Vinnuslys!

Oftast er gaman að fara í bíó. Skemmtilegast er að sjá góðar myndir, en stundum er líka ágætt að fara bara í bíó til að fara í bíó. Myndin sjálf getur orðið hálfgert aukaatriði, en oft gerir kvikmyndahúsastemningin sjálf kvöldið þess virði.

Í starfi mínu sem bíórýnir kemst ég þó oft í hann krappann og hef ítrekað lagt eigin geðheilsu að veði til þess eins að færa lesendum harmafregnirnar. Það er allt í lagi, enda er ég fórnfús að eðlisfari og tel það ekki sérstaklega eftir mér. Svo fæ ég líka borgað fyrir þetta þannig að hver er ég að kvarta?

Í kvöld skall þó hurð nærri hælum og það munaði minnstu að ég væri ekki hér til að segja ykkur söguna. Ég fór í Kringlubíó kl. 20 að sjá áströlsku gamanmyndina A Few Best Men, og þrátt fyrir að stiklan hafi ekki lofað góðu settist ég tiltölulega fordómalaus í sætið mitt (nánar tiltekið sæti 10 í fjórðu röð, sem ég valdi mér samviskusamlega af tölvuskjá í miðasölunni) í sal 2 rétt áður en klukkan sló átta. Fínt líka að fá að vera í sal 2 þar sem svarta klessan á tjaldinu í sal 1 er ennþá þar, en ég bloggaði fyrst um hana árið 2010.

Eftir tíu mínútur af leiknum auglýsingum og aðrar tíu af sýnishornum úr væntanlegum myndum hófst svo myndin, en ljósin í salnum voru áfram kveikt. Ég ákvað að gera ekkert fyrst um sinn og sjá hvort þau yrðu ekki slökkt á endanum, og tók því þátt í þöglu þrjóskukeppninni sem allir í salnum voru eflaust komnir í. Eftir fimm mínútur voru þau enn kveikt og það var farið að pirra mig það mikið að ég gat ómögulega einbeitt mér að pirringnum yfir hversu lágt stillt hljóð myndarinnar var.

Svona var umhorfs í salnum, fyrir utan gestafjölda.

Ég gaf því þrjóskukeppnina upp á bátinn og fór fram til að biðja starfsmann um að slökkva ljósin. Ung stúlka tók við kurteislegri ábendingu minni og sagðist ætla að láta vita. Eftir aðrar fimm mínútur voru ljósin enn kveikt og ég fór því aftur fram. Þá tjáði stúlkan mér það að hún hefði komið skilaboðunum áleiðis og verið væri að vinna í vandamálinu.

Þegar ca. 20 mínútur voru liðnar af myndinni gafst ég upp, klæddi mig í jakkann og yfirgaf bíóið. Á leiðinni út mætti ég starfsmanninum og sagði henni að enn væru ljósin kveikt. Hún sagði aftur að verið væri að vinna í vandanum. Gott og vel, en þessu nennti ég ekki.

Líklega hefði ég þó enst lengur yfir þessum leiðinlegu tæknilegu örðuleikum ef myndin hefði ekki verið svona hryllilega léleg. Ljósin í salnum voru nefnilega alls ekki helsta ástæða þess að ég stakk af. Þessar mínútur sem ég sá af myndinni voru svo yfirgengilega vondar að í hvert skipti sem ég heyrði einhvern hlæja, varð sá hinn sami að óvini mínum. Ég gat ekki setið undir annarri Jack and Jill. Ég er meira að segja ekki frá því að þarna hafi stefnt í verri mynd, en vissulega sá ég bara hluta myndarinar og mun því láta það eiga sig að fjalla um hana á síðum Fréttablaðsins.

Kannski er þetta úr A Few Best Men. Kom allavega þegar ég googlaði.

Ég vona að Kringlubíó hysji upp um sig buxurnar því þeir stefna hraðbyri í að verða slakasta kvikmyndahús höfuðborgarsvæðisins. Á maður að skrifa bréf eins og nöldrandi Þjóðarsál eða bara að hætta að fara í Kringlubíó? Tæknileg vandræði geta auðvitað alltaf komið upp en þá er a.m.k. lágmark að senda starfsmann inn í sal til að tilkynna fólki um vandræðin, í stað þess að láta pirraða gestina rápa inn og út úr salnum, vitandi ekki neitt.

Að vísu spyr ég mig einnig að því hvers eðlis tæknilegu vandræðin voru. Er í alvörunni eitthvað sem getur valdið því að ekki er hægt að slökkva ljós? Ég hélt að helsta fyrirhöfn manna í tengslum við apparöt væri að halda þeim í gangi, en að það væri tiltölulega lítið mál að láta græjurnar EKKI virka.

Þrátt fyrir allt var gott að komast heill frá bíóferðinni. Ég er ekki viss um að svo hefði verið, hefði ég setið myndina á enda.

Auglýsingar

10 svör to “Vinnuslys!”

 1. Kristinn Says:

  Kringlubíó fór á bannlistann minn fyrir meira en ári vegna svörtu klessunnar sem þú hefur greinilega líka tekið eftir í sal 1. Gott að vita að hún er enn á sínum stað og ég get haldið áfram að sniðganga bíóið með góðri samvisku.

  Það er held ég ekki síður mikilvægt að fjalla um og gagnrýna kvikmyndahúsin sjálf, en ekki bara myndirnar sem þau sýna. Gæði salanna er orðið æði misjafnt.

  Það er eiginlega með ólíkindum hvað íslensku kvikmyndahúsin telja sig komast upp með. Mætti minna þau á að þau eru í auknum mæli að keppa við mjög vegleg heimabíó. Ég er orðinn voða þreyttur á að ‘taka sénsin’ á að allt verði í lagi þegar ég fer í bíó.

 2. Takk fyrir lesturinn og ummælin. Ég hef einmitt gengið með þá hugmynd í maganum lengi að setja saman einhverskonar umfjöllun um kvikmyndahúsin. Ég er allavega sjálfur orðinn nokkuð kunnugur hverjum krók og kima í þeim öllum, en ætla að reyna að fá álit frá fleirum. Það eru nefnilega, merkilegt nokk, örfá bíó hér á landi sem eru að mínu mati alveg prýðileg.

  Af meginstraumsbíóunum er ég langhrifnastur af Laugarásbíó. Flott bíó með góða sál. Og þó staffið samanstandi mestmegnis af utanlegsfóstrum hef ég aldrei lent í neinu veseni þarna af þeim sökum. Ég leyfi mér að giska á almennilega yfirmenn sem vita hvað þeir eru að gera.

 3. Oj, ég sé strax eftir ummælum mínum um utanlegsfóstrin í Laugarásbíói. En staffið er samt frekar ungt. Og utan legs.

 4. Komdu með svona bíóhúsagrein asap! Um að gera að hossa góðum bíóum og skamma vond.

 5. Til hamingju. Nú ertu orðinn almennilegur gagnrýnandi. Biturð þín gleður mig.

 6. Bíóhúsagrein er í smíðum og þar verður bæði hossað og skammað.

  MU: Takk, það er gaman að gleðja 🙂

 7. Óskar P. Einarsson Says:

  Mikið „shara“ ég áhyggjum ofangreindum, að „taka sénsinn“ á að fara í bíó. Það er í raun aðeins eitt land í heimi þar sem maður er ca. 100% seif: Það er USA – engin fokk“%“#$% hlé, salirnir eins og skurðstofur og yfirallt góður bíókúltúr.

  • Ég hef bara einu sini farið í bíó í USA. Það fannst mér merkilega líkt því hér heima nema bara ekki hlé. Og jú færra fólk. Og minna af fávitum. Og færri auglýsingar. Ok það var miklu betra en hér heima.

 8. Ég sakna Stjörnubíós.

 9. Ég sakna þess líka. Sérstaklega pínulitla salarins á efstu hæðinni!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: