Gestahænsnið: Siggi Pönk

Sigurður Harðarson, betur þekktur sem Siggi Pönk, er í (allavega) fjórum hljómsveitum auk þess sem hann hefur sinnt slösuðum Íslendingum á „Slysó“ í fjöldamörg ár. En þessi 44 ára gamli húðflúraði harðkjarna-jálkur er einnig sérlegur áhugamaður um kvikmyndir. Snobbhænsnið spurði Sigurð spjörunum úr.

Hvað ertu að gera og hvað er framundan?
Ég er núna á flakki með konunni minni, Manon, en hún er upphaflega hollensk. Við flugum til Boston og heimsóttum vini þar (þegar maður hefur sett upp tónleika á Íslandi fyrir erlendar DIY hljómsveitir eignast maður vini um allan heim), tókum Greyhound til New York (mjög þægileg fjögurra tíma rútuferð) og gistum hjá gömlum Straight Edge/Vegan/Hardcore vini Manon þar. Síðan flugum við til Bonaire, sem er pínulítil eyja í karabíska hafinu, fyrrum hollensk nýlenda og margir Hollendingar sem búa hér og þar með tengdapabbi sem býr hér hálft árið. Við tókum þetta flakk núna því fyrir liggur að flytjast búferlum til Brighton í Suður-Englandi af menningarlegum ástæðum (ekki fjárhagslegum).

Annars er fjórða breiðskífa hljómsveitarinnar Gjöll á lokastigi, breiðskífa frá Forgarði Helvítis í hægu vinnsluferli og upptökur frá drulluga noisepönk-bandinu Ravachol í lokavinnslu og útgáfuundirbúningi. Bókasafn Anarkista komið á öruggt heimili í Reykjavíkurakademíunni og ég að plotta hvaða anarkistabækur ég eigi að þýða næst til útgáfu á klakanum.

Hvernig er fyrsta bíóminningin þín?
Ben Húr held ég. Fór með afa og foreldrum mínum ásamt Eiríki frænda. Við frændurnir vorum eitthvað innan við tólf ára. Það var ekið úr sveitinni og myndin var sýnd í Gamla bíó minnir mig (þar sem ég sat á Sólstafa-tónleikum um daginn sællar minningar). Þetta er massív stórmynd sem eldist vel og ég man enn eftir burtreiðunum þar sem Charlton Heston var nærri drepinn með svikum.

Ef þú mættir sjónvarpa kvikmynd til allra jarðarbúa, hvaða mynd myndirðu velja og af hverju?
Einhver af þeim sterku heimildamyndum sem til eru um lífsstílsmöguleika sem ekki er bráðdrepandi fyrir allar aðrar lífverur á plánetunni. En hún ætti þá einungis erindi til þess litla hluta mannkyns sem sóar megninu af öllu því sem aðra vantar.

Hefurðu farið einn í bíó?
Jájá. Gerði það bara nokkuð oft sem einhleypur maður. Hef oft haft orð á því að fátt sé leiðinlegra en að koma út af einhverri sterkri mynd, enn í trans og einhver kjaftaskur fer að blaðra og útskýra fyrir manni myndina. Fátt er meira eyðileggjandi fyrir bíóupplifun, nema ef vera skyldi kók-auglýsingar. Man enn þegar ég fór á DEAD MAN eftir Jim Jarmusch í Háskólabíó. Ég hálfþunnur og úti var nepja og myrkur og ég kom út hugsandi „til hvers er maður eiginlega að lifa!“ Svo sterk var hún þá.

Hvaða mynd er jafngóð eða betri en bókin sem hún er byggð á?
Mögulega „The Road“ eftir sögu Cormac McCarthy. Við hjónin erum unnendur post-apocalypse kvikmynda (auk Zombie mynda) og „The Road“ skar okkur í sálina. Það var gott. Seinna las ég bókina og einnig „No Country For Old Men“ einnig eftir hann. Þar má segja það sama um mynd og bók. Mögulega er það knappur ritstíll McCarthy sem gerir það að verkum að auðveld er að draga sögurnar upp á hvíta tjaldið án þess að fara að ofskreyta.

Hver er besta myndin sem þú sást í fyrra og af hverju?
Það veit ég ekki. Þetta er eins og með uppáhaldshljómsveitir þegar tónlistaráhuginn liggur í nokkrum geirum , smekkurinn víkkar stöðugt og nokkur hundruð hljómsveitir heilla mann á hverju ári. Ég get ekki alhæft hver sé uppáhaldshljómsveitin mín. Bara ómögulega. Á RIFF höfum við hjónin yfirleitt tekið allt að 40 myndir á tíu dögum og aðeins gengið út af einni. Heimildamyndir tala mikið til okkar (mér endist ekki ævin í að lesa bækur um allt sem ég vil vita) og ein sterk var „Fat, Sick and Nearly Dead“ um tvo unga karlmenn sem eru að kafna úr fitu og drepast úr sjálfs-ofnæmissjúkdómum en bjarga sér með því að fara á grænmetissafakúra. Bara venjulegir kallar, enginn neo-hippismi eða alhæfingar um hinn endanlega sannleika í mataræðisbreytingum sem guðsgjöf. Mjög mannleg mynd sem snart mig.

Áttu þér uppáhalds íslenska mynd?
Það má vel vera en ég man þá ekki eftir því. Nema auðvitað „Rokk í Reykjavík“. Var einmitt að hugsa með mér um daginn hvort að Friðriki Þór lumaði ekki á öllu aukaefninu úr henni einhversstaðar. Man eftir að ég las viðtal við hann um myndina á sínum tíma og þá kom fram að miklu fleiri hljómsveitir voru filmaðar en síðan enduðu í myndinni. Þetta er auðvitað sögulegt efni í dag og á erindi við okkur tónlistarnörda.

Áttu þér uppáhaldsleikstjóra?
Það væru þá nokkrir sem ég er til í að nefna: Gus Van Sant sem gerði „My Own Private Idaho“, „Elephant“ og margar fleiri hægar og afar mannlegar myndir um unga menn (og ungt fólk) á tímamótum í tilverunni. Todd Solondoz, þó ekki væri nema fyrir „Happiness“ sem ég sá á kvikmynda-hátíð á sínum tíma. Hann skapar undarlega karaktera sem funkera engan veginn í tilverunni. Hinn Gríski Yorgos Lanthimos sem gerði bæði „Dogtooth“ og „Alps“ sem sprengdu báðar upp marga mælikvarða á siðferðilega rétta hegðun í vestrænu samfélagi.

Hvaða leikara, íslenskan eða erlendan, gætir þú þolað að túlkaði þig í ævisögulegri mynd um Sigurð pönkhjúkku?
Þar sem ég sé sjálfan mig ekki fyrir mér get ég ekki ímyndað mér þetta. Ég bókstaflega er ekkert alltaf viss um hvernig ég lít út þegar ég sé ímyndir af sjálfum mér, nema þegar ég sé glitta í stóra bróður minn eða föður í spegilmyndinni. Ég hef heldur ekki unnið mér inn fyrir kvikmynd um sjálfan mig.

Ég þakka Sigurði kærlega fyrir spjallið og óska honum (og frú) velfarnaðar á flakki sínu um heiminn.

Auglýsingar

Eitt svar to “Gestahænsnið: Siggi Pönk”

  1. […] um myndina Fat, Sick and Nearly Dead í gestafærslu Sigga pönk hjá Snobbhænsninu. Tékkaði á þessari mynd og hún er nokkuð sterk (3 stjörnur). […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: