Skemmdarverk

Það er mikill drungi og gífurleg eymd yfir myndinni The Woman in Black, sem Sambíóin Álfabakka (áður þekkt sem Dallas) forsýndu í gærkvöldi í samvinnu við útvarpsstöðina FM957. Sýningin var kl. 00:20 og tel ég það afar hentugan tíma fyrir sýningu á hrollvekju af þessu tagi. Ég mun fjalla nánar um myndina á síðum Fréttablaðsins um næstu helgi, og stikla því á stóru um söguþráðinn í bili.

Myndin gerist á Englandi í upphafi síðustu aldar og segir frá ungum ekkli (leiknum af Harry Potter) sem ferðast vegna vinnu sinnar til afskekktrar sveitar til að reyna að koma mannlausu húsi á sölu. Þegar á staðinn er komið reynast þorpsbúar hinir viðskotaverstu og vilja hann burt sem fyrst. Potter lætur sér ekki segjast og fer til að líta á húsið. Upphefst þá einn djöfullegasti draugagangur sem ég hef séð í kvikmynd í allnokkurn tíma og nokkrum sinnum gerðist ég sekur um að halda fyrir augun. Ég held almennt ekki fyrir augun enda er ég stór strákur, en andrúmsloft myndarinnar hreinlega neyddi mig til þess.

Myndin sækir innblástur sinn í óteljandi kvikmyndir og bækur og virðist leikstjórinn vera vel að sér í hrollvekjusögunni og er ófeiminn við að vitna í önnur verk. Sterkustu líkindin sá ég með myndinni og annarri breskri hrollvekju, kvikmyndina The Innocents frá árinu 1961 og eiga þær margt sameiginlegt bæði útlitslega og efnislega (þó báðar séu þær byggðar á skáldsögum).

Fljótlega mun ég koma mér að umfjöllunarefni þessa pistils og til þess að leyfa þér að setja þig í mínar stellingar finnst mér mikilvægt að þú vitir nákvæmlega hvers konar mynd um er að ræða. Tempóið er löturhægt á köflum, hræðslumáttur breskra barna í gamla daga er virkjaður til fullnustu, allir í þorpinu virðast hafa misst barn, og mörg þeirra hafa framið sjálfsvíg. Þrjár barnungar stúlkur hafa hoppað út um þakglugga og dáið. Enn önnur stúlkan deyr eftir að hún drekkur lút. Í mannlausa húsinu eru köngulóarvefir, heill hellingur af ófrýnilegum postulínsdúkkum, upptrekktum ógeðsleikföngum, spiladósum….. eiginlega bara allar klisjurnar sem við þó getum alltaf hryllt okkur yfir.

Í einni senunni í mannlausa húsinu gengur Harry Potter um gólf og leitar uppruna gæsahúðarvekjandi óhljóða. Hann finnur að hann er ekki einn. Eitthvað hræðilegt er á sveimi en hann veit ekki hvað það er. SKYNDILEGA!!!!!!!!

http://www.youtube.com/watch?v=pIOOwhmkoLo

Ljósin kvikna og eftirfarandi skilaboð berast bíógestum úr hátalarakerfi kvikmyndahússins:

Party rock is in the house tonight
Everybody just have a good time
And we gonna make you lose your mind
Everybody just have a good time

En einstaklega viðeigandi. Ég er ekki frá því að The Woman in Black hafi batnað heilmikið við þetta innskot. Ég var líka alveg að pissa í buxurnar því að ég var búinn að sitja kyrr í næstum því klukkutíma. Hefði ég ekki komist fram og á salerni hefði ég sennilega pissað í sætið. Mér fannst þetta líka bæta athyglisverðum vinkli við kvikmyndina. Kannski var enginn draugur í húsinu. Engin löngu dáin og geðveik kona sem hengdi sig þegar barnið hennar dó. Kannski var bara Partírokk í húsinu þetta kvöld!

Þegar myndin loks byrjaði aftur var ég umsvifalaust kominn aftur í stemninguna. Þetta var því engin truflun. Braut myndina skemmtilega upp og ég hef því tekið þá ákvörðun að stöðva allar myndir sem ég horfi á hér eftir til þess að spila þetta ávallt viðeigandi Partírokk-anþem. Sophie’s Choice er t.d. gott dæmi um mynd sem gæti hagnast gífurlega á slíku uppbroti. Eiginlega er verst að lagið var ekki komið út á þeim tíma sem Alan J. Pakula gerði hana því að lagið hefði hreinlega bara mátt vera einhversstaðar í sjálfri myndinni. Til dæmis strax á eftir atriðinu þegar nasistarnir draga háskælandi dóttur Sophie í burtu til þess að myrða hana. „Every day I’m shuffling“-kaflinn hefði t.d. komið sterkur inn þar.

Að sjálfsögðu er allt sem ég skrifaði eftir textabrotið kaldhæðni. Að klípa mynd svona í sundur er ekki bara pirrandi fyrir áhorfandann heldur líka gríðarleg vanvirðing við myndina og alla sem að henni standa. Að sjálfsögðu þola kvikmyndir það mis-illa að vera skipt í tvennt. Kvikmyndin American Reunion, sem frumsýnd verður á næstunni, mun líklega þola autotjúnað Effemm-hlé betur en The Woman in Black, en það er þó ekki þar með sagt að hlé sé réttlætanlegt, hvað þá nauðsyn. Tilfellið í gær var hins vegar svo öfgakennt að það er tilvalið að nota það til að sýna fram á eyðileggingarmátt hlésins.

Áður en lengra er haldið vil ég þó, til þess að vera sanngjarn, taka það fram að umrædd sýning var í boði útvarpsstöðvar. Ég held að enginn hafi þurft að borga sig inn (sem er gott því að myndin var ekki í fókus), en það var bara í gær. Það eru hins vegar líka hlé þegar fólk borgar sig inn, og það eru alltaf nákvæmlega svona hlé.

Hvernig dirfist bíóhús að rukka 1250 krónur fyrir miða á sýningu sem á að hefjast kl. X, byrja myndina 20 mínútum síðar eftir auglýsingar og stiklur, og stoppa síðan myndina í miðjunni til þess að geta sýnt okkur fleiri auglýsingar, prangað inn á okkur meira af fúlu poppi og rándýru ropvatni, og kaffært þeim sem eftir sitja í salnum með 10-15 mínútum af partípoppi? The Woman in Black er 95 mínútur. Þeir sem geta ekki setið í 95 mínútur án þess að standa upp til að pissa og/eða éta meira ættu kannski frekar að sækja myndina á internetið og leyfa okkur hinum að horfa á hana óslitið.

Ég skora á yfirmenn kvikmyndahúsa að hugsa sinn gang. Hlé er rugl. Hlé á aðeins 95 mínútna mynd er ennþá meira rugl. Vísvitandi eyðileggið þið ykkar eigin vöru til þess að græða meiri peninga og það er ófyrirgefanlegt.

Auglýsingar

18 svör to “Skemmdarverk”

 1. Reynir Says:

  Langar að vekja athygli á því að það er eitt kvikmyndahús á landinu sem er ekki með hlé, a.m.k. síðast þegar ég vissi, og það er Bíó Paradís.

  Annars sammála með hléin, þau eru alveg lens.

 2. Hafdís Says:

  Snilld!

 3. Paradísin var eitthvað að experimenta með hlé um daginn (held þeir séu „hlé-curious“) en það var reyndar ekkert hlé seinast þegar ég fór.

 4. arnór Says:

  Men thegar ég fór á Melinda & Melinda hans Woody Allens í Lúxussal Smárabíó. Sat thar í Lazy Boysaeti med bjór ad horfa, hrikalega afslappadur, á sniduga Allenmynd. Ég fékk naestum thví hjartaáfall thegar hléid kom. Thad var einsog ég hefdi verid laminn í andlitid.

 5. Takk fyrir að skrifa og tjá þig svona gáfulega, elsku Haukur! Ég hefði ekki getað orðað þetta svo vel, en þú ert að lýsa ongoing gremju-relationshippi mínu við íslensk kvikmyndahús. Frábær pistill, og þarfur!

 6. Takk fyrir það og mér léttir að sjá hversu margir eru mér sammála. Það eru greinilega fleiri „Þjóðarsálir“ þarna úti 🙂

 7. Frábær grein! Alveg sammála þér með þessi bévítans hlé.
  Stundum er þetta eins og vera laminn með blautri gólftusku í andlitið þegar fjárans effemm tónlistinn glymur þegar hléið byrjar.

 8. Takk takk. Hvað er best að gera við þessum hvimleiða vanda? Undirskriftarlisti? Bréf í velvakanda? Sprengjuhótun? :p

  • Undirskriftalistinn yrði sennilega notaður sem skeinpappír.
   Nöldurbréf í Velvakanda yrði gleymt & grafið strax eftir lestur.
   Spurning að senda bara sprengjuhótun í Velvakanda?
   🙂

   En annars er ég bara að fíflast með sprengjuhótanir.
   Ég er jafn mikið á móti sprengjuhótunum og ég er á móti bíóhléum.

 9. Davíð Roach Gunnarsson Says:

  Hléin eru algjör plága í íslenskri bíómenningu, Mér finnst líka eins og þú lýstir þarna eins og það sé ekkert tillit tekið til hvenær hléið er sett í gang. Það sé bara einhver úllíngur sendur upp til ýta á off takkann sirkabát akkúrat þegar að bíóstjórann langar að græða pening á poppsölu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft maður hefur lent í því að ljósin eru kannski kveikt í miðri æsispennandi hasar-senu.

 10. Ég verð að sjá þessa mynd. Og já, hlé eru vibbi. Eftir þrjú hlélaus ár í Kanada fæ ég næstum slag í hvert skipti sem hléum er þröngvað á mann hér heima.
  Ég er alvarlega farinn að íhuga að svindla mér inn í bíó… Hef ábyggilega ekki hreðjar í það. Samt, það yrðu kjarabót fyrir mig þar sem verðið er orðið það hátt að hlé eru nánast ófyrirgefanleg.

  • Já þessi mynd er krúsjal!

   En ok, engin hlé í Kanada, ég veit það eru ekki hlé í BNA……er hefð fyrir hléum einhversstaðar annarsstaðar en á Íslandi? Veit það einhver?

 11. Birta Says:

  Niður með hlé-in, en áfram með þessa færslu!

 12. Hlé er bara því miður ekki það versta við að fara í kvikmyndahús í dag. Helvítis möðerfökking fólk er það versta við það, með helvítis símana sína, sparkandi í sætin, skrækjandi og klappandi eins og retarðar á íþóttakappleik.. það er eins og það sé keppni í að vera mesti djöfuls dúsjbegg í geimi í tilefni þess að verið er að horfa á einhverja fúla ræmu. Svo skulum við ekki minnast á möðerfökking hljóðstyrkinn sem alltaf þarf að vera stillt á, ég gæti allt eins stungið hausnum inn í þotuhreyfil á fullu blasti og smælað vandræðalegu feikbrosi svo það virðist eins og ég sé í góðum fíling.

  Svo er poppið ógeðslegt, kókið alltaf búið áður en möðerfökking auglýsingarnar klárast í byrjun, og ef hending ræður því að svo gerist ekki, þá er það orðið goslaust skömmu síðar.

  Djöfull ógeðslega elska ég þetta möðerfökking internet. (Ætla samt að sjá Prometheus í júní í bíjó, og það er eins gott að dúsjbeggin haldi sig fokking fjarri þeirri sýningu.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: