Snáðar í snjónum

Heimskur sambýlingur minn hafði orð á því um daginn að nú væri „vorið alveg að koma“. Af tómri óskhyggju tók ég undir spádóminn en var refsað grimmilega í gær með skafrenningi að hætti plánetunnar Hoth. Í tilefni af því ákvað ég að taka saman lista yfir skemmtilegustu „snjó-myndirnar“, en veturinn er afar sjónrænn og margar af mögnuðustu myndum allra tíma nýta sér það.

Allar eru myndirnar tilvaldar áhorfs í kuldanum og haldi vetrarhörkur áfram vil ég hvetja ykkur til að verða ykkur úti um sem flestar þeirra, halda ykkur innandyra og glápa á bíósnjó undir teppi.

Hér koma myndirnar:

The Thing From Another World frá árinu 1951 er sögð leikstýrð af Christian nokkrum Nyby, en sagan segir að sjálfur Howard Hawks hafi í raun leikstýrt myndinni en ekki viljað setja nafn sitt við hana vegna snobbs. Reyndar er hann kreditaður sem framleiðandi, en í þá daga þótti minna fínt að leikstýra vísindaskáldsögum/skrýmslamyndum en það þykir í dag.

Myndin segir frá hópi vísindamanna og bandarískra hermanna á norðurpólnum sem kemst í tæri við andstyggilega skepnu utan úr geimnum  sem þiðnar úr ísklumpi sem hópurinn tók sjálfur úr jörðu.

Þessi frábæra mynd er byggð á sögunni „Who Goes There?“ eftir John W. Campbell, en sama saga var kvikmynduð aftur árið 1982 og þá undir nafninu The Thing. Það var John Carpenter sem leikstýrði og ofurtöffarinn Kurt Russell sem fór með aðalhlutverkið. Sú mynd gerist á Suðurskautslandinu og kuldinn og vosbúðin enn meiri en í gömlu myndinni.

Fyrrnefnd Hoth, ísplánetan ógurlega í The Empire Strikes Back, er sögusvið einna eftirminnilegustu atriða Star Wars-bálksins í heild sinni. Myndin gerist um víðan völl, en senurnar á Hoth eru magnaðar og sjónrænn glæsileiki þeirra gerir það að verkum að manni finnst mun stærri hluti myndarinnar gerast þar en raun ber vitni. Kuldinn á Hoth er líka svo yfirgengilegur að Logi geimgengill neyðist til að skera furðulegan reiðfák sinn á hol og hjúfra sig að heitum innyflum hans.

[Þetta er ekki alveg rétt, en það var athugull lesandi sem benti mér á þetta. Mínus 100 Star Wars-stig fyrir mig.]

Stríðs-ævintýramyndin Where Eagles Dare frá árinu 1968 er smekkfull af stórbrotnum vetrarsenum, en myndin segir frá hópi hermanna sem reyna að lauma sér inn í nasistakastala í Alpafjöllunum í seinna stríði, en eina leiðin þangað upp er með kláfi. Þeir Clint Eastwood og Richard Burton fara báðir á kostum og í æsilegustu atriðunum spilar snjórinn stóra rullu, en að hanga á ísilögðum kláfi á ferð yfir þverhnýptu hamragili snýr maga áhorfandans á hvolf.

The Shining eftir Stanley Kubrick gerist á draugalegu fjallahóteli yfir vetrartímann, og þegar harður veturinn skellur á missir fjölskyldufaðirinn Jack Torrance vitið og reynir að koma fjölskyldu sinni fyrir kattarnef. Kuldinn og blindbylurinn eykur á innilokunarkenndina og The Shining væri hvorki fugl né fiskur ef snjóinn vantaði. Í það minnsta finnst mér hann spila stórt og mikilvægt hlutverk í myndinni. Lokasenan á sér stað utandyra og á endanum er það sjálfur vetur konungur sem yfirbugar Torrance.

Í hinni grátbroslegu Fargo rannsakar lögreglukonan Marge Gunderson dularfulla morðgátu í snævi þöktu nágrenni Norður-Dakóta, og það á meðan hún er á steypinum. Þessi sígilda óskarsverðlaunamynd á vetrarumhverfinu mikið að þakka, og á köflum er nánast eins og um skandinavíska mynd sé að ræða, en snjórinn og undarleg eftirnöfn persónanna gera það að verkum.

Í The Gold Rush eftir Charles Chaplin fer umrenningurinn sívinsæli til Kanada að leita gulls. Snjórinn og kuldinn setja strik í reikninginn og á einum tímapunkti neyðist sársvangur umrenningurinn til að sjóða skóna sína og éta þá. Ekki má gleyma hinu sígilda atriði þar sem fjallakofinn vegur salt á snævi þöktu hengiflugi með Chaplin og feita félagann innandyra.

Ég man eftir fleiri myndum en ætla að staðnæmast hér. Þó væri gaman að fá álit lesenda á málaflokknum. Hvaða vetrarmyndir eru ykkur að skapi?

Auglýsingar

3 svör to “Snáðar í snjónum”

  1. Jón Örn Says:

    Död snö, Norsk Nasista-Zombie mynd er í miklum metum sem og tröllamyndin Troll Jägteren frá sama landi. Ekki má svo gleyma Finnsku myndinni Rare Export. Jólalegri gerast þær vart myndirnar. Svo er fullt af öðrum myndum sem jeg nenni ekki að fara útí hjer.

  2. Óskar P. Einarsson Says:

    „Dead of Winter“ var ágætis eitísþriller með Mary Steenburgen. Hin finnska „Paha Maa“ og flest frá Kaurismaki er auðvitað toppurinn á skandínavísku bíói.

  3. Ingibergur Says:

    Heyrðu, Pontypool eftir Bruce McDonald.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: