Sarpur fyrir mars, 2012

Ungt og leikur sér

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 29.3.2012 by snobbhaensn

The Hunger Games **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Gary Ross
Leikarar: Jennifer Lawrence, Josh Hutcherson, Woody Harrelson, Elizabeth Banks, Lenny Kravitz, Stanley Tucci, Donald Sutherland, Wes Bentley

Þessi risastóra mynd er byggð á vinsælli skáldsögu eftir Suzanne Collins og gerist í ótilgreindri framtíð. Norður-Ameríka heitir nú Panem og er skipt niður í 12 fylki. Einu sinni á ári leggur hvert fylki til strák og stelpu (á aldursbilinu 12-18 ára) sem send eru í óhuggulega útsláttar-keppni þar sem 24 ungmenni berjast um sigur, en aðeins eitt þeirra mun lifa keppnina af.

Myndin er vandlega markaðssett fyrir unglinga sem hlusta á tilfinninga-þrungið indípopp, og minnir að mörgu leyti á kúltúrinn í kringum blóð-sugubókmenntir Anne Rice á 10. áratugnum. Það er leikkonan unga, Jennifer Lawrence (sem fékk óskarstilnefningu í fyrra), sem fer með hlutverk hinnar 16 ára gömlu Katniss Everdeen, en hún býður sig fram í stað yngri systur sinnar sem senda á í sláturkeppnina. Lawrence er hæfileikarík og hrífur áhorfendur með sér, en auk þess að vera leikin í bogfimi er Everdeen einnig hjartahlý og hugrökk.

Framtíðarheimurinn er íburðarmikill að sjá og sviðsmynd, búningar og hártíska undirstrika þann ógnvænlega hedónisma sem ríkir í Panem. Stanley Tucci er frábær í hlutverki smeðjulegs sjónvarpsþáttastjórn-anda sem skartar hvítustu tönnum sem sést hafa í bíó. Það er hann sem sér um að leiða lömbin til slátrunar, og það gerir hann með kynþokka og stæl.

Það er fyrri hlutinn sem gerir myndina að því sem hún er. Persónurnar fá góða kynningu, sem og sögusviðið, og hasarinn hefst ekki fyrr en seinasti áhorfandinn hefur gefið sig á vald sögunnar. Ef vel er rýnt má finna ágæta ádeilu á þann elegans sem umlykur stríðshetjur og þátt fjölmiðla í hernaðarbrölti Bandaríkjamanna og annarra. En þó við höldum okkur bara í grunnu lauginni er The Hunger Games spennandi, skemmtileg og eilítið öðruvísi mynd, og ekki eingöngu fyrir tárvota táninga.

Niðurstaða: Vel heppnuð vísindaskáldsaga sem flæðir vel.

Birt í Fréttablaðinu 29.3.2012

Auglýsingar

Meðalmennska á Manhattan

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 27.3.2012 by snobbhaensn

Friends With Kids ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Jennifer Westfeldt
Leikarar: Adam Scott, Jennifer Westfeldt, Jon Hamm, Kristen Wiig, Maya Rudolph, Chris O’Dowd, Megan Fox, Edward Burns

Einhleypingjunum Jason og Julie finnst þau vera útundan þegar pörin í vinahópnum byrja að eignast börn. En einnig taka þau eftir því að barneignir félaganna virðast hafa eyðileggjandi áhrif á ástarlífið. Þau fá því þá vafasömu hugmynd að eignast saman barn og hjálpast að við uppeldið, en aðeins sem vinir. Að sjálfsögðu reynist gjörningurinn ekki eins einfaldur og hann átti að vera, og áður óþekktar tilfinningar ógna framtíð vináttunnar.

Það sem þessa rómantísku gamanmynd skortir helst er annars vegar rómantík og hins vegar gaman. Sterkur leikhópurinn nær þó að forða áhorfandanum frá því að leiðast. Adam Scott, sem fer með stærsta karlhlutverkið, er reyndar áberandi sístur en hinum tekst að draga hann í land. Það er samt eitthvað pínulítið pirrandi við hann. Allavega myndi mig ekki langa að ala honum börn.

Handritið er ekkert sérlega frumlegt og atburðarásin því oftast fyrirsjáanleg. Samtölin eru þó ágætlega skrifuð og ég er þess fullviss að handritshöfundurinn, leikstýran og aðalleikkonan, Jennifer Westfeldt, hefur ekki sungið sitt síðasta. Þá er umhverfið notað á skemmtilegan máta og ætti að kitla ferðataugar hvers þess sem hefur sótt Manhattan heim.

Niðurstaða: Lítið merkilegt en ekki leiðinlegt. Leikararnir halda þessu á floti.

Birt í Fréttablaðinu 27.3.2012

Rotturnar flýja frá borði

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 24.3.2012 by snobbhaensn

Margin Call **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: J.C.Chandor
Leikarar: Kevin Spacey, Paul Bettany, Jeremy Irons, Stanley Tucci, Demi Moore, Zachary Quinto, Penn Badgley, Simon Baker, Aasif Mandvi, Mary McDonnell

Þessi fyrsta mynd leikstjórans J.C. Chandor segir frá baktjaldamakki ónefnds fjárfestingarbanka á Wall Street í árdaga efnahagskreppunnar sem nú stendur yfir. Starfsmenn bankans fá veður af stóra skellinum rétt áður en hann dynur yfir, og standa frammi fyrir siðferðislegum spurningum í kjölfarið. Eiga þeir að vara aðra við eða reyna að bjarga bankanum á kostnað þeirra sem vita ekki betur?

Viðskiptafræðimenntun er síður en svo nauðsynleg til að geta notið myndarinnar, en handritið (eftir Chandor sjálfan) er einfalt og þétt. Ógnin er undirliggjandi og viðhorf starfsfólksins misjöfn, líklega í einhverju samhengi við þeirra eigin tekjur. Það er deildarstjórinn Sam Rogers (leikinn af Kevin Spacey) sem er rödd samviskunnar og reynir af öllum mætti að breyta rétt, en uppsker vantraust og háðsglósur samstarfsmanna sinna fyrir vikið. Leikarahópurinn er ótrúlegur þó vissulega skyggi gömlu jálkarnir eilítið á ungviðið. Spacey, Irons, Tucci og Moore (hljómar eins og nafn á lögfræðistofu) eru öll í banastuði, og þá sérstaklega Irons, en hann er einkar ógeðfelldur í hlutverki forstjórans.

Það er afar lítið um hamingju í stóra turninum sem hýsir bankann og svo virðist sem öllu hinu mannlega hafi verið úthýst. Þetta undirstrikar leikstjórinn með gráum og kuldalegum lit á öllum veggjum og í öllum skotum, en það er varla fallegan ramma að finna í myndinni. Margin Call tekur þrátt fyrir þetta ekki beina afstöðu gegn kapítalisma, þó hún dragi upp dökka og dapurlega mynd af fjármálageira dagsins í dag. Í það minnsta borðar forstjórinn alltaf einn.

Niðurstaða: Spennandi fjármáladrama, drekkhlaðið úrvalsleikurum.

Birt í Fréttablaðinu 24.3.2012

Getraun

Posted in Blogg on 22.3.2012 by snobbhaensn

Ég hef aldrei haft getraun. Er ekki löngu kominn tími á það?

Höfum þetta einfalt. Hér eru 15 skjáskot. Úr hvaða myndum eru þau? Ég hafði þetta viljandi svolítið erfitt. Eða kannski er þetta ekkert erfitt? Hvað veit maður! Verðlaun eru engin og vinsamlegast skrifið svörin hér fyrir neðan. Ykkur er velkomið að tala öll í einu.

Fallbyssufóður óskast

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 20.3.2012 by snobbhaensn

Act of Valor * (1 stjarna)
Leikstjórn: Mike McCoy, Scott Waugh

Alvöru hermenn leika aðalhlutverkin í þessari hörmulegu hasarmynd, sem virðist gerð til þess eins að hvetja amerísk ungmenni til að grípa til vopna fyrir ættjörðina. Herinn þarf ávallt meira fallbyssufóður og auðtrúa unglingar, aldir upp á skotleikjum og þjóðrembingi, eru móttækilegastir fyrir boðskapnum.

