Sarpur fyrir júní, 2012

Ný og glæsileg hlið á Jack Black

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 30.6.2012 by snobbhaensn

Bernie **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Richard Linklater
Leikarar: Jack Black, Shirley MacLaine, Matthew McConaughey

Aðstoðarútfararstjórinn Bernie Tiede vingast við geðstirðu ekkjuna Marjorie Nugent eftir útför eiginmanns hennar. Bernie er vinsæll í heimabænum en hin forríka og aldraða ekkja er fyrirlitin af flestum, enda fræg fyrir kaldlyndi og skepnuskap. Áður en langt um líður er Bernie orðinn eins konar þræll hjá gömlu konunni og vanlíðanin eykst í sífellu þar til dag einn hann bugast og blýfyllir hana með beltisdýrabyssu. Kvikmyndin er byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað í austurhluta Texas-fylkis árið 1996.

Richard Linklater er heimspekilegur og leitandi leikstjóri, og sumar mynda hans höfða alls ekki til allra. Bernie er listræn og hægfara, en um leið bæði aðgengileg og þrælskemmtileg. Linklater nær því besta úr leikurunum og þá sérstaklega Jack Black, heimsþekkta spéfuglinum og sprelligosanum sem sýnir hér glænýja og glæsilega hlið sem dramatískur leikari. Oft er þó létt yfir honum enda persónan bæði litrík og óvenjuleg. Sagan er svo krydduð með grátbroslegum viðtölum við raunverulega íbúa smábæjarins sem þekktu þau Bernie og Marjorie, en engan hafði nokkru sinni grunað hvað síðar myndi gerast.

Og það er afneitunin sem gerir þessa sorglegu sögu svo merkilega, en meirihluti bæjarbúa krafðist þess að saksóknari sleppti Bernie við ákæru. Rökin voru þau að hann væri svo yndislegur maður og gæti þess vegna ekki hafa framið þennan hryllilega verknað. Í hljóði flissaði ég yfir barnalegum og sveitó Ameríkananum en mundi fljótlega eftir ítrekuðum dæmum um umræðu á svipuðu plani hér heima og var skyndilega ekki lengur hlátur í hug. Sveitó barnaskapur virðir líklega engin landamæri.

Niðurstaða: Bernie er afbragð og Jack Black hefur aldrei verið betri.

Birt í Fréttablaðinu 30.6.2012

Auglýsingar

Vanhugsað og dauðhreinsað

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.6.2012 by snobbhaensn

Rock of Ages ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Adam Shankman
Leikarar: Diego Boneta, Julianne Hough, Russell Brand, Paul Giamatti, Catherine Zeta-Jones, Mary J. Blige, Malin Åkerman, Alec Baldwin, Tom Cruise

Kvikmyndin Rock of Ages er byggð á samnefndum Broadway-söngleik og segir frá lífi nokkurra starfsmanna „Bourbon Room“-næturklúbbsins í Hollywood árið 1987. Í stað frumsaminna laga styðst verkið við klassíska hármetalslagara frá hljómsveitum á borð við Whitesnake, Twisted Sister og Extreme. Hugmyndin er ekki svo galin enda tónlist og tíðarandi þessa tímabils bæði kraftmikil og litrík, en framkvæmdina hefði mátt hugsa betur.

Þar sem sagan er í besta falli ófrumleg skiptir það afskaplega miklu máli að söngatriðin séu vel úr garði gerð. Það er jú það sem myndin snýst að mestu leyti um, grípandi rokkmúsík sem eldri kynslóðin þekkir vel og þeir yngri gætu auðveldlega hrifist af. En því miður er frumkraftur rokksins hlunnfarinn algjörlega og í staðinn fáum við dauðhreinsað popp hjúpað þykku lagi af auto-tune. Illa farið með annars þrælgóð lög.

Af þessum sökum er erfiðara að líta fram hjá öllu hinu sem er misheppnað við Rock of Ages. Eins og klaufalegu dramatíkina við Hollywood-skiltið, pínlega kynlífsatriðið á billjardborðinu, þá staðreynd að aðalsöngkonan kann bara að syngja R&B, og að enginn syngi í hljóðnema þó hann sé staðsettur beint fyrir framan hann. Og af hverju er það fyndið að tvær karlpersónur ákveði að játa hvor öðrum ást sína? Er það vegna þess að þær syngja hallærislegt lag í kjölfarið eða vegna þess að fólki finnst tilhugsunin um tvo karlmenn að knúsast ennþá jafn hlægileg og fyrir 50 árum?

