Sarpur fyrir maí, 2012

Barsmíðar og bollukinnar

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 24.5.2012 by snobbhaensn

Safe *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Boaz Yakin
Leikarar: Jason Statham, Catherine Chan, Chris Sarandon, Robert John Burke, James Hong, Reggie Lee, Danny Hoch, Danni Lang

Ferill hasarmyndaleikarans Jason Statham hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina. Hann hefur leikið í risastórum sumarsmellum, lágstemmdari gáfumannaþrillerum, og svo inn á milli sést hann í myndum sem enginn með réttu ráði myndi leika í. Kvikmyndin Safe var af stiklunni að dæma líkleg til að falla í síðasta flokkinn, en oft er bókin betri en spjöldin.

Hér er Statham í hlutverki fyrrverandi löggu með þriggja daga skegg sem þarf að taka á honum stóra sínum því lífi lítillar kínverskrar stúlku er ógnað. Nauðug er hún flutt til Ameríku og látin gera allskyns hundakúnstir fyrir kínverskt glæpagengi, en hún er undrabarn í stærðfræði og kínverskir krimmar nota ekki vasareikni. Rússneska mafían vill koma höndum yfir telpuna í sama tilgangi en gera þau afdrifaríku mistök að myrða eiginkonu Stathams. Hann fær því tækifæri til að slá nokkrar flugur í einu höggi: Bjarga stúlkunni, hefna fyrir eiginkonuna og ná sér niðri á spilltum fyrrverandi félögum í lögreglunni.

Handritið kæmist vel fyrir handskrifað á glasamottu og atburðum fortíðar er linnulaust ljóstrað upp fyrir áhorfendum í klaufalegum samtölum persónanna. Þá er söguframvindan oftast nokkuð fyrirsjáanleg auk þess sem raunveruleikanum eru gerð afar bjöguð skil. Það er þó einhver gífurlegur kraftur í leikstjórninni sem hífir myndina upp á miklu hærra plan. Tæknivinnan er vel úthugsuð og handalögmálin gríðarlega sannfærandi. Statham stendur sig prýðilega bæði í drápunum og kaldhæðninni og Catherine litla Chan státar af krúttlegustu bollukinnum kvikmyndasögunnar. Illmennin eru verri en skattur og hælsæri samanlagt, en það er líka allt í lagi því við vitum jú öll hvernig fer fyrir þeim.

Niðurstaða: Aðdáendur órakaða ólátabelgsins verða himinlifandi, en realistar ættu að halda sig fjarri.

Birt í Fréttablaðinu 24.5.2012

Auglýsingar

Innan þægindarammans

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 23.5.2012 by snobbhaensn

Dark Shadows *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Tim Burton
Leikarar: Johnny Depp, Michelle Pfeiffer, Helena Bonham Carter, Eva Green, Jackie Earle Haley, Jonny Lee Miller, Chloë Grace Moretz, Bella Heathcote

Leikstjórinn Tim Burton gerði nokkrar frábærar myndir á fyrri hluta ferils síns, en hefur undanfarin ár helgað sig óspennandi fjöldaframleiðslu. Samstarf hans við leikarann Johnny Depp og tónskáldið Danny Elfman er komið vel fram yfir síðasta söludag og satt að segja hafði ég efasemdir um að Burton hefði nokkuð fram að færa árið 2012.

Dark Shadows er byggð á samnefndri bandarískri sápuóperu sem sýnd var á árunum 1966 til 1971 (alls voru gerðir 1225 þættir) og segir frá vampírunni Barnabas Collins sem grafin er lifandi á 18. öld en losnar úr prísundinni árið 1972. Nornin sem breytti honum í blóðsugu er enn á lífi og nýtur þess gera afkomendum hans lífið leitt. Barnabas reynir að koma fjölskyldufyrirtækinu á réttan kjöl, en hann á erfitt með að aðlagast hippatímabilinu og blóðþorsti hans er honum sífelldur fjötur um fót.

Það skemmtilegasta við myndina er Johnny Depp, en Barnabas er bitastæðasta hlutverk sem hann hefur fengið frá Burton síðan hann lék Ed Wood fyrir tæpum 20 árum. Línurnar hans eru bráðfyndnar, flutningurinn fumlaus og mjög fljótlega fer áhorfandanum að þykja vænt um þennan hjartahlýja en aumkunarverða morðingja. Handritið er hins vegar ekki nógu vatnshelt og er helsti vandinn sá að of margar persónur eru kynntar til sögunnar en fá svo nánast ekkert að gera. Líklega eiga þessir karakterar að fá meira pláss í mögulegum framhaldsmyndum en í þessari stöku mynd þjóna þeir engum tilgangi, og virka jafnvel truflandi.

Þá kemur ekkert á óvart í búningum, sviðsmyndum og listrænni stjórnun. Allt er svo fullkomlega slétt og fellt að það nær ekki nokkurri átt. Burton toppaði sig í þessari deild fyrir löngu en heldur sig innan þægindarammans og virðist lafhræddur við listræna ögrun. Fyrir vikið eru margir aðdáenda hans búnir að snúa við honum baki, sem er synd því Dark Shadows á marga þrælfína spretti.

Niðurstaða: Nokkuð góð skemmtun sem skrifast að stórum hluta á Johnny Depp.

Birt í Fréttablaðinu 23.5.2012

Starað í poppið

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 19.5.2012 by snobbhaensn

The Dictator * (1 stjarna)
Leikstjórn: Larry Charles
Leikarar: Sacha Baron Cohen, Ben Kingsley, Jason Mantzoukas, Anna Faris, J. B. Smoove, Megan Fox, John C. Reilly, B. J. Novak

Eitt það versta sem hægt er að vera sakaður um er húmorsleysi. Að fatta ekki brandara er svo niðurlægjandi að við gerum okkur frekar upp hlátur en að biðja um útskýringu. Undirritaður vill koma því á framfæri við lesendur að hann glímir ekki við húmorsleysi, og þykir meira að segja nokkuð liðtækur sprellari þegar sá gállinn er á honum. Annar liðtækur sprellari, sem öfugt við undirritaðan hefur náð heimsfrægð fyrir uppátæki sín, er Sacha Baron Cohen. Þessi breski grínisti hefur lengi stundað loftfimleika á siðferðislínunni og reynir nú að toppa fyrri fígúrur sínar sem einræðisherrann Aladeen í kvikmyndinni The Dictator.

Einræðisherrar eru oftast jafn hlægilegir og þeir eru hættulegir, og framsækinn og hugrakkur listamaður á borð við Baron Cohen ætti ekki að eiga í neinum vandræðum með að búa til sprenghlægilega en jafnframt hárbeitta ádeilu úr hráefninu. Allt kemur þó fyrir ekki og eftir stendur vandræðalegur rembingur sem virðist þjóna þeim eina tilgangi að ögra pólitískri réttsýni og brjóta sem flest tabú. Drepfyndin bíómynd með áhorfendaskarann á sínu bandi kemst upp með hvaða ósóma sem er. Ófyndin mynd sem reynir að komast upp með nauðgunarbrandara (ítrekað) fær mann til að svitna á bakinu og stara ofan í poppið.

Hvað fór úrskeiðis hjá þessum hæfileikaríka grínara? Borat var ósmekkleg frá upphafi til enda en var þrátt fyrir það hryllilega fyndin. Brüno olli vissulega vonbrigðum en í The Dictator gengur ekkert upp. Spaugið er límt saman með lélegu handriti, Baron Cohen virðist hafa misst allt skynbragð á framsetningu grínsins, enginn aukaleikaranna nær að láta ljós sitt skína og allra verst er ósannfærandi og flöt mótleikkonan, Anna Faris.

Í lok myndarinnar örlar þó á smá broddi í samfélagsrýninni, en eftir allt sem á undan hefur gengið er áhorfandinn lítt móttækilegur fyrir pólitískum predikunum. En enginn vill láta hanka sig á húmorsleysinu, og jafnvel verra er að vera sakaður óhóflega pólitíska réttsýni. Ég reyndi hvað ég gat að kreista fram meðvirknishlátur yfir mislukkuðum bröndurum um kvenfyrirlitningu, barnamisnotkun og sjálfsmorðssprengingar, en allir sáu í gegnum mig. Mér fannst The Dictator ekkert fyndin.

Niðurstaða: Sacha reynir að taka allt og alla í gegn. Ferill hans sem grínista er næstur á dagskrá.

Birt í Fréttablaðinu 19.5.2012

Er einhver með skæri?

