Fimm stjörnur!

Í fyrra fengu aðeins þrjár myndir fullt hús stiga hjá mér í Fréttablaðinu og það sem af er þessa árs hafa þær einungis verið tvær. Árið er engu að síður næstum hálfnað og ég hef undanfarið velt því fyrir mér hvort ég sé á réttri leið eða stórkostlegum villigötum.

Ég fer ekki ofan af því að oft finnst mér íslenskir gagnrýnendur helst til gjafmildir á stjörnurnar. Þessu hef ég tekið eftir bæði í skrifum um kvikmyndir og einnig um tónlist. En þar sem ég hef metnað í að standa mig vel í minni vinnu vil ég að sjálfsögðu vera sanngjarn.

Á þessu tímabili sem ég nefndi sá ég engu að síður fullt af frábærum kvikmyndum sem ég gæti meira að segja hugsað mér að sjá aftur, eða jafnvel eiga. Kvikmyndasafn mitt inniheldur reyndar allt frá fimm stjörnu tímalausum meistaraverkum og niður í grautfúlustu kalkúna sem fyrirfinnast (ég á t.d. kvikmyndina I, Robot á DVD). En aðeins fimm kvikmyndir hef ég talið þess verðugar að fá fullt hús stiga (ég kúgaðist smá þegar ég skrifaði þetta).

Til þess að byrja að afsaka mig þá gefur Fréttablaðið aðeins í heilum stjörnum og vegalengdin á milli fjórðu og fimmtu stjörnunnar er óralöng, jafnvel þó fjögurra stjörnu mynd geti verið frábær. Eða hvað? Er það kannski tilætlunarsemi að ætla fimm stjörnu myndum það að vera „fullkomnar“? Nú veit ég reyndar að það er sennilega ekki til neitt sem heitir fullkomnun, sérstaklega ekki í listsköpun, en maður skyldi ætla að verk sem fær fullt hús stiga ætti hálfpartinn að geta rotað hross með listrænum höggþunga sínum.

Kannski má færa rök fyrir því að kvikmyndir sé ekki hægt að dæma endanlega fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Að hin endanlega prófraun verksins sé hvort það standist tímans tönn. Hvort það nái að setja mark sitt á kvikmyndasöguna. Ég er að vísu ekki alveg sammála þessu. Ég þarf allavega ekki að hafa þetta bak við eyrað í minni rýni, enda kvikmyndarýni dagblaðanna í flestum tilfellum hugsuð sem einnota leiðarvísir um hvað sé gaman að sjá í bíó. Þetta þykir mér miður en svona er þetta bara. Fólk hefur ekki áhuga á heilsíðu um Prometheus með morgunkaffinu.

Helst vildi ég losna við stjörnugjöfina fyrir fullt og allt. Mig grunar að meirihluti gagnrýnenda sé sammála mér þar, enda eru þeir eflaust fleiri sem skoða bara stjörnugjöfina en þeir sem lesa umfjöllunina alla. Reyndar þegar ég skrifa þetta þá fyllist ég vonleysi og efasemdum því allt endar þetta á haugunum og eftir 30 ár verður öllum sama um það hvað einhverjum fýlupúka á Fréttablaðinu fannst um einhverja djöfuls mynd um einhvern djöfuls hest.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: