Sarpur fyrir apríl, 2012

Kærkomin blóðgjöf

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 24.4.2012 by snobbhaensn

The Cabin in the Woods **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Drew Goddard
Leikarar: Kristen Connolly, Chris Hemsworth, Anna Hutchison, Fran Kranz, Jesse Williams, Richard Jenkins, Bradley Whitford

Fimm menntskælingar ætla að eyða helginni í gömlum skógarkofa og djamma frá sér allt vit. Á leiðinni að kofanum stoppa þau á afskekktri bensínstöð þar sem brúntenntur bensíntittur segir þeim að snúa við, en að gömlum sið graðra hrollvekjuungmenna hlæja þau að viðvörunum hans og halda för sinni áfram. Þetta eru aðeins fyrstu klisjurnar í röð margra, og áhorfandinn býr sig undir beru kvenmannsbrjóstin, vímuefnaneysluna og subbulegu morðin sem yfirleitt fylgja í kjölfarið. Þetta fær hann allt saman og gott betur.

Það er auðvelt að skemma það góða fjör sem myndin býður upp á með of ítarlegri umfjöllun. En eins og stjörnugjöfin gefur til kynna er Skógarkofinn meira en bara klisjurnar. Tilvísanir í eldri hrollvekjur eru óteljandi og er því óhætt að fullyrða að sjóaðir hryllingsreynsluboltar muni skemmta sér betur en hinn almenni áhorfandi. Á leið út úr sýningarsalnum heyrði ég einn segja myndina þá bestu sem hann hefði séð á meðan annar bölvaði því að hafa ekki gengið út í hléi. Mig grunar að sá fyrrnefndi hafi lært betur heima en hinn.

Sjálfur hef ég ekki skemmt mér jafn vel yfir hryllingsmynd lengi og það er einhver undirliggjandi ferskleiki hér sem gerir gæfumuninn. Ég telst í flokki gallharðra hrollvekjuhunda en myndin var ávallt tveimur skrefum á undan mér. Of snemmt er þó að segja til um langvarandi áhrif hennar á hrollvekjuna sem listform, en líkt og gerðist í kjölfar myndarinnar Scream um miðbik 10. áratugarins eru líkur á að nú muni höfundar jafnt sem áhorfendur staldra við og hugsa sinn gang. Eftir að nýjabrumið var farið af Scream rann því miður allt í sama farið og líklegt er að það sama muni gerast hér. The Cabin in the Woods er þrátt fyrir það fyrirtaks skemmtun og kærkomin blóðgjöf í visnandi kropp hrollvekjunnar.

Niðurstaða: Hressandi hrollur sem kemur áhorfandanum sífellt á óvart.

Birt í Fréttablaðinu 24.4.2012

Auglýsingar

Skálkar á skólabekk

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 19.4.2012 by snobbhaensn

21 Jump Street *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Phil Lord, Chris Miller
Leikarar: Jonah Hill, Channing Tatum, Brie Larson, Dave Franco, Ellie Kemper, Rob Riggle, Ice Cube

Hér er á ferðinni kvikmynd byggð á sjónvarpsþáttunum 21 Jump Street sem nutu mikilla vinsælda á 9. áratug síðustu aldar. Þar var ungur Johnny Depp í hlutverki leynilöggu sem ásamt félögum sínum faldi sig innan um unglinga og leysti glæpi í skólum og skúmaskotum þar sem óþekk ungmenni héldu sig. Sprellið ræður ríkjum í nýju uppfærslunni og eru það gosarnir Jonah Hill og Channing Tatum sem sjá um fjörið.

Lögreglumennirnir Greg og Morton fá það verkefni að afhjúpa eiturlyfjahring sem teygir anga sína í fyrrum menntaskóla þeirra félaga, þar sem Greg var vinsæll á sínum tíma en Morton alls ekki. Þeir dulbúa sig sem nemendur við skólann og sökum klaufaskapar neyðist lúðinn að leika hlutverk þess vinsæla og öfugt. Málið reynist hættulegra en það virtist í fyrstu og löggurnar tvær þurfa að lokum að grípa til vopna.

Myndir um spaugileg vistaskipti hafa kitlað hláturtaugar kvikmynda-húsagesta lengur en elstu menn muna. 21 Jump Street gerir þetta ágætlega og áreynslulítið. Aðalleikararnir tveir eru kómískir, án þess þó að hálfdrepa áhorfendur úr hlátri, og samleikur þeirra er skemmtilegur. Báðir líta þeir þó út fyrir að vera um þrítugt (sem þeir eru) og grefur það undan trúverðugleika myndarinnar. Þá kemur Dave Franco, tvífari og litli bróðir leikarans James Franco, skemmtilega á óvart með sterkum og dramatískum leik sem smákrimminn Eric.

Þessi ágæti grínhasar krefst engrar þekkingar á sjónvarpsþáttunum gömlu, og þrátt fyrir skort á stjórnlausum hlátrasköllum má vel hafa gaman af 21 Jump Street.

Niðurstaða: Mátulegur skammtur af formúluskopi. Allt gott og blessað.