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 18.5.2012 by snobbhaensn

The Five-Year Engagement *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Nicholas Stoller
Leikarar: Jason Segel, Emily Blunt, Chris Pratt, Alison Brie, Rhys Ifans, Jacki Weaver, Kevin Hart, Mindy Kaling, Randall Park, Brian Posehn, Chris Parnell, Dakota Johnson

Hinn nýtrúlofaði Tom afþakkar stöðu yfirkokks á nýju veitingahúsi í borginni þegar unnustu hans, Violet, býðst rannsóknarstaða við Háskólann í Michigan. Þau flytja frá San Fransisco, brúðkaupsáætlanir dragast á langinn og með tímanum fer að bera á óánægju hjá karldýrinu með hið nýja líf hjónaleysanna.

Þessi dramatíska og lágstemmda gamanmynd kemur úr herbúðum framleiðandans Judd Apatow og ber þess ýmis merki. Hún inniheldur stóran hóp skrautlegra aukapersóna, fullt af fyndnum samtalssenum, nóg af rómantík, og eilítill „slapstick“-húmor fær að læðast með. Mörg atriðanna eru brosleg en svo eru nokkur beinlínis sprenghlægileg.

Myndir af þessu tagi standa oft og falla með samleik aðalleikaranna, og þau Jason Segel og Emily Blunt eru gífurlega trúverðugt bíópar, bæði þegar þau eru heltekin af ást en einnig þegar gamanið kárnar. Aðrir leikarar standa sig einnig prýðilega, en mest hló ég að hinum ullarpeysuprjónandi Bill (Chris Parnell) og hinni kjaftforu og kynóðu Audrey (Dakota Johnson).

Það verður þó ekki hjá því komist að minnast á lengd myndarinnar, en á köflum er The Five-Year Engagement við það að sligast undan þeim rúmu tveimur klukkustundum sem hún er. Hinn rólegi og þægilegi taktur sem er svo kærkominn í fyrri hluta myndarinnar gerir mann órólegan í þeim seinni. Þannig er þetta oftast hjá Apatow Productions og þess vegna ná góðu myndirnar þeirra sjaldan að verða frábærar.

Niðurstaða: Vel heppnuð rómantísk gamanmynd, en tuttugu mínútum styttri væri hún frábær.

Birt í Fréttablaðinu 17.5.2012

Heilaskemmandi hasar

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 14.5.2012 by snobbhaensn

Lockout *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: James Mather, Stephen St. Leger
Leikarar: Guy Pearce, Maggie Grace, Vincent Regan, Joseph Gilgun, Lennie James, Peter Stormare

Geimfangelsið M.S. One svífur í rólegheitum rétt fyrir ofan lofthjúp jarðar og hýsir um 500 stórhættulega fanga sem afplána dóm sinn í djúpsvefni. Að sjálfsögðu vakna þeir allir mun fyrr en áætlað var og mannskapurinn er morgunfúll í meira lagi. Eftir blóðuga uppreisn fanganna með tilheyrandi gíslatöku er leyniþjónustumaðurinn Snow (leikinn af Guy Pearce) sendur á staðinn. Verkefni hans er að bjarga dóttur forsetans, en hún er meðal gíslanna.

Pearce rembist við töffaraskapinn frá fyrstu mínútu og minnir á Kurt gamla Russell í Flóttanum frá New York. Þessi blanda af 80’s-harðhaus og brandarakarli virkar ágætlega hér, þó stundum dansi hann á línu þess að reyna of mikið. Maggie Grace er ósannfærandi hasarhetja en ágæt sem brandaraboxpúði leyniþjónustumannsins. Aðalskúrkinn skortir lit, en smákrimminn bróðir hans er eftirminnilegur. Tæknibrellurnar eru undir meðallagi góðar og hliðarsagan um týndu skjalatöskuna er klaufaleg.

Þrátt fyrir allt er Lockout prýðisgóð skemmtun. Það er ómögulegt að taka hana alvarlega, til þess er hún of yfirgengilega heimskuleg, en þar sem hún gerir það ekki sjálf nema að afar takmörkuðu leyti kemst hún upp með ýmislegt. Þó er viðbúið að aðdáendur vísindaskáldsagna finnist þeir sviknir um vísindin, en heilaskemmdir hasarhundar á borð við undirritaðan fá aftur á móti heilmikið fyrir sinn snúð.

Niðurstaða: Fyndinn og fjörugur formúluhasar að hætti 9. áratugarins.

