekki einn. Eitthvað hræðilegt er á sveimi en hann veit ekki hvað það er. SKYNDILEGA!!!!!!!!

http://www.youtube.com/watch?v=pIOOwhmkoLo

Ljósin kvikna og eftirfarandi skilaboð berast bíógestum úr hátalarakerfi kvikmyndahússins:

Party rock is in the house tonight
Everybody just have a good time
And we gonna make you lose your mind
Everybody just have a good time

En einstaklega viðeigandi. Ég er ekki frá því að The Woman in Black hafi batnað heilmikið við þetta innskot. Ég var líka alveg að pissa í buxurnar því að ég var búinn að sitja kyrr í næstum því klukkutíma. Hefði ég ekki komist fram og á salerni hefði ég sennilega pissað í sætið. Mér fannst þetta líka bæta athyglisverðum vinkli við kvikmyndina. Kannski var enginn draugur í húsinu. Engin löngu dáin og geðveik kona sem hengdi sig þegar barnið hennar dó. Kannski var bara Partírokk í húsinu þetta kvöld!

Þegar myndin loks byrjaði aftur var ég umsvifalaust kominn aftur í stemninguna. Þetta var því engin truflun. Braut myndina skemmtilega upp og ég hef því tekið þá ákvörðun að stöðva allar myndir sem ég horfi á hér eftir til þess að spila þetta ávallt viðeigandi Partírokk-anþem. Sophie’s Choice er t.d. gott dæmi um mynd sem gæti hagnast gífurlega á slíku uppbroti. Eiginlega er verst að lagið var ekki komið út á þeim tíma sem Alan J. Pakula gerði hana því að lagið hefði hreinlega bara mátt vera einhversstaðar í sjálfri myndinni. Til dæmis strax á eftir atriðinu þegar nasistarnir draga háskælandi dóttur Sophie í burtu til þess að myrða hana. „Every day I’m shuffling“-kaflinn hefði t.d. komið sterkur inn þar.

Að sjálfsögðu er allt sem ég skrifaði eftir textabrotið kaldhæðni. Að klípa mynd svona í sundur er ekki bara pirrandi fyrir áhorfandann heldur líka gríðarleg vanvirðing við myndina og alla sem að henni standa. Að sjálfsögðu þola kvikmyndir það mis-illa að vera skipt í tvennt. Kvikmyndin American Reunion, sem frumsýnd verður á næstunni, mun líklega þola autotjúnað Effemm-hlé betur en The Woman in Black, en það er þó ekki þar með sagt að hlé sé réttlætanlegt, hvað þá nauðsyn. Tilfellið í gær var hins vegar svo öfgakennt að það er tilvalið að nota það til að sýna fram á eyðileggingarmátt hlésins.

Áður en lengra er haldið vil ég þó, til þess að vera sanngjarn, taka það fram að umrædd sýning var í boði útvarpsstöðvar. Ég held að enginn hafi þurft að borga sig inn (sem er gott því að myndin var ekki í fókus), en það var bara í gær. Það eru hins vegar líka hlé þegar fólk borgar sig inn, og það eru alltaf nákvæmlega svona hlé.

Hvernig dirfist bíóhús að rukka 1250 krónur fyrir miða á sýningu sem á að hefjast kl. X, byrja myndina 20 mínútum síðar eftir auglýsingar og stiklur, og stoppa síðan myndina í miðjunni til þess að geta sýnt okkur fleiri auglýsingar, prangað inn á okkur meira af fúlu poppi og rándýru ropvatni, og kaffært þeim sem eftir sitja í salnum með 10-15 mínútum af partípoppi? The Woman in Black er 95 mínútur. Þeir sem geta ekki setið í 95 mínútur án þess að standa upp til að pissa og/eða éta meira ættu kannski frekar að sækja myndina á internetið og leyfa okkur hinum að horfa á hana óslitið.

Ég skora á yfirmenn kvikmyndahúsa að hugsa sinn gang. Hlé er rugl. Hlé á aðeins 95 mínútna mynd er ennþá meira rugl. Vísvitandi eyðileggið þið ykkar eigin vöru til þess að græða meiri peninga og það er ófyrirgefanlegt.

Dallas

Posted in Blogg on 23.2.2012 by snobbhaensn

Pælið í því ef þetta nafn hefði orðið að veruleika. Þá gæti maður kannski farið í Dallas í Egilshöll, Dallas á Álfabakka, eða jafnvel Dallas á Akureyri og í Keflavík. Kringlu-Dallas hefði verið sérstaklega gaman.

Vinnuslys!

Posted in Blogg on 22.2.2012 by snobbhaensn

Oftast er gaman að fara í bíó. Skemmtilegast er að sjá góðar myndir, en stundum er líka ágætt að fara bara í bíó til að fara í bíó. Myndin sjálf getur orðið hálfgert aukaatriði, en oft gerir kvikmyndahúsastemningin sjálf kvöldið þess virði.

Í starfi mínu sem bíórýnir kemst ég þó oft í hann krappann og hef ítrekað lagt eigin geðheilsu að veði til þess eins að færa lesendum harmafregnirnar. Það er allt í lagi, enda er ég fórnfús að eðlisfari og tel það ekki sérstaklega eftir mér. Svo fæ ég líka borgað fyrir þetta þannig að hver er ég að kvarta?

Í kvöld skall þó hurð nærri hælum og það munaði minnstu að ég væri ekki hér til að segja ykkur söguna. Ég fór í Kringlubíó kl. 20 að sjá áströlsku gamanmyndina A Few Best Men, og þrátt fyrir að stiklan hafi ekki lofað góðu settist ég tiltölulega fordómalaus í sætið mitt (nánar tiltekið sæti 10 í fjórðu röð, sem ég valdi mér samviskusamlega af tölvuskjá í miðasölunni) í sal 2 rétt áður en klukkan sló átta. Fínt líka að fá að vera í sal 2 þar sem svarta klessan á tjaldinu í sal 1 er ennþá þar, en ég bloggaði fyrst um hana árið 2010.

Eftir tíu mínútur af leiknum auglýsingum og aðrar tíu af sýnishornum úr væntanlegum myndum hófst svo myndin, en ljósin í salnum voru áfram kveikt. Ég ákvað að gera ekkert fyrst um sinn og sjá hvort þau yrðu ekki slökkt á endanum, og tók því þátt í þöglu þrjóskukeppninni sem allir í salnum voru eflaust komnir í. Eftir fimm mínútur voru þau enn kveikt og það var farið að pirra mig það mikið að ég gat ómögulega einbeitt mér að pirringnum yfir hversu lágt stillt hljóð myndarinnar var.

Svona var umhorfs í salnum, fyrir utan gestafjölda.

Ég gaf því þrjóskukeppnina upp á bátinn og fór fram til að biðja starfsmann um að slökkva ljósin. Ung stúlka tók við kurteislegri ábendingu minni og sagðist ætla að láta vita. Eftir aðrar fimm mínútur voru ljósin enn kveikt og ég fór því aftur fram. Þá tjáði stúlkan mér það að hún hefði komið skilaboðunum áleiðis og verið væri að vinna í vandamálinu.

Þegar ca. 20 mínútur voru liðnar af myndinni gafst ég upp, klæddi mig í jakkann og yfirgaf bíóið. Á leiðinni út mætti ég starfsmanninum og sagði henni að enn væru ljósin kveikt. Hún sagði aftur að verið væri að vinna í vandanum. Gott og vel, en þessu nennti ég ekki.

Líklega hefði ég þó enst lengur yfir þessum leiðinlegu tæknilegu örðuleikum ef myndin hefði ekki verið svona hryllilega léleg. Ljósin í salnum voru nefnilega alls ekki helsta ástæða þess að ég stakk af. Þessar mínútur sem ég sá af myndinni voru svo yfirgengilega vondar að í hvert skipti sem ég heyrði einhvern hlæja, varð sá hinn sami að óvini mínum. Ég gat ekki setið undir annarri Jack and Jill. Ég er meira að segja ekki frá því að þarna hafi stefnt í verri mynd, en vissulega sá ég bara hluta myndarinar og mun því láta það eiga sig að fjalla um hana á síðum Fréttablaðsins.

Kannski er þetta úr A Few Best Men. Kom allavega þegar ég googlaði.

Ég vona að Kringlubíó hysji upp um sig buxurnar því þeir stefna hraðbyri í að verða slakasta kvikmyndahús höfuðborgarsvæðisins. Á maður að skrifa bréf eins og nöldrandi Þjóðarsál eða bara að hætta að fara í Kringlubíó? Tæknileg vandræði geta auðvitað alltaf komið upp en þá er a.m.k. lágmark að senda starfsmann inn í sal til að tilkynna fólki um vandræðin, í stað þess að láta pirraða gestina rápa inn og út úr salnum, vitandi ekki neitt.

Að vísu spyr ég mig einnig að því hvers eðlis tæknilegu vandræðin voru. Er í alvörunni eitthvað sem getur valdið því að ekki er hægt að slökkva ljós? Ég hélt að helsta fyrirhöfn manna í tengslum við apparöt væri að halda þeim í gangi, en að það væri tiltölulega lítið mál að láta græjurnar EKKI virka.

Þrátt fyrir allt var gott að komast heill frá bíóferðinni. Ég er ekki viss um að svo hefði verið, hefði ég setið myndina á enda.