Það er merkilegt að kvikmyndagerðarmenn sem notast við hermenn í stað leikara, alvöru vopn í stað eftirlíkinga, og fá óheftan aðgang að fólki með ótæmandi þekkingu á hvers konar stríðsbrölti, geri mynd sem er klisjukenndari og óraunverulegri en flest sem komið hefur frá Hollywood í sama geira. Bardagasenurnar eru oftar en ekki sýndar frá sjónarhorni byssunnar (blautur draumur Call of Duty-spilarans) og dauðsföll hermannanna eru sveipuð dýrðarljóma.

Hermennirnir geta nánast ekkert leikið og samtölin þeirra á milli eru svo klaufaleg að hliðstæðu þeirra má helst finna í klámmyndum. Vel er hamrað á því að ein aðalpersónanna sé að verða pabbi, en það er gert til að gulltryggja geðshræringu áhorfenda þegar persónan bjargar herdeildinni með því að kasta sér ofan á handsprengju.

Í lokin birtast svo hjartnæm skilaboð í textaformi, en myndin er tileinkuð öllum þeim sem hafa barist fyrir frelsinu, og einnig þeim sem munu gera það í framtíðinni. Svo kemur nafnalisti yfir látna hermenn og að lokum ljósmyndir sem sýna daglegt líf í hernum. Og nei, ég er ekki að grínast.

Niðurstaða: Ég er algjörlega orðlaus.

Birt í Fréttablaðinu 20.3.2012

Snáðar í snjónum

Posted in Blogg on 19.3.2012 by snobbhaensn

Heimskur sambýlingur minn hafði orð á því um daginn að nú væri „vorið alveg að koma“. Af tómri óskhyggju tók ég undir spádóminn en var refsað grimmilega í gær með skafrenningi að hætti plánetunnar Hoth. Í tilefni af því ákvað ég að taka saman lista yfir skemmtilegustu „snjó-myndirnar“, en veturinn er afar sjónrænn og margar af mögnuðustu myndum allra tíma nýta sér það.

Allar eru myndirnar tilvaldar áhorfs í kuldanum og haldi vetrarhörkur áfram vil ég hvetja ykkur til að verða ykkur úti um sem flestar þeirra, halda ykkur innandyra og glápa á bíósnjó undir teppi.

Hér koma myndirnar:

The Thing From Another World frá árinu 1951 er sögð leikstýrð af Christian nokkrum Nyby, en sagan segir að sjálfur Howard Hawks hafi í raun leikstýrt myndinni en ekki viljað setja nafn sitt við hana vegna snobbs. Reyndar er hann kreditaður sem framleiðandi, en í þá daga þótti minna fínt að leikstýra vísindaskáldsögum/skrýmslamyndum en það þykir í dag.

Myndin segir frá hópi vísindamanna og bandarískra hermanna á norðurpólnum sem kemst í tæri við andstyggilega skepnu utan úr geimnum  sem þiðnar úr ísklumpi sem hópurinn tók sjálfur úr jörðu.

Þessi frábæra mynd er byggð á sögunni „Who Goes There?“ eftir John W. Campbell, en sama saga var kvikmynduð aftur árið 1982 og þá undir nafninu The Thing. Það var John Carpenter sem leikstýrði og ofurtöffarinn Kurt Russell sem fór með aðalhlutverkið. Sú mynd gerist á Suðurskautslandinu og kuldinn og vosbúðin enn meiri en í gömlu myndinni.

Fyrrnefnd Hoth, ísplánetan ógurlega í The Empire Strikes Back, er sögusvið einna eftirminnilegustu atriða Star Wars-bálksins í heild sinni. Myndin gerist um víðan völl, en senurnar á Hoth eru magnaðar og sjónrænn glæsileiki þeirra gerir það að verkum að manni finnst mun stærri hluti myndarinnar gerast þar en raun ber vitni. Kuldinn á Hoth er líka svo yfirgengilegur að Logi geimgengill neyðist til að skera furðulegan reiðfák sinn á hol og hjúfra sig að heitum innyflum hans.

[Þetta er ekki alveg rétt, en það var athugull lesandi sem benti mér á þetta. Mínus 100 Star Wars-stig fyrir mig.]

Stríðs-ævintýramyndin Where Eagles Dare frá árinu 1968 er smekkfull af stórbrotnum vetrarsenum, en myndin segir frá hópi hermanna sem reyna að lauma sér inn í nasistakastala í Alpafjöllunum í seinna stríði, en eina leiðin þangað upp er með kláfi. Þeir Clint Eastwood og Richard Burton fara báðir á kostum og í æsilegustu atriðunum spilar snjórinn stóra rullu, en að hanga á ísilögðum kláfi á ferð yfir þverhnýptu hamragili snýr maga áhorfandans á hvolf.

The Shining eftir Stanley Kubrick gerist á draugalegu fjallahóteli yfir vetrartímann, og þegar harður veturinn skellur á missir fjölskyldufaðirinn Jack Torrance vitið og reynir að koma fjölskyldu sinni fyrir kattarnef. Kuldinn og blindbylurinn eykur á innilokunarkenndina og The Shining væri hvorki fugl né fiskur ef snjóinn vantaði. Í það minnsta finnst mér hann spila stórt og mikilvægt hlutverk í myndinni. Lokasenan á sér stað utandyra og á endanum er það sjálfur vetur konungur sem yfirbugar Torrance.

Í hinni grátbroslegu Fargo rannsakar lögreglukonan Marge Gunderson dularfulla morðgátu í snævi þöktu nágrenni Norður-Dakóta, og það á meðan hún er á steypinum. Þessi sígilda óskarsverðlaunamynd á vetrarumhverfinu mikið að þakka, og á köflum er nánast eins og um skandinavíska mynd sé að ræða, en snjórinn og undarleg eftirnöfn persónanna gera það að verkum.

Í The Gold Rush eftir Charles Chaplin fer umrenningurinn sívinsæli til Kanada að leita gulls. Snjórinn og kuldinn setja strik í reikninginn og á einum tímapunkti neyðist sársvangur umrenningurinn til að sjóða skóna sína og éta þá. Ekki má gleyma hinu sígilda atriði þar sem fjallakofinn vegur salt á snævi þöktu hengiflugi með Chaplin og feita félagann innandyra.

Ég man eftir fleiri myndum en ætla að staðnæmast hér. Þó væri gaman að fá álit lesenda á málaflokknum. Hvaða vetrarmyndir eru ykkur að skapi?

Góða veizlu gjöra skal

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.3.2012 by snobbhaensn

Project X ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Nima Nourizadeh
Leikarar: Thomas Mann, Oliver Cooper, Jonathan Daniel Brown, Kirby Bliss Blanton, Alexis Knapp, Rick Shapiro, Brady Hender, Nick Nervies, Miles Teller

Þrír unglingspiltar ákveða að halda partý þegar foreldrar eins þeirra eru að heiman, en veislan er fljót að fara úr böndunum. Veglegri er sögu-þráðurinn ekki að þessu sinni, en Project X stólar á að áhorfendur afsaki það í þágu grínsins.

Mannamótið í myndinni er vissulega fjörugt og uppátæki veislugesta til þess fallin að vekja hrifningu unglinga en fordæmingu fullorðna fólksins. Krakkaskarinn bryður alsælutöflur og berbrjósta stúlkur fara í mynda-vélasleik. Dvergur er læstur inni í bakaraofni og nágranni sem kvartar er beittur líkamlegu ofbeldi. Þó stuðaði ekkert af þessu mig sérstaklega, en kvenfyrirlitning og hómófóbía aðalpersónanna gerði það hins vegar.

Fjandsamleg hegðun þeirra og viðhorf þjóna hvorki kómískum tilgangi né hjálpa sögunni að neinu leyti. Líklega er tilgangurinn eingöngu sá að ýta undir mýtuna um meintan níhílisma klámkynslóðarinnar. Eða kannski er ég bara orðinn svo gamall og úr sambandi við raunveru-leikann að sjá ekkert fyndið eða sniðugt við 17 ára stráka að tala um það að ríða druslum.

Kvikmyndin hefur slegið í gegn vestanhafs og mun vafalaust gera það hér á landi einnig. Ekkert sem ég skrifa mun draga úr því, en um leið finnst mér dapurlegt að hugsa til þess að nútímamaðurinn sé hættur að gera þá kröfu á gamanmyndir að þær séu fyndnar. Project X inniheldur enga brandara, engar spaugilegar kringumstæður og ekki eina einustu aðlaðandi persónu. Stuðið er til staðar en það dugir ekki til.

Niðurstaða: Hressilegt partý en fremur misheppnuð mynd.

Birt í Fréttablaðinu 16.3.2012