Birt í Fréttablaðinu 19.4.2012

Rokk og ról

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 18.4.2012 by snobbhaensn

Battleship **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Peter Berg
Leikarar: Taylor Kitsch, Alexander Skarsgård, Brooklyn Decker, Rihanna, Liam Neeson, Tadanobu Asano, Gregory D. Gadson

Allt milli himins og jarðar getur orðið kveikjan að kvikmynd. Fyrir stuttu þótti framúrstefnulegt að byggja kvikmyndir á tölvuleikjum og leikföngum, en í dag þykir það sjálfsagðasti hlutur í heimi. Í framtíðinni munum við örugglega fá að sjá myndir byggðar á handáburði, mataruppskriftum eða ferskeytlum (t.d. „Afi minn fór á honum Rauð“), en þar til af því verður höfum við fyrirbæri á borð við Battleship. Kvikmynd byggða á gömlum herkænskuleik sem hægt er að spila með blýanti og rúðustrikuðu blaði, sem síðar var gerður að borðspili þar sem geimverum úr plasti var bætt inn í jöfnuna.

Myndin segir frá hinum unga Alex Hopper, hæfileikamanni sem kýs þó fremur að vera fyllibytta og rugludallur. Eftir afdrifaríka ferð á barinn setur eldri bróðir hans honum stólinn fyrir dyrnar og sannfærir hann um að ganga til liðs við bandaríska flotann. Aginn reynist honum ofviða og hann er við það að fá reisupassann þegar jörðin verður fyrir árás úr geimnum. Röð tilviljana setja Hopper í fremstu víglínu gegn illskeyttum geimverunum, og framtíð jarðarinnar hvílir á herðum hins ódæla hermanns. Ef það er ekki tilefni til þess að taka sig saman í andlitinu þá veit ég ekki hvað er það.

Taylor Kitsch fer vel með aðalhlutverkið og gefur okkur langt nef sem afskrifuðum hann eftir John Carter. Söngkonan Rihanna stendur sig með ágætum en fær þó lítinn tíma til þess. Liam „gamli“ Neeson er traustur í hlutverki aðmírálsins, en það er fótalausi hermaðurinn Gregory D. Gadson sem stelur senunni. Hér leikur hann í sinni fyrstu kvikmynd og er bæði eftirminnilegur og fyndinn.

Battleship er heimskuleg, hávær og hálftíma lengri en hún þyrfti að vera. En henni fyrirgefst það allt saman vegna þess að hún er þrælskemmtileg og tekur sjálfa sig ekki of alvarlega. Hún veit hvað hún vill vera og heldur stuðinu gangandi frá fyrstu mínútu með húmor og dynjandi rokkmúsík. Brellurnar eru fínar og þriðja víddin fær verðskuldað frí. Það sem skiptir þó mestu máli er að allir virðast skemmta sér vel, bæði leikarar, handritshöfundar og leikstjóri, og ég stend í þeirri trú að það skili sér oftast út í sal og heim í stofu. Það gerir það allavega hér.

Niðurstaða: Fyndin og fjörug brelluveisla. Og hávaðinn er ægilegur.

Birt í Fréttablaðinu 18.4.2012

Horft til baka

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 13.4.2012 by snobbhaensn

American Reunion ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Jon Hurwitz, Hayden Schlossberg
Leikarar: Jason Biggs, Alyson Hannigan, Thomas Ian Nicholas, Chris Klein, Seann William Scott, Eddie Kaye Thomas, Tara Reid, Mena Suvari, Eugene Levy

Líkt og alheimurinn sjálfur stækkar American Pie-bálkurinn í sífellu. American Reunion er áttunda myndin í seríunni, en sú fyrsta sem kemur í kvikmyndahús síðan þriðja myndin, American Wedding (þetta hljómar ef til vill flóknara en það er). Myndin er því markaðssett sem eins konar endurkoma.

Aðalpersónur gömlu myndanna eru nú á fertugsaldri og ráðsettar eftir því, en þegar hópurinn hittist að nýju í tilefni 13 ára útskriftarafmælis (sem verður að teljast óvenjulegt) er stutt í gömlu asnastrikin, og vessa- og vandræðahúmorinn fær að flæða sem aldrei fyrr.

Nokkur atriði kitla hláturtaugarnar en önnur eru fyrirsjáanleg og þreytandi. „Hey elskan, farðu úr fötunum og klæddu þig í BDSM-gallann í þessu ólæsta herbergi í húsi fullu af fólki. Ég kem eftir smástund“. Rétt upp hönd sem veit hvað gerist næst.

Það eru ógeðfelld uppátæki Stiflers sem bjarga því sem bjargað verður, og þessi subbulegi karakter er nú orðinn sá sem áhorfandinn heldur með, enda hinir flestir orðnir hundleiðinlegir og miðaldra fyrir tímann.

Fortíðardaðrið er töluvert og aðdáendur myndanna geta eflaust skemmt sér sæmilega yfir American Reunion, en upplifunin á meira skylt við nostalgíuna sem fylgir því að lesa gamla dagbók sem fannst uppi á háalofti en að horfa á góða gamanmynd.