Mig langar samt að hrósa leikmyndadeildinni fyrir sitt framlag því útlit myndarinnar er upp á tíu. Einnig eru þeir Tom Cruise og Paul Giamatti nokkuð skemmtilegir í sínum hlutverkum, en þá er það því miður upptalið sem Rock of Ages hefur fram að færa. Ef þið komist yfir upprunalegar útgáfur allra laganna úr myndinni getið þið samt búið til heljarinnar blandspólu fyrir bílinn.

Niðurstaða:I Love Rock ‘n’ Roll“ syngja þau um leið og þau svívirða rokkið. Synd og skömm.

Birt í Fréttablaðinu 26.6.2012

Buslað í barnalauginni

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 25.6.2012 by snobbhaensn

What to Expect When You’re Expecting *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Kirk Jones
Leikarar: Cameron Diaz, Jennifer Lopez, Elizabeth Banks, Ben Falcone, Chace Crawford, Brooklyn Decker, Anna Kendrick, Dennis Quaid, Chris Rock, Rebel Wilson

Gamanmyndin What to Expect When You’re Expecting er byggð á gamalli amerískri óléttuhandbók og snertir á helstu flötum þess að ganga með barn og koma því í heiminn. Persónurnar eru svo margar að mér myndi ekki endast opnan í að útlista nánar hverjar þeirra ganga í gegnum hvað. Rauði þráðurinn virðist vera sá að allir vilji eignast börn en aðferðirnar og aðdragandinn séu mismunandi eftir hverjum og einum. Þegar foreldrið heldur svo á glænýju og glansandi afkvæminu í fyrsta sinn finnst því þetta allt saman hafa verið þess virði.

Hér er fullt af hæfileikum til staðar og myndin verður aldrei leiðinleg. Hún inniheldur hins vegar svo margar persónur að óhjákvæmilega heldur hún sig í grunnu lauginni að mestu. Þetta sést best á sögunni um parið sem missir fóstur. Okkur er ekki gefinn tími í upphafi til að kynnast þeim og samgleðjast. Fósturlátið hefur því litla dramatíska vigt og áður en áhorfandinn fer að brjóta heilann of mikið er klippt yfir á Chris Rock að segja eitthvað fyndið.

En fyrst við erum að tala um húmor þá er hann í hæfilegu magni hér. Fyrrnefndur Rock er ágætur, hin íturvaxna Rebel Wilson er skemmtileg (eins og íturvöxnum gamanmyndakonum ber að vera) en það er hinn lítt þekkti Ben Falcone sem á bestu atriðin hér, bæði í gríndeildinni og dramatíkinni. Körfuboltapabbar fá líka óvæntan glaðning í upphafi myndar þegar ónefnd NBA-hetja tekur nokkur dansspor.

Sögurnar tvinnast saman í lokin og allir fá að fara heim með litla kraftaverkið sitt. Og auðvitað er ekki hjá því komist að bauna því á barnleysingjana að þeir kynnist ekki sönnum kærleika fyrr en þeir drullast til að afrita erfðamengi sitt. Það má svo sem vera að það sé rétt. Ég hef enn ekki hugmynd um margt af því sem þungun hefur í för með sér, þrátt fyrir að hafa horft á What to Expect When You’re Expecting. Kannski þarf maður að lesa bókina líka.

Niðurstaða: Ágætis óléttugrín sem skilur þó alla eftir ósnortna.

Birt í Fréttablaðinu 25.6.2012

Bætir, hressir og kætir

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 21.6.2012 by snobbhaensn

Intouchables **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Olivier Nakache, Éric Toledano
Leikarar: François Cluzet, Omar Sy, Audrey Fleurot, Clotilde Mollet, Anne Le Ny

Franska gamanmyndin Intouchables segir frá smákrimmanum Driss sem gerist aðstoðarmaður lamaða auðmannsins Phillippe. Sá ríki er einmana en nokkuð brattur, harðneitar að láta vorkenna sér, er mikill menningarviti og fer bæði í óperuna og á málverkasýningar. Driss er hins vegar dóni og letihaugur, en með gott hjarta. Þrátt fyrir ólíka skapgerð og þjóðfélagsstöðu verða þeir hinir mestu mátar og eins og í öllum alvöru andstæðumyndum ná þeir á endanum að læra eilítið hvor af öðrum.

Þessi formúla er litlu yngri en sjálf kvikmyndalistin og virðist enn kæta áhorfendur um allan heim. „Broddborgarinn sem reykir sig skakkan í fyrsta sinn“ og „Lágstéttarmaðurinn sem kennir uppskafningunum að skemmta sér“ eru meðal kunnuglegra atriða í myndinni, en það eru aðalstjörnurnar tvær, þeir François Cluzet og Omar Sy, sem hífa verkið upp um marga gæðaflokka með stórkostlegum samleik sínum. Persóna Cluzet er lömuð frá hálsi og fær leikarinn því aðeins að nota andlitið. Þetta er eflaust erfitt en hann gerir þetta virkilega vel, þó stundum skyggi Sy á hann með óborganlegum töktum sínum.

Dramatíkin er til staðar þó hún risti ekki djúpt, en grínið leikur lausum hala frá upphafi til enda og höfðar þar að auki til allra aldurshópa. Og þó boðskapurinn sé klisjukendur er sannleiksgildi hans ótvírætt. Góðir vinir létta okkur ekki bara lundina, heldur gera okkur að betri manneskjum. Ef þú getur ekki tekið undir það er ef til vill tímabært að endurskoða vinahópinn. Eða draga skarann á Intouchables.

Niðurstaða: Sígild saga í fallegum búningi.

Birt í Fréttablaðinu 21.6.2012

Fimm stjörnur!

Posted in Blogg on 20.6.2012 by snobbhaensn

Í fyrra fengu aðeins þrjár myndir fullt hús stiga hjá mér í Fréttablaðinu og það sem af er þessa árs hafa þær einungis verið tvær. Árið er engu að síður næstum hálfnað og ég hef undanfarið velt því fyrir mér hvort ég sé á réttri leið eða stórkostlegum villigötum.

Ég fer ekki ofan af því að oft finnst mér íslenskir gagnrýnendur helst til gjafmildir á stjörnurnar. Þessu hef ég tekið eftir bæði í skrifum um kvikmyndir og einnig um tónlist. En þar sem ég hef metnað í að standa mig vel í minni vinnu vil ég að sjálfsögðu vera sanngjarn.

Á þessu tímabili sem ég nefndi sá ég engu að síður fullt af frábærum kvikmyndum sem ég gæti meira að segja hugsað mér að sjá aftur, eða jafnvel eiga. Kvikmyndasafn mitt inniheldur reyndar allt frá fimm stjörnu tímalausum meistaraverkum og niður í grautfúlustu kalkúna sem fyrirfinnast (ég á t.d. kvikmyndina I, Robot á DVD). En aðeins fimm kvikmyndir hef ég talið þess verðugar að fá fullt hús stiga (ég kúgaðist smá þegar ég skrifaði þetta).

Til þess að byrja að afsaka mig þá gefur Fréttablaðið aðeins í heilum stjörnum og vegalengdin á milli fjórðu og fimmtu stjörnunnar er óralöng, jafnvel þó fjögurra stjörnu mynd geti verið frábær. Eða hvað? Er það kannski tilætlunarsemi að ætla fimm stjörnu myndum það að vera „fullkomnar“? Nú veit ég reyndar að það er sennilega ekki til neitt sem heitir fullkomnun, sérstaklega ekki í listsköpun, en maður skyldi ætla að verk sem fær fullt hús stiga ætti hálfpartinn að geta rotað hross með listrænum höggþunga sínum.