Birt í Fréttablaðinu 12.5.2012

Út um þúfur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 12.5.2012 by snobbhaensn

How I Spent My Summer Vacation ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Adrian Grunberg
Leikarar: Mel Gibson, Kevin Hernandez, Daniel Gimenez Cacho, Dolores Heredia, Peter Gerety, Peter Stormare

Það er búið að vera átakanlegt að fylgjast með fréttum af fyrrum stórstjörnunni Mel Gibson undanfarin ár, en þessi margverðlaunaði leikari og leikstjóri hefur ítrekað afhjúpað sinn innri mann, og það virðist ekki vera neitt sérlega vandaður maður. Í kjölfarið er kvikmyndaferill hans nokkuð laskaður og nýjasta mynd leikarans, How I Spent My Summer Vacation, fór beint á VOD-ið í Bandaríkjunum (undir nafninu Get the Gringo) án viðkomu í kvikmyndahúsum. Hvort það var gert af framsækni eða illri nauðsyn þori ég ekki að fullyrða, en þegar Gibson á í hlut er allt mögulegt.

Söguþráðurinn er kunnuglegur og þarna höfum við viðkunnalegan og slyngan ræningja í mexíkósku fangelsi, fégráðugar löggur, miskunnarlausan glæpaforingja og milljónir í íþróttatösku einhvers staðar. Inn í atburðarásina blandast svo tíu ára gamall piltur og einstæð móðir hans, en hvorki þarf kjarneðlisfræðing né stjarneðlisfræðing til að giska á sögulokin.

Fyrri hluti myndarinnar er áhugaverður og margoft glittir í gamla Gibson, þann sem heillaði okkur í Lethal Weapon og Mad Max, og verður það ekki tekið af leikaranum að hann býr yfir heilmiklum sjarma og þægilegri nærveru. En um miðbik myndar fer sögumennskan út um þúfur og úr verður stefnulaust sull sem vill bæði vera hörkuspennandi og þrælfyndið, en er hvorugt. Þá er stafræn áferð myndarinnar virkilega ljót og fráhrindandi. Ég skil ómögulega hvers vegna stafræn kvikmyndataka virkar fullkomlega í sumum myndum og svo stundum alls ekki. Hér minnir útkoman á fjölskyldumyndband frá Kanarí.

Niðurstaða: Aðdáendur leikarans eiga betra skilið. Það er orðið svo skrambi erfitt að halda upp á hann.

Birt í Fréttablaðinu 11.5.2012

Barist í blokk

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 11.5.2012 by snobbhaensn

The Raid: Redemption *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Gareth Evans
Leikarar: Iko Uwais Joe Taslim, Donny Alamsyah, Yayan Ruhian, Pierre Gruno, Tegar Setrya, Ray Sahetapy

Það er ekki á hverjum degi sem indónesískar hasarmyndir rata í íslensk kvikmyndahús. En ekki vantar áhugann og troðfullt var af fólki á ósköp venjulegri tíusýningu á The Raid: Redemption um síðustu helgi, og var meira að segja gömlum eldhússtól laumað inn í sal til þess að einn til viðbótar gæti notið ærslagangsins.

Hópur sérsveitarmanna í Djakarta fær það hættulega verkefni að handsama eiturlyfjabarón sem hefur hreiðrað um sig í niðurníddri blokk í borginni. Illmenninu til halds og trausts er stór hópur blóðþyrstra bardagamanna sem flestir virðast njóta þess að stráfella löggurnar með sveðjum, byssum og berum höndum. Áhorfendur halda með Rama, ungri löggu með ólétta eiginkonu heima fyrir, en hann er afar lunkinn í indónesísku bardagalistinni Silat.

Því miður fyrir hann eru bófarnir það líka og mesta púður myndarinnar fer í tilkomumiklar slagsmálasenur. Það er þó af hinu góða enda myndin hvorki sérstaklega vel skrifuð né leikin. Óvæntu flétturnar eru fyrirsjáanlegar og sum bardagaatriðin nokkrum mínútum of löng.

Kvikmyndin er þrátt fyrir þetta nokkuð skemmtileg, og felst skemmtanagildið aðallega í yfirgengilegu ofbeldinu, en sum okkar eru jú svo fársjúk á sálinni að blóðslettur og limlestingar á hvíta tjaldinu geta vakið hjá okkur kátínu. Allavega þegar morðin eru framin af jafn mikilli íþróttamennsku og hér. Að sama skapi spyr maður sig: „Af hverju eru öll þessi fimu hraustmenni í blettóttum joggingbuxum að selja eiturlyf og drepa fólk í stað þess að keppa á stórmótum?“

Niðurstaða: Ég vorkenni þeim sem þarf að þrífa sameignina.

Birt í Fréttablaðinu 9.5.2012