Niðurstaða: Andrúmsloftið er til staðar en grínið þarf að vera meira og betra.

Birt í Fréttablaðinu 13.4.2012

Perlan skín enn

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 11.4.2012 by snobbhaensn

Titanic **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: James Cameron
Leikarar: Leonardo DiCaprio, Kate Winslet, Billy Zane, Gloria Stuart, Bill Paxton, Frances Fisher, Kathy Bates, Danny Nucci, David Warner

Árið 1997 var stórmyndin Titanic frumsýnd, en hún varð fljótt tekju-hæsta kvikmynd allra tíma og sópaði að sér öllum helstu verðlaunum sem hægt er að fá. Í myndinni tvinnaði leikstjórinn James Cameron saman raunveruleika og skáldskap, og segir hún frá forboðinni ást tveggja ungmenna um borð í farþegaskipinu RMS Titanic, en um þessar mundir eru liðin 100 ár síðan þetta sögufræga skip fórst í jómfrúarsiglingu sinni eftir árekstur við ísjaka. Af því tilefni er myndinni nú varpað aftur á tjaldið hvíta, og í þetta sinn í þrívídd.

Með tíð og tíma hefur það færst í aukana að fólk geri grín að myndinni og tali hana niður. Hún sætir ásökunum um langdregni og væmni, og sykurhúðað stafastef Céline Dion er ofspilað barn síns tíma. Þá hefur margoft verið vísað í ýmis atriði myndarinnar í þágu sprells, og af þeim sökum er til dæmis ómögulegt að horfa á þau Ljónharð og Kötu leika flugvél í stafni skipsins án þess að flissa í hljóði.

En takist manni að leiða hjá sér lummulegustu atriðin stendur traust-byggð mynd eftir (án þess að ég fari út í fyrirsjáanlegt líkingamál um hrákasmíðina RMS Titanic). Sjálfur skipsskaðinn er gífurlegt sjónarspil og þó tæknibrellurnar séu 15 ára gamlar þá eldast þær ágætlega. Þrívíddin er smekklega unnin og minimalísk en spilar stærra hlutverk í seinni hlutanum. Winslet er glæsileg og hleypir lífi í það sem hefði auðveldlega getað orðið þreytt steríótýpa, og mikið ofboðslega er DiCaprio myndarlegur. Hann var líka fínn leikari, þó hann sé enn betri í dag.

Það er gaman að fá þessa perlu aftur í bíó. Hún fjallar um atburði sem áttu sér stað í upphafi síðustu aldar, en er um leið góð heimild um áherslur í kvikmyndagerð undir lok hennar. Einlægnin var meiri, kaldhæðnin minni og Leonardo DiCaprio var miklu sætari. Og að sjá hann svona í þrívídd er það næsta sem þú kemst því að knúsa hann í alvörunni. Er hægt að selja þetta betur?

Niðurstaða: Titanic stenst tímans tönn. Taktu með þér tissjú og ekki skammast þín fyrir neitt.

Birt í Fréttablaðinu 11.4.2012

Farsaskrýmslið snýr aftur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 4.4.2012 by snobbhaensn

Carnage ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Roman Polanski
Leikarar: Jodie Foster, John C. Reilly, Kate Winslet, Christoph Waltz

Tveir 11 ára piltar lumbra hvor á öðrum og tennur hljóta skaða af. Foreldrar drengjanna hittast í heimboði til að ræða málin en andrúmsloftið er þvingað og siðprýði fullorðna fólksins ristir ekki sérlega djúpt. Fyrr en varir er allt komið í háaloft og ásakanirnar fljúga þvert yfir betri stofuna ásamt túlípönum og ælu.

Carnage er byggð á leikriti eftir franska skáldið Yasmina Reza og það er hinn réttilega umdeildi Roman Polanski sem segir kött. Lengra nær listrænn metnaður leikstjórans ekki að þessu sinni, og fyrir vikið skortir myndina sárlega þessa óskilgreindu en ómissandi bíótöfra sem kvikmynduð leikrit verða að innihalda til að vera ómaksins virði.

Þetta er þó ekki alslæmt enda sannkallað stórskotalið leikara í helstu hlutverkum. Foster og Reilly eru gestgjafarnir og foreldrar tannbrotaþolans, en ósamstíga hjónin Winslet og Waltz eru á hraðferð og virðast stefna hraðbyri í uppeldislega uppgjöf. Framan af fá allir leikarar að láta ljós sitt skína og mest gustar af þeim Foster og Waltz, en um miðbik mætir kunnugleg leikhúsófreskja, sjálft farsaskrýmslið, og fær óáreitt að traðka á öllu saman.

Af þessum orðum mínum má skilja að ég hafi ímugust á farsanum sem slíkum, en svo er ekki. En hann er vandmeðfarinn og í Carnage er hann fyrirsjáanlegur og þreytandi. Sem er sorglegt því hér skortir ekki hæfileikafólkið, hvorum megin myndavélar sem leitað er.

Niðurstaða: Lofar góðu en missir dampinn fljótt.