Kannski má færa rök fyrir því að kvikmyndir sé ekki hægt að dæma endanlega fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Að hin endanlega prófraun verksins sé hvort það standist tímans tönn. Hvort það nái að setja mark sitt á kvikmyndasöguna. Ég er að vísu ekki alveg sammála þessu. Ég þarf allavega ekki að hafa þetta bak við eyrað í minni rýni, enda kvikmyndarýni dagblaðanna í flestum tilfellum hugsuð sem einnota leiðarvísir um hvað sé gaman að sjá í bíó. Þetta þykir mér miður en svona er þetta bara. Fólk hefur ekki áhuga á heilsíðu um Prometheus með morgunkaffinu.

Helst vildi ég losna við stjörnugjöfina fyrir fullt og allt. Mig grunar að meirihluti gagnrýnenda sé sammála mér þar, enda eru þeir eflaust fleiri sem skoða bara stjörnugjöfina en þeir sem lesa umfjöllunina alla. Reyndar þegar ég skrifa þetta þá fyllist ég vonleysi og efasemdum því allt endar þetta á haugunum og eftir 30 ár verður öllum sama um það hvað einhverjum fýlupúka á Fréttablaðinu fannst um einhverja djöfuls mynd um einhvern djöfuls hest.

Vatnið flæðir í bíó

Posted in Blogg on 19.6.2012 by snobbhaensn

Í síðustu viku þusaði ég um vatnsnísku íslenskra bíóhúsa og hvernig þau senda kúnnana inn á klósett til að svala þorsta sínum. Ég nefndi engin nöfn en hef farið í tvö mismunandi kvikmyndahús síðan þá, og nú ætla ég að neimdroppa sem óður væri.

Smárabíó er vinveitt vatnsdrykkjufólki og lumar á sjálfsafgreiðslu-vatnsbrunni, en starfsfólkið færir þér vatn í glasi með bros á vör ef þú biður um það í sjoppunni. Það er meira að segja kalt.

Háskólabíó er einnig sérlegur vinur vatnsins og splæsir í glas fyrir þyrsta. Í hléi er svo vatnsglösum með loki raðað við enda afgreiðslu-borðsins og á krúttlegu A4-blaði til hliðar stendur „VATN“.

Þetta er til mikils sóma og vonandi er ekki langt í að öll bíóin veiti þessa sjálfsögðu þjónustu.

Tafsandi og stamandi

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.6.2012 by snobbhaensn

Piranha 3DD * (1 stjarna)
Leikstjórn: John Gulager
Leikarar: Danielle Panabaker, Matt Bush, David Koechner, Chris Zylka, Katrina Bowden, Gary Busey, Christopher Lloyd, David Hasselhoff

Manstu eftir bekkjarbróður þínum úr grunnskóla sem endursagði alla brandara úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem hann sá? Brandara sem voru ef til vill fyndnir í sinni upphaflegu mynd en þegar hann þuldi þá upp á slappri unglingaensku leið þér skringilega og þig langaði að fara. Kvikmyndin Piranha 3DD er akkúrat þessi strákur.

Upprunalegi brandarinn var hin þrælskemmtilega Piranha 3D sem kom út fyrir tveimur árum og gekk fram af sjóuðustu splatterhundum með hamslausum (en hlægilegum) blóðsúthellingum og ofbeldi. Hinn franski Alexandre Aja leikstýrði henni með glott á vörum og sögulokin bentu til þess að framhaldsmynd væri á leiðinni. Aja sneri sér hins vegar að öðrum verkefnum og þeir sem halda á spöðunum nú vita ekkert hvað þeir eru að gera. Tafsandi og stamandi reyna þeir að koma gamla brandaranum til skila, en allt kemur fyrir ekki.

Að vísu var gaman að sjá Gary gamla Busey étinn af pírönum, og þreföldun dolly zoom-skotsins úr Jaws er húmor fyrir lengra komna, en fleiri voru ljósu punktarnir ekki. Piranha 3DD er í grunninn eins og fyrirrennarinn, en munurinn er sá að framhaldið er í höndum ófyndinna manna. Útkoman er því ekki upp á marga fiska, ef einhverja. Þá eru brellurnar verri, leikararnir geta ekki neitt og hin óhóflega notkun nektar verður að lokum merkilega niðurdrepandi.

Niðurstaða: Þú segir ekki sama brandarann tvisvar.

Birt í Fréttablaðinu 16.6.2012